Skipulags- og samgönguráð 24. febrúar 2021

Bókun Flokks fólksins við Endurskoðaðar reglur um bílastæðagjald byggingaraðila í Reykjavík, tillaga –

Fulltrúi Flokks fólksins finnst í fyrsta lagi undarlegt að það hafi þurft að útvista því verkefni að kanna hvað sambærilega er gert er í bílastæðamálum í nokkrum erlendum borgum . Um er að ræða að lesa opinberar upplýsingar sem ekki þarf sérfræðiþekkingu til að gera. Embættismannakerfi borgarinnar ætti að ráða við það. En í Reykjavík þarf að gera ráð fyrir bílastæðum fyrir alla sem vilja og þurfa og það er vissulega kostur að gefa þeim sem eru að byggja, á þegar fullbyggðum svæðum, kost á að greiða fyrir bílastæði í stað þess að gera þau sjálf.

Fulltrúi Flokks fólksins styður aukinn sveigjanleika í þessum efnum að þeir eigendur bíla sem óska að leggja í bílastæðahúsum frekar en við heimili sín, sem dæmi í miðbænum þar sem búið er að byggja þröngt, verði gert það auðveldara og aðgengilegra. Nóg pláss er í bílahúsum og mörg vannýtt á ákveðnum tímum. Ástæður eru ýmsar fyrir því, erfitt aðgengi og óþarflega há gjaldtaka.

Bókun Flokks fólksins við Laugardalur – austurhluti, breyting á deiliskipulagi vegna smáhýsa:

Í máli sem þessu er mikilvægt að íbúar fái góða og ítarlega upplýsingagjöf og fræðslu um þau úrræði sem koma á upp í hverfi þeirra. Íbúafundir eru best fallnir til þess þar sem hægt er að ræða saman og skiptast á skoðunum og umfram allt útskýra í hverju úrræðið felst, hvernig kemur það til með að líta út og hver verður umgjörðin og eftirfylgni. Ef litið er yfir athugasemdir í þessu máli má sjá að sumum íbúum finnst þetta úrræði óljóst og fyllast þar með óöryggi.

Bókun Flokks fólksins við Ársskýrsla byggingarfulltrúa 2020:

Fram kemur að lítið er byggt af rað- og einbýlishúsum. Ef þróunin verður áfram svo mun það breyta svip borgarinnar. Spurning er hvort þetta þurfi að ræða betur og hvort það sé þegar stefna borgarinnar að lítið verði til af einbýlishúsum. Svipað virðist gilda um raðhús. þau virðast vera á útleið. Borgin má ekki verða of einsleit. Er ekki markmiðið að reyna að mæta þörfum og óskum allra þegar kemur að íbúðarhúsnæði og vali á því?

Flokkur fólksins mælir með því að sérstaklega verið reynt að skipuleggja öll svæði þannig að aldurshópar blandist saman, stærð íbúða verði mismunandi, allt frá litlum íbúðum til rað- og einbýlishúsa, að uppbygging stuðli að félagslegri blöndun og að góður hluti af húsnæði sem byggt er í sérhverju hverfi verði raunverulega hagkvæmt.

 

Bókun Flokks fólksins við Drög að viðbótum við landsskipulagsstefnu 2015-2026, umsögn

Ýmislegt gott er í þessu skjali s.s. að horft sé til gróðurs í þéttbýli við mat á kolefnisbúskap lands. Einnig að rætt sé um möguleika á matvælaframleiðslu í þéttbýli fyrir almenning og að tekin séu frá svæði til slíks. Talað er um hugtakið ,,loftslagsmiðað skipulag”. En Reykjavík, að Kjalarnesi undanskyldu, er borgarbyggð en ekki sveit. Umræða um landskipulagsstefnu er því að mestu utan við hagsmunasvið borgarinnar. í þessu samhengi má benda á að útivistarsvæði við ströndina eru manngerð sem og flest svæði sem mætti kalla náttúruleg svæði innan borgarinnar eru að verða manngerð í vaxandi mæli því miður. Í þessari umræðu má hafa þetta í huga. Hugtök svo sem líffræðileg fjölbreytni, kolefnisbúskapur lands og matvælaframleiðsla hafa lítið vægi í þessari umræðu. Meira vægi hafa t.d. möguleikar á samskiptum í tilbúnum borgargörðum og samgöngur með vistvænum hætti svo sem góðir hjólastígar.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagssvið fari með markvissum hætti yfir verkferla sem lúta af því hvenær erindum er svarað og þá hvernig og hvað líður langur tími frá því erindi berst og þar til viðkomandi fær svar/viðbrögð.

Tillögunni er vísað frá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að umhverfis- og skipulagssvið fari með markvissum hætti yfir verkferla sem lúta af því hvenær erindum er svarað og þá hvernig og hvað líður langur tími frá því erindi berst og þar til viðkomandi fær svar/viðbrögð. Tillögunni er vísað frá, sögð ekki nógu skýr. Það sem þarf að gera er að bæta verkferla, svara erindum fólks. Ástæða fyrir að fulltrúi Flokks fólksins lagði þessa tillögu fram nú er að á rúv var fyrir stuttu rætt við konu sem sagði frá því að erindi hennar var ekki svarað eða sinnt með neinum hætti sama hvað hún reyndi að ná til sviðsins. Þetta getur varla verið boðleg. Telur fulltrúi Flokks fólksins það mikilvægt að sviðið leiti að erindi konunnar, hafi við hana samband og í það minnsta biðji hana afsökunar á því að hafa verið hunsuð með þessum hætti. Það er vel vitað að bæta þarf viðbrögð við erindum fólks, svörun í síma, svörun skeyta og stytting biðtíma eftir viðtali ef það er það sem óskað er eftir. Þrátt fyrir það er tillögunni vísað frá.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan uppfyllir ekki formskilyrði til að vera tæk til afgreiðslu enda erfitt er að sjá til hvaða nákvæmu aðgerða ætti að grípa yrði hún samþykkt. Tillögunni er vísað frá.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn vegna Úlfarsárdals:

Íbúi í Úlfarsárdal hefur reynt að fá spurningum svarað af byggingafulltrúa og skipulagssviði Reykjavíkurborgar en ekki tekist. Fulltrúi Flokks fólksins hefur tekið að sér að leggja eftirfarandi spurningar fram í skipulags- og samgönguráði til að freista þess að fá svör

Spurt er:

  1. Hvenær stendur til að hefja eftirfylgni á þeim 35 – 40 sérbýlis lóðum sem ekki er er hafin bygging á, að 15 árum liðnum frá því að byggingarframkvæmdir hófust í Úlfarsárdal?
  2. Hvað fá lóðarhafar 45 sérbýlislóða við Leirtjörn langan frest til að hefja byggingaframkvæmdir ?
  3. Samkvæmt umferðarlögum eiga allar gangbrautir að vera merktar. Hvenær verður lokið við að merkja allar gangbrautir lögum samkvæmt í hverfinu, (sebra) með lýsingu og gangbrautarmerkjum?
  4. Hvenær verður lokið við að lýsa upp alla gangstíga við gangbrautir að Dalskóla?
  5. Hvenær verður lokið við að gera gangstíga að leikskóla og Dalskóla manngenga?
  6. Hvenær verða ruslagámar fjarlægðir af göngustígum?
  7. Hvenær verður lokið við að hreinsa rusl utan lóða sem eru í byggingu og fylla í moldarflag eftir háspennustrengslögn Landsnets sem veldur moldroki?
  8. Hvenær munu lóðarhafar við Leirtjörn geta hafi byggingu húsa sinna en lóðir hafa verið tilbúnar í 2 ár?
  9. Hvenær lýkur byggingu par- og raðhúsa við Leirtjörn ?
  10. Er komið á áætlun hvenær lokið verði við að gera varnarvegg og brekku ofan Dalskóla neðan Úlfarsbrautar?

Frestað.