Borgarráð 3. mars 2022

Bókun Flokks fólksins við tillögu starfshóps um samhæfingu og samþættingu á mörkun Reykjavíkurborgar um gerð samræmdra leiðbeininga og reglna:

Það er löngu tímabært að samhæfa grafíska hluti eins og hér er lagt til og sætir eiginlega furðu af hverju það hafi ekki verið fyrir löngu gert. Eins sætir það furðu að ekki skuli enn vera komnar samhæfðar undirskriftir í pósthólf starfsmanna borgarinnar. Það er fyrir löngu komið sem dæmi í ráðuneytunum.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu staðgengils borgarstjóra, dags 22. febrúar 2022 um að fylgja eftir  tillögum í minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Strategíu frá 31. janúar 2022 um stjórnkerfisbreytingar:

Fram kemur að fasteignamál eru í ólestri og bæta þarf úr því, sem er til bóta. Og svo kemur fram að skoða þarf framlínuþjónustu borgarinnar í heild sinni og hlutverk og ábyrgð þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) og annarra sviða í því samhengi. Tíu milljarðar til ÞON hafa sem sé litlu skilað i framlínu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt það skipulagsleysi og skort á eftirfylgni sem ríkt hefur hjá ÞON um stafræna umbreytingu borgarinnar. Þetta svið er eitt af þeim kjarnasviðum sem skilgreind voru í stjórnkerfisbreytingum þessa meirihluta. Fulltrúi Flokks fólksins telur að markmið stjórnkerfisbreytinga hljóti að vera það að einfalda og skýra verkefni og stjórnsýslueiningar. Það er ekki raunin hjá ÞON. Í kjölfar þessara skipulagsbreytinga hefur hver skrifstofan ofan á aðra orðið til innan sviðsins ásamt fjölda innri deilda og millistjórnenda. Þessi flókna og ómarkvissa umgjörð sviðsins endurspeglast síðan í því að verkefni daga uppi í uppgötvunar- og þróunarfösum í tilraunasmiðjum sviðsins. Lítið samhengi er á milli þeirra fjármuna sem búið er að ausa í sviðið og þeirra lausna sem komnar eru í notkun. Það er alveg ljóst að þessar skipulagsbreytingar sem varða þjónustu- og nýsköpunarsvið hafa misheppnast.

 

Bókun Flokks fólksins við  bókun Sambands íslenskra sveitarfélaga að taka undir yfirlýsingu Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, um að evrópskir sveitarstjórnarmenn fordæmi brot á sjálfstæði og sjálfræði Úkraínu og lýsi yfir stuðningi og samstöðu með sveitarfélögum í Úkraínu og íbúum þeirra.

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun Evrópusamtaka sveitarfélaga og vill bæta því við að ömurlegt er til þess að hugsa að stríð sé hafið í Evrópu. Innrás Rússa í Úkraínu er brot á alþjóðalögum. Öryggi fólks verður að tryggja eins og nokkur kostur er. Vesturlönd eru sem betur fer að beita refsiaðgerðum og sýna Úkraínu stuðning. Þar hefur Ísland ekki verið eftirbátur annarra. Stjórnvöld á Íslandi ætla að standa sína plikt og taka á móti fólki frá Úkraínu. Þeir sem líða og fara verst út úr þessu er fólkið – eldra fólk, minnihlutahópar og börnin sem mörg hver bíða þess aldrei bætur að hafa upplifað reynslu af þessu tagi og munu ekki öll lifa þessar hörmungar af. Samúð borgarfulltrúa Flokks fólksins og Flokks fólksins alls er hjá fólkinu sem einn morguninn vaknaði upp við að ráðist hafði verið inn í land þeirra. Flokkur fólksins fordæmir þessa innrás með afdráttarlausum hætti og vonar að refsiaðgerðir bíti. Við eigum að taka þátt í aðgerðum með Evrópusambandinu með vestrænum lýðræðisríkjum af fullum þunga. Það verður að vera hægt að leysa þetta mál með öðrum hætti en stríðsrekstri, annað er óhugsandi.

 

Bókun Flokks fólksins við svarið við fyrirspurn um bréfaskipti innviðaráðuneytisins:

Óskað var eftir að borgarráð fái öll bréfasamskipti innviðaráðuneytisins (áður samgöngu- og
sveitarstjórnarráðuneytið) til ESA og frá ESA vegna uppgjörsreglna Félagsbústaða. Gögnin bárust í beinu framhaldi og fylgja með svari þessu til borgarráðsmanna.
Ítarlegar kröfur ESA sem fram koma í bréfum stofnunarinnar til ráðuneytisins um upplýsingar sýna best alvarleika málsins. Afar mikilvægt er að þarna verði allar upplýsingar og skýringar lagðar fram.
Ekki er ólíklegt að einhverjir eigi eftir að svitna við að svara þeim ítarlegu kröfum ESA um skýringar sem fram koma í bréfi stofnunarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til erlendra vefmiðla og veitna, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. janúar 2022:

Spurt var hvað hefur Reykjavíkurborg greitt til erlendra vefmiðla á borð við Facebook, Google og annarra veitna fyrir auglýsingar á árunum 2019, 2020 og 2021. Umhugsunarvert er hversu miklu er eytt í auglýsingarnar, um 5 milljónir á ári. Nokkur atriði vekja athygli sérstaklega og það er upphæðin sem menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur (MOF) eyðir í auglýsingar bæði hjá Facebook og Google. Eins er eftir því tekið hvað Þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) hefur eytt í Facebook-auglýsingar eða 335.944 á árinu 2021. Þetta er þriðja hæsta upphæðin, hæst er menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur og Ráðhúsið. Er ekki hægt að auglýsa í innlendum miðlum?

 

Bókun Flokks fólksins við svari við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ferðakostnað yfirstjórnar, sbr 60. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um ferðakostnað yfirstjórnar. Birtar eru tölur á árunum 2017 til 2021. Borgarstjóri hefur verið langmest á faraldsfæti og munar miklu í næsta „mann“. Kostnaður hríðféll þegar COVID skall á eðli málsins samkvæmt. Fulltrúi Flokks fólksins væntir þess að horft verði með öðrum augum á ferðalög erlendis í framtíðinni og að úr slíkum ferðum verði dregið verulega. Fjármagn sem farið hefur í ferðir af ýmsu tagi er vel þegið í að grynnka á biðlistum barna til skólasálfræðinga. Nú er fólk orðið vel fært í fjarfundatækni og horfa þarf einnig á kolefnissporin. Heimurinn er ekki samur og að því þurfa allir að aðlaga sig, líka borgarstjóri.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skólaforðun, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. febrúar 2022:

Í svari kemur fram að ekki sé hægt að svara þessari fyrirspurn af hálfu borgarráðs með tilvísun í 2. mgr. 12. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en þar segir að „sveitarstjórn og fastanefnd er eingöngu heimilt að afla upplýsinga frá barnaverndarþjónustu sem eru nauðsynlegar fyrir yfirstjórn hennar. Með vísan til ofangreinds verður fyrirspurninni ekki svarað á vettvangi borgarráðs.“ Fulltrúi Flokks fólksins hefur þar af leiðandi lagt fyrirspurnina fram í velferðarráði 2. mars. Hún er eftirfarandi: Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum frá velferðarsviði um hve mörg tilfelli hafa verið tilkynnt til Barnaverndar sem tengjast skólasókn nemenda (skólaforðunarmál), þ.m.t. leyfin.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. mars 2022, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. febrúar 2022, við fyrir fyrirspurn eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 3. desember 2021:

Flokkur fólksins lýsir sérstökum áhyggjum yfir því að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga telji ástæðu til þess að óska sérstaklega eftir upplýsingum um reikningsskilaaðferð á fasteignum Félagsbústaða hf. í samstæðureikningi Reykjavíkurborgar. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og að hafa eftirlit með því að fjármálastjórn sveitarfélaga sé í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Leiði athugun nefndarinnar í ljós að afkoma sveitarfélags sé ekki í samræmi við ákvæði laganna eða að fjármál sveitarfélagsins stefni að öðru leyti í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarstjórn og kalla eftir skýringum. Þær ábendingar sem koma fram í bréfi nefndarinnar til Reykjavíkurborgar, dags. 3. desember 2021, eru þess eðlis að óhjákvæmilegt er að fá skorið úr öllum álitamálum í þessu efni. Jafnframt skal bent sérstaklega á að í bréfi nefndarinnar kemur skýrt fram hve mikilvægt eftirlitshlutverk kjörinna fulltrúa er með fjármálum borgarinnar og hve þýðingarmikið það er að því sé komið á framfæri í sambandi við undirritun ársreiknings ef vafi leikur á um einstök atriði við uppsetningu eða útfærslu ársreiknings. Það hvetur fulltrúa minnihlutans til dáða við að vera óhrædda við að gera það sem fært er til að fá skorið úr álitamálum er varða reikningsskil Reykjavíkurborgar og frágang ársreiknings hennar.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra um uppbyggingu leikskóla:

Skortur á leikskólaplássum er búinn að vera meinsemd á kjörtímabilinu. Nú líður að kosningum og hefur verið hrist rykið af eldri tillögum og öðrum bætt við. Vöntun er á fjölmörgum plássum og enn er langt í land með að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hér er ekki um neinn hugmyndafræðilegan ágreining að ræða. Fulltrúa Flokks fólksins finnst leikskólar, starfsemi þeirra, viðmót og öll umgjörð til fyrirmyndar og börnum líður almennt vel í leikskóla sínum. Vandinn liggur í að skortur hefur verið á plássum, seinkun á inntöku barna og mannekluvandi hefur verið viðloðandi. Þetta hefur valdið fjölda foreldra miklu óöryggi og jafnvel angist. Börnum hefur fjölgað sem hefði mátt sjá fyrir enda þótt nokkur óvissa ríki um barnafjöldaspá næstu ára. Mikilvægt er að endurskoða uppbyggingaráætlunina reglulega með hliðsjón af raunfjöldaþróun og uppfærðum mannfjöldaspám. Framsýni og fyrirhyggju vantar hjá þeim sem stýra þessari skútu. Þegar upp er staðið hefur einfaldlega ekki verið sett nægjanlegt fjármagn í málaflokkinn þótt vissulega hafi verið bætt í. Bara ekki nóg. Forgangsraða þarf fjármagni borgarsjóðs með þarfir og þjónustu barna og foreldra þeirra að leiðarljósi sem og borgarbúa allra.

 

Bókun Flokks fólksins við 2. og 4 lið fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 23. febrúar 2022:

Verslunarhúsnæði við Bauhaus og málefni hverfisins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með fyrirspurnir um hvort ekki eigi nú að fara að koma á fót verslunum í hverfinu sem er orðið 15 ára. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 2. mars kom fram að allt væri í fullum gangi og lagði fulltrúi Flokks fólksins fram eftirfarandi bókun í því sambandi: Tillögu Flokks fólksins um að borgar- og skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir að matvöruverslun/-verslanir komi í Úlfarsárdal hefur verið vísað frá. Úlfarsárdalur, hverfið er 15 ára og enn bólar ekki á matvöruverslun né kaffihúsum og skyndibitastöðum. En í svari segir að margar lóðir séu skipulagðar til að sinna þessu og „öll húsin á lóðinni eru í uppbyggingu núna“. Eru 15 ár ekki nægjanlega langur tími til að taka ákvörðum um matvöruverslun og getur verið að eitthvað annað hamli uppbyggingu, svo sem að langur tími fer í ganga frá göngustígum? Hverjar svo sem ástæður eru fyrir að hverfið er ekki orðið sjálfbært er kominn tími til að spýta í lófana þarna. Tillögu þessari er vísað frá í skipulags- og samgönguráði.

 

Bókun Flokks fólksins við 6. lið fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 24. febrúar 2022:

Málefni þessa hverfis, Háaleitis- og Bústaðahverfis, hafa verið mikið til umræðu í fjölmiðlum og ekki síst fyrir það að borgaryfirvöld hafa tilkynnt opinberlega að fallið sé frá hugmyndum um þéttingu byggðar við Bústaðaveg enda kom í ljós að samkvæmt skoðanakönnun mátti ætla að ⅔ hlutar íbúa í nærliggjandi hverfi væru andvígir áformum um þéttingu byggðar við Háaleitisbraut og Miklubraut. Aðeins færri voru andvígir skv. könnuninni að Miklubraut væri lögð í stokk. Í nóvember sendu íbúar við Heiðargerði norðanvert undirskriftalista til hverfisskipulags þar sem 97% eigenda húsa á svæðinu mótmæltu fyrirhuguðum áætlunum um byggingu blokka milli Heiðargerðis og Miklubrautar. Færð eru ítarleg rök fyrir andstöðunni. Í lok bréfs skora undirritaðir íbúar á borgarstjóra að falla frá öllum áætlunum um uppbyggingu á fjölbýlishúsum við Heiðargerði. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort íbúaráðið hafi fjallað um þetta bréf/mál.

 

Lögð fram tillaga um að borgarráð beini því til stjórnar Strætó að halda áfram að nota eldri greiðsluaðferðir þar til reynsla er komin á nýtt greiðslukerfi

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til borgarráð samþykki að beina því til stjórnar Strætó að samþykkja að hægt verði að nota eldri greiðsluaðferðirnar áfram þar til reynsla er komin á nýtt greiðslukerfi Strætó; Klapp en 1. mars sl. hætti Strætó bs. að taka við pappírsfarmiðum í Strætó og veitti frest til 16. mars til að ganga að fullu inn í Klapp greiðslukerfið. Óskað er eftir að stjórnin skoði jafnframt að setja upp sölu á strætómiðum t.d. í Mjódd og á Hlemmi.

Greinargerð

Ekki eiga  allir tölvur eða snjall/farsíma og geta þar að leiðandi ekki notað Klapp og Mínar Síður. Hér má nefna t.d. ákveðinn hóp fatlaðra, eldra fólks og fólks af erlendum uppruna t.d. hælisleitendur sem ekki tala tungumálið, eru ekki með kennitölu og eiga ekki rétt á að sækja um rafræn auðkenni. Boðið er áfram upp á miða en þá er aðeins hægt að prenta út  ef farið er inn á „Mínar síður“. Klapp tíu er annar valkostur sem er spjald með tíu miðum. Ekki er hægt að fylla aftur á KLAPP tíu. Eitthvað áfram er hægt að greiða með reiðufé en þá tapar fólk afslætti. Þeir sem eiga enn miða og komast ekki upp á Hestháls eiga að senda þá í pósti til að fá inneign.  Áður þarf viðkomandi að stofna aðgang að „Mínum síðum“.

Klapp nýja greiðslukerfi Strætó hefur valdið sumu fólki vandræðum. Áður hefur fulltrúi Flokks fólksins bent á athugasemdir fatlaðs fólk um Klapp en einungis er hægt að skrá sig með  rafrænum skilríkjum. Ákveðinn hópur fatlaðra og einnig eldra fólks, innflytjenda og hælisleitenda er ekki með rafræn skilríki. Enn er hópur fólks aðeins með peningaseðla. Það kann vel að vera að  kerfi sem þetta sé í notkun um allan heim og hér er ekki verið að leggja til að ekki eigi að setja það á í Reykjavík. Þetta er spurning  um milda innleiðingu á meðan fólk er að aðlagast breytingum og á meðan að verið er að finna lausnir fyrir þá sem ekki eru tölvu- eða farsímavæddir eða með rafræn auðkenni. Í þessari umbreytingu er notendavirkni einfaldlega ekki nægjanlega úthugsuð. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir því að Strætó bs. endurskoði framkvæmdina og að þessu sinni út frá þjónustuþegum.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ekki tímabært að loka á möguleikann að nota pappírsmiða. Til að fá þjónustu/aðstoð við þessi mál t.d. þá sem ekki treysta sér að kaup inneign í gegnum síma,  er fólki gert að fara upp á Klettháls.

Fólk af erlendum bergi sem t.d. talar ekki tungumálið á erfitt með þessar breytingar. Hópur fólks, hælisleitendur eru ekki með kennitölu og þar að leiðandi ekki rafrænt auðkenni og getur því ekki notast við Mínar síður. Margt fólk, t.d. hælisleitendur búa í Breiðholti og er Mjóddin skiptistöð fyrir marga. Þetta fólk á erfitt með að finna leið upp í Hestháls.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort haft hafi verið samband við börnin á biðlistum og foreldra þeirra til að kanna með hvernig þau eru að höndla biðin:

Á biðlista eftir fagþjónustu hjá Skólaþjónustunni eru 1804 börn og yfir 1000 börn þar af bíða eftir sálfræðiaðstoð. Sum börn hafa beðið mánuðum saman og jafnvel lengur. Rannsóknir og skýrslur sýna að vanlíðan barna fer vaxandi. Það er mikið áhyggjuefni. Rannsóknir hafa einnig ítrekað sýnt að vandi barna, sem fá ekki viðhlítandi sálfræði- og geðlæknaþjónustu, er líklegur til að vaxa. Barn, sem þarf að bíða lengi eftir nauðsynlegri þjónustu vegna andlegrar vanlíðunar er í mun meiri áhættu á að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða og sjálfsvígshugsana. Á meðan á langri bið stendur getur mál sem flokkað er að „þoli bið“ orðið að bráðamáli. Fullvíst er að þegar mál er orðið að bráðamáli hefur vandinn átt sér aðdraganda og fengið að krauma á meðan á bið eftir þjónustu stendur. Bið getur kostað líf og því miður hefur það jafnvel raungerst. Fulltrúi Flokks fólksins óskar því eftir upplýsingum um það hvort rætt hafi verið við þau börn og foreldra þeirra sem bíða eftir fagþjónustu Skólaþjónustu og kannað hvernig þau eru að höndla biðina? Ef svo er ekki, hyggst Reykjavíkurborg ráðast í slíka könnun? MSS22030042