Borgarráð 6. október 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Tillaga borgarstjóra, dags. 4. október 2022 að borgarráð samþykki hjálagðar reglur um úthlutun lóða til trú- og lífsskoðunarfélaga:

Það er úrelt að mati fulltrúa Flokks fólksins að einstök félög fái ívilnun á grundvelli trúarlegrar /siðfræðilegrar afstöðu. Þess vegna er rétt að þau greiði fyrir lóðir og byggingar rétt eins og önnur félög.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs  borgarstjóra, dags. 4. október 2022, varðandi viðbrögð við erindi umboðsmanns barna um gjaldtöku í strætisvögnum fyrir börn:

Borgarstjóri hefur loksins svarað erindi umboðsmanns barna um gjaldtöku í strætisvögnum fyrir börn mörgum mánuðum eftir að erindið var sent borgarstjóra fyrst í janúar. Umboðsmaður þurfti að ítreka að fá svar sem er auðvitað ekki boðlegt eða góð stjórnsýsla. Stjórnvöldum er skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu Í „töf“ á svari felst ákveðið viðhorf að mati fulltrúa Flokks fólksins. Erindið var að óska svara við því hvernig umrædd hækkun samræmist bestu hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu. Í svari borgarstjóra kemur fram að að stefnt sé að því að börn fái frítt í strætó svona þegar betur árar ef má orða svo. Ekki er svarað hvernig hækkunin kemur við börn, hagsmunum þeirra og börnum fátækra foreldra. Borgarstjóri hvetur umboðsmann barna í lok bréfsins til að snúa sér með málið til Alþingis Íslendinga.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 3. október 2022, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra til Amsterdam á CityLab the Mayors Innovation Studio dagana 8. til 12. október 2022:

Lagt er fram í borgarráði beiðni um samþykki ferðar borgarstjóra, aðstoðarmanns hans, sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs til Amsterdam á Bloomberg CityLab & the Mayors Innovation Studio dagana 8. til 12. október 2022. Sjálfsagt er að borgarstjóri fari enda stendur Bloomberg CityLab straum af kostnaði vegna flugs hans og gistingar. Flokkur fólksins spyr hvort hinir þrír geti ekki tekið þátt í gegnum fjarfundarbúnað? Er það ekki stefna meirihlutans að gæta aðhalds og velta við hverri krónu? Fjárhagur borgarinnar er á heljarþröm og kostnaður vegna ferðarinnar fyrir þrjá aðila er umtalsverður.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að Reykjavíkurborg veiti 321,2 m.kr. viðbótarframlagi til rekstrar Strætó bs. á árinu 2022. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að undirbúa viðauka við fjárhagsáætlun vegna þessa:

Lagt er til að Reykjavíkurborg veiti 321,2 m.kr. viðbótarframlagi til rekstrar Strætó bs. á árinu 2022. Birt eru framlög hinna sveitarfélaganna. Reykjavík er stærsti eigandi og borgar þar af leiðandi langmest. Því miður hefur stærsti eigandinn ekki ákvörðunarvaldið í samræmi við ábyrgðina. Galli byggðasamlagskerfisins sést hér í hnotskurn. Nú er það vitað að bs. kerfið er ekki lýðræðislegt og kemur illa út fyrir Reykjavík. Mánaðarframlag Reykjavíkur er 214.113 þ.kr. en Seltjarnarness er 6.288. þ.kr. Byggðasamlagskerfið hentar ekki þessum rekstri sem er eiginlega krísurekstur því vandamál eru sífellt að koma upp. Að hækka fargjaldið hefur fælingarmátt. Nú er loku fyrir það skotið að þeir sem hafa íhugað að draga úr bílnotkun og nota strætó hafi áhuga á því. Allir þeir sem myndu vilja stökkva upp í strætó endrum og sinnum hafa án efa tapað þeim áhuga. Að skerða þjónustu frekar mun ganga af Strætó bs. dauðu. Mistök voru gerð í að fjárfesta í rándýru greiðslukerfi Klapp á þessum erfiðu tímum. Gagnrýna má óskynsemi í rekstri þegar horft er á þá ákvörðun og eins kaup á vögnum. Fyrir löngu hefði átt að taka ákvörðun um að allir strætóvagnar séu metanvagnar.

 

Bókun Flokks fólksins við minnisblaði skóla- og frístundasviðs, dags. 30. september 2022, varðandi uppbyggingarverkefni í leikskólamálum:

Birt er útfærsla á sex uppbyggingarverkefnum í leikskólamálum. Gripið er hér niður í tillögu 2 sem varðar nýtingu á lausu húsnæði. Á lista yfir húsnæði sem kemur til greina er Brákaborg en þá spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort það húsnæði sé ekki einhver framtíðarmúsík þar sem fara þarf í umtalsverðar framkvæmdir á húsnæðinu. Hækkun á niðurgreiðslu til dagforeldra er góður kostur sem Flokkur fólksins styður, nokkrar útfærslur eru birtar. Hvergi í þessu yfirliti er minnst á tillögur Flokks fólksins um styrki og heimgreiðslur. Tillögur Flokks fólksins hafa greinilega ekki fengið skoðun. Flokkur fólksins fagnar því að loksins eigi að nútímavæða verklag við innritun leikskóla eins og önnur sveitarfélög hafa gert fyrir löngu. Verklagið er aftur úr fornöld þrátt fyrir milljarða fjárveitingu í stafræna umbreytingu. Enn og aftur kemur fram í svörum að verið sé að fara í „notendarannsóknir“ og þannig reynt að finna upp ferla sem fyrir löngu er búið að finna upp og koma í virkni. Það getur ekki verið að rafrænir ferlar við innritun barna í leikskóla séu hvergi til.

 

Bókun Flokks fólksins undir við svari  Vegagerðarinnar, dags. 26. ágúst 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um gjaldskrárhækkanir í Strætó til eldri borgara, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. júlí 2022:

Spurt var um rökin fyrir að hækka gjöldin á öryrkja og aldraða úr 155 kr. upp í 245 kr. í landsbyggðarvögnum. Vegagerðin svarar fyrirspurninni þar sem hún rekur landsbyggðarvagna. Hér er um viðkvæma hópa að ræða og hafa margir lítið milli handana vegna skerðinga. Í svari kemur fram að unnið sé að samræmingu á verðskrá landsbyggðarvagna og hluti af því er að innleiða nýtt greiðslukerfi. Strætó hefur innleitt Klapp greiðslukerfið sem hefur valdið þessum hópum sérstaklega ómældum vandræðum sem ekki þarf að rekja hér. Rökin í svari Vegagerðarinnar eru afar veikburða og mótmælir Flokkur fólksins þessum miklu hækkunum.

 

Bókun Flokks fólksins við svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 19. ágúst 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gagnaleka, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. ágúst 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið og vill taka það fram að öryggismál Reykjavíkurborgar á að taka alvarlega. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt niðurlagningu starfs öryggisstjóra sviðsins árið 2020 og telur að með því hafi ekki verið tekið skref til aukins öryggis gagna borgarinnar. Fram hefur komið í svörum sviðsins að einhverskonar tilraunastarfsemi eða þróanir um öryggismál hafi farið í gang í kjölfar þeirrar uppsagnar öryggisstjóra. Nú er það svo að oft eru opinberar stofnanir sem og stærri fyrirtæki á markaði, með sinn eigin öryggisfulltrúa en þannig er það ekki hjá Reykjavíkurborg núna. Fulltrúi Flokks fólksins telur að brýnt sé að innri endurskoðun eða utanaðkomandi fagaðili verði fenginn til þess að fara yfir öryggismál sviðsins og Reykjavíkurborgar í heild. Mikilvægt er að gerð verði úttekt á því hvort ákvörðun um niðurlagningu á stöðu öryggisfulltrúa sviðsins hafi sett öryggismál Reykjavíkur í mögulega hættu

 

Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. september 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um leigubílanotkun starfsfólks:

Flokkur fólksins spurði um kostnað við leigubílanotkun starfsmanna borgarinnar. Ítarleg tafla fylgir þar sem kostnaður er sundurliðaður eftir nefndum/ráðum. Ljóst er að leigubílanotkun borgarstarfsmanna er umtalsverð. Það er miður að fá það í svari að ekki sé hægt að greina frá erindum eða starfstitli notenda þar sem ekki er haldið utan um slíkar skráningar sérstaklega. Þar sem þessum upplýsingum er haldið leyndum þá er erfitt að átta sig á því hversu stór hluti af þessu er bruðl eða sóun. Í hvaða tilfellum hefði viðkomandi geta tekið hjól eða strætó sem meirihlutinn í borginni hvetur fólk mjög mikið til að gera. Í einhverjum tilfellum er nauðsynlegt að taka leigubíl, um það er ekki deilt. Leigubíla notkun er afar misjöfn eftir sviðum. Ef tekið er árið 2020 (fyrir COVID) er hástökkvari í leigubíla notkun velferðarsvið 35.171.154, því næst skóla- og frístundasvið 7.612.951, (umtalsvert lægra), þá kemur ÍTR 4.514.326. Aðrir eru lægri. Heildarsumma fyrir þetta ár er 52. 448.169. Af þessu má draga þá ályktun að velferðarsvið hlýtur að verða að fara að skoða hvort ekki sé hægt að taka færri leigubíla. Leigubíl á einfaldlega aðeins að nota í undantekningartilvikum.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar  áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fyrrverandi slökkviliðsmenn sem veikjast af starfstengdum sjúkdómi, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. ágúst 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram nokkrar spurningar sem snúa að hvernig haldið er utan um fyrrverandi slökkviliðsmenn sem glíma við sjúkdóma sem eru afleiðing af starfi þeirra og hvort reynslumiklum slökkviliðsmönnum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins séu boðnir starfslokasamningar en ekki hlutastarf. Einnig var spurt um stuðninginn við slökkviliðsmenn sem veikst hafa af starfstengdum sjúkdómum og aðstoð með lyfjakostnað. Í svari segir að ekki sé haldið utanum veikindi fyrrverandi slökkviliðsmanna af hálfu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Þetta þykir fulltrúa Flokks fólksins miður. Væri það ekki réttlátt og mannlegt að halda utan um fyrrverandi starfsmenn sem glíma t.d. við starfstengt krabbamein? Margir glíma án efa einnig við andleg veikindi vegna álags sem afleiðing starfsins. Hvað varðar starfslok þá er því velt upp hvort slíkir samningar komi til af því slökkviliðsmönnunum er ekki treyst lengur eða af því þeir sjálfir treysti sér ekki lengur í starfinu. Fulltrúi Flokks fólksins fær það á tilfinninguna að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vilji losna við slökkviliðsmenn þegar náð er vissum aldri. Sjálfsagt væri að bjóða þeim dagvinnuverkefni þar sem reynsla og þekking þeirra nýtist. Loks segir í svari að engir styrkir séu í boði eða frekari læknisskoðun á vegum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fyrir veika fyrrverandi slökkviliðsmenn sem væri auðvitað sanngjarnt að væri fyrstu árin eftir að störfum lýkur.

 

Bókun Flokks fólksins undir 9. lið fundargerð fjölmenningarráðs frá 27. september 2022:

Kynnt er verkefnið Sendiherrar í Breiðholti. Flokkur fólksins fagnar þessu verkefni sem er samfélagsverkefni mismunandi mál-, menningar- og/eða þjóðfélagshópa og Suðurmiðstöðvar í Breiðholti. Markmiðið er að skapa vettvang fyrir samstarf við íbúa af erlendum uppruna. Flokki fólksins finnst þetta nauðsynlegt ekki síst til að stuðla að virkni í hverfisþróun og viðburðum. Fleiri ámóta verkefni væru vel þegin. Nú streymir fólk inn í landið víðsvegar úr heiminum ýmist til að vinna eða leita verndar. Samfélag okkar hefur aldrei verið eins fjölbreytt. Mikil þörf er á ráðgjöf af alls kyns tagi og upplýsingum. Það er skylda okkar og ábyrgð að teygja okkur til þessara hópa og leiða þá til virkni í samfélagið okkar til að þau geti átt hér gæðalíf.

 

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. október 2022:

Auglýsingaskilti við Lönguhlíð, standur fyrir auglýsingaskilti: Það er mat meirihlutans í borginni að það séu hverfandi líkur á ónæði frá auglýsingaskiltinu fyrir íbúa og aðra vegfarendur við Lönguhlíð. Spurning hvort það megi draga í efa. Kannski væri gott að hafa einhvern reynslutíma og endurskoða svo þetta skiltamál að honum liðnum. Það er þannig að ef skilti er einu sinni komið upp þá er hætta á að það verði þar að eilífu þótt mikil óánægja sé með það. Fram hefur komið hjá íbúum að ekki hafi verið haft samráð við nema örfáa og að áform um skiltauppsetningu stríði gegn samþykktum. Í markmiðum samþykktar um skilti í Reykjavík segir beinlínis að „skilti séu íbúum borgarinnar ekki til ama eða óþæginda og að þau skerði ekki hönnun mannvirkja, hafi neikvæð áhrif á umhverfi eða skerði ásýnd borgarinnar.“ Einnig segir að halda eigi fjölda skilta í lágmarki og að leggja eigi áherslu á að fjöldi skilta valdi ekki óreglu og ringulreið í sjónlínu gatna. Það hlýtur að eiga að horfa á þessi mál í heild sinni. Um þennan málaflokk þarf eins og aðra að ríkja sátt og skipulag. Ljósaskilti og auglýsingaskilti almennt hafa mikil áhrif á útlit hverfa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, bókað er undir 4. lið yfirlitsins:

Strætó er á barmi gjaldþrots. Hvernig á fólk að komast leiðar sinnar. Þetta eru einu almenningssamgöngurnar. Strætó þarf að virka og fólk að hafa ráð á að taka sér far. Tíðni strætóferða skiptir miklu máli en ekki síður kostnaður hvers fargjalds. Árskort hafa hækkað svo um munar. Í raun er erfitt að ferðast hagkvæmt með strætó. Hvað varð um loforð Framsóknar um frítt í strætó? Almenningssamgöngur eru í lamasessi en meirihlutinn veðjar á borgarlínu sem allir vita að mun seinka. Nú er Strætó bs., byggðasamlag. Það kerfi hentar illar fyrir rekstur af þessu tagi. Vinna hefur verið í gangi um að gera byggðasamlög skárra rekstrarform með tilkomu stefnuráðs. Mörgum þykir að með stefnuráðinu hafi flækjustig aukist. Til dæmis er ekki tekið á því hvað gera skal í krísum sem sífellt eru að koma upp. Flokkur fólksins telur að finna þurfi annað kerfi en byggðasamlag fyrir Strætó. Stjórn Strætó situr í lokuðu herbergi og tekur ákvarðanir ýmist um að draga úr þjónustu eða hækka fargjöld. Engin stefna, engin aðkoma eigenda og engin aðkoma minnihluta fulltrúa. Hér er ekkert lýðræði.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skoða skuli fleiri úrræði innan heimaskólanna fyrir börn sem ekki geta verið inn í almennum bekk:

Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að fela skóla- og frístundaráði að skoða fleiri úrræði innan heimaskólanna fyrir börn sem af einhverjum orsökum geta ekki stundað nám í almennum bekk. Hér er átt við smærri, fámennari hópa þar sem börnin fá þjónustu við hæfi. Brúarskóli og Klettaskóli eru báðir sprungnir og er biðlisti í báða. Börn sem koma í Brúarskóla ættu að vera búinn að fá tækifæri til að vera í minni hóp í sínum heimaskóla þar sem er minna áreiti og þar sem hægt er að sinna þeim á einstaklingsgrunni. Ef svigrúm væri fyrir þetta þá myndi biðlistar í sérskóla styttast. Ekki allar umsóknir sem koma inn í Brúarskóla eru tengdar ofbeldi þó svo að langflestar séu það. Hér er ekki átt við sérkennsluúrræðið. Í mörgum tilfellum eru börn sett í sérkennslu aðeins vegna þess að þau eru með hegðunarvanda. Þannig var sérkennsla ekki hugsuð þ.e. sem staður til að taka við börnum sem ekki gátu verið inn í bekk vegna hegðunarvandamála. Sérkennsluúrræðin er auk þess löngu sprungin. MSS22100067

Greinargerð

Flokkur fólksins lagði það til árið 2019 að Brúarskóli yrði stækkaður enda er hann staðsettur á einstökum stað. Tillögunni var hafnað í meðförum hennar í skóla- og frístundaráði/sviði. Aldrei hefur orðið að neinni stækkun.  Tillagan gengur út á að skóla- og frístundasvið skapi og/eða styrki fleiri slík stuðningsúrræði þar sem börn stunda nám í fámennum hópum í heimaskóla sínum. Börn eru ekki öll eins og við verðum að horfa á það, að það geta ekki allir þrifist í stórum fjölmennum hópi 25-40 nemendahópi. Þar er áreiti mikið og álag á kennara of mikið til að hægt sé að sinna hverju barni sómasamlega. Brúarskóli og Klettaskóli eru löngu sprungnir og biðlistar í þá langir.  Eins og staðan er núna er skóli án aðgreiningar aðeins falleg orð á blaði. Skólar í Reykjavík eru almennt vanbúnir að takast á við börn með ákveðnar sérþarfir. Sú tillaga sem hér er lögð fram lætur hugmyndafræðina um „skóla án aðgreiningar“ standa betur undir nafni. Mæta þarf þörfum allra barna í skólanum og hópur barna á erfitt með að stunda nám í stórum bekkjareiningum. Smærri einingar verða að vera í boðið sem gefur börnum sem ekki geta verið í almennum bekk og fá ekki inngöngu í Brúarskóla eða Klettaskóla tækifæri til að stunda nám í sínum eigin skóla og með jafningjum.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um áhrif gjaldskrárhækkunar Strætó á efnaminni foreldra:

Rekstur Strætó hefur verið í járnum að undanförnu. Hækkun fargjalds tók gildi 1. október. Gjaldskrá ungmenna í strætó hækkar verulega eða úr 25.000 kr. í 40.000 kr., en hækkunin er um 60%. Árskort mun einnig hækka umtalsvert. Hér er verið að fara þveröfuga leið en stefnt var að sem var að frítt yrði í strætó fyrir börn. Óttast er að þessi gjaldskrárhækkun mun hafa mest áhrif á börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn til meirihlutans í borgarstjórn um hvaða áhrif talið er að hækkun strætófargjalds sem tók gildi 1. október hefur á börn sem búa við fátækt? Einnig er spurt hvernig þessi hækkun samræmist loforði meirihlutans um ókeypis fyrir grunnskólabörn í strætó? Óskað er skýringa því þetta samræmist varla hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu og er sýnilega í hróplegri andstöðu við betri borg fyrir börn. Hætta er á að það muni aukast líkur á að foreldrar aki börnum sínum í tómstundir og ekki er það gott fyrir kolefnissporið. MSS22100068

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um um hvernig þessari þjálfun í upplýsingaöryggi hjá Torginu er háttað í dag:

Fyrirspurn í framhaldi af svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs við fyrirspurn Flokks fólksins um gagnaleka. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður komið fram með fyrirspurnir um öryggismál og telur að með niðurlagningu starfs öryggisstjóra sviðsins árið 2020, hafi ekki verið tekið skref til aukins öryggis gagna borgarinnar. Fram hefur komið í svörum sviðsins að einhverskonar tilraunastarfsemi eða þróun varðandi öryggismál hafi farið í gang í kjölfar uppsagnar öryggisstjóra. Í svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem vísað er í hér segir að auðvelt sé að rekja atvik ef uppákomur verða. Þeir notendur sem óska eftir möguleika á stjórnendaréttindum þurfa einnig að undirgangast frekari þjálfun í upplýsingaöryggi, en sú þjálfun verður veitt í gegnum Torgið, fræðslukerfi Reykjavíkurborgar. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvernig þessari þjálfun í upplýsingaöryggi hjá Torginu er háttað í dag.