Forsætisnefnd 3. september 2021

Bókun Flokks fólksins við liðnum Tjarnargata 12 – starfsaðstaða á skrifstofu borgarfulltrúa: 

Nú á að færa starfsaðstöðu borgarfulltrúa upp um eina hæð og fær hver flokkur sína skrifstofu. Það er sorglegt að sjá þann kostnað sem fór í  framkvæmd á gerð sameiginlegs rýmis Tjarnargötu 12 fleygt út um gluggann. Með því að borgarfulltrúar deildu sameiginlegri skrifstofu átti að sparast rúmar fimm milljónir á ári. Borgarfulltrúar voru áður á tveimur hæðum í húsinu. Kostnaðurinn við breytingarnar nam 2,5 milljónum króna svo rétt er að kostnaður vegna breytinganna borgaði sig fljótt upp. Rennt var blint í sjóinn með nýtingu og hefur nýting verið afar lítil þau rúm þrjú ár sem liðin eru af kjörtímabilinu.  Í raun má segja að með ákvörðun um að útbúa þetta sameiginlega vinnurými hafi verið gerð mistök. Ákvörðunin kom aldrei inn á borð þessa minnihluta. Þurfi þeir borgarfulltrúar sem búa utan miðbæjar eða í efri byggðum ekki að sækja fundi í Ráðhúsinu hugsa þeir sig án efa tvisvar um áður en þeir leggja leið sína í Tjarnargötu 12 til að nota vinnurými, sameiginlegt eður ei, vegna þess m.a. að aðgengi að miðbænum er erfitt. Umferðatafir á stofnbrautum eru íþyngjandi og í miðbænum eru stöðugar framkvæmdir og þrengsl.

Tillaga Flokks fólksins um reglur á fjarfundum, að allir séu t.d. í mynd allan fundinn:

Tillaga Flokks fólksins um reglur um fjarfundi. Nú er búið, eina ferðina enn, vegna COVID, að framlengja heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi – notkun fjarfunda á fundum ráða og nefnda.
Fulltrúi Flokks fólksins vonar að fjarfundamöguleikinn sé kominn til að vera enda gagnlegt að eiga þess kost að vera á fjarfundi eftir atvikum.  Mikilvægt er að setja reglur um fjarfundi sem snúa að fjarfundunum sjálfum þegar þeir eru í framkvæmd. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að forsætisnefnd samþykki að fundarmenn á fjarfundum skuli ávallt vera í mynd á fjarfundunum en að leyft verði að slökkva á myndavél rétt á meðan snætt er eða farið á salerni. Á því hefur borið allt of oft að borgarfulltrúar í fjarfundi séu með slökkt á myndavélum allan fundinn. Það er óviðunandi.