Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við endurgerð Káratorgs, ásamt fylgiskjölum:
Meirihlutinn óskar eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við endurgerð Káratorgs. Kostnaðaráætlun 2 er 150 m.kr. Fram kemur að áhersla er á aðgengi fyrir alla. Komið verður fyrir gróðursvæðum og blágrænum lausnum vegna yfirborðsvatns. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hver séu rökin fyrir blágrænum lausnum vegna yfirborðsvatns á einu litlu torgi? „Blágrænar lausnir“ eru að verða tískuorð í öllum framkvæmdum á vegum borgarinnar eins og „líffræðilegur fjölbreytileiki“.
Bókun Flokks fólksins við við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir í nýbyggingarhverfum 2022:
Meirihlutinn óskar eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir í nýbyggingahverfum 2022. Um er að ræða verkefni í Úlfarsárdal, Reynisvatnsási, Norðlingaholti, Sléttuvegi, Brekknaás og Esjumelum. Það er heldur betur kominn tími til að gera þetta að mati fulltrúa Flokks fólksins. En væri ekki ástæða til að huga að blágrænum lausnum vegna yfirborðsvatns hérna? Þetta er öllu stærra svæði en eitt lítið borgartorg eins og Káratorg þar sem koma á fyrir blágrænum lausnum vegna yfirborðsvatns.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við endurgerð Laugavegar frá Hlemmi að Snorrabraut og endurgerð Rauðarárstígs frá Bríetartúni að Hlemmi:
Meirihlutinn óskar eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við endurgerð Laugavegar frá Hlemmi að Snorrabraut og endurgerð Rauðarárstígs frá Bríetartúni að Hlemmi. Þetta er mikil framkvæmd sem verður vissulega til bóta fyrir umhverfið og ekki veitir af því. Hér á einnig að að beita blágrænum lausnum eins og er í tísku núna hjá skipulagsyfirvöldum. Áætlað er að þessi upphafs framkvæmd kosti borgina 300 milljónir. Hér er auðvitað aftur spurt um forgangsröðun verkefna. Minnt er á alvarlega stöðu velferðarsviðs um biðlista barna eftir fagþjónustu sem telur um 1800 börn og margs konar aðra þjónustu á forræði borgarinnar sem borgarbúar bíða eftir að fá. Beiðnum um sálfræðiaðstoð hefur fjölgað mikið síðustu misseri.
Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 5. apríl 2022, þar sem viljayfirlýsing um uppbyggingu græns iðngarðs með hringrásarhugsun á Grundartanga er lögð fram til kynninga:
Hér er um að ræða hverfisskipulag utan við borgina en þetta er þarft verkefni að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þarna verður hægt að nýta glatvarma, varmaorku sem nú er ekki nýtt að marki og það er jákvætt. Þarna er í fyrsta skipti áætlun um endurvinnslu stáls/járns sem nú er allt flutt úr landi til endurvinnslu annars staðar.
Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 5. apríl 2022, þar sem skilabréf stýrihóps um forgangsröðun viðbygginga fyrir skóla- og frístundastarfs er lagt fram til kynningar:
Fulltrúi Flokks fólksins er sammála niðurstöðum greiningarinnar og finnst að sjálfsögðu jákvætt að skýrsluhöfundar virðast sammála íbúum í Laugardal um mikilvægi þess að uppsafnaðri þörf verði mætt og ekki síður stækkaðir til að geta tekist á við frekari fjölgun nemenda í skólahverfunum. Helsta gagnrýni fulltrúa Flokks fólksins á þessar niðurstöður eru að í skýrslunni er áætluð framtíðarþörf Laugarnesskóla að sinna aðeins 593 nemendum. Í skýrslu starfshóps um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi (sviðsmyndagreiningin) er gert ráð fyrir að í óbreyttri skólagerð verði nemendafjöldi Laugarnesskóla 683 nemendur árið 2030 og 686 nemendur árið 2040. Það skeikar verulega í þessum forsendum. Frávik í forsendum fyrir Laugalækjar- og Langholtsskóla eru minni. Fyrirhuguð áform um byggingu íbúða á þéttingarreitum í skólahverfi skólanna í Laugardal styður forsendur í sviðsmyndagreiningunni og því telur fulltrúi Flokks fólksins líkur á að þessi framtíðarþörf sé vel vanmetin í skýrslu stýrihóps um forgangsröðun viðbygginga fyrir skóla- og frístundastarf. Nemendum Laugarnesskóla hefur fjölgað um 166 frá árinu 2008 og það stefnir að óbreyttu í að þeir verði 250 umfram þolmörk árið 2030. Í skýrslunni er ekki fjallað um mismunandi aðstöðu til kennslu í íþróttum eða verklegum greinum og getur það haft áhrif í þessum samanburði.
Bókun Flokks fólksins við bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 4. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili frekari hönnun og undirbúning á endurgerð og stækkun á húsnæði Hagaskóla:
Því er fagnað að nú skuli gert ráð fyrir hönnun og undirbúning á endurgerð og stækkun á húsnæði Hagaskóla. Árum saman hafa skólayfirvöld og foreldrar kvartað vegna ástandsins, skólinn löngu sprungin og mygla og raki víða í eldri byggingu með tilheyrandi veikindum barna og starfsfólks. Nú er komið að viðhaldi og endurbyggingu, loksins.
Bókun Flokks fólksins við bréfi skóla- og frístundasviðs, dags. 31. mars 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs þann 20. mars 2022 á innleiðingaráætlun stefnu um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík:
Innleiðingaráætlun stefnu um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík til 2030. Það sem skiptir mestu máli er að börn í Reykjavík sitji við sama borð í þessum efnum þar sem nám í tónlistarskóla er fokdýrt. Í nýlegri skýrslu stýrihóps borgarinnar um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík var ekki fjallað um uppbyggingu tónlistarkennslu í grunnskólum og því voru ekki skoðaðar samhliða leiðir til að draga úr ójöfnuði þegar kemur að tækifærum til tónlistarnáms. Ójöfnuðurinn mun því halda áfram ef heldur sem horfir um ókomna tíð ef ekki verður tekið sérstakt skref til að bregðast við. Það sem hlýtur að þurfa að gera er að færa tónlistarnám mun meira inn í skólana en nú er reyndin. Með því að gera það hafa öll börn jafnan aðgang að tónlistarnámi. Skólahljómsveitir hjálpa mikið. Þær eru sem stendur 4 og eru ca. um 120-130 börn í sveit. Það eru eitt eða tvö ár síðan þær voru stækkaðar. Ef vel ætti að vera þyrfti að vera fleiri hljómsveitir og hvetja börn með markvissum hætti til að ganga í þær
Bókun Flokks fólksins við bréfi mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 4. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki öryggisstefnu fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg. Einnig lagt fram minnisblað öryggisnefndar Reykjavíkur um mat á kostnaði við framkvæmd öryggisstefnu:
Eitt af meginmarkmiðum öryggisstefnunnar er að „innleiða áætlun um forvarnir og viðbrögð vegna ofbeldis gegn starfsfólki hjá Reykjavíkurborg“. Hver er tenging svona stefnu við stefnu borgarinnar í eineltis- og ofbeldismálum? Fulltrúa Flokks fólksins finnst vanta að fleiri hópar séu tilgreindir, t.d. kjörnir fulltrúar sem eru í sérlega erfiðri stöðu. Ef minnihlutafulltrúar verða fyrir ofbeldi eða áreitni af hálfu starfsmanna eða annarra kjörinna fulltrúa á meðan þeir sinna sínu hlutverk sem er m.a. veita aðhald og hafa eftirlit með rekstri sveitarfélags, hafa þeir í engin hús að venda enda ekki stéttarfélögum fyrir að fara, eðli málsins samkvæmt. Á minnihlutafulltrúum getur meirihlutinn „lamið“ sé hann þannig innrættur fyrir það eitt að gagnrýna t.d. forgangsröðun ráðstöfunar fjármuna. Líki meirihlutanum ekki málflutningur minnihlutafulltrúa getur hann í krafti valds síns sakað hann um að vera með óhróður og dónaskap og beitt hann viðurlögum, lesið yfir honum. Minnihlutafulltrúi getur ekki komið við vörnum enda hefur hann ekki dagskrárvaldið. Og hvað með bs.-fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu borgarinnar? Alvarleg mál hafa komið upp hjá nokkrum þeirra sem ekki hefur tekist að leysa. Ekki á að skilja neinn útundan eða setja stefnu til þess eins að negla einhvern einn hóp.
Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarráðs að bjóða 200 sumarstörf fyrir 17 ára einstaklinga í Reykjavík í 4-6 vikur en í ár auglýsir Reykjavíkurborg 1040 sumarstörf og eru einungis 40 stöðugildi þar sérstaklega ætluð 17 ára einstaklingum:
Fulltrúi Flokks fólksins styður þetta heilshugar. Hér er fjármagni vel varið. Hugsanlega þarf að vinna mun meira í atvinnumálum ungmenna og slíka atvinnu á ekki að líta á sem útgjöld heldur má búast við því að tækifæri til vinnu fyrir þennan hóp skili hagnaði á marga og ólíka vegu. Ákveða þarf verkefnin sem þörf er á að vinna og skipuleggja þau í samráði við þá sem málið varðar,
Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 1. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja verkefni um íbúagáttir:
Fulltrúi Flokks fólksins ítrekar enn og aftur að hann er fylgjandi öllum þeim lausnum sem stuðla að betri þjónustu við borgarbúa hvort sem það eru stafrænar lausnir eða aðrar. Fulltrúinn leggur hins vegar mikla áherslu á að skilvirkni og gott verklag ráði för þegar um þjónustu umbætur er að ræða. Eins og flestum ætti að vera ljóst hefur Fulltrúi Flokks fólksins ítrekað bent á að bæði skilvirkni og góðu verklagi sé í meira lagi ábótavant hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Því til sönnunar eru allar þær tafir og flækjur sem sviðið hefur lengi verið fast í um innleiðingu mikilvægra lausna. Má þar nefna nýja skjalastjórnunarkerfið Hlöðuna og nýjan vef Reykjavíkurborgar sem enn er hálfklárað verk. Nú er sviðið að sækja um heimild til þess að hefja enn frekari uppgötvunar, þróunar og tilraunaferla vegna smíði á nýrri íbúagátt og styrkja umsóknarkerfi sem á að samþætta nýja Reykjavíkurvefnum og Hlöðunni. Enn og aftur er hin flókna og tímafreka leið uppgötvunar, tilrauna og þróunar notuð til þess að finna upp lausn sem alveg örugglega er til og í notkun annars staðar. Þessar lausnir sem taldar eru upp eru ekki þess eðlis að þær séu hvergi annars staðar að finna.
Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 25. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði, fyrir hönd fjármála- og áhættustýringarsviðs, að hefja verkefnið miðlægt atvikaskráningarkerfi fyrir Reykjavíkurborg:
Fulltrúi Flokks fólksins er enn og aftur hissa á því hvað Reykjavíkurborg er í raun langt á eftir í stafrænni umbreytingu, þrátt fyrir ítrekaðar alhæfingar þjónustu- og nýsköpunarsviðs um hið gagnstæða. Atvikaskráningakerfi er að finna hér út um allt í þjóðfélaginu hvort sem um er að ræða hjá opinberum aðilum eða einkafyrirtækjum eins og tryggingafélögum og fleirum. Innleiðing slíks kerfis ætti því að vera nokkuð vel skjalað og reynt ferli sem ætti ekki að þurfa að fara með í gegnum langa og erfiða uppgötvunar-, tilrauna og þróunarferla þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Það er því von fulltrúa Flokks fólksins að þessi innleiðing gangi hratt og vel fyrir sig og að reynt verði að halda kostnaði innan tilgreindra marka.
Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 25. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði, fyrir hönd mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, að hefja verkefnið lýðræðisgáttir Reykjavíkurborgar:
Fulltrúi Flokks fólksins finnst skrítið að þurfa alltaf að vera að benda á sömu hlutina hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Fyrst var það gróðurhúsið sem kynnt var á opinberum vettvangi þannig að það sem kæmi út úr því skipti í raun beinlínis engu máli heldur bara það að mest um vert var að fara í gegnum eitthvað óskilgreint ferli og fá einhverjar ævintýralega upplifun. Eins og kemur fram í forsögu í meðfylgjandi minnisblaði þessa máls, var stofnaður starfshópur 29. október, 2020 sem hefur verið að rannsaka málefni tengd lýðræðisþátttöku þvert á borgina og var helsta verkefni hópsins að skapa heildræna þjónustu, upplifun og fleira. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að í mörg ár hefur „Hverfið mitt“ verið vettvangur fyrir hluta þess sem hér um ræðir. Íbúakosningar hafa farið þarna fram með ágætum árangri hingað til. Hér er hins vegar um að ræða tímafreka og kostnaðarsama uppfærslu á þjónustu sem nú þegar er til í smærri mynd. Þetta er dæmi um verkefni/uppfærslu sem hefði mátt bíða og annað mikilvægar sett framar í forgangsröðina.
Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 25. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði, fyrir hönd íþrótta- og tómstundasviðs, að hefja verkefni um sjálfsafgreiðslu og sjálfvirkni í sölu á aðgangskortum:
Fulltrúi Flokks fólksins er sammála öllum þeim aðgerðum sem auka sjálfvirkni og spara tíma. Bent er þó á að það verður að gera ráð fyrir möguleikum fyrir fólk og eldra fólk sem vegna fötlunar eða aldurs gætu átt í erfiðleikum með að tileinka sér nýjar afgreiðsluleiðir. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að hugsað sé til allra þjóðfélagshópa hvað þetta varðar. Enn og aftur ítrekar fulltrúi Flokks fólksins að leitað verði lausna sem nú þegar eru til og í notkun annars staðar og ekki verði eytt miklum tíma í uppgötvanir og tilraunir á lausnum sem til eru og virka.
Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 24. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja gerð og innleiðingu þjónustugáttar til að stuðla að skilvirkni í rekstrarþjónustu:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst undarlegt að verið sé að sækja um nýtt verkbeiðnakerfi þegar litið er til þess að nýtt verkbeiðnakerfi er nú þegar í notkun innan sviðsins. Það hlýtur að vera einfaldara að nota sama verkbeiðnakerfi innan eininga þjónustu- og nýsköpunarsviðs og víðar innan borgarkerfisins. Erfitt er að skilja af hverju þarf að fara út í enn meiri kostnað með tilheyrandi flækjustigi þegar nýtt verkbeiðnakerfi er nú þegar til staðar sem hlýtur að vera hægt að aðlaga fleiri verkefnum og gera aðgengilegt í þjónustugátt á innri vef borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að hugsa hefði átt hlutina í stærra samhengi fyrir rúmu ári síðan þegar nýtt verkbeiðnakerfi var keypt fyrir tölvudeild sviðsins. Það hlýtur að vera mikil hagræðing fólgin í því að reyna að hafa eitt samræmt verkbeiðnakerfi á alla borgina í stað þess að vera með hin og þessi kerfi út um allt. Það sama á við um hússtjórnarkerfið sem og öll aðgangsmál stjórnsýsluhúsa og víðar í framhaldi af því. Starfsmenn ættu að geta notað sama aðgangskortið hvar sem þeir eru staðsettir í borginni með miðlægri aðgangsstýringu.
Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 24. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja verkefnið umhverfisstjórnun stjórnsýsluhúsa:
Fulltrúi Flokks fólksins er sammála því að efla eigi innanhúss umhverfisgæði og auka þannig vellíðan starfsfólks. Þarna eru talin upp allskyns mælitæki og tól sem eiga að hlúa að lífsgæðum og vellíðan starfsfólks stjórnsýsluhúsa Reykjavíkurborgar. En hvað með alla aðra starfsstaði borgarinnar? Hvað með leikskóla og grunnskóla sem sumir hverjir eru það illa haldnir af myglu að búið er að rýma þúsundir fermetra af vinnusvæði barna í skólum sem hafa mælst beinlínis hættulegir heilsu þeirra? Eiga öll þessi mælitæki og tól ekki mun meira erindi þangað sem raunveruleg þörf er fyrir þau? Hér er forgangsröðunin gagnrýnd. Það er sérkennilegt að lesa þessa ósk þjónustu- og nýsköpunarsviðs til dýrra mælitækja og tóla til þess að efla enn betur þann aðstöðumun og forréttindi sem starfsfólk stjórnsýsluhúsa Reykjavíkurborgar njóta nú þegar umfram alla aðra starfsstaði og skóla borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins vill þess vegna koma því á framfæri að óskað verði eftir sömu gæðum í öðrum vinnurýmum og skólum Reykjavíkurborgar.
Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 25. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja undirbúning á innkaupum þróunar viðmótseininga á vefsvæði Reykjavíkurborgar m.a. vegna birtingar nýrra efnisflokka á forsíðunni:
Hér er beðið um heimild til að hefja verkefni um þróun viðmótseininga til að birta fjölbreytt efni á vefsvæðinu reykjavik.is. Nýr vefur er nýlega farið í loftið og ótal margt þar er ekki í lagi. Hann virðist hálfkláraður og enn er verið að vísa notendum á gamla vefinn þegar sá nýi virkar ekki. Nú kemur í ljós að ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir miklu magni upplýsinga eða annars efnis vegna þess hversu notendaupplifunin átti að vera einföld og góð. Einnig kom í ljós að annar vefur er til sem hýsir allt það sem skiptir máli og ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir því í hönnun nýja vefsins. Síðan kom í ljós að nýtt hönnunarkerfi „Hanna“ ræður ekki við það sem þarf að gera til þess að koma þeim upplýsingum á vefinn sem þurfa að vera þar. Nú þarf því að fá meira fjármagn til þess að þróa áfram hönnunarkerfið Hönnu svo hægt sé að halda áfram að þróa nýja vefinn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur leitað álits sérfræðinga í þessum málum til að átta sig betur á þeim og í framhaldi reynt að opna augu og eyru meirihlutans í þeirri von að gagnrýnni hugsun sé beitt þegar þessi stafrænu mál þjónustu- og nýsköpunarsviðs eru til umræðu.
Bókun Flokks fólksins við drögum almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar:
Innleiðing á nýju vefsvæði reykjavik.is hefur gengið sérlega illa og ekki er fyrirsjáanlegt hvernig málið mun þróast. Sökin er sett á Úkraínu og öryggi aðgerða vegna stríðsins. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki alveg viss um að þetta sé rétt. Vefurinn lítur ágætlega út en það nær skammt ef hann er ekki þjáll. Í raun má segja að innleiðing þessa vefjar sé hálfklárað verk. „Mínar síður“ og Rafræn Reykjavík eru enn að því er virðist ónothæfar og leit í fundargerðum ber oft á tíðum lítinn árangur. Spurt er hvort það geti verið að innan þjónustu- og nýsköpunarsviðs skorti hreinlega þá sérfræðiþekkingu sem þarf til verksins. Minnt er á að fjölmörgum sérfræðingum á þessu sviði var sagt upp og það í miðju COVID. Einnig eru þarna skipurit sem ekki hafa verið uppfærð í langan tíma, þar á meðal skipurit þjónustu- og nýsköpunarsviðs sjálfs sem er með vefinn. Ef borið saman við aðra vefi fær vefur borgarinnar slaka einkunn fyrir margar sakir. Taka má dæmi um foreldra sem eru að setja barn sitt á leikskóla, að þá fá þau enn í hendur nokkrar blaðsíður af innritunar skjölum sem þarf að haka við og handskrifa undir. Ekkert stafrænt er þar á ferð.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um innleiðingu rafrænna undirritana hjá Reykjavíkurborg, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. febrúar 2022:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svör. Fulltrúi Flokks fólksins telur að nauðsynlegt sé að fylgjast með því hvernig þjónustu- og nýsköpunarsvið ber sig að með að vinna þau verkefni sem það tekur sér fyrir hendur. Ljóst er að nánast undantekningarlaust er farið með einföldustu verkefni sem sviðinu berast eða það tekur upp á sjálft, í gegnum flókinn og óskilvirkan feril uppgötvana og tilrauna áður en lausn eða vara er loksins innleidd, ef hún nær að klára þann feril á annað borð. Svar sviðsins er einnig skreytt tilvitnunum í stjórnsýslulög og fleiru ásamt því að ýjað er að því að sviðið sé í leit að göllum eða öðru þrátt fyrir að aðrir séu að nota þessa lausn án vandræða. Það er alveg ljóst að þjónustu- og nýsköpunarsvið er að eyða allt of miklum tíma og peningum í það að fara sínar eigin fjallabaksleiðir að markmiðum sem aðrir eru fyrir löngu búnir að ná. Það er kjarni málsins, tímaeyðsla og kostnaður í enn eitt uppgötvunarferlið þegar notast hefði mátt við niðurstöður þróunar og verkferla sem hljóta að hafa orðið til hjá opinberum aðilum við innleiðingu.
Bókun Flokks fólksins við 14. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 6. apríl 2022:
Nú er svo komið að Strætó bs. þarf að minnka þjónustutíma og þjónustustig Strætó vegna aðhaldsaðgerða í rekstri félagsins. Meðal annars þarf að draga úr tíðni dag-, ferða á einhverjum leiðum og gera breytingar á kvöldferðum á fjölda leiða. Gert er ráð fyrir að með breytingunum sparist rúmlega 200 milljónir króna í rekstri en Strætó situr uppi með 454 milljóna króna halla. Tap síðustu tveggja ára nálgast milljarð. Í tilkynningu frá Strætó bs. segir að COVID-faraldurinn hafi leikið rekstur Strætó grátt og tekjur hafi minnkað um allt að 1,5 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Ekki er ein báran stök. Í miðju COVID eru teknar fjárfrekar ákvarðanir, fjárfest í nýju greiðslukerfi og fjölgað í flotanum með þeim afleiðingum að draga þarf úr þjónustunni. Það er margt skrýtið í rekstri Strætó bs. sem er byggðasamlag nokkurra sveitarfélaga og á Reykjavík stærsta hluta þess. Reksturinn er óvenjulegur því fátítt er að bæði stjórn og skipulagning þjónustunnar ásamt akstri vagna sé á sömu opinberu hendinni. Þetta kemur m.a. fram í nýlegri skýrslu sem VSB verkfræðistofa vann fyrir Strætó. Strætó sinnir báðum þessum hlutverkum í dag án nokkurra skila á milli mismunandi þátta rekstrarins, en fyrirtækið útvistar þó um helmingi af öllum akstri sínum til annarra.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um Loftkastalamáli:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur reynt að setja sig inn í þetta sérkennilega mál, Loftkastalamálið og hefur lagt fram allmargar fyrirspurnir um það. Fátt er um svör og ljóst er af skeytum til borgarfulltrúa að stórfelldur vandræðagangur ríkir í þessu máli hjá skipulagsyfirvöldum og er því þessi fyrirspurn lögð fyrir borgarráð. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að spyrja núna af hverju fékk Reykjavík ekki óháðan aðila til mælinga, heldur var aðeins fyrirtækið Verkís spurt hvort þeir hefðu gert eitthvað vitlaust? Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst stenst svar þeirra tæplega skoðun. Fulltrúi Flokks fólksins ítrekar allar fyrirspurnir og skorar á borgaryfirvöld að ræða við hagaðila með það að markmiði að leysa málið. Þetta mál er svo viðamikið og flókið að réttast væri að innri endurskoðun tæki á því snúning MSS22040101
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn kostnað vegna fagaðstoðar til að leysa eineltismál hjá Strætó:
Nú er svo illa komið fyrir Strætó að minnka þarf þjónustutíma og þjónustustig Strætó vegna aðhaldsaðgerða í rekstri félagsins til að ná endum saman, en gert er ráð fyrir að spara þurfi um 275 milljónir króna á árinu 2022. Þetta kemur fram í tilkynningu. Meðal annars þarf að draga úr tíðni dagferða á einhverjum leiðum og gera breytingar á kvöldferðum fjölda leiða. Fulltrúi Flokks fólksins hefur upplýsingar um að háar fjárhæðir hafa farið í að ráða sálfræðinga og fyrirtæki til að reyna að leysa eineltismál og önnur samskiptamál hjá Strætó en ekki haft árangur sem erfiði. Óskað er upplýsinga um þá fjárhæð sem farið hefur í að greiða utanaðkomandi fagfólki vegna þessara mála. Til hverra hafa greiðslur farið og hverjar eru upphæðirnar? Einnig er óskað upplýsinga um lögfræðikostnað Strætó bs. sem tengist málum af þessu tagi. MSS22040102
Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um sértækar aðgerðir vegna hækkandi verðbólgu:
Verðbólga mælist nú 6,7 prósent og hefur ekki verið meiri í áratug. Þessa verðbólgu má að mestu leiti rekja til framboðsskorts á húsnæði. Þetta hefur leitt til þess að nýlega hækkuðu stýrivextir úr 2 í 2,75%. Þetta þýðir að róður ákveðinna hópa mun þyngjast verulega. Að óbreyttu munu mánaðarlegar afborganir hækka um tugi þúsunda hjá þeim sem nýlega eru komnir á fasteignamarkaðinn. Námsmenn og láglaunafólk mun lenda í vanda sérstaklega þeir sem tekið hafa óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Undanfarin ár hefur sárvantað aukið framboð á hagkvæmu húsnæði í Reykjavík og ekki er útlit fyrir breytingar á næstunni ef þessi borgarmeirihluti heldur áfram. Verðbólgan bitnar ávallt verst á þeim sem hafa minnst milli handanna. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort og hvernig Reykjavíkurborg ætlar að bregðast við þessu? Ætlar Reykjavíkurborg að samþykkja að grípa til einhverra sértækra aðgerða til að hjálpa þeim sem berjast í bökkum að halda húsnæði sínu til að þrauka þangað til að aðstæður skána? Ætlar Reykjavíkurborg að samþykkja að auka fjárheimildir til að auka stuðning við þá sem eru á leigumarkaði en þar er fólk að greiða allt að fjórðung tekna sinna í leigu? Mun Reykjavíkurborg samþykkja að skoða hvort ákveða þurfi sértækar aðgerðir til að hlaupa undir bagga með barnafjölskyldum sem eru með tekjur undir 442.324 kr. á mánuði (þ.e. 5.307.888 kr. á ári) t.d. með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og gjaldfrjálsu frístundaheimili? MSS22040103