Velferðarráð 21. apríl 2021

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem vísað var til meðferðar velferðarráðs á fundi borgarstjórnar, þann 16. mars 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægi að kanna þetta með því að gera úttekt á fjölda og högum heimilislausra í Reykjavík. Þeir sem eru heimilislausir eru líklegri til að leita í neyð sinni skjóls í húsnæði sem er ekki mannabústaðir, ekki aðeins ósamþykkt húsnæði heldur jafnvel stórhættulegir íverustaðir vegna vöntunar á lágmarks brunaöryggi.

Grípa þarf strax til aðgerða sem miða að því að finna þennan hóp og í kjölfarið að finna því húsnæði sem hægt er að kalla heimili sitt. Óttast er að hópur heimilislausra hafi stækkað með vaxandi fátækt í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Fyrir liggur skilgreining hjá Reykjavíkurborg um hvað telst vera heimilislaus, svo það ætti ekki að flækjast fyrir að gera úttekt sem þessa í borginni. Að ætla að gera þetta á landsvísu í samstarfi við ríkið er stærra og flóknara mál og mun taka margfalt meiri tíma.  Byrja þarf á að samræma skilgreiningar og gæti það verið býsna flókið og langsótt. Borgin er einstök vegna stærðar og erfitt að ætla að setja „heimilisleysi“ t.d. á Raufarhöfn í samhengi við „heimilisleysi“ í borginni. Auðvitað væri best að gera hvorutveggja, gera bæði úttekt í Reykjavík sérstaklega og á landsvísu.

 

Bókun Flokks fólksins við minnisblaði sviðsstjóra, dags. 21. apríl 2021, og fram fer kynning um stöðumat á innleiðingu aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum eldri borgara:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af Reykvíkingum sem eru 90 ára og eldri sem eru án heimaþjónustu nú þegar kórónuveirufaraldurinn hefur geisað í meira en ár. Þessi hópur er lang líklegastur til að vera ekki nettengdur og eina leiðin til að ná til þeirra er í gegnum síma eða með heimsóknum. Til stóð að heimsækja þennan hóp, meta þarfir þeirra og átti að ráða sérstakan starfsmann í verkefnið. Ekki hefur verið fjárheimild til þess. Athuga ber að það eiga ekki allir aðstandendur. Í dvala hjá sviðinu hefur  „Gróðurhúsið“ legið en það „concept“ kostar milljónir ef ekki milljarða, verkefni á vegum þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem rekin hefur verið sérstök skrifstofa í kringum í þrjú ár.  Gróðurhús eða teymi þar sem starfsmenn fara í sjálfsskoðun í tengslum við starf sitt þarf ekki að kosta neitt enda segir í lýsingunni að þetta sé bara „einhver prósess, eitthvað ferli sem leiðir þig eitthvert og útkoman sjálf skiptir þannig séð ekki höfuðmáli.“

Varðandi Gróðurhúsið – þá hefð verið miklu gáfulegra að fá fulltrúa úr framlínuþjónustu hvers sviðs og láta þau greina sína þjónustu sjálf og stinga upp á lausnu í samvinnu við fulltrúa frá ÞON og svo yrðu fundnar lausnir í samræmi við það.

Nú væri lag að kanna hvort ekki er hægt að sækja s.s. einn milljarð til þjónustu- nýsköpunarsviðs sem fara á í Gróðurhúsið og nota hann frekar til að ráða starfsmann sem getur heimsótt og hringt í eldri borgara yfir 90 ára.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs þann 20. janúar 2021, um að kanna leiðir til að útvista til einkaaðila þjónustu velferðarsviðs.

Felld með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna Sósíalistaflokks Íslands, og Flokks fólksins gegn einu atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Fulltrúi Flokks fólksins efast um að auka útvistun verkefna sé af hinu góða.  Þegar hart árar er oft gripið til útvistunar, til að redda málum. Útvistun getur verið frábær hugmynd en hræðileg framkvæmd. Gallar við útvistun eru fleiri en kostir. Venjulega er þetta dýrara dæmi þegar upp er staðið og yfirsýn tapast og minni stjórn verður á verkefnum. Þörf verður fyrir stíft eftirlit. Eftir að hafa útvistað hefur borgin fátt um hlutina að segja. Stundum er þjónusta hreinlega slæm og illa komið fram við fólk en yfirvöld máttlaus því þau eru búin að afsala sér ábyrgðinni á verkefninu og uppbyggð  reynsla hefur tapast með útvistuninni. Enginn tekur að sér að reka fyrirtæki nema til að hagnast á því og því maka margir krókinn  í gegnum rekstur og verkefni sem borgin útvistaði. Útvistun, eins og uppsagnir, er stundum merki þess að ekki er allt með felldu. Með hverri útvistun tapast sérþekking hjá borginni. Með útvistun missir borgin bæði yfirsýn og stjórnkerfið missir mátt.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjórnar, dags. 4. febrúar 2021, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 21. apríl 2021, varðandi svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins sem vísað var til meðferðar velferðarráðs á fundi borgarstjórnar, þann 2. febrúar 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að samþykkt yrði að stofna sálfélagslegt meðferðarúrræði (samtal) fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja. Samþykkt var að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs. Á fundi velferðarráðs er tillagan felld eins og allar aðrar tillögur frá Flokki fólksins sem vísað er úr borgarstjórn í velferðarráð. Rökin fyrir að fella þessa tillögu eru að ábyrgðin fyrir að sinna andlegri líðan eldri borgara liggi ekki hjá Reykjavíkurborg heldur hjá ríkinu. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að velferðarsvið getur ekki fríað sig allri ábyrgð með þessum hætti. Hér er um viðkvæman hóp að ræða og er velferð þeirra á ábyrgð borgar og ríkis. Fulltrúi Flokks fólksins er heldur hvergi að segja í tillögunni að velferðarsvið eigi að hafa upplýsingar um geðgreiningar. Fæstir í þessum hópi eru með einhverjar sérstakar geðgreiningar enda er vanlíðan oft sprottin af breytingum á högum, einmanaleika og minnkandi færni.

Á sama tíma og sagt er í umsögn að verkefnið sé ekki á ábyrgð velferðarráðs er viðurkennt að í þessum hópi eru einstaklingar sem hafa þörf fyrir sálfélagslega nálgun með skipulögðum hætti og að mikilvægt væri að þjónusta þennan hóp betur en gert er í dag. Fram kemur í umsögn að með því að nýta þau stöðugildi sem þegar eru til staðar innan heimahjúkrunar og á þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis þyrfti að ráða 2 sálfræðinga og 2 félagsráðgjafa og yrði kostnaðarhlut Reykjavíkurborgar þá alls um 50 m.kr. Fulltrúi Flokks fólksins spyr, finnst fólki það mikið þegar horft er til hversu mikil hjálp 4 fagaðilar gætu veitt okkar viðkvæmasta hópi? Aftur bendir fulltrúi Flokks fólksins á 10 milljarðana sem settir hafa verið í stafræna umbreytingu og að stór hluti þessa fjármagns fer í að greiða einkafyrirtækjum ráðgjöf enda búið að reka hóp kerfifræðinga frá borginni. Svo er séð ofsjónum yfir 50 milljónum sem myndi dekka ráðningu fjögurra fagaðila til að sinna andlegri líðan fólks á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum. Forgangsröðun þessa meirihluta liggur sannarlega alveg ljós fyrir.

Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna, gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðiflokksins situr hjá.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um starf félagsmiðstöðva sem stuðlar að tengingu milli kynslóða, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 16. desember 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hversu margar félagsmiðstöðvar eru með starf sem stuðlar að tengingu milli kynslóða, hvernig er því starfi háttað og í hverju felst það?  Einnig var spurt um hvað margar félagsmiðstöðvar hafa skipulega samveru eldri borgara og barna, eldri borgara og hunda/gæludýra? Samkvæmt svari eru allar félagsmiðstöðvar að halda uppi starfi sem stuðlar að tengingu milli kynslóða með t.d. samverustundum með börnum á víðum grunni og í samstarfi við skólana og 11 félagsmiðstöðvar af 17 hafa reglubundið starf með gæludýrum. Í  óformlegri könnun sem fulltrúi Flokks fólksins hefur gert undanfarin misseri um þessi atriði, með því að spyrja eldri borgara sem stunda félagsmiðstöðvar og aðstandendur hafa svör verið með allt öðru móti en segir í svari/umsögn. Ekki er oft kannast við ofangreint samneyti og það var einmitt ástæða þess að fulltrúi Flokks fólksins lagði fram þessar fyrirspurnir.  Hér er ekki verið að saka neinn um ósannindi en stundum næst einfaldlega ekki að fylgja eftir stefnu/reglum að fullu leyti af ýmsum ástæðum. Skrásetja þyrfti þessar heimsóknir á heimasíðu félagsmiðstöðvanna til þess að hægt sé að skoða hvernig gengur að framfylgja  reglum/stefnu. Enn eru 6 félagsmiðstöðvar sem ekki hafa boðið notendum upp á samneyti við dýr og er það miður.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 21. apríl 2021, um breytingar á reglum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum:

Sambærilega tillögu ætti að leggja fram í sambandi við frístundakortið. Hér er fjármagn frá ríkinu en þegar kemur að fjármagni frá borginni þá gilda stífari reglur, svo stífar að mörg börn geti ekki notið góðs af frístundastyrknum. Það heldur engum rökum að ekki sé hægt að nota frístundakortið á leikjanámskeið, sumarnámskeið og sumarbúðir sem dæmi eins og hægt er að nota þennan styrk í. Frístundakortið átti einmitt að hafa þann tilgang að auka jöfnuð og styðja sérstaklega við börn á tekjulágum heimilum til að stunda íþróttir sem liður í forvörnum. Nýting á frístundakortinu mætti vera betri og ætti að vera nærri 100% ef allt væri eðlilegt en er aðeins tæplega 80% í þeim hverfum þar sem nýting er mest. Það er nánast þakkarvert að Reykjavíkurborg fékk ekki þetta fjármagn til að ráðstafa að eigin vild því þá hefði þetta farið í sama stífa reglupakkann og frístundakrotið, að námskeið þurfi að vera ákveðnar margar vikur til að hægt sé að nýta kortið og að í stað þess að hjálpa efnaminni foreldrum að greiða gjöld frístundaheimilis er þeim bent á að þeir geti notað frístundakortið til að greiða gjaldið og þar með er réttur barnsins til Kortsins til að velja sér íþrótt/tómstund farinn fyrir bí.