Velferðarráð 20. október

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 20. október 2021, um skipulag og starfsemi á nýrri þjónustumiðstöð í austurhluta borgarinnar.

Lagðar eru fram fjölmargar stórar skipulagstillögur, margar hverjar óljósar. Ein af tillögunum sem lagt er fram er að sameina á  þjónustumiðstöðvar og er það af hinu góða svo fremi sem það komi ekki niður á þjónustuþegum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um að sálfræðingar skólaþjónustu sem hafa aðstöðu í þjónustumiðstöðvum ættu  að hafa starfsaðstöðu að fullu út í þeim skólum sem þeir sinna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður orðað það sem svo að þjónustumiðstöðvar séu óþarfa millistykki milli sálfræðinga og barnanna sem þeir eiga að veita þjónustu. Tíma tekur að fara á milli staða þjónustumiðstöðvanna og skólanna sem betur væri varið í vinnu með börnunum. Ef þessi tillaga verður til að  skila hagræðingu án þess að bitna á þjónustunni þá er því fagnað. Markmiðið hlýtur þó að gera þjónustuna enn betri og skilvirkari en hún er. Aðrar tillögur sem lagðar eru fram í þessum flokki skipulagsbreytinga situr fulltrúi Flokks fólksins hjá. Uppsetning þeirra er óljós og markmið sömuleiðis. Velferðarsviði er þó óskað alls hins besta með framgang þessara mála og vonandi verða þessar breytingar til farsældar. Breytingar eru alltaf erfiðar og koma mis vel/illa niður á starfsfólki eins og gengur.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um breytingar á skipulagi og kostnaði vegna rafrænnar þjónustumiðstöðvar:

Fulltrúi Flokks fólksins er algjörlega fylgjandi aukinni rafrænni þjónustu en hefur ekki verið sammála þeirri aðferðarfræði og nálgun Reykjavíkurborg undir forystu Þjónustu og nýsköpunarsviðs, að því markmiði. Í stað þess að fara vel með fjármagn og virkilega einfalda rafræna ferla, virðist alltaf vera farin þveröfug leið. Nú síðast með stofnun Rafrænnar þjónustumiðstöðvar.

Fulltrúi Flokks fólksins gagnrýnir umgjörð, uppsetningu og kostnaði við verkefnið. Af hverju að stofna sérstaka rafræna þjónustumiðstöð inn á Velferðarsviði með tilheyrandi kostnaði, í stað þess að það sé ein miðlæg rafræn þjónustumiðstöð sem þjónustar allar rafrænar umsóknir sem berast til Reykjavíkurborgar hvort sem um er að ræða umsóknir um leikskólapláss eða fjárhagsaðstoð svo eitthvað sé nefnt. Það virðist skorta hér ákveðna yfirsýn á „rafræna heildarmynd“ allrar þeirrar þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir borgarbúum.

Með því að stofna sérstaka rafræna þjónustumiðstöð inn á Velferðarsviði, er líklegt að flækjustig aukist.  Nú þarf notandinn væntanlega að sækja um mismunandi þjónustu á mismunandi stöðum í stað þess að geta sótt um alla sína þjónustu á einum stað.

Það er vert að benda á það að ríkið í gegnum island.is er komið með síma app tilbúið þar sem fólk mun geta sótt sér allskyns þjónustu á einum stað.

Bókun Flokks fólksins við minnisblaði sviðsstjóra, dags. 20. október 2021, um húsnæðismál eldra fólks í Reykjavík, ásamt fylgigögnum:

Húsnæðisskortur er sem fyrr og hefur húsnæðisvandi verið eins lengi og menn muna í Reykjavík. Auðvitað eru margir í eigin húsnæði og verða þar eins lengi og þau geta. Sumir vilja minnka við sig en fá ekki húsnæði við hæfi vegna skorts á húsnæði á markaði. Aðrir bíða eftir þjónustuíbúð og í þær eru biðlistar. Ráðið við hækkun hlutfalls eldra fólks er að leyfa fólki að vera lengur á vinnumarkaði.  Og auðvitað á að byggja það margar íbúðir að húsnæðisskortur verði ekki vandamál. Skortur er á flestum tegundum húsnæðis og húsnæðisúrræða fyrir eldra fólk. Það er einfaldlega ekki nógu mikið byggt. Aðlaga þarf þjóðfélagið að breytingum. Fjölbreytni skiptir öllu enda ekki hægt að setja allt eldra fólk undir sama hatt. Eldra fólk þarf að geta valið sér tegund húsnæðis eftir því sem passar þeim á hverjum tíma ef horft er til heilsu og áhuga.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. september 2021, um að skuldir leigjenda hjá Félagsbústöðum verði ekki sendar til innheimtufyrirtækja, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 20. október 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögu sósíalista um að „leigjendur hjá Félagsbústöðum sem eru í vanskilum fái tækifæri til þess að greiða niður leiguna án þess að skuldin verði send til innheimtufyrirtækis með tilheyrandi kostnaði. Lagt er til að Félagsbústaðir taki samtal við velferðarsvið/velferðarráð um að leigjendur fái t.d. stuðning í gegnum styrk eða lán hjá velferðarsviði“. Strax árið 2019 hafði fulltrúi Flokks fólksins áhyggjur þegar  Félagsbústaðir féllu  frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins og senda skuld, stóra eða smáa til lögfræðinga í innheimtu. Lagt var til af fulltrúa Flokks fólksins að aftur væri snúið til samtals og samkomulags um greiðsludreifingu enda auka kostnaður sem hlýst af innheimtuaðgerðum lögfræðinga. Oft er um að ræða fólk sem hefur staðið í skilum en eitthvað komið upp á. Dæmi er um að einn mánuður í skuld hafi verið sendur umsvifalaust til Motus. Minnt er á að skjólstæðingar Félagsbústaða hafa lítið milli handanna og eru í viðkvæmri stöðu. Okkur ber að hafa gagnrýna hugsun og taka allar ábendingar til greina og skoða með hvaða hætti hægt er að bæta starfsemina og gera enn betur í þágu notenda þjónustunnar. Reglur þurfa að vera manneskjulegar, sanngjarnar og taka mið af aðstæðum hvers og eins.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn borgaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda íbúa í smáhýsum fyrir heimilislaust fólk í september 2021, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs með bréfi skrifstofu borgarstjórnar dags. 11. október 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins virðir þessa tilraun meirihlutans að koma þaki yfir höfuð þeirra sem minnst mega sín. Það hefur gengið á ýmsu og kannski ekki að undra þegar farið er af stað með nýtt verkefni sem þetta er. Nú er kominn ákveðinn lærdómur sem hægt er að draga af byrjuninni og byrjunarörðugleikum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur stutt þetta úrræði enda þurfa allir að eiga þak yfir höfuð. Það er þó afar mikilvægt að vandað sé til þessa úrræðis með þeim hætti að eitt af húsunum á hverjum stað verði frátekið fyrir starfsmann sem verði  á staðnum til að styðja við einstaklingana og vera til taks eftir þörfum. Hér er um viðkvæman hóp að ræða og sumir að eignast heimili eftir að hafa verið heimilislausir árum saman og þurfa bæði mikla þjónustu og stuðning. Það er mikilvægt að vel takist til hér til þess að fleiri verði sáttir og sáttari við þetta úrræði og sjái tilganginn með því. Þeir sem hafa verið skeptískir á þetta úrræði og ekki viljað það í nærumhverfi þurfa að fá á því traust. Það gerist ekki ef sífellt eru að koma upp erfiðleikar.

 

Bókun Flokks fólksins við  svari við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um innheimtu skulda hjá leigjendum Félagsbústaða, sem vísað var til Félagsbústaða, sbr. 23. lið fundargerðar velferðarráðs frá 9. október 2019:

Fulltrúi Flokks fólksins telur að miðað við þetta svar þá sé það aðeins vísitala neysluverðs sem hefur áhrif á leiguverðið, ef íbúðin er eldri en 4 ára. Það eru yfir 500 íbúðir sem falla í þann flokk. Íbúðir sem byggðar voru eftir þann tíma miða við fasteignamat eða kaupverð. Það eru færri en 100 íbúðir sem falla í þennan flokk. Miðað við þessar forsendur ætti leiguverð ekki að breytast verulega hjá Félagsbústöðum. Leiguverðið er samt vísitölutengt og því getur verðbólga ýtt því upp. Núna er rúmlega 4% verðbólga og er spáð að hún eigi eftir að færast í aukana. Fulltrúi Flokks fólksins telur þess vegna að það kynni að vera skynsamlegt að frysta leiguverðið í einhvern tíma, til að vernda viðkvæma hópa. Einnig finnst fulltrúa Flokks fólksins „viðmiðin“ athyglisverð:

Mánaðarleiga (kr./mán.) = Fasteignamat 2017 x leigustuðull/12 mánuðir.

Minnst er álagið í miðbænum og mest í Breiðholtinu. Það er sem sé 28% dýrara að leigja í Breiðholti en í 101 (6,11/4,76 = 1,28).

101 og 107 hafa leigustuðul 4,76.

103, 104, 105 og 108 hafa leigustuðul 5,18.

110, 112, 113 og 116 hafa leigustuðul 5,98.

109 og 111 hafa leigustuðul 6,11.

Svo er líka sérkennilegt að gamalt húsnæði sé metið sem nýtt.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra, dags. 20. október 2021, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands varðandi tillögu um sveigjanlega félagslega heimaþjónustu, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. október 2021:

Spurt var um tillögu um sveigjanlega félagslega heimaþjónustu.
Fulltrúa Flokks fólksins finnst mjög mikilvægt að hægt sé að bjóða upp á sveigjanlegri félagslega heimaþjónustu eins og verið er að gera. Með því að gera úttekt er hægt að fylgjast með nánar hvernig sveigjanleg félagsþjónusta er að virka og hvað þarf að bæta. Umfram allt þarf þessi þjónusta eins og öll önnur að vera þróuð með þjónustuþeganum og þörfum hans í huga.  Tekið er undir að þetta er ekki alltaf spurning um tíma heldur frekar gæði en til þess að hægt sé að eiga félagsleg samskipti við þjónustuþegann  þarf að vera tími fyrir það t.d. til að setjast niður með viðkomandi og spjalla. Slíkt má þó ekki vera á kostnað nauðsynlegra annarra praktískra verkefna sem einnig þarf að gera. Þetta er ekki spurning um annað hvort eða. Í sumum tilvikum þarf einfaldlega að auka tímann til að hægt sé að gera bæði, nauðsynleg praktísk verkefni og að eiga félagsleg samskipti.