Borgarráð 28. september 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 26. september 2023, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fjárfestingaáætlunar A-hluta. Greinargerð fylgir tillögunum:

Af þessum viðauka má sjá hvað mörg verkefni hafa verið vanáætluð. Í fjölmörgum verkefnum og það stórum og fjárfrekum þarf að hækka fjárheimild vegna þess eins og segir að „umfang verkefna á árinu er meira en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir“. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það vera gegnumgangandi vandamál að áætlanir eru óraunhæfar. Svo virðist ekki vera neitt mál að fá hækkun, bara búa til viðauka. Sum atriða í þessum viðauka eru víðtæk og opin og erfitt að ná utan um eins og að fjárheimild vegna þéttingar byggðar verði hækkuð um 50 m.kr. og verði 100 m.kr. í stað 50 m.kr. „Samantekið nemur hækkun á heimildum til fjárfestinga 2.204 m.kr. Á móti nemi samanteknar lækkanir fjárfestinga 2.204 m.kr. Nettó breyting fjárfestingarheimilda nema því samtals 0 kr.“

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 26. september 2023, varðandi niðurstöður skipulagssamkeppni um Keldur og Keldnaholt:

Gott skref var að senda málið i alþjóðlega keppni. Lausir endar eru eflaust margir og t.d er ekki að sjá að tekið sé tillit til friðunar fjörunnar í Grafarvogi. Passa þarf upp á græn svæði og skuggavarp en að sama tíma er skiljanlegt ef hugmyndir koma fram um að nýta svæðið fyrir enn fleira fólk en gert er ráð fyrir því þetta er einstakt, skjólsælt svæði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar vegna lífsgæðakjarna framtíðarinnar:

Hugmyndin að baki lífsgæðakjörnum er fín. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur hana er um að ræða eldra fólk á aldrinum 60 ára og upp úr þar sem áhersla er á fjölbreytt búsetuform og ólíka tekjuhópa. Um er að ræða kjarna þar sem aðgengi er að fjölbreyttri þjónustu og þar á jafnvel að vera hjúkrunarrými. Þessi tillaga borgarstjóra og hans fólks er í góðu samræmi við tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram í desember 2021 um skipulagða byggð fyrir eldra fólk með áherslu á „að eldast á sínu eigin heimili“. Fjölgun eldri íbúa er eitt af þeim verkefnum sem Reykjavíkurborg þarf að takast á við. Hugmyndir nútímans ganga út á að eldra fólk geti búið sem lengst í eigin húsnæði og það er hlutverk okkar í Reykjavíkurborg að aðstoða og skipuleggja slíka byggð. Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hefur ekki verið hugsaður til slíks. Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Þar þarf að horfa til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. Með slíku er hægt að styðja fólk við að eldast heima. Þessi tillaga Flokks fólksins var felld af meirihlutanum en aðrir í minnihlutanum sátu hjá við afgreiðslu málsins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 26. september 2023, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 22. september 2023 á tillögu að viðauka við samstarfssamning Reykjavíkurborgar og Menningarfélagsins Tjarnarbíó:

Fulltrúi Flokks fólksins er ánægður með að styðja eigi við Tjarnarbíó. Tjarnarbíó er þáttur í lífi og menningu hóps Íslendinga. Reyndar er brýnt að finna framtíðarlausn fyrir sviðslistir svo ekki þurfi að vera að plástra endalaust.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi heilsustefnu fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg og þær þrjár aðgerðir sem áætlað er að komi til framkvæmda á árinu 2024 sem eru hækkun á heilsuræktarstyrk, hækkun á samgöngustyrk og stofnun stuðnings- og ráðgjafateymis:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessar tillögur og tekur undir þau sjónarmið að fjármagni sé veitt í tillögur um heilsu- og samgöngustyrk og að ráðgjöf skili sér til baka. Tekið er undir þau sjónarmið að veikindi og fjarvistir á vinnustað eru í beinum tengslum við stjórnendafærni. Það er mannskemmandi að vera á vinnustað sem stýrt er af vanhæfum stjórnanda sem jafnvel beitir starfsfólk sitt ofbeldi af einhverju tagi. Iðulega hefur það sýnt sig að stjórnandi kemst upp með svoleiðis háttalag jafnvel árum saman. Leiða má sterkum líkum að því að ef lögð er áhersla á að fræða og þjálfa stjórnendur muni verulega draga úr fjarvistum. Standi stjórnandi sig ekki sem skyldi og meirihluta starfsmanna líður illa á vinnustaðnum þá hlýtur að þurfa að skoða að losna við viðkomandi stjórnanda. Vissulega eru þessi mál ekki einhlít og geta þau verið afar flókin. Þess vegna þarf að vanda hvert skref. Hvað sem öllu líður er ekki hægt að líta framhjá niðurstöðum rannsókna sem sýnt hafa ítrekað að rekja megi óánægju og vanlíðan með tilheyrandi fjarvistum til stjórnanda/stjórnenda. Ábyrgð stjórnenda er mikil því þeir hafa það hvað mest í hendi sér hvort starfsfólk upplifi vellíðan í starfi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki uppfærða viðverustefnu fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg:

Fjarvera vegna veikinda starfsfólks hefur aukist undanfarin 5 ár og eru án efa margar skýringar á því. Viðverustefnan hefur það að markmiði að hlúa að starfsfólki en einnig að draga úr veikindafjarvistum með „markvissu aðhaldi og stuðningi af hálfu stjórnenda“ eins og segir í gögnum. Þessi mál eru viðkvæm. Fólk á sína veikindadaga samkvæmt kjarasamningi og ef rekja má vanlíðan til vinnustaðarins með einhverjum hætti t.d. vegna ofbeldis, eineltis eða óheyrilegs vinnuálags koma þessir dagar til góða til að hvílast og hlaða batteríin. Vísað er í þessu sambandi í kannanir sem gerðar hafa verið á ofbeldi á vinnustöðum borgarinnar. Álag eða vandamál á vinnustað eru líkleg til að leiða til líkamlegra veikinda enda eru sál og líkami nátengd. Flokkur fólksins vill að stigið sé varlega til jarðar í þessum málum. Ef mikið er um veikindafjarvistir hlýtur fyrsta skrefið að vera að kanna hvort vinnustaðurinn sé óheilbrigður áður en farið er í að breyta fyrirkomulagi, verkefnum starfsmanns eða öðru. Milli stjórnanda og starfsmanns er aldrei jafnræði enda sá fyrri yfirmaður hins. Mikilvægt er að bjóða starfsmanni að hafa með sér í viðverusamtal annan aðila sem hann velur sjálfur til að vega upp á móti valdaójafnvægi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 20. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lokun skólabygginga fyrir þeim sem ekki eiga þangað erindi, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. september 2023:

Ljóst virðist að allir eru á svipaðri blaðsíðu í þessum málum og hefur margt verið gert til bóta. Eftir lestur svars eru þó nokkur atriði sem koma upp í huga fulltrúa Flokks fólksins og þá hvort allir þeir sem vinna í þessum málum séu að tengjast nægjanlega vel. Að hver og einn aðili sé ekki að vinna í sínu horni. Kannski þurfa þessi mál að vera að einhverju leyti miðlæg en síðan einnig í höndum sérhvers skóla að útfæra nánar enda aðstæður skóla mismunandi. Skólar eru einnig misbúnir fjárhagslega í þessu sambandi. Fræðsla og fræðsluefni um ofbeldi er vissulega mikilvægt nemendum en eins og fram kemur í fyrirspurninni er ekki síður verið að hugsa um utanaðkomandi aðila sem hvorki eiga erindi í skóla né eru velkomnir þangað ef orða má svo. Þeir einu sem eiga erindi í skóla eru starfsfólk, börnin og foreldrar. Aðrir sem eiga erindi s.s. sem á fundi hafa fengið um það boð. Aðgengi er enn mjög auðvelt í marga skóla þrátt fyrir að margir hafi gert ákveðnar ráðstafanir. Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á talnalása og hefur margsinnis talað fyrir öryggismyndavélum sem ávallt hafa ákveðinn fælingarmátt. Enn er starfandi hópur frá 2019 og hefur skilað tillögum. Hann er enn að störfum en ekki liggur fyrir hvert er hlutverk hans nú.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 31. maí, 26. júní, 14. og 28. ágúst 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar frá 26. júní:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur eftir að Orkuveitan hefur tekið upp nýtt starfsheiti, umhverfisgyðja. Fulltrúi Flokks fólksins er forvitin um hvert skilgreint starfssvið umhverfisgyðju er og hvert sambærilegt starfsheiti væri, ef starfið væri skipað karli, er það þá umhverfisgoð? En hvað með ef hán? Er það þá umhverfishán? Fulltrúi Flokks fólksins mun senda inn formlega fyrirspurn til að svala þessari forvitni en fagnar á sama tíma auðvitað hugmyndaauðgi og allri fjölbreytni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 15. september 2023:

Óttast er að ívilnun vegna virðisaukaskatts á rafmagnsvögnum verði felld niður um áramót sem er hið versta mál. Rétt væri að Reykjavíkurborg ásamt Strætó bs. myndi mótmæla þeirri ákvörðun af krafti.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um kostnað við aðkeypta ráðgjöf:

Óskað er eftir upplýsingum um aðkeypta ráðgjöf Reykjavíkurborgar á tímabilinu 2019-2023. Upplýsingarnar óskast sundurliðaðar eftir sviðum/skrifstofum þar sem fram kemur hvaða ráðgjöf er keypt, af hverjum og fjárhæð kaupanna. MSS23090179

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um styttingu vinnuvikunnar:

Árið 2021 var ákveðið að fara í styttingu vinnuvikunnar. 1. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig aðgerðin stytting vinnuvikunnar gekk hjá Reykjavíkurborg og hvort útfærslu sé ólokið á einhverri stofnun. 2. Aðgerðinni var fagnað en óttast var að með breytingunni þegar um er að ræða vaktavinnu, myndi að óbreyttu verða til stórt mönnunargat. Aðgerðin var flókin enda þurfti ekki aðeins að breyta vaktaplaninu heldur einnig forritum sem halda utan um launamál. Vinnutímastyttingin sjálf var einfaldari. Hvernig hefur gengið að stoppa í það gat nú þegar um tvö ár eru liðin frá aðgerðinni? 3. Skilaboð með aðgerðinni, stytting vinnuviku hjá dagvinnufólki, var að hún mætti ekki kosta. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað aðgerðin kostaði þegar upp var staðið, hjá dagvinnufólki annars vegar og hjá vaktavinnufólki hins vegar. MSS23090177

Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um kostnað við byrjendalæsi:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað margir skólar í Reykjavík kenna samkvæmt aðferðinni byrjendalæsi. Hver var kostnaðurinn við innleiðingu aðferðarinnar og hver er árlegur kostnaður hvers skóla eftir innleiðingu fyrsta ársins og hver er árlegur kostnaður í heild sinni er eftir það? Er árangur í lestri betri í þeim skólum sem nýta byrjendalæsi heldur en í þeim skólum sem gera það ekki? Er það á valdi skólastjóra í hverjum skóla hvaða aðferð við lestrarkennslu verður fyrir valinu? Hver hefur árlegur kostnaður Reykjavíkurborgar við sérkennslu verið síðustu fimm ár sundurliðaður frá ári til árs? MSS23090178

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um starfsheitið umhverfisgyðja:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur eftir að Orkuveitan hefur tekið upp nýtt starfsheiti, umhverfisgyðja, eins og fram kemur í 6. lið fundargerðar stjórnar Orkuveitunnar frá 26. júní. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um starfssvið umhverfisgyðju og hvert sambærilegt starfsheiti væri, ef starfið væri skipað karli, er það þá umhverfisgoð? En hvað með ef hán? Er það þá umhverfishán? MSS23010018

Vísað til umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur.