Borgarráð 29. febrúar 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. febrúar 2024, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað borgarinnar vegna veisluhalda við starfslok, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. janúar 2024.

Þótt löng hefð sé fyrir því að halda veislu við starfslok æðstu embættismanna er ekki þar með sagt að ekki megi sýna aðhald í útgjöldum. Kostnaður við starfslok borgarstjóra var samkvæmt svarinu rúmar tvær milljónir. Svo má velta því fyrir sér hverjir teljast til æðstu embættismanna. Ljóst er að ef að margir eru skilgreindir sem slíkir geta útgjöld sem þessi verið umtalsverð.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að bjóða nemendum vinnu hjá leikskólum Reykjavíkurborgar, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. febrúar 2024:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að leita í dyrum og dyngjum að lausnum til að leysa mannekluvandann í leikskólum. Þess vegna lagði hann fram tillögu um að borgarráð samþykki að fela mannauðs- og starfsumhverfissviði, í samstarfi við skóla- og frístundasvið, að vinna tillögu að fyrirkomulagi sem gerir Reykjavíkurborg kleift að bjóða nemendum sem hafa til þess aldur vinnu hjá leikskólum Reykjavíkur á þeim tímum og dögum sem þeim hentar og sem fellur vel að námskrá þeirra. Í tillögunni felst að miða skuli við að unnt verði að gera skammtímasamninga við nemana allt niður í tvo mánuði. Tillögunni er hafnað af meirihlutanum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt þessa tillögu við marga og hefur hún fengið góðan hljómgrunn. Öll þekkjum við hversu gríðarleg mannekla er í leikskólum sem hefur valdið því að foreldrar fá ekki pláss fyrir börn sín og sífellt er verið að biðja foreldra að sækja börn sín því ekki tókst að manna daginn. Vel kann að vera að einhverjir eða fleiri nemendur séu tilbúnir að vinna á leikskólum borgarinnar ef þeim er gert auðvelt að laga vinnuna að námi þeirra. Af hverju vill meirihlutinn í borginni ekki kanna þennan möguleika?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 16. febrúar 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um áhrif og afleiðingu raka og myglu í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. september 2023. Einnig lögð fram ítrekun á fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. janúar 2024:

Borist hefur svör við fyrirspurnum um myglu og veikindi starfsmanna OR og hverjir báru ábyrgð á að leggja  viðarparket á raka gólfplötu sem talin er orsök myglu og rakans. Aðvaranir húsasmíðameistara voru hundsaðar því svo mikið lá á að ljúka framkvæmdum og opna húsið. Margar greinar liggja fyrir um hroðvirkni við byggingu höfuðstöðva OR. Vesturhúsið er talið svo gott sem ónothæft sökum raka og myglu. Málið var ekki tilkynnt til vinnueftirlits ríkisins sem er á skjön við ráðleggingar stéttarfélaga. OR fullyrðir að ekki margir hafi veikst. Nefndir eru 47 en talið er að mun fleiri hafi veikst alvarlega. Starfsmenn sem glímt hafa við afleiðingar myglu og raka taka ekki undir að OR hafi gert allt sem að þeirra valdi stóð til að tryggja góðan líðan starfsmanna. Fólk sem kenndi sér meins var rekið í skjóli skipulagsbreytinga. Starfsmannavelta er há hjá OR ef aðeins 80 manns sem eru við vinnu í dag frá árinu 2004. Ekki voru tekin efnisýni  sem eru mun nákvæmari sýni en rakamæling og sjónskoðun og ekki síst með tilliti til fyrri sögu. Það er hátt hlutfall ef 7 einstaklingar þurfa að sækja á OR vegna heilsubrests  eftir veru þeirra í húsnæði  OR að Bæjarháls 1.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. febrúar 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um óafgreidd mál Flokks fólksins í febrúar 2024, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. febrúar 2024.

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir samantekt á fyrirspurnum sem enn er ósvarað og tillögum sem enn eru óafgreiddar sem lagðar hafa verið fram af Flokki fólksins á þessu og síðasta kjörtímabili í borgarráði. Svar hefur verið lagt fram og á yfirstandandi kjörtímabili hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt fram 249 fyrirspurnir og tillögur. Þar af eru 32 sem ekki hafa verið afgreiddar. Við upphaf kjörtímabils voru 53 fyrirspurnir og tillögur frá fulltrúa Flokks fólksins frá fyrra kjörtímabili sem ekki höfðu verið afgreiddar í borgarráði. 1. febrúar voru 30 sem enn biðu afgreiðslu. Þetta er meira en fulltrúa Flokks fólksins hafði órað fyrir. Á listanum er t.d. tillaga Flokks fólksins um Bara tala frá því í sumar. Það hefði verið huggulegt að Flokkur fólksins hefði fengið tilkynningu um að samningur væri í höfn og þá hefði verið hægt að afgreiða tillöguna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 16. febrúar 2024. Borgarráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

Fleiri innstig mælast nú en áður sem gefur von um að fleiri noti strætó nú en í fyrra. En ef tekið er mark á mörgum öðrum upplýsingum um reksturinn er þó ekki hægt að vera bjartsýn fyrir hönd Strætó. Áhyggjur eru af útvistun á þjónustu Strætó. Með útvistun á þjónustu sem þessari er hætt á að þjónusta versni og kjör sömuleiðis. Flokkur fólksins hefur oft talað um hvað byggðasamlagskerfið hentar illa þessari þjónustu. Galli er við þetta fyrirkomulag sem felst í því að Reykjavík er stærsti eigandi Strætó en hefur ekki ákvarðanavald í samræmi við eigendaprósentu. Þjónusta er víða afleit og illa gengur að bæta úr. Strætó hefur lengi róið lífróður. Vandinn er á flestöllum sviðum hjá Strætó bs., nýtt greiðslukerfi hefur reynst illa og þjónustustefnu fyrirtækisins virðist illa fylgt. Reglulegar kvartanir hafa borist vegna aksturslags bílstjóra og framkomu þeirra við farþega. Stjórn Strætó hefur ekki reynst hafa getu til að taka á þessum málum eftir því sem næst verður komist.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. febrúar 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. og 12. lið fundargerðarinnar: 

Liður 11:
Tillaga um lýsingu við gangbrautir í Grafarholti og Úlfarsárdal. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis lagt fram fyrirspurnir og tillögur er lúta að umferðaröryggi í Úlfarsárdal og tekur því undir tillögu íbúaráðsins um úrbætur við gangbrautir í Úlfarsárdal þar sem lýsingu skortir. Þarna er gönguleið barna. Lengi hefur verið kallað eftir úrbótum. Úlfarsárdalur sem er 15 ára hverfi er ekki enn sjálfbært.

Liður 12:
Tillaga íbúaráðs Kjalarness um eflingu strætóþjónustu í borgarhlutanum. Ungmennaráð Kjalarness leggur til að tíðni strætóferða til og frá Kjalarnesi verði að minnsta kosti á klukkustundarfresti sem er lágmark að mati Flokks fólksins. Í dag líða allt að fjórar stundir á milli ferða. Vandamál með strætóferðir á Kjalarnesi eru ekki ný af nálinni. Líta má aftur til ársins 2013 en þá voru stopular strætóferðir um Kjalarnes ræddar í hverfisráði Kjalarness. Börn gátu þá ekki notað strætó til að komast í skóla eða til að fara í vettvangsferðir eða sækja tómstundastarf. Lítið hefur breyst til batnaðar. Strætó er byggðasamlag. Sá galli eru við fyrirkomulagið er að stærsti eigandi Strætó hefur ekki ákvarðanavald í samræmi við eigendaprósentu. Strætó hefur lengi róið lífróður. Vandinn liggur á öllum sviðum, nýtt greiðslukerfi hefur reynst illa og þjónustustefnu fyrirtækisins virðist illa fylgt.

 

Ný mál frá Flokki fólksins

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu raunhæfismat á verkinu Pálmatré:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um stöðu raunhæfismats á útilistaverkinu Pálmatré í Vogabyggð, upplýsingum um framvindu matsins og kostnað. Hefur verið hætt við að setja verkið upp?

Greinargerð

Á fundi borgarráðs 7. febrúar 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um raunhæfismat á útilistaverkinu Pálmatré sem í Vogabyggð. Meirihlutinn samþykkti verkefni og vísaði því í raunhæfismat. Engar fregnir hafa borist að framvindu þessa máls, hvort verkið sé enn í raunhæfismati? Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um stöðu málsins, framvindu og kostnað. Hefur verið hætt við að setja verkið upp?

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um farsímanotkun barna

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um stöðu á notkun/notkunarbanni farsíma hjá nemendum í grunnskólum borgarinnar. Er búð að ákveða að grunnskólar borgarinnar verði símafríir?

Greinargerð

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður lagt til að ekki verði heimilt að vera með síma  inn í skólastofunni þar sem þeir valda nemendum truflun. Ekki er ljóst hvernig tekið hefur verið á þessum málum á skóla- og frístundasviði eða hvort einhver skýr lína er komin í umræðuna. Óskað er eftir upplýsingum um stöðu þessara mála?

Staðfest hefur verið með fjölda rannsókna og kannana að sími truflar einbeitingu nemenda í námi. Einhverjir skólar hafa lagt blátt bann við snjallsímum jafnvel á skólalóðinni, aðrir skólar eru með mildari útfærslu. Enn aðrir skólar skipta sér lítið af því hvort nemendur eru með síma á skólatíma. UNESCO hefur kallað eftir því að blátt bann verði lagt við notkun snjallsíma í skólum. Eitt af hverjum fjórum ríkjum heims hefur nú þegar orðið við þessu. Stofnunin segir að símnotkun barna í skólum auki á lærdómserfiðleika, einelti og almenna vanlíðan. Margir eru uggandi yfir hversu háðir nemendur eru símanum. Það er útilokað að vera með óskerta athygli á námi og samskiptum í skólastofunni með símann í augsýn. Það er freistandi að skoða símann þegar hann lýsist upp eða gefur frá sér veikt píp. Sími ofan í tösku sem slökkt er á truflar minna.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um forritið Bara tala:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um samning um aðgang Reykjavíkurborgar að forritinu Bara tala. Spurt er hvort borgin hafi keypt aðgang að forritinu og ef svo er, er það komið í framkvæmd? Á fundi borgarráðs 29. júní 2023 lagði fulltrúi Flokks fólksins til að Reykjavíkurborg keypti aðgang að forritinu fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar af erlendum uppruna. Engin viðbrögð hafa komið við þessari tillögu og er óskað upplýsinga um hvenær standi til að afgreiða hana.

Greinargerð

Bara tala er stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg kaupi aðgang að forritinu fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar af erlendum uppruna. Með Bara tala geta notendur spreytt sig á samtölum á íslensku.  Forritið hlustar á notendur tala, æfir þá í framburði og veitir endurgjöf í rauntíma.  Boðið er upp á  grunnnámskeið og vinnusértækt efni í forritinu þannig að námsefnið er miðað að þörfum starfsfólks. Það þýðir að starfsmaður á leikskóla fær ekki sama námskeið og starfsmaður í sundlaug. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta mjög athyglisvert og spennandi forrit og kannski er forritið Bara tala LYKILLINN sem við svo nauðsynlega þurfum að koma til okkar nýju samborgara.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingaöryggi hjá Barnavernd Reykjavíkur:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um fyrirkomulag og ábyrgð á upplýsingaöryggi hjá Barnavernd Reykjavíkur. Hvernig er ábyrgð á upplýsingaöryggi skilgreind og hvernig er það meðhöndlað innan Barnaverndar Reykjavíkur? MSS24020184