Borgarstjórn 15. febrúar 2022

Mál fulltrúa Flokks fólksins á fundi borgarstjórnar 15. febrúar 2022 og bókanir

Tillaga Flokks fólksins að borgarstjórn samþykki að hefja skógrækt frá Reykjavík að Hengli

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að hefja skógrækt til kolefnisjöfnunar allt frá Græna treflinum við Rauðavatn (skógræktaráætlun höfuðborgarsvæðisins) að Hengli. Hér á landi eru þegar til trjátegundir sem myndu þrífast vel þarna. Svæðið er í lögsögu nokkurra sveitarfélaga. Lagt er til að meirihlutinn nýti sér aðgang sem hann hefur að nágrannasveitarfélögunum til að koma málinu áfram. Hér yrði um ódýra stórframkvæmd að ræða en ávinningur mikill. Nýta mætti óseljanlega moltu sem verður til í SORPU sem áburð við útplöntun.

Með þessu verkefni yrðu nokkrar flugur slegnar í einu höggi. Mikið kolefni yrði bundið og SORPA losnar við óseljanlega moltu. Reykjavík myndi jafna kolefnisútblástur sinn og dregið yrði úr þeirri svifryksmengun í Reykjavík sem á uppruna sinn á Suðurlandi. Stórskógur yrði til sem gefur möguleika á nýtingu í atvinnuskyni í framtíðinni.

Greinargerð

Minnst er á skógrækt í loftlagsstefnu höfuðborgarsvæðisins og þessi tillaga fellur að þeim markmiðum.

Tré draga kolefni úr lofti og binda það í trjáviði. Að auki binst aukið kolefni í jarðvegi þegar skógur myndast. Hægt verður að fá það vottað að þessi aðgerð sé kolefnisjafnandi. Mjög líklega yrði með þessu bundið mun meira kolefni en t.d. á að gera með Carbfix aðferðinni.

Svæðið sem hér um ræðir er talið vera rýrt og því er líklegt að auka þurfi framboð á plöntunæringarefnum en það er alveg ljóst að hér á landi eru þegar til trjátegundir sem myndu þrífast vel þarna.

Verkefnið nær ekki aðeins yfir það land sem tilheyrir Reykjavík heldur einnig yfir nágrannasveitarfélög svo og Ölfus. En það ætti ekki að vera vandamál þar sem meirihlutinn í Reykjavík hefur þegar greiðan aðgang að nágrönnum í gegnum samráðsferla í Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og á landsvísu. Um þetta þarf ekki að stofna byggðarsamlag heldur aðeins ná samkomulagi um stefnu og aðgerðir.
Meirihlutinn hefur  greiðan aðgang að stjórnun SORPU og gæti talað fyrir málinu þar.

Allt þetta svæði er að mestu tiltækt fyrir skógrækt. Um 12 þúsund hektarar af þessu svæði eru að vísu beitarhólf tómstundabænda höfuðborgarsvæðisins. Það beitarhólf má færa til með nýjum girðingum og enda að lokum þar sem kindur borgarbúa bíta í lundum nýrra skóga.

Með þessu verkefni yrðu nokkrar flugur slegnar í einu höggi. Mikið kolefni yrði bundið, moltan frá SORPU fengi tilgang og stórskógur gæfi möguleika á nýtingu í atvinnuskyni í framtíðinni. Síðast en ekki síst Reykjavík myndi jafna kolefnisútblástur sinn.

Fram hefur komið að svifryk frá Suðurlandi veldur svifryksmengun í Reykjavík. Stórskógur austur af Reykjavík myndi draga úr því.

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum Flokks fólksins og Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúi Miðflokksins sat hjá við afgreiðslu málsins.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins:

Þessi tillaga, um að hefja skógrækt frá Reykjavík að Hengli er felld af meirihlutanum. Tillagan fellur engu að síður afar vel að loftlagsstefnu Reykjavíkurborgar. Aðferðin, þ.e. að rækta skóg er viðurkennd aðferð/aðgerð til kolefnisjöfnunar. Meirihlutinn fellir hana engu að síður.  Tillögunni um að hefja skógrækt frá Reykjavík að Hengli er fundið flest til foráttu.  Ekki er minnst á ávinninginn í málflutningi meirihlutafulltrúans sem segir að tillaga feli í sér að ætla að ráðskast með önnur sveitarfélög en Reykjavík geti ekki sagt öðrum sveitarfélögum fyrir verkum.
Fulltrúi Flokks fólksins minnir á að Reykjavík er aðili að Samtökum Sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Halda mætti að sá vettvangur ætti að geta nýst til að kynna þessa tillögu og heyra hljóðið ofan í nágrannasveitarfélögunum?
Varla þarf að óttast heldur að ræða við Ölfus.  Ef svona mikil hræðsla er við samtal við nágrannasveitarfélögin, hvað þá Ölfus þá getur Reykjavíkurborg allavega plantað í það land sem er í lögsögu hennar, skyldi maður halda.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um umræða um samræmingu sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu:

Loks á að hefja metnaðarfulla flokkun á söfnunarstað og þá er engu til sparað. Árið 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins til í borgarráði að Reykjavíkurborg setti á laggirnar þriggja tunnu flokkunarkerfi og þetta ár voru einnig lagðar fram fyrirspurnir, bókanir og tillögur um að sveitarfélög stæðu saman að sorphirðu. Algert skilningsleysi var í borgarráði og borgarstjórn á þessu máli þá. Búið er að fara afspyrnu illa með fjármagn eigenda þessa bs. fyrirtækis sem er að stærsta hluta í eigu Reykvíkinga. Nú hækka gjöldin svo um munar sem kemur verst niður á þeim efnaminnstu. Árið 2019 var plan SORPU að flokkun færi fram í SORPU. Í GAJU átti að flokka á endastöð frekar en við upphafsstöð, svo sem með vindvélum, seglum o. fl. sem gekk ekki eftir eins og ætlað var. Tapast hefur mikill tími og fé sóað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með tillögu um að þeir sem sitji í stjórn SORPU hafi til þess sérþekkingu til að varna frekari mistökum. Ef hlustað hefði verið á varnaðarorð fjölmargra þá væri SORPA fyrir löngu komin með almennilegt flokkunarkerfi fyrir heimilin og aðra sem þurfa að henda úrgangi og GAJA gæti búið til söluhæfa moltu og safnað metani. Skuldastaða SORPU væri betri.

 

Bókun Flokks fólksins við umræða um húsnæðismál í Reykjavík:

Húsnæðismálin eru að verða stærsta málið í borginni að því leyti að áþreifanlegur og sársaukafullur skortur er á húsnæði af öllu tagi í borginni. Það vantar almennt meira af nýjum íbúðum og þess vegna hefur verðbólgan rokið upp. Verðhækkanir eru m.a. tilkomnar vegna lóðaskorts. Húsnæðisvandinn er heimagerður vandi. Sjálfsagt er að þétta og stendur Flokkur fólksins að baki þéttingarstefnu upp að skynsamlegu marki. En eins og framkvæmdin hefur verið á þéttingarstefnunni er ljóst að hún hefur leitt til spennu á fasteignamarkaði, mikið til vegna þess að ekki hefur verið ljáð nægilega máls á að gera annað og meira en að þétta. Hátt verð  þýðir að framboð er ekki nægjanlegt. Auka þarf lóðaframboð. Núna hefði t.d. verið unnt að skipuleggja svæði utan við borgina, og utan þéttingarsvæða. Litlar íbúðir á þéttingarsvæðum eru dýrar. Á þeim hafa hvorki námsmenn, fyrstu kaupendur né þeir sem minna hafa milli handanna efni á. Meirihlutinn í borginni hefur brugðist við þessari staðreynd með varnarræðum. Reynt hefur verið að kenna bönkunum og  verktökum um. Leiga hækkar í takt við fasteignaverð. Borgarmeirihlutinn hefur ekkert beitt sér fyrir að setja þak á leiguverð.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Fulltrúi Flokks fólksins styður að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að neyðarskýli borgarinnar verði opin allan sólarhringinn í stað núverandi fyrirkomulags frá 17:00 til 10:00. Sumir sem leita í skýlin hafa engan samastað að degi til annan en götuna. Meirihlutinn  leggur til að vísa tillögunni í stýrihóp. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ekki lofa góðu um framvindu málsins ef horft er til reynslunnar með málsmeðferðartillögur meirihlutans af þessu tagi.

 

Bókun Flokks fólksins við  fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar:

Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er ekki góð. Veltufé frá rekstri er neikvætt sem þýðir að tekjur A-hlutans nægja ekki til að greiða útgjöld hans. Eins og fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er í dag er ljóst að æ erfiðara verður að finna peninga til að fjármagna mikilvæga grunnþjónustu. 1804 börn bíða eftir fagaðilum skólanna, sálfræðingum og talmeinafræðingum helst. Erfiðast er þó að horfa upp á hversu illa víða er farið með fjármagn borgarbúa í borgarkerfinu. Víða er bruðl og sóun.

Skýrasta dæmi er útstreymi fjármagns frá þjónustu- og nýsköpunarsviði (ÞON) í fjölmargar snjalllausnir sem ekki eru brýnar og hvernig sviðið undir stjórn meirihluta mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs vill sífellt finna upp hjólið.  Hvers vegna hefur Reykjavíkurborg líkt og önnur sveitarfélög og stofnanir ekki nýtt sér gæði og hagkvæmni rammasamnings Ríkiskaupa um rafrænar undirskriftir í stað þess að gera kostnaðarsama sérsamninga við Dokobit? Sviðið getur auðvitað svarað þessari spurningu hvernig sem er. Annað dæmi er að sviðið þáði heldur ekki boð Ríkiskaupa um samstarf í útboði vegna Microsoft leyfa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að meðhöndlun fjármagn þjónustu- og nýsköpunarsviðs verði skoðað af innri endurskoðun sem hefur þá ábyrgð og skyldur að hafa eftirlit með því að vel og skynsamlega sé farið með útsvarsfé borgarbúa.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er margoft búið að hrekja þessar ósmekklegu og endurteknu ásakanir á hendur þjónustu- og nýsköpunarsviði. Spurningu um rafrænar undirritanir hefur verið svarað skriflega. Verkefnin sem heyra undir stafræna umbyltingu eru tilnefnd af sviðunum og svo forgangsraðað út frá gagnsæjum viðmiðum.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er alltaf jafn hissa á meðvirkninni sem ríkir í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði, meirihluta þess. Það skortir algerlega á gagnrýna hugsun. Því hefur ekki verið svarað með rökum af hverju ekki var gengið til samninga við Ríkiskaup  eins og mörg önnur sveitarfélög gerðu um rafrænar undirskriftir í stað þess að gera kostnaðarsama sérsamninga við Dokobit.  Í þessu tilfellu þarf heldur betur ekki að fara í tilraunafasa, uppgötvunarfasa eða þróunarfasa enda rafrænar undirskriftir  ekki nýjar á nálinni.

 

Bókun Flokks fólksins við 17. lið fundargerðarinnar frá 10. febrúar; Knarrarvogur 2 – kaup á fasteign

Að eyða 460 milljónum til að kaupa hús til niðurrifs fyrir borgarlínu þegar fyrirtækið Betri samgöngur ohf. á að fjármagna borgarlínuverkefnið hlýtur að vera á gráu svæði vægast sagt og þar að auki virðist verðið fyrir niðurrifið vera mjög hátt. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki ganga upp. Það skýtur skökku við að Reykjavíkurborg sé að verja hálfum milljarði af skattfé borgarbúa í að kaupa húsnæði til niðurrifs til að búa til rými fyrir borgarlínu. Fyrirliggjandi er verðmat tveggja aðila sem er langt fyrir neðan það kaupverð sem liggur fyrir í gögnum.  Hér er því verið að greiða yfirverð fyrir eign sem á að rífa undir borgarlínu.

Samþykkt með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins:

 

Bókun Flokks fólksins undir 6., 7, og 8.  lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs 10 febrúar 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurnir um skóla- og íþróttamál í Laugardal m.a. um íþróttakennslu,  um upplýsingagjöf til foreldra vegna framtíðarskipulags skólamála í Laugardal og spurt var einnig um kostnaðargreiningu vegna skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfis. Skemmst er frá því að segja að af svörum að dæma er nákvæmlega ekkert að frétta af þessum málum. Ekkert er vitað og ekkert liggur fyrir. Skýrsla starfshópsins um sviðsmyndir var send í umsagnarferli til hinna ýmsu aðila og var skilafrestur 1. febrúar. Hinn 10. janúar var málið lagt fram á fundi íbúaráðs Laugardals. Ekki er séð að fundað hafi verið síðan í íbúðaráðinu hvað þá að umsögn hafi borist. Þarf ekki að fara að ýta við þessu máli, drífa í að safna saman umsögnum og taka næsta skref? Þetta mál er á ábyrgð skóla- og frístundasviðs. Nú er kominn 15. febrúar.  Ekkert bólar heldur á kostnaðargreiningu vegna hugmynda  sem kynntar voru í skýrslu starfshópsins um skóla- og frístundastarf í Laugardal.