Borgarráð 6. desember 2018

Tillaga frá Flokki fólksins um að gera breytingar á Reglum um afslátt af fasteignagjöldum

Breytingin varðar skilyrði lækkunar og er lagt til að skilyrðið „að viðkomandi þurfi að eiga rétt á vaxtabótum samkvæmt B.lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekju – og eignaskatt“ verði tekið út.  Breytingin hefur í för með sér að umsækjandi getur engu að síður átt rétt á afslátt af fasteignagjöldum þótt hann skuldi ekki neitt. Á það skal bent að enda þótt eldri borgarar séu e.t.v. sá hópur sem skuldar minnst þá þýðir það ekki að þeir hafi nægt fé milli handanna. Þvert á móti hafa fjölmargir eldri borgarar lítið milli handanna og geta þar að leiðandi ekki leyft sér mikinn munað og sumir hafa aðeins rétt nóg til að greiða fyrir nauðsynjar.

Bókun vegna fundargerðar endurskoðunarnefndar

Flokkur fólksins telur mikilvægt að endurskoðunarnefnd komi reglulega til samtals við borgarráð enda ljóst að það sem fjallað er um í nefndinni varðar borgarráð sem hefur eftirlitskyldu. Á fundum endurskoðunarnefndar er fjallað um atriði sem nefndin telur að þarfnist skoðunar og þær athugasemdir sem gerðar eru eiga vissulega að koma inn á borð borgarráðs með reglulegum hætti.

Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að endurskoðunarnefnd þarf að vera í nánum tengslum við borgarráð og upplýsa það um þær athugasemdir og áhyggjur sem nefndin hefur hverju sinni.