Borgarráð 20. janúar 2022

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis – og skipulagssviðs, dags. 12. janúar 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. janúar 2022, á yfirliti verkefnis og hlutverks vinnuhóps um yfirferð umsókna til Húsverndarsjóðs Reykjavíkurborgar 2022:

Styrkveitingar eru vandasamar og mikilvægt er að hópurinn sé vel skipaður. Þarna eru taldir upp þrír embættismenn og ættu kjörnir fulltrúar að vera allavega fjórir að mati fulltrúa Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins við bréfi við tillögu borgarstjóra, dags. 18. janúar 2022 að borgarráð samþykki hjálögð samningsmarkmið Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á nýjum uppbyggingarsvæðum:

Gott mál að liðka til að hægt sé að breyta og auka húsnæði í grónum hverfum með það i huga að hverfin virki sem félagslegar einingar, með verslunum og almennri þjónustu. Það mun þá gerast í samráði við íbúa og það verða þeir sem koma með hugmyndir og tillögur. Þetta er allt annað en að koma með mótaðar hugmyndir um einhverja gerð húsa, oftast blokkir sem settar verða inn í rótgróið hverfi. En þegar farið er af stað með slíka skipulagsvinnu þarf að taka tillit til innviða svo sem: er nóg af leikskólaplássum, bílastæðum, hjólastæðum, grænum svæðum og samgönguæðum? Notast ætti einmitt við þessa hugmyndafræði við mótun hverfisskipulags. Við gerð hverfaskipulags Háaleitis og Bústaða varðandi þéttingu við Bústaðaveg er t.d. lítið um fjölbreytileika hvað þá að gera átti mikið til að byggja upp góðan staðarandi og varðveita yfirbragð byggðar. Nú liggur fyrir bókun meirihluta í skipulags- og samgönguráði um að frá þeim þéttingaráformum skuli fallið. Hvað varðar annað eru íbúar skildir eftir á flæðiskeri og mega búast við að áfram verði þrengt að grónum hverfum borgarinnar ef þessi meirihluti situr áfram við völd.

Bókun Flokks fólksins við bréfi hjálögðu samkomulag Reykjavíkurborgar við Malbikunarstöðina Höfða hf. um brottflutning á Sævarhöfða 6-10 á Ártúnshöfða í Reykjavík:

Fulltrúi Flokks fólksins á erfitt með að meta samkomulag um brottflutning Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Ljóst er að sumt er gagnlegt fyrir borgina eins og það að fá strax afnot af lóðinni, en óvíst er að mati Flokks fólksins hvort að annað geti leitt til kostnaðar eins og frágangur á lóð vegna niðurrifs bygginga. Ef horft er til greinar 6.1 segir þar að „í samræmi við gr. 1.5. starfsleyfis Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf., sem er útgefið 27. mars 2019 og gildir til 31. desember 2022, skal Malbikunarstöðin Höfði hf., við stöðvun rekstrar, ráðstafa á viðurkenndan hátt öllum úrgangi, efnum, útbúnaði, tækjum, rekstrarsvæði, geymum, lögnum og menguðum jarðvegi.“ Þetta er vissulega gott en hversu tryggt er þetta ákvæði? Verður t.d. tryggt ef af sölu Höfða verður að kaupaðili samþykki að taka á sig kostnað vegna mögulegrar hreinsunar jarðvegs á Sævarhöfða?

Bókun Flokks fólksins við bréfi tillögu að borgarráð samþykki að fjármála- og áhættustýringasviði verði falið að meta kosti þess og galla að selja Malbikunarstöðina Höfða hf. Leitað verði til óháðra ráðgjafa vegna verkefnisins:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á að Reykjavíkurborg sinni grunnþjónustu við borgarbúa vel. Fulltrúi Flokks fólksins telur að Malbikunarstöðin Höfði sé ekki hluti af grunnþjónustu og styður því að þessi þjónusta verði seld og fjármagn sem fæst úr slíkri sölu verði nýtt í grunnþjónustu eins og að fækka biðlistum barna. Fulltrúi Flokks fólksins telur hins vegar að standa hefði mátt betur að þessum sölumálum. Af hverju var ekki leitast við að selja þessa þjónustu áður en að hún var flutt í Hafnarfjörðinn? Mögulegur kaupandi hefði hugsanlega séð tækifæri í samnýtingu við rekstur sinn, ætti lóð og byggingar o.s.frv. Með því að flytja reksturinn til Hafnarfjarðar er þegar búið að ráðstafa a.m.k. 700 milljónum í þessa flutninga auk þess sem fyrirhugað er tap hjá fyrirtækinu og þar m.a. vísað til taps vegna kostnaðar við flutninga. Þetta þýðir að við sölu fyrirtækisins þarf að fá a.m.k. 700 – 800 milljónum meira en ef að fyrirtækið hefði verið selt fyrir flutninga. Að sjálfsögðu hefði verið hægt að meta hvort að mögulegt söluverð hefði verið ásættanlegt og metið hagstætt áður en farið væri í að samþykkja flutninga fyrirtækisins.

Bókun Flokks fólksins við trúnaðarmerkt svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 18. janúar 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um flutning Malbikunarstöðvarinnar Höfða í Hafnarfjörð, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. nóvember 2021:

Ítarlegt svar liggur fyrir við fyrirspurnum Sjálfstæðisflokksins um flutning Malbikunarstöðvarinnar Höfða í Hafnarfjörð en svörin eru trúnaðarmál og koma aldrei fyrir augu borgarbúa. Fyrirtækið er á samkeppnismarkaði og starfsemi þess undanþegin gildissviði upplýsingalaga nr. 140/2012 sbr. úrskurð forsætisráðuneytisins dags. 10. jan. 2020. Þetta staðfestir enn frekar hvað fyrirtæki eins og Höfði verandi á samkeppnismarkaði á ekki að vera í eigu borgarinnar né önnur fyrirtæki sem eru undir sama hatt sett.

Bókun Flokks fólksins við svari innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 14. janúar 2022 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda kvartana til umboðsmanns borgarbúa/innri endurskoðunar, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. desember 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins heldur að það hafi verið mistök að leggja af embætti umboðsmanns borgarbúa í þeirri mynd sem það var. Fólk veit ekki enn að hægt er að kvarta yfir málum og hvar eigi þá að gera það. Það þarf að kynna hið nýja fyrirkomulag mikið betur. Málum hefur fækkað og einmitt vegna einhvers misskilnings og skort á upplýsingum. Hefði ekki þurft að undirbúa allt þetta betur?
Segir í svari að staðið hefur lengi til að hafa fræðslu en ekki hægt vegna COVID. Sárlega vantar stóra og mikla kynningu á þessari breytingu. Ýmsar ástæður er raktar fyrir fækkun mála en fulltrúa Flokks fólksins finnst það liggja nokkuð ljóst. Hlutverkið sem umboðsmaður borgarbúa hafði hefur einfaldlega ekki náðst að virka inn á skrifstofu Innri endurskoðunar. Ekki vegna þess að starfsfólk þar sé ekki að standa sig vel heldur er hlutverkið nú tengt embætti/skrifstofu en ekki persónu en umboðsmaður borgarbúa var sérlega vinsæll og liðlegur í þjónustu sinni. Ástæða er einnig eins og réttilega kemur fram að umboðsmaður borgarbúa aðstoðar einstaklinga ekki lengur við gerð skjala vegna málskots til æðra stjórnvalds.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um utanaðkomandi ráðgjöf við rekstur reykjavíkurborgar, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. desember 2021:

Tillagan er felld.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að fengin verði utanaðkomandi ráðgjöf til að fara yfir rekstur Reykjavíkurborgar. Tillagan er felld. Meirihlutinn vill kaupa alls konar ráðgjöf og hefur eytt tugum milljónum í ráðgjöf fyrir stafrænar lausnir. En meirihlutanum hugnast ekki að fá ráðgjöf við að reka Reykjavíkurborg. Illa gengur að finna fé til að veita öfluga grunnþjónustu. Víða í borginni er ekki verið að fara vel með fjármagn og meirihlutinn gæti nýtt sér utanaðkomandi ráðgjöf í því sambandi. Skoða þarf sárlega meðhöndlun fjármagns hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði en þar eru sterkar vísbendingar um að ekki hafi verið farið vel með fjármagn m.a. því eytt margvíslega ráðgjöf sem hvergi sést hvar skilar sér sem og tilraunir á ónauðsynlegum snjallverkefnum. Fjármálastjórn Reykjavíkurborgar veldur áhyggjum. Veltufé frá rekstri í A Hluta er neikvætt á árinu 2021 og einungis er gert ráð fyrir að það verði um 1.9% af heildartekjum á árinu 2022. Ljóst er að ekki gengur að reka Reykjavíkurborg á yfirdrætti og því ætti að huga að því hvort að ekki þurfi yfirferð á rekstri Reykjavíkurborgar. Oft sjá betur utanaðkomandi augu.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn tekur undir að mikilvægt er að áhersla borgarinnar sé á öfluga grunnþjónustu. Ekki er hægt að taka undir að sterkar vísbendingar séu fyrir því að Þjónustu- og nýsköpunarsvið sé skoðað sérstaklega. Yfirsýn yfir fjármál borgarinnar er góð enda eru greinargóð mánaðaruppgjör lögð fyrir borgarráð með greinargerðum og sundurliðunum þar sem hvert svið er rýnt sérstaklega. Allar aðdróttanir um annað er partur af einelti og ofstæki borgarfulltrúans gegn stafrænni umbreytingu. Tillagan er felld.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er nú fokið í flest skjól hjá meirihlutanum þegar hann bregst við gagnrýni Flokks fólksins með því að tala um eineltistilburði og ofstæki þegar verið er að gagnrýna gegndarlausa sóun fjármagns hjá ÞON. Sviðið hefur þanist út og eytt hefur verið tugum milljóna í ráðgjöf sem ekki sést hvernig nýtist. Fjölda starfsmanna hefur verið sagt upp störfum og ekki sýnt fram á hagkvæmni eða ávinning af þeim uppsögnum. Þróunar- og tilraunastarfsemi hefur verið í gangi sem væri Borgin hugbúnaðarfyrirtæki á einkamarkaði. Hvar eru allar afurðirnar? Fulltrúi Flokks fólksins reynir eftir bestu getu að fylgjast með og vakta meðhöndlun fjármagns borgarinnar sem er hans skylda. Fleiri hafa tekið undir gagnrýni Flokks fólksins og spurt spurninga. Málið er greinilega ofurviðkvæmt hjá meirihlutanum sem reynir að berja fulltrúa Flokks fólksins niður með ljótum orðum. Meirihlutinn er hvattur til að láta af hóplyndi og meðvirkni í þessu máli. Ef Innri endurskoðun fullyrðir að áhyggjur séu óþarfar mun fulltrúi Flokks fólksins leggja málið til hliðar, nema nýjar vísbendingar berist auðvitað. Gagnrýni hefur ekki beinst að mánaðauppgjöri en opið bókhald mætti vera skýrara, þar skortir sundurliðanir. Fulltrúi Flokks fólksins heldur áfram að vakta þessi mál og leita sér ráðgjafar með gagnrýni sína eftir því sem fram vindur.

Bókun Flokks fólksins við 2. lið fundargerðar íbúaráðs Breiðholts frá 3. janúar 2022:

Í Breiðholti þarf að skoða sérstaklega áþreifanlegan skort á atvinnu- og nýsköpunar tækifæri í þessu annars stóra hverfi. Ekki er séð ef horft er til hverfisskipulag að atvinnutækifærum sé gert hátt undir höfði. Eitthvað verður um atvinnutækifæri í hverfiskjörnum en það dugar skammt í svo mannmörgu hverfi. Almennt eru frekar fáar atvinnustoðir í hverfum og ímynd borgarinnar er óljós þegar kemur að atvinnuuppbyggingu í hverfum. Huga þarf fyrir alvöru að kolefnisspori í tengslum við atvinnuuppbyggingu. Stefnan ætti að vera að samræmi verði á milli fjölda atvinnutækifæra og fjölda íbúa í sérhverju hverfi.

Bókun Flokks fólksins við 3. lið í fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 5. janúar um vegtengingar á Gufunessvæði:

Íbúar í Grafarvogs hafa um hríð gagnrýnt vegtengingar á Gufunessvæði og að ekki sé auðvelt að búa þar án bíls því að of langt sé að ganga að Strætóstoppistöð. Samgöngum í og úr hverfinu er mjög ábótavant en eina gönguleiðin til að ná í vagninn heill kílómetri og er auk þess dimmur og grýttur. Svona atriði þarf að laga sem fyrst.

Bókun Flokks fólksins við 2. lið fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 10. janúar 2022 um framtíðarskipulag skólamála í Laugardal:

Það vantar meira samtal við foreldra og skýrari tímalínu fyrir hverja sviðsmynd fyrir sig. Þreyta er komin í íbúa vegna tafa þessara mála. Fjölmargar spurningar liggja í loftinu og hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt sumar þeirra fram formlega. Þær eru m.a. eftirfarandi: Spurt er hvort stefnt sé að því að nýta nýjan þjóðarleikvang fyrir íþróttakennslu og æfingar? Og ef svo er verða börnunum þá tryggður forgangur að ásættanlegri aðstöðu. Fram hefur komið að í framhaldi af kynningarfundi 1. des. sem var rafrænn hafi aðilum verið boðið að senda senda inn umsagnir um tillögur skýrslunnar. Skilafrestur á umsögnum er 1. febrúar 2022. Spurt er hvort allir foreldrar viti af þessum skilafresti? Spurt er einnig um hvort kostnaðargreining á þeim sviðsmyndum sem um ræðir liggi fyrir: um framtíðarskipan skóla í Laugarnes – og Langholtshverfi? Á það er minnt að ástæðan fyrir fyrirhuguðum breytingum er hvað er fjárhagslega best og faglegast að gera í stöðunni.

Bókun Flokks fólksins við 5. lið fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 26. nóvember og 20. desember 2021:

Um nýfallinn dóm í máli ÍAV gegn SORPU. Enn aftur þarf að greiða skaðabætur fyrir embættismannaafglöp. SORPAer dæmd til að greiða Íslenskum aðalverktökum, ÍAV, tæpar 90 milljónir króna vegna útboðs sem fólst í því að reisa gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi. SORPAbraut lög um opinber innkaup þegar fyrirtækið samþykkti að ganga til samninga við Ístak. Stjórn SORPU ber á þessu ábyrgð og þarf að axla han. Í stjórn er ekki gerð nein krafa um að stjórnarmenn hafi reynslu eða þekkingu á þessum málum og spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort það tengist ekki röð mistaka sem átt hefur sér stað hjá fyrirtækinu í gengum allt kjörtímabilið?

Bókun Flokks fólksins við 7 lið fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 7. janúar 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur mótmælt hækkun á verði ungmennakorta í gjaldskrá Strætó enda ljóst að hækkunin muni hafa mest áhrif á börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður. Margir treysta á þjónustu Strætó til að komast til og frá skóla og vinnu. Ungmennaráð Hafnarfjarðar hefur tjáð sig opinberlega um þessar hækkanir og er þeim mótmælt harðlega. Með breytingunni hækkaði verðið á árskorti fyrir ungmenni 12-17 ára úr 25.000 í 40.000 krónur, eða um 60%. Umboðsmaður barna hefur einnig sent bréf á Strætó BS. vegna nýtilkominna breytinga á verðskrá fyrirtækisins. Í bréfi umboðsmanns kemur fram að honum hafi meðal annars borist ábending frá foreldri sem hafi þrjú ungmenni á framfæri og þurfi nú að borga 120.000 krónur fyrir almenningssamgöngur barna sinna. Að greiða slíka upphæð er ekki á færi allra foreldra, ekki síst einstæðir foreldrar, foreldrar í láglaunastörfum og foreldrar utan vinnumarkaðar. Þá er einnig ljóst að í þó nokkrum tilvikum eru það ungmennin sjálf sem þurfa að standa straum af kostnaði vegna strætóferða og því mun umrædd hækkun koma sér afar illa fyrir þann hóp.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurnir áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ráðningar hjá SORPU:

Í byrjun árs 2022 er boðuð 31% hækkun á gjaldskrá SORPU. Það er viðbót við ársgamla hækkun upp á um 24%. Ýmsar ástæður liggja sjálfsagt á bak við slíka ákvörðun og er það ekki efni fyrirspurnar. Í ljósi svo mikilla hækkana er spurt hvort að jafnframt hafi verið sett fram aðhaldskrafa á stjórnendur SORPU. Slíkt er ekki að sjá ef að fréttir um Sorpu eru réttar. Þar er talað um að ráðnir hafi verið inn 3 nýir sérfræðingar hjá SORPU, sérfræðingur í fræðslu og miðlun, verkefnisstjóri hringrásarhagkerfis og verkefnisstjóri á skrifstofu framkvæmdastjóra. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir því að lögð verði fram skýrsla sem útskýrir hvers vegna þörf er á þessum stöðugildum, sérstaklega þegar haft er í huga að fyrir eru hjá fyrirtækinu samskipta- og þróunarstjóri, sérfræðingur í öryggis- og gæðamálum, sérfræðingur í sjálfbærni og innkaupa- og verkefnisstjóri auk mannauðsstjóra. Einnig er spurt: Hefur stjórnarformaður SORPU og stjórn kynnt sér hvernig þessum málum er háttað hjá öðrum stórum úrgangsmeðhöndlurum og hvort þessi verkefni séu eins mannfrek þar?

Vísað til umsagnar stjórnar SORPU bs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skráningarmál hunda eftir flutning málaflokksins frá Heilbrigðisnefnd til ÍTR:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um skráningu hunda eftir að málaflokkurinn færðist frá heilbrigðiseftirliti borgarinnar yfir til íþrótta- og tómstundaráðs. Ákveðið var að áfram skyldi innheimt skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum þrátt fyrir að verkefnum hundaeftirlitsmanna hafi snarfækkað. Óskað er eftir tölulegum upplýsingum og samanburðaupplýsingum um þessar skráningar. Hversu margir hundar hafa verið skráðir eftir flutning málaflokksins og fjöldi skráninga borin saman við skráningar hunda síðustu 4 ár? Óskað er upplýsinga um hvernig þjónusta er veitt nú, eðli hennar og umfang og hversu margir hundar/hundaeigendur hafa þegið þjónustu frá ÍTR og hvernig er sú þjónustu frábrugðinn þeirri sem var.

Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda hunda sem hafi verið handsamir og sleppt gegn gjaldi?:

Skráningargjald er 11.900 kr., eftirlitsgjald, 9.900 kr., og handsömunargjald sleppi hundurinn, kr. 30.200. Fulltrúi Flokks fólksins spyr: Hversu margir hundar hafa verið handsamaðir frá því að málaflokkurinn færðist yfir til ÍTR? Hvernig hefur samvinna og samráð gengið við hagsmunasamtök hundaeigenda? Er einhver fræðsla fyrir hundaeigendur í boði hjá ÍTR?

Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort aðgengi barna að íþróttaaðstöðu og frístund verði tryggt verði þeim ætlað að iðka skólaíþróttir í nýjum þjóðarleikvangi:

Í framhaldi af svari skóla- og frístundasviðs við fyrirspurnum fulltrúa Flokks fólksins um sviðsmyndir framtíðarskipan skóla í Laugarnes og Langholtshverfi hafa vaknað fleiri spurningar. Umræðu um íþróttahúsið er oftast þvælt saman við umræðu um nýjan þjóðarleikvang og þá virðist eiga að nýta hann fyrir íþróttakennslu og æfingar. Það má deila á það fyrirkomulag því reynslan hefur sýnt að íþróttaiðkun barnanna þarf endurtekið að víkja úr húsunum fyrir íþróttakeppnum, tónleikum og allskonar viðburðum í Laugardalshöll. Fulltrúi Flokks fólksins spyr þess vegna hvort stefnt sé að því að nýta nýjan þjóðarleikvang fyrir íþróttakennslu og æfingar? Og ef svo er verða börnunum þá tryggður forgangur að ásættanlegri aðstöðu. Þörfin er brýn, aðstaðan er löngu sprungin og þolinmæði íbúa í hverfinu að þrotum komin.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingagjöf til foreldra vegna tímafrestar umsagna sviðsmynda skólamála í Laugardal:

Fram kemur í svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um sviðsmyndir framtíðarskipan skóla í Laugarnes og Langholtshverfi að haldinn var kynningarfundur með skólaráðum skólanna, foreldrafélögum og fleirum hagsmunaaðilum hinn 1. des. 2021. Fundur var rafrænn og segir í svari að í framhaldi af fundinum var aðilum boðið að senda inn umsagnir um tillögur skýrslunnar. Skilafrestur á umsögnum er 1. febrúar 2022. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þessar upplýsingar hafi örugglega borist til allra foreldra og annarra sem málið varðar?

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.


Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort liggi fyrir kostnaðargreining á sviðsmyndum vegna framtíðarskipulags skólamála í Laugardal:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort fyrir liggi kostnaðargreining á þeim sviðsmyndum sem um ræðir um framtíðarskipan skóla í Laugarnes – og Langholtshverfi. Á það er minnt að ástæðan fyrir fyrirhuguðum breytingum er hvað er fjárhagslega best og faglegast að gera í stöðunni.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að valinn verði nýr fulltrúi Reykjavíkur í stjórn SORPU:

GAJA, gas- og jarðgerðarstöð er ónothæf og óljóst hvenær hún opni aftur. SORPAhefur tapað málaferlum við byggingarverktaka upp á 90 milljónir, hækkað gjaldskránna úr öllu hófi og þurft að greiða fyrrum framkvæmdastjóra háar skaðabætur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til stjórnarformaður sem nú er fulltrúi Reykjavíkurborgar sé valinn að nýju og fenginn verði aðili sem hafi tilbæra sérmenntun/þekkingu af málefnum og verkefnum SORPU sem og langvarandi reynslu og umfram allt skilning á þessum málum. Finna þarf aðila sem kann að hlusta á ráðleggingar annarra, varnarorð ef því er að skipta og hafi þá gæfu að bera að sækja þekkingu sem er til staðar meðal annarra þjóða sem ýmist hafa verið farsæl í þessum málum eða hafa þurft að súpa seyði af mistökum. Af mistökum annarra má allt eins læra eins og af eigin mistökum. Hjá SORPU hafa verið gerð röð mistaka sem koma nú illilega niður á borgarbúum. Vert er að skoða að Reykjavíkurborg stígi út úr samkeppnisrekstri sem þessum og bjóði hann þess í stað út. Ekki er að sjá að þessi rekstur gangi vel og íbúum Reykjavíkur hagkvæmur, undir stjórn b.s. kerfisins.

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að draga úr kostnaði við veitinga á fundum borgarráðs og borgarstjórnar:

Lagt er til að skoða leiðir til að draga úr kostnaði við veitinga á fundum borgarráðs og borgarstjórnar. Þeir fundir sem hér um ræðir eru oft langir, sá fyrri stundum í 5 tíma og síðari í allt að 10 tíma. Reykjavíkurborg skipti við Múlakaffi þangað til í desember sl. en Kokkarnir veisluþjónusta hafa tekið við eftir niðurstöðu útboðs. Gróflega má sjá í opnu bókhaldi að greiðslur til Múlakaffi eru um það bil 10 til 15 milljónir á mánuði sem deilast niður á ólíkar starfseiningar. Á móti þessum útgjöldum koma tekjur af sölu matarskammta til starfsmanna í mötuneytum sem fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki upplýsingar um hvað eru miklar. Í þessari tillögu er horft til tveggja tegunda funda, borgarráð og borgarstjórn. Í borgarráði mætti láta duga morgunverðarhlaðborð og sleppa hádegisverði þótt fundir fari fram yfir hádegi. Mikilvægt er að gera nákvæma talningu á hverjir eru mættir á fundinn (staðfund) og munu njóta veitinganna svo sporna megi við að afgangur verð mikill og þar með matarsóun. Í borgarstjórn þegar fundir eru í allt að 10 tíma er mikilvægt að hafa staðgóðan kvöldverð en til að draga úr kostnaði mætti taka nákvæmari skráningu á fjölda þeirra sem borða kvöldmat, borgarfulltrúar/starfsmenn. Þá verður minna um afganga og minna um matarsóun.

Frestað