Borgarráð 5. október 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 3. október 2023, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2023:

Í þessum viðauka er m.a. lagt til að fjárheimildir velferðarsviðs hækki um rúmlega 77.109 þ.kr. til að fjölga tímabundið sérfræðingum til að vinna úr áhrifum COVID. Náðst hefur að nýta um 62 m.kr. af fjárheimildinni frá upphafi. Um er að ræða verkefni sem átti að ljúka fyrr en segir að vegna skorts á sérfræðingum hafi það ekki tekist. Þetta sé ein ástæða þess að illa gengur að fækka á biðlistum. Nokkuð er um lausar sérfræðingsstöður. Fulltrúi Flokks fólksins telur að skoða þurfi kjaramál þeirra fagstétta sem hér um ræðir. Öðruvísi verða þessi mál ekki leyst. Reykjavíkurborg greiðir lægri laun en ríkið. Um 2.300 börn bíða nú eftir aðstoð ýmist vegna málþroska- og/eða tilfinningavanda. Börnin hafa verið látin bíða mánuðum saman. Ástæður aukningar beiðna má rekja til ýmissa þátta og gildir einu í sjálfu sér hverjar þær eru. Aðalatriðið er að börnin fái aðstoð. Reykjavíkurborg verður að aðlaga sig að breyttum veruleika. Því lengur sem þessi málaflokkur er vanræktur því alvarlegri og víðfeðmari verður vandinn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 3. október 2023, þar sem skýrsla stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda er send borgarráði til kynningar:

Í skýrslunni má sjá að í fyrirkomulagi þjónustu við börn með fjölþættan vanda er talsvert flækjustig. Meiri skilvirkni vantar og heildaryfirsýn. Engin spurning er að hagræðing næst ef einn aðili annast skipulag og framkvæmd þjónustu. Verði leitað til einkaaðila er hætta á að þjónustustigið lækki. Margar góðar tillögur hafa verið kynntar. Bæta mætti við að koma fyrr inn með snemmtækan stuðning og að börnin séu ávallt í skólaaðstæðum meðal jafningja. Börn með svo alvarlegan vanda sem hér um ræðir og börn yfir höfuð eiga ekki að vera á biðlista. Talað hefur verið um að ríkið komi sterkar með greiðslur og taki jafnvel yfir þessa þjónustu. Það væri auðvitað frábært ef yrði. Hópur var í gangi sem meta átti tillögur um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Sá hópur átti að skila niðurstöðum 1. desember 2022 og ekki er fyrirséð hvenær þeirri vinnu verður lokið. Verði þessi málaflokkur hluti af heildarsamningi um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í málaflokki fatlaðs fólks óttast fulltrúi Flokks fólksins að þjónustan verði ekki veitt með fullnægjandi hætti. Þetta höfum við séð í vanefndum á NPA-samningum. Umfram allt þarf að sinna börnunum með fullnægjandi hætti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 26. september 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 25. september 2023 á samkomulagi UNICEF á Íslandi og skóla- og frístundasviðs vegna verkefnisins Réttindaskóli og -frístund, ásamt fylgiskjölum.

Alþingi Íslands lögfesti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins í mars 2013. Reykjavík ber að taka mið af þeim skuldbindingum sem leiðir af lögfestingu samningsins um réttindi barnsins. Sveitarfélög eru órjúfanlegur þáttur við innleiðingu barnasáttmálans. Tíu árum síðar hefur borgin ekki enn fullklárað verkið. Innleiðing getur ekki átt sér stað fyrr en öll þjónusta og stjórnsýsla tekur mið af þeim skuldbindingum sem leiðir af lögfestingu barnasáttmálans. Vegferð síðustu ára hefur verið flókin og tafsöm. Stefnt var að því að fagna stórum áfanga á 30 ára afmæli barnasáttmálans 2019. Það tókst ekki. Fleiri starfshópar voru settir á laggirnar, fleiri tillögur bárust og skýrslur gefnar út. Ein tillagan var aukið samstarf við UNICEF um vinnu við Réttindaskóla og -frístund sem er verkefni fyrir skóla- og frístundastarf og sem tekur mið af barnasáttmálanum. Allmargir skólar hafa nú hlotið viðurkenningu sem réttindaskólar og nokkrir eru í ferli. Enn er langt í land á sviði skóla og frístundar og ekki er ljóst hvernig staðan er á öðrum sviðum borgarinnar. Það samkomulag sem hér um ræðir skuldbindur borgina til að ganga til samstarfs við UNICEF um framkvæmd verkefnisins sem er í höndum sérhvers stjórnanda starfsstöðva. Samningurinn hefur tekið gildi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dags. 28. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ráðningar hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. júní 2023.

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um nýráðningar hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í tengslum við breyttar aðstæður vegna styttingar vinnuvikunnar. Í svari kemur fram að stytting vinnuvikunnar hafi tekið gildi 1. október 2022 og var starfsmönnum fjölgað um 25 vegna hennar sama ár. Segir jafnframt að fyrir lá fjárhagsáætlun, samþykkt af stjórn sem tók mið af fjölgun starfsmanna vegna styttingar vinnuvikunnar. Þarna kemur berlega fram að ekki var raunhæft að ætla að stytting vinnutímans kostaði ekki neitt. Þetta er töluvert því þessa starfsmenn þarf svo líka að leysa af. Það var með öllu óraunhæft að ætla að stytting vinnuviku myndi ekkert kosta.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 21. september 2023.

Vísað er í nokkrar kynningar í fundargerð en þær fylgja ekki með í fundargerðum sem birtar eru á vef borgarinnar sem er óvenjulegt. Lesa má úr bókunum hverjar helstu niðurstöður voru í þjónustukönnun velferðarsviðs fyrir fatlað fólk og þjónustu fyrir fötluð og langveik börn. Bæta þarf aðgengi að upplýsingum, sérstaklega þegar kemur að upplýsingum um þjónustu við langveik og fötluð börn. Þetta er gamalt vandamál. Svo virðist sem upplýsingaflæði sé enn ábótavant hjá Reykjavíkurborg þrátt fyrir það mikla fjármagn sem farið hefur í að bæta upplýsinga- og tækniþjónustu borgarinnar. Þá er umsóknarferlið fyrir þjónustu við langveik og fötluð börn of flókið og traust hópsins sem þiggur þá þjónustu til borgarinnar umtalsvert minna en hjá hinum hópunum. Taka þarf á þessum vandamálum eigi síðar en í gær.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 26. september 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar sem er kynning á Hverfið mitt:

Nú hefur verkefnið Hverfið mitt verið auglýst af krafti. Um er að ræða lýðræðisverkefni og er hugmyndin að baki býsna góð. Spurning er þó um útfærslu og framkvæmd. Í kjölfar framkvæmdar á vúlgar stiga í Breiðholti mátti sjá á samfélagsmiðlum ýmis sjónarmið. Það verkefni var nr. átta í óskaröðinni, stigi sem kostaði 36 milljónir. Útlit hans var sannarlega umdeilt og hefði mátt spyrja hvort íbúar, þeir sem næstir búa sem dæmi, hefðu ekki átt að fá tækifæri um að hafa skoðun á hvernig stiginn liti út. Gæta þarf þess að þetta verkefni verði lýðræðisverkefni alla leið. Allar upplýsingar þurfa að vera uppi á borði og ekki á að fara í stór verkefni sem hafa sterk sjónræn áhrif án þess að kynna fyrir íbúum hverfis.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 26. september 2023:

Í fundargerð koma fram eindregnar tillögur um að gera hverfin rólegri, draga úr umferðarhraða og þar með hávaða frá umferð og jafnframt að auka gróður við götur og bæta aðstæður þeirra sem ekki nota bíla. Taka má undir allt þetta, en fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvort þessar tillögur séu komnar frá íbúum hverfisins, t.d. í gegnum könnun. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurn um þetta í umhverfis- og skipulagsráði. Íbúðaráðin eru hugsuð sem rödd íbúanna og enda þótt íbúaráðsfundum sé streymt er ekki víst að stór hópur íbúa fylgist með streymi. Þegar stórmál eru til umræðu og taka á stórar ákvarðanir er t.d. góð hugmynd að hafa íbúafundi, jafnvel fleiri en einn og sjá til þess að þeir séu auglýstir rækilega.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 28. september 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1., 3. og 4. lið fundargerðarinnar:

Tekið er undir það sem fram kemur í fundargerð að erfitt er að hlýða kröfu Isavia ohf. um að fella 2.900 tré án þess að hika. Þetta er stórmál. Finna þarf millileið. Það lá fyrir að ekki yrði auðvelt að mæta öllum mótvægisaðgerðum til að unnt sé að byggja heilt hverfi ofan í flugvöll án þess að ógna öryggi hans. Hætta er á að þetta fyrirkomulag verði aldrei til friðs. Í 3. lið í sömu fundargerð er bókað um að títt lágflug útsýnisþyrlna fari illa saman við þétta íbúabyggð. Um þetta er varla deilt og fagnar fulltrúi Flokks fólksins umræðunni. Vikið er að veggjakroti í 4. lið. Skemmdarverk í borginni eru óþolandi og alltof algeng. Sjaldnast tekst að finna skemmdarvargana. Þessi mál verður að kæra og finnist sökudólgar verða að vera einhverjar afleiðingar ella verður ekkert lát á þessu. Öryggismyndavélar hjálpa mikið með að finna þá sem óhæfuverkin stunda.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. október 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar:

Starfshópur sem stofnaður hefur verið til að draga úr þjófnaði á hjólum skal samkvæmt erindisbréfi kanna leiðir til að draga úr þjófnaði á hjólum í samstarfi við lögreglu, tryggingafélög og grasrótarsamtök hjólreiðafólks. Þjófnaður á hjólum dregur úr löngun fólks að hjóla. Hópurinn þyrfti nauðsynlega að skoða líka að koma upp gagnabanka, forriti með raðnúmerum, svo auðvelt sé að finna aftur eigendur stolinna hjóla. Hvetja á þá sem eru þolendur hjólaþjófnaðar að tilkynna hann strax til lögreglu. Um þetta hefur áður verið rætt af „hjólurum“. Sum lönd hafa einmitt hannað kerfi þar sem að fólk getur skráð raðnúmerin niður. Það fer í einn miðlægan gagnabanka. Fólk getur þá tilkynnt hjólin sín stolin og lögregla hefur aðgang að því kerfi. Tölfræði getur hjálpað, t.d. er vert að geta áttað sig á hvar hjólreiðaþjófnaðurinn er. Bæta mætti við að hjólaþjófnaður er refsiverður og skoða þyrfti að herða refsingu við hjólaþjófnaði. Það er brýnt því aukning hefur orðið á notkun rafmagnshjóla sem eru mun dýrari en venjuleg hjól. Þjófnaður á hjóli er því mikill skaði.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að hækka niðurgreiðslu vegna leikskólaplássa á einkareknum leikskólum fyrir 12-24 mánaða börn:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að hækka niðurgreiðslu vegna leikskólaplássa á einkareknum leikskólum fyrir 12-24 mánaða börn í ljósi þess að foreldrar hafa iðulega ekkert val um hvort barn þeirra fái pláss á einkareknum leikskóla eða borgarreknum. Það er allt að því helmingi dýrara fyrir foreldra að hafa barn í einkareknum skólum en almennum. Vandamálið er að fólk á ekki valkost því biðlisti í borgarreknu skólana er kannski eitt og hálft ár eftir að barn á rétt á plássi. MSS23100042

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að Stafrænt ráð fari í frekara samstarf við Stafrænt Ísland:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að samþykkt verði að óska eftir frekara samstarfi við Stafrænt Ísland og fjölga kjarnavörum sem í dag eru aðeins þrjár hjá Reykjavíkurborg: stafrænt pósthólf, innskráning fyrir alla og straumurinn. Borginni stendur til boða að nota allar kjarnavörur Stafræns Íslands og er lagt til að borgarráð feli þjónustu- og nýsköpunarsviði ásamt stafrænu ráði að athuga með að innleiða fleiri vörur frá Stafrænu Íslandi og island.is sem skilað gætu ávinningi. MSS23100043

Greinargerð

Samstarf við Stafræna Íslands á að vera eins mikið og kostur er enda felst í því hagræðing. Fulltrúi Flokks fólksins veit til þess að nokkur sveitarfélög eru að skoða fleiri kjarnavörur en þær sem Reykjavíkurborg notar. Hér má nefna “Vefir stofnana” sem eru  undirvefir island.is sem eru sérsniðnir að þörfum notenda og hafa það markmið að notendur komist beint að efninu. Reykjavík myndi njóta kosta og hagræðis sem felst í  sameiginlegum tólum og tækjum eins og hönnunarkerfi, efnisstefnu og rekstrarumhverfi island.is. Einnig má nefna Umsóknarkerfið hjá Stafræna Ísland

Vísað til meðferðar stafræns ráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um breytingar á reglum frístundakorts:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að fela menningar-, íþrótta- og tómstundaráði að breyta gildandi reglum um frístundakort frá 8. júní sl. á þann hátt að ekki verði hægt að nota frístundakortið til að greiða fyrir frístundaheimili eða tungumálanám. Til að hjálpa efnaminni foreldrum að greiða þá nauðsynlegu þjónustu fyrir börn sín eru aðrar leiðir í boði og hægt að sækja um sérstaka styrki í því sambandi. Barn á ekki að þurfa að líða fyrir fátækt foreldra sinna. Það á bæði að geta verið á frístundaheimili, sótt tungumálaskóla ef því er að skipta og á sama tíma nýtt frístundastyrk sinn til að stunda íþróttir eða tómstundir. Einnig er lagt til að heimilt verði að færa eftirstöðvar styrksins á milli ára og flytja styrkinn milli systkina. Jafnframt verði því beint til ráðsins að hefja vinnu við að nútímavæða reglurnar m.a. með tilliti til þess að barn getur átt lögheimili hjá báðum forsjárforeldrum. MSS23100044

Greinargerð

Upphaflegur tilgangur Frístundakortsins er að öll börn og unglingar í Reykjavík á aldrinum 6–18 ára geti tekið þátt í frístundastarfi óháð efnahag og félagslegum aðstæðum en enn er sá galli á gjöf Njarðar að það má nota kortið til að borga frístundaheimili eða tungumálanám. Til að hjálpa efnaminni foreldrum að greiða þá nauðsynlegu þjónustu fyrir börn sín eru aðrar leiðir í boði og hægt að sækja um sérstaka styrki í því sambandi. Barn á að geta verið á frístundaheimili, sótt tungumálaskóla ef því er að skipta og á sama tíma nýtt frístundastyrk sinn til að stunda íþróttir eða tómstundir.  Fulltrúi Flokks fólksins hefur orðað þessa hluti ótal sinnum sl. 5 ár í borgarstjórn en ekki náð að opna augu borgarmeirihlutans. Áfram er því haldið í þeirri von að meirihlutinn og Menningar- íþrótta og tómstundaráðs sem nú hefur forræði yfir frístundakorti/frístundastyrknum sjái ljósið. Einnig er lagt til að hægt verði að færa eftirstöðvar styrksins milli ára og að heimilt verði að flytja styrkinn milli systkina. Nútímavæða þarf reglur frístundastyrksins. Í því sambandi þarf að hafa í huga að barn getur átt lögheimili hjá báðum sínum forsjárforeldrum.

Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.