Borgarráð 29. júní 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. júní 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis á Ártúnshöfða vegna lóðarinnar nr. 29 við Vagnhöfða., ásamt fylgiskjölum.

Um er að ræða umsókn um breytingu og rök fyrir henni. Hækka á húsið og koma fyrir fleira fólki. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bent á að hús þarf að hanna þannig að þau dragi ekki niður vindstrengi. Almennt er því gott að þau mjókki upp. Þetta þarf að sjálfsögðu að kanna í vindgöngum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. júní 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Fossvogsbrú:

Sýndar eru miklar landfyllingar, eyðing á fjöru á meðfylgjandi korti og segir orðrétt í gögnum: „Afmörkun landfyllinga miðar við efri mörk þeirra eins og gert var í upphaflegu deiliskipulagi. Þar fyrir utan bætast við grjótgarðar með fláa en umfang þeirra fer eftir aðstæðum á sjávarbotni.“ Kannski er þetta nauðsynlegt en ekkert er sagt um skerðingu á líffræðilegum fjölbreytileika. Allt of langt hefur verið gengið með eyðingu fjara í borgarlandinu að mati fulltrúa Flokks fólksins. Fáar eru eftir og spurning hvort þær fái að vera í friði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. júní 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní 2023 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Fossvogsblett 2-2A:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar hverju skrefi í átt að því að drífa upp leikskóla enda bíða yfir 900 börn eftir plássi. Mikil tímapressa er því á máli sem þessu. Lögð eru fram ítarleg gögn um sögu svæðisins þar sem Ævintýraborgir eiga að rísa en um er að ræða 10 deilda leikskóla fyrir 150 börn. Ekkert er hins vegar minnst á hvernig Ævintýraborgirnar falla að þessum reit. Áformin liggja þó fyrir. Ævintýraborgir eru tímabundnar en þarna munu síðan rísa varanlegar leikskólabyggingar. Drífa þarf þetta verk áfram af fullum krafti, þótt fyrr hefði verið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. júní 2023, sbr. samþykkt umverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts vegna lóðarinnar nr. 34 við Barónsstíg:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar hverju skrefi í átt að því að drífa upp leikskóla enda bíða yfir 900 börn eftir plássi. Mikil tímapressa er því á máli sem þessu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. júní 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Laugardals:

Þessu máli, tillögu umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Laugardals, var frestað í maí og ekki er vitað hvaða ástæður lágu þar að baki.  Stefnt var að því að Ævintýraborgin myndi opna á fyrri hluta næsta árs og geta tekið við um hundrað börnum. Í ljósi reynslu af töfum og seinkun verkefna hjá borginni veitir ekki af því að halda vel á spöðunum ef fylgja á áætlun.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. júní 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní 2023 á tillögu að breytingum á gjaldskyldu og gjaldskyldutíma bílastæða Reykjavíkurborgar:

Hækka á gjald fyrir bílastæði Reykjavíkurborgar umtalsvert og þrengja reglurnar samhliða hækkun. Þess utan bætast við sunnudagar. Að gjaldskylda verði á gjaldsvæðum P1 og P2 milli klukkan tíu á morgnana og níu á kvöldin, á sunnudögum. Þessar breytingar hafa mikinn fælingarmátt fyrir þá sem koma akandi í bæinn og er nú nóg samt. Þess utan hefur hækkun á gjöldum hvetjandi áhrif á verðbólgudrauginn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna verkefna umferðaröryggisáætlunar 2023, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 250 m.kr.:

Lagt er til að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna vegna verkefna umferðaröryggisáætlunar 2023. Listaðir eru upp staðir þar sem bæta á umferðaröryggi. Þar á meðal er ekki Laugarásvegurinn sem ítrekað er búið að benda á að sé ekki nægjanlega öruggur og er það fyrir margar sakir. Hámarkshraði á Laugarásvegi var lækkaður í 30 km/klst. fyrir nokkru síðan. Það eru hins vegar engar merkingar um það, hvorki á skiltum né götu. Þrátt fyrir að hámarkshraði sé merktur þar sem 30 km svæði byrjar eða á mörkum þess er algjörlega nauðsynlegt að hafa sýnilegar aukamerkingar á Laugarásvegi. Það þyrftu því bæði að vera hraðaskilti og málað á götuna. Þetta er ein lengsta íbúðargata í hverfinu sem veldur því að bílar keyra iðulega mjög hratt og langt umfram leyfilegan hámarkshraða í götunni. Tímaspursmál er hvenær þarna verður alvarlegt slys. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bent á þetta enda berast ábendingar reglulega frá íbúum sem eru áhyggjufullir. Fram kemur í svari að merkingar hafi verið málaðar í götu um 30 km/klst. hámarkshraða. Viðurkennt er að merkingar eru orðnar máðar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs, dags. 26. júní 2023, um endurskoðun á tímaáætlun og heildarkostnaðaráætlun varðandi Grófarhús. Einnig er lögð fram skýrsla frumhönnunar vegna endurhönnunar, endurnýjunar og stækkunar á Grófarhúsi.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt það til að bíða með allar kostnaðarsamar aðgerðir og framkvæmdir sem tengjast Grófarhúsi enda er það verkefni ekki brýnt og ætti ekki að vera í neinni forgangsröðun. Hér er lag að spara og hagræða og veita fjármagni frekar til að þjónusta börnin sem bíða eftir aðstoð og hjálp til viðkvæmra hópa. Á biðlista eftir fagfólki skóla eru nú 2.511 börn og hefur þeim fjölgað um tugi síðastliðnar vikur. Síðar meir þegar betur árar hjá Reykjavíkurborg má skoða þetta verkefni. Miður er að Borgarskjalasafni verði hent út úr þessu húsi í stað þess að leyfa því að vera og leyfa því að lifa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 26. júní 2023, varðandi minnisblað vegna yfirlits á stöðu helstu verkefna samhæfingarhóps og aðgerðahóps um móttöku flóttafólks:

Lagt er fram yfirlit yfir samræmda móttöku flóttafólks og kennir þar ýmissa grasa. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á að gera betur í íslenskukennslu og þjálfun fólks sem kemur til landsins í því að tjá sig á íslensku og er þá átt við fólk sem hyggst dvelja hér til langframa. Fjölga þarf námskeiðum fyrir nýja íbúa og einnig fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla og frístundar til þess að stuðla að markvissri íslenskukennslu og fjölmenningarlegum starfs- og kennsluháttum. Fjölga þarf íslenkuverum þannig að þau séu í öllum borgarhlutum fyrir börn í 5.-10. bekk sem eru nýflutt til landsins. Hvert íslenskuver getur sinnt 20 börnum á hverjum tíma og eru þau löngu sprungin. Sennilega mun fjöldi tvítyngdra nemenda í grunnskólum Reykjavíkur fara yfir 3.200 á þessu ári. Þessi hópur hefur litlar forsendur til þess að taka þátt í almennu grunnskólastarfi með jafnöldrum sínum án sérstakrar aðlögunar og stuðnings til að ná tökum á íslenskunni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-mars 2023, dags. 29. júní 2023:

Fjárhagsstaðan er verri en vonast var til að öllu leyti. Til að ná niður verðbólgu þarf að auka tekjur og draga úr fjárfestingum. Forgangsraða verður í þágu þjónustu við fólk. Eitthvað er verið að reyna að gera þetta en alls ekki nóg. Stöðugildum hefur fjölgað, sem dæmi hafa bæst við 11 ný stöðugildi á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Þetta þarf að skýra. Þetta svið er mögulega með verkefni sem mega bíða og hafa ekki forgangsraðað verkefnum í beina þágu fólks. Enn þarf að sækja um skriflega t.d. um leikskóla sem varla sést lengur í öðrum sveitarfélögum. Áhyggjuefni er hvað veikindahlutfallið hefur hækkað og aukning langtímaveikinda starfsmanna er talsverð. Skóli eins og Klettaskóli er löngu sprunginn og hefur lengi beðið um meira fjármagn en fær ekki enda biðlisti langur í skólann. Börn sem myndu njóta þess að vera þar eru sett í almennan skóla með mikinn sérstuðning. Hér er bara tæpt á örfáum vandamálin sem borgin glímir við í fjárhagslegum efnum. Þetta er ekki góður rekstur og getur varla talist ábyrgur. Mikið skortir á hagsýni og skynsemi í rekstri hjá meirihlutanum og ekki er forgangsraðað í þágu barna og viðkvæmra hópa. Börnin sem bíða nú eftir faglegri aðstoð eru 2.511 og lengist listinn með viku hverri. Fulltrúi Flokks fólksins er með þungar áhyggjur af fjármálastöðu borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 27. júní 2023, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023. Viðaukinn er borinn upp í sjö liðum og er 7. liðurinn: Sumarborgin 2023, er samþykktur. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lagt er til að fjárheimildir umhverfis- og skipulagssviðs hækki um 37.500 þ.kr. vegna verkefnisins Sumarborgin 2023. Fulltrúi Flokks fólksins minnir á að það eru fleiri hverfi í borginni en miðborgin.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 27. júní 2022, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fjárfestingaáætlunar A-hluta. Greinargerð fylgir tillögunum:

Lækka á kostnað og fresta framkvæmdum nokkurra verkefna samkvæmt breytingum á fjárfestingaáætlun. Lækkun og frestun verkefna þessa árs eru t.d. Gufunesvegur, tenging við Strandveg, og Nauthólsvegur. Framlag til Grófarhúss samfélagshúss er óbreytt þetta ár. Seinka á verkefninu um eitt til tvö ár en Flokkur fólksins myndi vilja sjá því frestað um a.m.k. fimm ár eða meira eða þangað til meira jafnvægi er komið í efnahagsmálin. Grófarhús er margra milljarða verkefni sem betur væri nýttir akkúrat núna til að bæta grunnþjónustu. Grynnka þarf á biðlista nemenda í leik- og grunnskólum borgarinnar en nú bíða 2.511 börn á þeim lista. Það verður enginn stórskaði þótt Grófarhúsi verði frestað. Útibú Borgarbókasafns eru víða og anna hlutverkinu vel. Flokkur fólksins telur að forgangsröðun verkefna hjá þessum meirihluta sé einfaldlega röng. Til að vinna niður verðbólgu þarf að auka tekjur og draga úr fjárfestingum. Reykjavík sem sveitarfélag þarf að tryggja að fólk hafi fæði, klæði og húsnæði og að börn og viðkvæmir hópar fái þá hjálp sem þeir þurfa. Fólkið fyrst og svo allt hitt.

 

Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 26. júní 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 26. júní 2023 á nýjum reglum Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir, ásamt fylgiskjölum.

 

Hér eru lagðar til breytingar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks sem lúta að því að skýra meðferð og afgreiðslu umsókna ásamt því að hraða afgreiðslu umsóknanna. Fulltrúar Flokks fólksins og Sósíalista telja jákvætt að verið sé að flýta umsóknarferlinu. Gott er að tekið hafi verið tillit til umsagna Öryrkjabandalags Íslands og aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks. Fulltrúarnir hafa áhyggjur af því að komið geti til lækkunar styrkja ef margar umsóknir berast, nægar skerðingar er um að ræða hjá þessum hópi. Fylgjast þarf með fjölda umsókna og tryggja að fjárhæðir sem eru veittar í styrkjapottinn séu nægar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 1. júní 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 24. maí 2023 á tillögu um stöðugildi í Barnavernd Reykjavíkur:

Flokkur fólksins skilur vel að fjölga þurfi stöðugildum hjá Barnavernd Reykjavíkur. Nú er staðan þannig að foreldrar í auknum mæli sjá sig nauðbeygð til að tilkynna sig og barn sitt sjálf til Barnaverndar. Tilfelli um að foreldrar tilkynni sjálfa sig voru árið 2017 279 en árið 2022 eru tilkynningarnar 337. Ástæðuna má án efa rekja til þess að nú bíða 2.511 börn á biðlista skólaþjónustunnar. Með því að tilkynna mál til Barnaverndar geta tilkynnendur verið öruggir um að mál þeirra fái skoðun fljótt. Samkvæmt lögum ber Barnavernd að skoða málið innan ákveðins tímafrests og athuga hvort ástæða sé til þess að það fari í svokallaða könnun. Flokkur fólksins hefur ávallt stutt tillögur sem lúta að bættri skilvirkni hjá Barnavernd. Foreldrar sem eiga börn á biðlista skólanna og fá þar ekki þjónustu eru ráðalausir. Um er að ræða mál sem mörg hver voru áður unnin á vettvangi skólanna, t.d. hjá skólasálfræðingi. Taka má dæmi um skólaforðunarvandamál en árið 2019 voru tilkynningar um skólaforðun til Barnaverndar 67, árið 2021 voru þau 46 en árið 2022 eru málin um 70.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. júní 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fyrirspurnir Flokks fólksins, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. febrúar 2023:

Sem svar við fyrirspurninni er birtur listi yfir óafgreidd mál frá síðasta kjörtímabili sem eru fjölmörg. Lengi hefur verið beðið eftir svo kallaðri gagnsjá sem átti að vera vefur hjá borginni þar sem mál flokkanna væru aðgengileg og sjást hvar þau væru stödd. Ekkert er að frétta af gagnsjá, upplýsingakerfi sem þjónustu- og nýsköpunarsvið ber ábyrgð á. Fjármagn var sett í þetta fyrir mörgum árum. Í tillögu Flokks fólksins frá 2021 er beðið um að yfirlit yfir mál flokksins verði birt á heimasvæði flokksins á vef borgarinnar eða á sérstöku svæði þar sem mál flokka í borgarstjórn eru aðgengileg. Eins og staðan er nú hafa borgarbúar ekki auðveldan aðgang að málum minnihlutaflokkanna nema að þræða sig í gegnum fundargerðir sem er tyrfin leið og tafsöm enda eru fundargerðir iðulega langar. Ekki verður séð að nein haldbær rök séu fyrir að vísa þessari tillögu frá eins og hér er gert með þeim rökum að málið sé í farvegi. Málið er hvorki í farvegi né er nokkuð að þokast eftir því sem næst verður komist.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 26. júní 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lóðaúthlutanir Reykjavíkurborgar, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. júní 2023:

Spurt var um gildandi reglur og fyrirkomulag lóðaúthlutana hjá Reykjavíkurborg og hvernig hægt er að fá lóðir hjá borginni.  Segir í svari að lóðir eru auglýstar á netinu öllu jafna. Það sem er nýtt er að byggingarrétti er einungis úthlutað/hann seldur í kjölfar útboðs. Kaupandi sendir inn skriflegt bindandi tilboð um að byggja hús á ákveðinni lóð. Lágum tilboðum er hafnað þannig að aðeins þeir sem geta boðið best hreppa hnossið. Til er útfærslan: sala lóðarréttinda á föstu verði en þá er sótt um tiltekna lóð. Fyrstur til að skila inn umsókn fær lóðina en þó er þetta einnig þannig að fyrst er útboðsfyrirkomulagið viðhaft og síðan lóðin sett á sölu á föstu verði. Það sjá það allir í hendi sér að þetta fyrirkomulag er afar þungt í vöfum og tyrfið. Ef rýnt er í listann sem fylgir svarinu má sjá að síðustu ár hafa einstaklingar ekki fengið neinum lóðum úthlutað, aðeins félög. Árið 2021 fengu fjórir einstaklingar lóðir en enginn eftir það. Það er útúrsnúingur að segja að nóg sé af lóðum í Reykjavík og láta eins og þær séu aðgengilegar einstaklingum sem og félögum. Það er einfaldlega ekki rétt.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 26. júní 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úthlutun lóða til einstaklinga, sbr. 60. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. maí 2023.

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvort útilokað sé að einstaklingar fái lóð í Reykjavík hvort sem það sé lóð fyrir eigið hús eða fjöleignarhús í samvinnu við aðra einstaklinga. Hér er það staðfest að þetta má og er hægt en samt er hvergi að sjá sl. tvö ár að einstaklingar eða litlir hópar hafi fengið lóðir. Einstaklingar hafa þráspurt um lóðir og segja það vitavonlaust. Segir í svari að einstaklingar geti sótt um byggingarrétt á einni lóð fyrir einbýlishús (með eða án aukaíbúðar), raðhús/keðjuhús eða parhús. Tveir umsækjendur eða fleiri skulu standa saman að umsókn um parhúsa-/tvíbýlishúsalóð. Hjón og fólk í skráðri sambúð telst einn umsækjandi. Ef þetta er svona einfalt af hverju fá einstaklingar ekki lóðir?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 21. júní 2023:

Fram fer umræða um slæman frágang á hálfbyggðum lóðum í hverfinu. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun ráðsins um allnokkrar hálfkláraðrar byggingarlóðir í hverfinu sem eru til lýta og skapa slysahættu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bókað um þessa hluti og lagt til að farið verði í að laga þetta. Því miður hefur borgin ekki sett lóðareigendum neinar kvaðir um hvenær þeir skuli hafa lokið við að byggja á lóðum sem þeim hefur verið úthlutað. Þessu þarf að breyta. Skilmálar þurfa að vera skýrir og ákveðinn frestur gefinn um að bygging skuli hafa risið eftir að lóð er afhent. Lóðir ætlaðar íbúðabyggingum eiga ekki að vera ruslahugar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 22. júní 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir erindi stjórnar Foreldrafélags Austurbæjarskóla sem óskar eftir því að lagfæringum og endurbótum á skólalóð Austurbæjarskóla verði ekki slegið á frest heldur verði staðið við það sem áætlað var og lóðin tekin í gegn. Segir í erindinum að mikil þörf sé á viðhaldi og gagngerum endurbótum á lóðinni sem er farin að láta verulega á sjá. Hér er um öryggismál að ræða og þegar kall af þessu tagi kemur og varðar börn á að bregðast strax við. Vísað er í að niðurstöður skólaþings sem fram fór í Austurbæjarskóla á síðasta skólamisseri sýna að nemendur í Austurbæjarskóla telja aðgengi inn í skólann of auðvelt, hver sem er geti gengið inn á lóðina og margir upplifi óöryggi í því samhengi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að komið verði upp öryggismyndavélum á leiksvæðum barna í borginni, þ.m.t. í skólum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. júní 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins telur að finna þurfi leiðir til að bjarga Tjarnarbíó með öllum ráðum og dáð. Fulltrúi Flokks fólksins man eftir að hafa fyrir meira en hálfri öld séð í Tjarnarbíói „Síðasti bærinn í dalnum“ sem segir og sýnir hvað Tjarnarbíó er rótgróið í lífi og menningu stórs hóps Íslendinga. Finna þarf framtíðarlausn. Fulltrúi Flokks fólksins skorar á meirihlutann að sýna ábyrgð í þessu máli svo ekki komi til lokunar þessa mikilvæga menningarhúss í haust og til að tryggja framtíðarstefnu fyrir sjálfstæða sviðslistastarfsemi í Reykjavík.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 9. maí og 6. og 16. júní 2023: Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar frá 16. júní:

Það eru út af fyrir sig ekkert góðar fréttir að brennanlegt sorp sé flutt til útlanda og brennt þar og hitaorkan nýtt. Eðlilegra væri að þetta væri nýtt hérna og t.d. orkunni veitt inn í núverandi hitaveitur. SORPA ásamt öðrum sorpsöfnunarfyrirtækjum á Suðvesturlandi ætti að einhenda sér í að koma upp tæknilegri brennslustöð. Hátæknisorpbrennslustöðvum fylgja fjölmargir kostir. Með því að brenna sorp í hátæknibrennslustöð er sorpinu breytt í nýtanlega orku, raforku og hitaorku. Þá skila nýjustu hátæknisorpbrennslustöðvarnar tiltölulega lítilli loftmengun, langt innan þeirra marka sem leyfileg eru. Ef þetta væri gert, ásamt moltugerð og metansöfnun, yrði urðun lítil.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

Í kjölfar innleiðingar nýs flokkunarkerfis sorphirðu standa borgarbúar frammi fyrir nýjum áskorunum varðandi flokkun sorps. Sérstaklega þurfa mörg fjölbýlishús sem eru með sorprennur og sorpgeymslur innandyra að huga að því að flytja sorptunnugeymslur úr sameign og út á lóð og þurfa því að leggja í töluverðan kostnað vegna hönnunar og byggingar sorpgerða á sínum lóðum. Hönnun og umsóknir um leyfi fyrir byggingu sorpgerða getur tekið töluverðan tíma. Taka þarf á deilum um staðsetningar og útlits sorpgerða á lóðum fjölbýlishúsa sem upp kunna að koma. Þetta flokkunarkerfi er löngu tímabært og þarf Reykjavíkurborg að vera með staðlaða hönnun og vel skilgreinda verkferla varðandi uppsetningu sorpgerða við fjölbýlishús. Það auðveldar húsfélögum að bregðast við þessari innleiðingu flokkunarkerfis sorps. Það er að mörgu að huga í þessu, t.d. aðgengi án tillits til líkamlegs atgerfis, aðgengi við fjölbýlishús sérstaklega og að hreinsað sé við tunnur á vetrum og þær tæmdar á réttum tímum. SORPA nýtur ekki trausts hjá öllum vegna fyrri mistaka sem kostað hafa borgarbúa ómældar fjárhæðir. Finna þarf leiðir til að ávinna traust ef þess er kostur og það tekur tíma. Skemmst er að minnast afdrifa mjólkurferna sem fólk hélt í góðri trú að væru endurunnar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 21. júní 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 16. og 18. lið fundargerðarinnar:

Of sjaldan eru foreldrar spurðir t.d. um hvort þeir fái fullnægjandi þjónustu hjá velferðarsviði eða hvort þeim líki hún. Nú bíða 2.511 börn eftir fagþjónustu skóla og Flokki fólksins er umhugað um hver sé staða barnanna og foreldra þeirra. Fram kemur að í gangi sé samtal við foreldra þessara barna en gera átti könnun sem var frestað. Flokkur fólksins hvetur velferðaryfirvöld ekki aðeins til að gera þjónustukönnun heldur einnig til að fara að taka af alvöru á þessum sístækkandi biðlista. 18. liður 18: Spurt var um reglur Félagsbústaða þegar íbúðir þarfnast viðgerðar og þegar leigjandi verður að dvelja í henni á meðan enda eigi hann ekki í önnur hús að venda. Að mestu leyti virðast reglur vera sanngjarnar. Umfram allt þarf að vinna í samráði við leigjendur að íverustað þegar viðgerð stendur yfir hvort sem þær eru smávægilegar eða stórar. Sýna þarf lipurð. Leigjandinn einn veit hvort hann treystir sér til að vera í íbúðinni á  meðan verið er að t.d. mála eða skipta um dúk. Gæta þarf þess að fara ekki of geyst í forræðishyggju og ákveða hvað leigjanda er fyrir bestu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið yfirlitsins:

Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir erindi frá Samtökum hjólabúa sem fara þess á leit við Reykjavíkurborg að farið verði nú þegar í að finna varanlega staðsetningu fyrir langtímastæði hjólhýsa, húsbíla og annarra slíkra tækja og auðvitað sé það gert í samstarfi við hjólabúa. Óvissa hefur árum saman ríkt um málefni hópsins sem hefur mátt þola að vita aldrei hversu lengi þeir fá að vera á hjólasvæðum. Nú er hópurinn sem var í Laugardalnum kominn á tímabundið stæði við Sævarhöfða sem er ekki boðlegt til langtíma búsetu. Komið er nóg af þessari óvissu og hefja þarf vinnu við að finna varanlega lausn. Flokkur fólksins lagði til árið 2018 að borgin tilgreindi svæði fyrir hjólhýsi og húsbíla til framtíðar í nálægð við alla helstu grunnþjónustu í Reykjavík.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgang að smáforritinu Bara tala:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að kaupa aðgang fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar að smáforritinu Bara tala sem er stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni, að fengnu kostnaðarmati fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS23060218

Greinargerð
Með smáforritinu Bara tala geta notendur spreytt sig á samtölum á íslensku en forritið hlustar á notendur tala, æfir þá í framburði og veitir endurgjöf í rauntíma. Boðið er upp á grunnnámskeið og vinnusértækt efni í forritinu þannig að námsefnið er miðað að þörfum starfsfólks. Það þýðir að starfsmaður á leikskóla fær ekki sama námskeið og starfsmaður í sundlaug. Íslenskukunnátta fólks af erlendum uppruna er lykillinn að farsæld, hamingju og framgangi þeirra í okkar þjóðfélagi. Í dag eru innflytjendur á Íslandi 22% af íslenskum vinnumarkaði og því bráðnauðsynlegt að efla íslenskukennslu og stórauka aðgengi fólks að henni Móttaka barna og fullorðinna af erlendum uppruna er eitt stærsta verkefnið sem blasir við íslensku samfélagi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta athyglisvert forrit og telur að það geti án efa verið nýjum samborgurum hjálplegt og lykillinn að aukinni og innihaldsríkari þátttöku þeirra í samfélaginu.

Frestað.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins hvað margir eru á 2511 barna biðlista sem eru af erlendu bergi brotin

2.511 börn eru nú á biðlista eftir fagfólki í skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Þessi tala hefur hækkað jafnt og þétt með hverri viku en til samanburðar má benda á að árið 2018 voru ca. 400 börn á sama biðlista. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um það hversu mörg börn á þessum lista eru börn umsækjenda um alþjóðlega vernd, börn flóttamanna eða annarra innflytjenda sem komið hafa til landsins síðastliðin 3-5 ár. MSS23060221