Skóla- og frístundaráð 24. ágúst 2021

Bókun Flokks fólksins við tillögu stýrihóps um að stytta opnunartíma leikskóla þannig að þeir verði opnir frá 7:30 til 16:30 hjá öllum leikskólum frá 1. nóvember  2021. 

Meirihlutinn í skóla- og frístundaráði leggur til að opnunartími leikskóla borgarinnar verði 7:30 til 16:30 hjá öllum leikskólum frá 1. nóvember 2021. Þetta eru umdeild ákvörðun. Kveikjan er sögð hafa komið frá leikskólunum sjálfum. Þessi ákvörðun hefur slæmar afleiðingar fyrir marga foreldra, þeirra sem hafa ekki sveigjanlegan vinnutíma og starfa fjarri leikskóla barna sinna. Almennt eru börn í leikskóla í sínu hverfi en foreldrar vinn sjaldnast í sínu hverfi heldur jafnvel langt frá og sitja jafnvel fastir í umferðarteppu á þessum tíma. Engin fulltrúi foreldra sat í stýrihópnum sem vann tillöguna og finnst fulltrúa Flokks fólksins það ekki góður bragur. Nú brennur á mörgum foreldrum að nota vistvænar samgöngur t.d. hjóla. Stytting opnunartíma leikskóla kemur illa við þessa foreldra sérstaklega þá sem báðir vinna fjarri leikskóla barna sinna. Fulltrúi Flokks fólksins er tortryggin út í samráðsferlið og telur að úti í samfélaginu sé stór hópur foreldra afar ósáttur með skerðingu þjónustunnar. Raddir þeirra hafa ekki komist til eyrna meirihlutans í skóla- og frístundaráði. Foreldrar eru fullfærir um að skipuleggja tíma sinn með börnum sínum og þekkja þarfir barna sinna best. Þeir þurfa ekki stýringu frá borginni. Þessi meirihluti er að skerða þjónustu víðar. Nú á einnig að stytta opnunartíma þjónustumiðstöðva.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna mótmælir fyrirhugaðri styttingu á opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar. Stytting opnunartíma leikskóla og skerðing á þjónustu sem lögð er til mun hafa neikvæð áhrif á fjölmargar fjölskyldur og oft þær fjölskyldur sem hafa minnst bakland og þurfa mest á leikskólavist að halda. Skert þjónusta leikskóla eykur ekki endilega gæðasamverustundir foreldra og barna heldur getur aukið álag á fjölskyldur. Það er jákvætt að farið verður í mótvægisaðgerðir með lengri opnun eins leikskóla í hverju hverfi en þessi breyting mun minnka þjónustu í nærumhverfi íbúa og leiða til meiri aksturs í andstöðu við markmið borgarinnar í umhverfismálum. Niðurstöður jafnréttismatsins sýna líka ótvírætt að stytting opnunartíma hefur meiri áhrif á mæður en feður. Mikilvægt að standa sérstaklega vel að upplýsingamiðlun til foreldra/forráðafólks nú þegar þessi skerðing á þjónustu hefur verið ákveðin. Upplýsingum þarf að miðla á íslensku, ensku, pólsku og algengustu tungumálum foreldra/forráðafólks leikskólabarna í Reykjavík og sérstaklega til þeirra fjölskyldna sem þegar hafa verið að nýta þessa þjónustu. Mikilvægt er að vandað verði til verka þegar mælikvarðar og markmið til þessa að meta áhrif þessa tilraunaverkefnis verða skilgreind og haft verði samráð við fulltrúa foreldra við það.

 

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

Vegna mikils álags í starfsumhverfi leikskóla, leikskólakennaraskorts, mikillar starfsmannaveltu og fleiri ytri og innri rekstar-íþyngjandi ástæðum, var farið í vinnu við að bæta starfsumhverfi leikskóla.  Settur var á fót starfshópur sem hafði það verkefni að vinna að umbótum og skipulagi leikskólastarfs.  Ein af sex tillögum hans, eftir mjög stranga og erfiða vinnu og aðkomu hagaðila, var að leggja til styttri opnunartíma leikskóla um hálftíma á dag, frá 07:30-17:00 niður í 07:30-16:30.  Það er fagnaðarefni að þessi tillaga hefur verið samþykkt í tilraunarskyni næstu tvö árin, en á sama tíma komið til móts við þau börn/fjölskyldur sem nauðsynlega þurfa á lengri vistun að halda með lengri opnum í einum til tveimur leikskólum í hverju hverfi. Þessi breyting styður við og þéttir faglegt starf, eykur öryggi á starfsstað og minnkar álag og hefur jákvæð áhrif á skólabrag.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutan í s skóla- og frístundaráði að frístundamiðstöðvarnar Ársel og Gufunesbær verði sameinaðar undir einni yfirstjórn:

Fram kemur að ánægja er með frístundastarf en er ánægja með þessa sameiningu? Fram kemur að sameining hefur ekki verið borin undir notendur, foreldrahópinn.  Það var ekki talið nauðsynlegt að mati skóla- og frístundasviðs en kannski hefði mátt upplýsa notendur um þessa breytingu? Fulltrúi Flokks fólksins óskar þess að þetta verði farsælt. Gæta þarf vel að þjónustan skerðist ekki, aukist frekar  og verði bara enn betri  ef eitthvað er. Einnig þarf að huga að því að engin „týnist“ þegar eining er orðin svo stór sem raun ber vitni.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Málefni Fossvogsskóla:

Í sumar fullyrti meirihlutinn að samhljómur hafi verið um ákveðna niðurstöðu, (sviðsmynd 2) í skoðunarkönnun sem Reykjavík sendi á starfsfólk og foreldra barna í Fossvogsskóla.  Nú er fullyrt að misbrestur hafi verið á framkvæmd könnunarinnar, hún hafi borist seint og keyrð í gegn á sólarhring. Könnunin var þess utan opin öllum sem foreldrar voru ekki sáttir við.

Ef þetta er eins og foreldrar segja þá sætir það furðu að ekki hafi tekist betur til aðferðarfræðilega séð. Þetta mál er ekki búið og situr í fólki fyrir margar sakir. Sumir tala um stjórnunarlegt þrot sem erfitt er að bæta enda heilsa barna búin að vera undir. Vel kann að vera að það þurfi að láta reyna á þetta mál hjá dómstólum, hvort Reykjavíkurborg hafi hreinlega brotið lög um aðbúnað nemenda með því að mismuna börnum og skerða tækifæri þeirra til menntunar. Mætt hefur á mörgum í þessu máli. Erfiðast var að ekki var hlustað strax 2019 og hversu ósvífin svör bárust frá Heilbrigðisnefnd þegar fyrirspurnir voru lagðar fram um málið í umboði foreldra.  Eftir er að sjá hvort hinar færanlegu skólastofur verði tilbúnar á réttum tíma?

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er rangt með farið að könnunin hafi verið öllum opin. Hún  var send í Mentor kerfinu, og yfirfarin til að tryggja að eingöngu væru talin atkvæði frá foreldrum barna í 2.-4.bekk í Fossvogsskóla.  Niðurstöðurnar gefa því rétta mynd af vilja foreldra í umræddum árgöngum sem og kennara og starfsfólks sem vinna mun með umræddum nemendum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur upplýsingar um að könnunin umrædda hafi verið öllum opin úr fjölmiðlum og er vísað í orð foreldra. Ekki skal því segja til um hvort þar sé á ferð einhver misskilningur. Hvort niðurstöðurnar gefa því rétta mynd af vilja foreldra í umræddum árgöngum sem og kennara og starfsfólks sem vinna mun með umræddum nemendum skal látið ósagt.

Bókun Flokks fólksins við tillögu bréfi borgarstjórans í Reykjavík dags. 22. og bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 24. júní 2021 varðandi nýjan leikskóla í Völvufelli:

Í undirbúningi er að sameina þrjá leikskóla, Ösp og Holt sem er í tveimum húsum í einn nýjan skóla í  Völvufelli í samræmi við hugmyndir í drögum að deiliskipulagi Breiðholts III.  Fulltrúi Flokks fólksins bókaði um málið á fyrri stigum um mikilvægi þess að vanda vel til verksins t.d. að hugmyndin að tillögunni sé vel kynnt og að allir þeir sem málið snertir séu hafðir með í ráðum. Einnig að aðgengi fyrir fjölbreytt samgöngutæki sé fullnægjandi.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að börn innflytjenda sem stunda nám í Stoðdeild Álftamýraskóla flytjist ekki út í almennan bekk fyrr en þau eru tilbúin til þess að mati skóla og foreldra.

Upp á síðkastið hefur afgreiðsla mála þeirra sem sækja um hæli orðið hraðari sem er af hinu góða. Dvöl barns í stoðdeildinni hefur samhliða styðst því þegar foreldrar þeirra fá hæli þá flytjast þau út í almennan hverfisskóla án tillits til hvort þau eru tilbúin til þess eða ekki. Dæmi eru um að barn sem er ekki tilbúið er flutt út í almennan bekk þar sem  einstaklingsþjónusta er minni en veitt er í stoðdeildinni. Barnið er jafnvel ekki farið að tala mikla íslensku. Fulltrúi Flokks fólksins studdi tilkomu stoðdeildarinnar  og hefur reynt að fylgjast með hvernig gengur s.s. í samskiptum barnanna sem eru af ólíkum menningarheimum. Stoðdeildin er  skammtímaúrræði og eiga börnin að fara út í almennan bekk þegar þau er tilbúin að mati fulltrúa Flokks fólksins,  hvorki fyrr né seinna.  Flutningur út í hverfisskólann á að vera á þeirra forsendum en ekki kerfisins. Ef aðkoma ráðuneytis getur liðkað til í þessum málum s.s. með aðstoð frá Íslenskuverum þarf það að ræðast strax svo hægt sé að koma á móts við þarfir allra barna með fullnægjandi hætti.

Frestað.

 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir um mötuneyti og matarsóun:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um mötuneytismál í grunnskólum Reykjavíkur.

Hvernig er rekstrarformi/fyrirkomulagi mötuneyta háttað í skólunum?

Í hvað mörgum skólum skammta börnin sér sjálf?

Hvernig er fjölbreytni matar háttað?

Í hvað mörgum skólum er boðið upp á ávexti og grænmeti með matnum?

Í hvað mörgum skólum vigta börnin sjálf og skrá það sem þau leifa?

Hvað er mikil matarsóun í grunnskólum Reykjavíkur? Hversu miklum mat er hent? Óskað er að svarið sé í samræmi við leiðbeiningar sem Evrópusambandið hefur gefið út um samræmda aðferðarfræði sem nota ber við að mæla matarsóun en hefja átti slíkar mælingar 2020 (sjá Skýrslu starfshóps um Tillögur að aðgerðum gegn matarsóun, gefið út af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu).

Hafa börnin verið spurð um hvað þau vilja helst fá í matinn í skólanum?

 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skóla- og frístundaráð kaupi skólamöppur frá Múlalundi:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð kaupi skólamöppur frá Múlalundi. Fram til þessa hefur Reykjavíkurborg  hunsað Múlalund – vinnustofu SÍBS varðandi kaup á margskonar skólavörum ólíkt öðrum sveitarfélögum. Í þrjú ár hefur Múlalundur, sem er vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsorku, reynt að fá Reykjavíkurborg að samningaborðinu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þessu verði breytt hið snarasta og að Reykjavíkurborg hefji viðskipti við Múlalund enda ekki stætt á öðru.Um 80 prósent starfsmanna Múlalundar er með lögheimili í Reykjavík og það eru löng bið eftir plássi þar. Þótt vörur séu ívið dýrari þá er það dropi í hafið. Á móti skapar Reykjavíkurborg atvinnu fyrir hóp sem er í  brothættri stöðu. Starfsemin í Múlalundi er félagslega- og tilfinningalega mikilvæg fyrir starfsfólkið. Borgin vill ekki versla við Múlalund en vill að Múlalundir ráði fleiri starfsmenn til að  framleiða vörur sem Reykjavíkurborg vill ekki kaupa. Þetta er óskiljanlegt.  Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn  í júlí af hverju ekki er verslað við Múlalund. Í  svari  verst fjármálasviðið með því að bera við rammasamningi. Reykjavíkurborg hefur fulla heimild til þess að víkja frá rammasamningum þegar um er að ræða viðskipti við verndaða vinnustaði eins og Múlalund.
Frestað.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um viðbrögð við niðurstöðum könnunar um viðhorf dagforeldra:

Fulltrúi flokks fólksins óskar upplýsingar um hvernig skóla- og frístundasvið hyggst bregðast við niðurstöðum dagforeldra sem sýna að meirihlutinn er óánægður með upplýsingagjöf borgarinnar til dagforeldra?

Samkvæmt könnun eru aðeins um 40% dagforeldra mjög eða frekar ánægður með upplýsingagjöf frá Reykjavíkurborg vegna starfa þeirra sem dagforeldri. Tæpur þriðjungur var frekar eða mjög óánægður með upplýsingagjöfina. Dagforeldrar hafa óskað eftir að fá hærri  niðurgreiðslur frá borginni með börnunum. Ekki hefur verið hlustað á þetta. Það sem kostar hins vegar ekki neitt er að sýna þessari stétt tilhlýðilega virðingu en það er sláandi að sjá í niðurstöðum að dagforeldrar upplifa að embættismenn Reykjavíkurborgar beri ekki virðingu fyrir starfi þeirra. Dagforeldrum finnst að talað sé niður til þeirra líkt og vistun barna hjá dagforeldri væri síðri kostur en vistun í leikskóla. Dagforeldrum fannst að taka þyrfti meira tillit til þeirra við innritun barna í leikskóla enda fengju þeir iðulega seint upplýsingar um hvenær börn kæmust að á leikskólum. Þá hefði verið skortur á upplýsingum til dagforeldra vegna stöðunnar hverju sinni á tímum Covid 19 faraldursins. Hvað hyggst skóla- og frístundasvið gera í þessu? Hvernig á að bregðast við?

 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um viðbrögð við hótun um lögsókn vegna meints brots á fötluðum börnum sem fá þörfum sínum ekki mætt í skóla án aðgreiningar:

Öryrkjabandalag Íslands og lögmaður fjögurra  fatlaðra barna hafa stigið fram og segir að einstaklingsmiða þurfi þjónustuna að börnunum. Hótað er málsókn ef ekki verði úr bætt. Hvað ætlar skóla- og frístundasvið að bregðast við ásökunum sem fram eru bornar í málum þessara fjögurra fötluðu barna  sem ekki fá þörfum sínum mætt í grunnskólum borgarinnar.  Sama gildir um fjölmörg önnur börn og má ætla að verði lögsótt í málum þessara fjögurra muni fleiri fylgja á eftir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margoft bent á að skóli án aðgreiningar sé vanbúinn og geti þ.a.l. ekki sinnt þörfum allra barna.

Réttindi fatlaðra barna til náms eru brotin í grunnskólum landsins vegna þess hversu vanbúinn hann er að sinna þörfum barna með ólíkar þarfir. Til að skólar án aðgreiningar standi undir nafni þurfa þeir að bjóða  upp á alla þá fjölbreyttu þjónustu sem börn kunna að hafa þörf fyrir. Í grunnskólum borgarinnar er auk þess langur biðlisti eftir lögbundinni þjónustu eins og  þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga. Nú bíða 1.484 börn eftir þjónustu skólaþjónustu grunnskólanna og má ætla að í þeim hópi séu fjölmörg börn með sérþarfir.