Bókun Flokks fólksins við tillögu um stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur DÝR:
Tillaga um Dýraþjónustu Reykjavíkur endurspeglar þá tímaskekkju að eftirlit með hundahaldi sé nauðsynlegt í Reykjavík. Slíkt fyrirkomulag telst úrelt í nágrannalöndunum og þróun verkefna Hundaeftirlits Reykjavíkur síðastliðin 20 ár er að verkefnum fækkar verulega, 159 hundar vistaðir í geymslu árið 2000, en aðeins 8 hundar allt árið 2018, og kvörtunum hefur fækkað um mörg hundruð niður í nokkra tugi. Samt sem áður hefur starfsgildum ekki fækkað sem er léleg nýting á fjármunum hundaeigenda. Að hundaleyfisgjöldin standi ekki undir kostnaði stenst ekki skoðun því ástæðan er launakostnaður starfsmanna sem hafa lítið sem ekkert að gera og sinna tilgangslausum verkefnum. Lausnin blasir við: leggja ætti niður Hundaeftirlitið. Skráning hunda hjá sveitarfélagi þjónar engum tilgangi enda eru allir hundar skráðir í landlægan gagnagrunn. Rök borgarinnar fyrir því að hafa fullan aðgang að þeim gagnagrunni til að vita hvar hver einasti hundur eigi heima, endurspeglar fordómafullt viðhorf gagnvart hundaeigendum. Nýja fyrirkomulagið hljómar eins og ekkert eigi að spara. Ekki á að leggja niður Hundaeftirlitið heldur er það fært til í þeirri von að skráningum fjölgi en þeim þarf að fjölga um 80% á þessum þremur „tilraunaárum“ ef dæmið á að ganga upp. Samráð við hagsmunaaðila er ekkert. Minnt er á hvað felst í lýðræði, Lýðræði snýst um að einstaklingarnir beri
hugmyndir sínar á borð á jafnréttisgrundvelli og ræði sín í milli hvernig best sé að haga hlutunum.
Bókun Flokks fólksins við tillögu um breytingu á gjaldskrá Hundaeftirlitsins:
Fulltrúi Flokks fólksins harmar þá niðurstöðu að halda eigi áfram að innheimta hundaeftirlitsgjald. Þótt um sé að ræða lækkun þá er þetta gjald óréttmætt, úrelt og lýsir fordómafullu viðhorfi í garð hunda og hundaeigenda. Spyrja má hvort lögfræðingur borgarinnar sé búinn að gera úttekt á því hvort þessar tillögur samræmist þeim lögum sem eru í gildi, þ.e. 7/1998 lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og 55/2013 lög um velferð dýra. Það er ekki verið að spara í rekstri hundaeftirlitsins. Það er ekki verið að breyta hundaeftirlitinu eða leggja það niður, það er bara verið að færa það til og gefa því nýtt nafn til að fá fleiri skráningar inn. Skráningum þarf að fjölga um 80% á þessum þremur „tilraunarárum“ til þess að útreikningar gangi upp. Hér ber fjármálastjóra að leiðbeina og þess utan hafa hagsmunaaðilar ekki fengið aðkomu að málinu annað en 20 mínútur í svo kallað „samráðið“ sem var í raun bara „spaug“ sennilega til að segja að þetta hafi verið soðið saman í samráði við hagsmunaaðila. Hér virðist ekkert hafa verið gert til að ná neinni sátt eða sameiginlegri niðurstöðu.
Bókun Flokks fólksins við svari skrifstofu borgarstjórnar, dags. 2. febrúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort fulltrúi frá hagsmunasamtökum t.d. félag ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélag Íslands yrði boðið sæti í stýrihópnum sem verið er að samþykkja af meirihlutanum á fundi borgarráðs 4. febrúar 2021:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvort fulltrúi frá hagsmunasamtökum t.d. félag ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélag Íslands yrði boðið sæti í stýrihópnum sem verið er að samþykkja af meirihlutanum á fundi borgarráðs 4. febrúar 2021. Nú liggur fyrir að engum fulltrúa frá hagsmunahópum/samtökum er boðið í stýrihópinn. Hagsmunasamtök hundaeigenda hafa markvisst og kerfisbundið verið skilin út undan í allri vinnu við endurskipulagningu á dýraþjónustu í borginni fyrir utan einhvern 20 mínútna fund sem var ekkert annað en málamyndasamráð. Ekkert af því sem hagsmunafélögin lögðu á borðið var hlustað á hvað þá tekið til greina. Hið svokallað samráð sem meirihlutinn í borginni státar sig af að hafa við borgarbúa og hagsmunasamtök er eins og hvert annað grín.
Bókun Flokks fólksins við svari skóla- og frístundasviðs, dags. 26. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um verklag um meðferð umsókna í Arnarskóla, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar 2021:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn um breytt verklag vegna þess að ekki lá skýrt fyrir í hverju breytingin á verklagi og ákvörðun um greiðslu framlags til sjálfstætt rekna sérskólans Arnarskóla fólst. Upp vaknaði sú hugsun hvort verið væri að gera foreldrum erfiðara fyrir með einhverjum hætti að sækja um fyrir barn sitt í þessum skóla en eins og vitað er hefur verið tekist á um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða fyrir vegna náms í Arnarskóla. Viðmið er nú 6 börn en var áður 4 börn og var barni hafnað eitt sinn á þeirri forsendu að það vantaði hið svokallaða ytra mat sem fulltrúa Flokks fólksins fannst nú bara vera fyrirsláttur. Aðalmálið er auðvitað að reglurnar séu sanngjarnar og heiðarlegar ef svo má að orði komast. Hagsmuni barns skal ávallt hafa að leiðarljósi og að í reglunum ætti að felast ákveðinn sveigjanleiki og tillitssemi gagnvart foreldrunum.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021, lið 2, aðaldeiliskipulag:
Fram kemur í gögnum að reynt verði að setja „fyrstu kaupendur“ (ungt fólk) í forgang að húsnæði við borgarlínuna. En þeir geta auðvitað selt eign sína. Ætlar borgin að skipta sér af því? Eru ekki allar íbúðir á opnum markaði? Hjólastígar: Lítið þýðir að tala um hjólastíga sem samgönguæðar ef þeim er ekki haldið við og vetrarþjónustu sinnt. Hugtakið líffræðileg fjölbreytni er misnotað í skýrslunni. Líf í einstökum beðum eða „grænum trefli“ hefur ekkert með líffræðilega fjölbreytni að gera. Í skýrslunni er hins vegar gert lítið úr áhrifum af stórfelldum landfyllingum við ósa Elliðaánna. Kolefnisspor: Í umhverfisskýrslunni segir: „Vistferilsgreiningar unnar hjá VSÓ Ráðgjöf sýna að kolefnisspor bygginga lækkar um 40% með því að velja timbur í stað steinsteypu“ Er þetta ekki einföldun? Steinsteypa endist í áraraðir, en timburbyggingar endast ekki lengi í röku loftslagi nema að þær verði fúavarðar. Til þess þarf eiturefni og þau þarf að taka með í reikninginn. Ef á að kolefnisjafna er hægt að rækta skóg á óbyggðum austursvæðum. Planta mætti langleiðina upp í Bláfjöll og Hengil.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð öldungaráðs frá 1. febrúar undir 3. og 7:
Heilsueflingu aldraðra hjá Reykjavíkurborg. Það er við hæfi að bóka undir liðum um heilsueflingu að tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir fólk á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja er vísað til velferðarráðs til frekari skoðunar. Sátt er um það í borgarstjórn. Staðan í dag er sú að ekkert sálfélagslegt úrræði er fyrir íbúana á reykvískum hjúkrunarheimilum og þeim sem búa heima stendur ekki slíkt til boða heldur. Gripið er til geðlyfja þegar ekkert annað úrræði býðst oft án þess að greining liggi fyrir. Aldraðir eru viðkvæmari fyrir aukaverkunum geðlyfja ef þeir eru samtímis að taka önnur lyf. Ótal ástæður verða til þess að andlegri heilsu getur hrakað með hækkandi aldri. Félagsleg hlutverk breytast og geta til athafna daglegs lífs minnkar. Tímabært er að velferðaryfirvöld borgarinnar stofni með formlegum hætti sitt eigið úrræði byggt á skipulagðri samtalsmeðferð með það að markmiði að hjálpa eldri borgurum að auka andlegan styrk og fá það mesta út úr lífinu. Farsóttin hefur þess utan bitnað illa á eldri borgunum sem hafa einangrast enn frekar. Hvað sem tæknilausnum líður þá geta þær ekki komið í staðinn fyrir tengsl fólks þegar það talar saman, maður við mann.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum hverfum borgarinnar en borgarhverfin eru 10:
Í ljósi nýútkominnar skýrslu um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík vill fulltrúi Flokks fólksins leggja aftur fyrir tillögu um að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum hverfum borgarinnar en borgarhverfin eru 10. Ástæða fyrir framlagningu tillögunnar nú er að í vinnu stýrihópsins var ekki uppbygging tónlistarkennslu í grunnskólum skoðuð samhliða en það hefði verið nauðsynlegt til að leita leiða til að draga úr ójöfnuði. Þegar kemur að tónlistarnámi á ójöfnuður rætur sína að rekja til bágs efnahags foreldra en einnig skorts á eftirspurn. Ef horft er til skólahljómsveita þá eru þær mikilvæg mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistanáms. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á t.d. píanókennslu sem ekki er á allra færi að stunda vegna mikils kostnaðar, gæti þátttaka í skólahljómsveit verið valmöguleiki. Þá er dregið úr ójöfnuði og mismunun á grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifæri til að stunda tónlistarnám. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram 19. september 2019 þá tillögu að skólahljómsveitir verði í öllum 10 hverfum borgarinnar en hún var felld. Nám í einkareknum tónlistarskóla er dýrt. Tónlistarskólinn á Klébergi, Kjalarnesi, er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin er með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg en setja sína eigin gjaldskrá.
Greinargerð
Eins og stendur eru aðeins 4 skólahljómsveitir í fimm hverfum, í Austurbæ, Árbæ og Breiðholts, Vesturbæ og Grafarvogi. Eftir stendur Grafarholt og Úlfarárdalur, Háaleiti og Bústaðir, Laugardalur, Hlíðar og Miðborg. Á 7 hundrað nemendur stunda nám í þessum hljómsveitum. Nemendur í grunnskólum borgarinnar eru tæp 15 þúsund. Vel má því gera því skóna að mun fleiri nemendur hefðu áhuga á að sæka um aðild að skólahljómsveit. Eins og staðan er í dag er ekki boðið upp á tónlistarkennslu í grunnskólum að heitið geti. Nám í einkareknum tónlistarskóla er dýrt og ekki á færi allra foreldra að greiða fyrir börn sín.
Tónlistarskólinn á Klébergi, Kjalarnesi er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin er með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg en setja sína eigin gjaldskrá. Í ljósi þessa er afar mikilvægt að skólahljómsveitir sé í öllum hverfum. Á meðan skólar eru almennt séð ekki að bjóða upp á tónlistarnám og ekki á allra færi að stunda slíkt nám vegna mikils kostnaðar sem því fylgir gæti þátttaka í skólahljómsveit verið góður valmöguleiki. Með því að hafa skólahljómsveit í öllum hverfum er tækifæri til tónlistarnáms flutt í nærumhverfi barnanna. Reykjavíkurborg á í þessu sem öðru er varðar börn að tryggja að þeim sé ekki mismunað á grundvelli efnahags foreldra.
Hlutverk og markmið skólahljómsveita er að stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, greina og skapa tónlist og til að hlusta á tónlist og njóta hennar; einnig að jafna tækifæri nemenda til tónlistarnáms; efla félagsleg samskipti og að efla sjálfsaga, samvinnu og sjálfstæð vinnubrögð; að stuðla að aukinni tónlistarþekkingu og veita nemendum tækifæri til að koma fram og loks að stuðla að tónlistaruppeldi annarra ungmenna með því að koma fram á vegum grunnskólanna.
Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samhljóða tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er nú þegar til meðferðar á vettvangi skóla- og frístundaráðs sem hefur vísað henni til skoðunar hjá stýrihópi um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík. Stýrihópurinn hefur nýlega skilað af sér skýrslu sem er enn í umsagnarferli. Tillagan er ekki tæk á vettvangi borgarráðs á meðan hún er enn til meðferðar hjá skóla- og frístundaráði.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurnir um hundaeftirlitið, kostnað þess í samhengi við verkefnafjölda og fleira:
Fyrirspurn Flokks fólksins í framhaldi af framlagningu borgarstjóra um ósk um samþykki borgarráðs að stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur DÝR: Hvernig má það vera að Hundaeftirlitið kostar það sama árum saman þrátt fyrir að mál þess dragist mikið saman? Ef litið er á þróun verkefna Hundaeftirlits Reykjavíkur síðastliðin 20 ár, er auðséð að verkefnum hefur fækkað gríðarlega. Sem dæmi voru 159 hundar vistaðir í geymslu árið 2000, en aðeins 8 hundar allt árið 2018, og kvörtunum hefur fækkað um mörg hundruð niður í nokkra tugi. Samt sem áður hefur starfsgildum ekkert fækkað og kostnaðurinn stendur því í stað sem hlýtur að teljast léleg nýting á fjármunum hundaeigenda. Óskað er eftir rökstuðning um hvernig hundaeftirlitsgjöldum er ráðstafað. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvor lögfræðingur borgarinnar sé búinn að gera úttekt á því hvort þessar tillögur samræmist þeim lögum sem eru í gildi, þ.e. 7/1998 lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og 55/2013 lög um velferð dýra.
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.