Borgarráð 7. mars 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að áhættunefnd Reykjavíkurborgar verði skipuð í samræmi við hjálagt erindisbréf.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að minnihluta borgarstjórnar verði gefinn kostur á að skipa fulltrúa í áhættunefnd Reykjavíkurborgar. Samkvæmt fyrirliggjandi drögum að erindisbréfi nefndarinnar er gert ráð fyrir að auk tveggja embættismanna sitji í nefndinni tveir fulltrúar meirihluta en enginn frá minnihluta. Í alltof mörgum tilfellum er minnihlutafulltrúum ekki hleypt að borðinu þegar um mikilvæg verkefni er að ræða.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 5. mars 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki ráðningarsamning borgarstjóra, ásamt fylgiskjölum.

Nú er ráðningarsamningur borgarstjóra til afgreiðslu. Áður hafði verið lagt fram ráðningarbréf þar sem fram komu laun og hlunnindi. Flokkur fólksins bókaði um málið þá að sér fyndist borgarstjóri hafa vegleg laun, helmingi hærri en laun borgarfulltrúa, þeirra sem eru með hæstu álagsgreiðslurnar. Borgarstjóri hefur afnot af embættisbifreið og sennilega einnig einkabílstjóra eins og fyrrverandi borgarstjóri. Ekki kemur fram hvort borgarstjóri greiðir skatt af afnotum af embættisbifreið, s.s. vegna einkanota. Hvað sem þessu líður er þess óskað að borgarstjóri leggi sig fram um að hlusta á orð, tillögur og hugmyndir minnihlutafulltrúa til að tryggja góða samvinnu á kjörtímabilinu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. mars 2024, þar sem erindisbréf starfshóps um Hringrásargarð á Álfsnesi er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum:

Lagt er fram erindisbréf starfshóps um Hringrásargarð á Álfsnesi. Helsta hlutverk hans er að taka afstöðu til og útfæra tillögur um hringrásargarð á Álfsnesi enn frekar. Að gera Hringrásargarð á Álfsnesi hefur sína veikleika, t.d. þegar horft er til viðskiptatækifæra. Þá er fyrst að nefna óvissu um tímasetningu Sundabrautar. Einnig að fjármögnunarstaða Reykjavíkurborgar er veik til skemmri tíma. Svæðið er óaðlaðandi og svartasti bletturinn er skotæfingasvæðið sem er á ætluðu iðnaðarsvæði. Tekið er undir að það er knýjandi að sett verði af stað vinna við að finna nýjan stað undir skotæfingasvæði á höfuðborgarsvæðinu svo hægt verði að rýma svæðið fyrir Hringrásargarð. Talað er um í gögnum að höfn verði gerð. Það er áhyggjuefni að mati Flokks fólksins því að höfn fylgir landfylling sem gengur á fjörur sem eru lífauðugustu svæðin í borgarlandinu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. mars 2024, þar sem uppfært erindisbréf starfshóps um almenningsmarkað í miðborg er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum.

Til afgreiðslu er erindisbréf starfshóps almenningsmarkaðar í miðborg. Hlutverk hópsins er að gera þarfagreiningu á húsnæði undir flóamarkað, kortleggja möguleika og bestu staðsetningar í miðborginni, þ.m.t með því að framkvæma markaðskönnun þar sem auglýst er eftir mögulegum valkostum. Allt miðast þetta við markað í miðborginni. Það má svo sem skilja að sú staðsetning sé talin fýsileg enda hefur Kolaportið verið þar árum saman. Gallinn við markað í miðborginni er að þangað skreppa menn ekki til að kaupa í matinn. Aðgengi að markaði í miðborginni er einnig erfitt nema fyrir ferðamenn og íbúa miðborgar. Ferskt er í minni slæmt aðgengi að Kolaportinu fyrir þá sem komu akandi. Umferð í miðbæinn er gríðarleg og ekki um annað valkost að ræða fyrir marga. Nú er komin gjaldskylda á sunnudögum líka og bílastæðagjöld hafa verið hækkuð mikið. Skoða mætti að setja upp tvo markaði, minni í sniðum en þar sem seld væri t.d. ferskvara, s.s. óunninn fiskur en slík vara er enn eftirsótt af sumum en ekki lengur til í fiskbúðum. Ekkert er minnst á þennan þátt sem hluta af hlutverki starfshópsins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki forvarnaáætlun barna og ungmenna 2024-2026 sem unnin er út frá einni af aðgerðum lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar, Heilsuborgin Reykjavík:

Kynnt eru drög að forvarna- og aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar 2024-27. Markmið áætlunarinnar er að bregðast við helstu verkefnum sem tengjast forvarnamálum barna og ungmenna í Reykjavík. Mörg eru verkefnin því rannsóknir sýna fram á að andlegri líðan barna og unglinga hrakar, svefntími þeirra hefur minnkað og neikvæð áhrif vegna mikillar skjánotkunar hafa aukist. Ofbeldi er að aukast og hatursorðræða að verða meira áberandi í samfélaginu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur haft áhyggjur af þessari þessari þróun og hefur ítrekað viðrað þær áhyggjur og mikilvægi þess að bregðast við þessum vanda. Með forvörnum og samstilltu átaki hefur tekist að draga úr áfengis- og tóbaksneyslu hjá ungmennum. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að setja aukinn kraft í forvarnastarf og heilsueflingu barna og ungmenna með markvissum aðgerðum. Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á þessa aðgerðaáætlun og vonar að þetta verði ekki bara falleg orð á blaði heldur verði ráðist í raunverulegar forvarnaaðgerðir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 22. febrúar 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja verkefnið umsýsla myndefnis og stafrænnar miðlunar:

Þjónustu- og nýsköpunarsvið óskar heimildar til að hefja verkefnið umsýsla myndefnis og stafrænnar miðlunar. Umsýsla um myndefni. Gott er að fara í vegferð til að samræma hluti, ef þeir eru nú þegar í notkun. Þetta er einmitt það sem Flokkur fólksins hefur verið að tala um. Þetta verkefni er svona grunnverkefni að stafrænni umbreytingu á þessu sviði og spyrja má af hverju ekki var farið fyrr í þá vinnu. Núna loksins er farið að huga að umsýslu myndefnis og miðlunar, 20 milljörðum síðar er loksins verið að fara í að ganga frá grunnatriðunum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 13. febrúar 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja verkefni sem snýr að innkaupum og innleiðingu á miðlægum könnunarhugbúnaði fyrir sérfræðinga á fag- og stoðsviðum borgarinnar:

Þjónustu- og nýsköpunarsvið óskar heimildar til að hefja verkefnið um innkaup og innleiðingu á miðlægum könnunarhugbúnaði. Þetta er ekki nauðsynleg lausn en kannski ágæt hugmynd. Vissulega er alltaf gott að einfalda verklag. Það er einmitt markmið stafrænnar umbreytingar. Hér sýnist Flokki fólksins einnig sem það eigi að kaupa inn lausn sem er skynsamlegt.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 22. febrúar 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja vinnu við safn gagnaþróunarverkefna:

Þjónustu- og nýsköpunarsvið sækir um heimild til að hefja verkefnið gagnaverkefni framtíðar, sem hefur þá skilgreiningu að með því eigi að styðja við gagnadrifna ákvarðanatöku. Það er mjög óskýrt í gögnum hvað nákvæmlega er verið að gera og er þetta fáránlegur peningur sem ætlað er í verkefnið. Þetta er verkefni sem hægt væri að vinna í samstarfi með öðrum, og líklegast eru núna til þjónustur sem sinna þessum hlutum sem hægt væri að kaupa. Verkefnið samanstendur af mörgum smærri verkefnum sem bíða úrlausnar gagnaþjónustunnar á yfirstandandi ári. Kostnaður er 285,6 m.kr. Hér er eitt af mörgum dæmum um hvernig fjármagni er varið í óþarfa og ekki forgangsraðað. Flokkur fólksins spyr hvað sé að frétta af stafrænum lausnum hjá skóla- og frístundasviði. Ætlar þjónustu- og nýsköpunarsvið ekki að axla ábyrgð á að koma því sviði á kort stafrænnar umbreytingar? Í gögnum frá skóla- og frístundasviði segir m.a. að ekki verði hjá því litið að þjónustu- og nýsköpunarsvið beri ábyrgð á upplýsingatækni og gagnastjórnun Reykjavíkurborgar og þjónustu á þeim sviðum. Það er upplifun Flokks fólksins að sviðið sé orðið langþreytt á biðinni en þori lítið að segja.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar árétta að í fundargögnum og kynningu sem fram fór á fundinum var tilgangur tillögunnar vel útskýrður. Þessum verkefnum er ætlað að bæta yfirsýn, auðvelda vinnslu gagna og upplýsingagjöf til íbúa. Þarna má til að nefna upplýsingasíðu vegna forsetakosninga, kort yfir uppbyggingu atvinnuhúsnæðis, skýrari framsetningu á opnum fjármálum og margt fleira.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 29. febrúar 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja þróunarferli í tengslum við næsta skref í uppbyggingu gagnalandslags Reykjavíkurborgar vegna fjármála- og áhættustýringarsviðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs:

Þjónustu- og nýsköpunarsvið sækir um heimild til að  hefja verkefnið uppbygging gagnalandslags fjármála- og áhættustýringarsviðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs sem skilgreint er að sé þróunarferli í tengslum við næsta skref í uppbyggingu gagnalandslags Reykjavíkurborgar. Hér er um gæluverkefni að ræða sem kosta á 137 m.kr. Þrátt fyrir allar gagnadeildir sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur verið með undanfarin ár og fjármagnið sem farið hefur í stafræna umbreytingu, er gagnavinnsla enn óáreiðanleg og óörugg eins og segir í gögnum. Það skorti yfirsýn og fer gagnavinnsla enn að mestu fram í Excel. Í einhverri kynningunni var gagnavinnslu borgarinnar hrósað í hástert. Kallað er hér eftir skynsemi og forgangsröðun. Flokkur fólksins spyr hvað sé að frétta af stafrænum lausnum hjá skóla- og frístundasviði. Ætlar þjónustu- og nýsköpunarsvið ekki að axla ábyrgð á að koma því sviði á kort stafrænnar umbreytingar? Enn í dag vantar mikið af grunnlausnum t.d. á skóla- og frístundasviði en þar hefði stafræn vegferð átt að byrja og í samvinnu við önnur sveitarfélög.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar árétta að í fundargögnum og kynningu sem fram fór á fundinum var tilgangur tillögunnar vel útskýrður. Þessi tillaga snýst um utanumhald og framsetningu gagna, en með núverandi verklagi er mikil handavinna í hreinsun, framsetningu og hagnýtingu gagna. Aðgengi að gögnum er almennt ekki viðunandi og þessu verkefni er ætlað að bæta úr því og auðvelda það utanumhald til framtíðar með því auka sjálfvirkni í vinnslu á tölfræðigögnum, auka öryggi gagnanna og auka möguleika á greiningu og miðlun gagna til annarra sviða borgarinnar sem og út á við. Það er mikilvægt að við alla ákvarðanatöku og stefnumótum sé notast við áreiðanleg og aðgengileg gögn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um innleiðingu smáforritsins Bara tala hjá Reykjavíkurborg, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. júní 2023. Einnig lögð fram umsögn mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 4. mars 2024:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgarráð samþykkti að kaupa aðgang fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar að smáforritinu Bara tala sem er stafrænn íslenskukennari. Þar sem ekkert svar barst svo mánuðum skiptir lagði Flokkur fólksins fram fyrirspurn um hvað væri að frétta af málinu. Nú loks hefur borist svar og í ljós kemur að farið var að skoða málið og fá þennan aðgang. Fræðslusjóðir stéttarfélaga styrkja verkefnið. Bara tala er góð viðbótarleið til að efla íslenskukunnáttu meðal starfsfólks af erlendum uppruna. Flokkur fólksins hefði viljað að borgin keypti þennan aðgang án tillits til hvort stéttarfélögin styrktu það. Það er gríðarlega mikilvægt að beita öllum brögðum til að viðhalda notkun íslenskunnar og því vel þess virði að setja í það fjármagn. Boðið er upp á grunnnámskeið og vinnusértækt efni í forritinu þannig að námsefnið er miðað að þörfum starfsfólks. Það þýðir að starfsmaður á leikskóla fær ekki sama námskeið og starfsmaður í sundlaug. Íslenskukunnátta fólks af erlendum uppruna er lykillinn að farsæld, hamingju og framgangi þeirra í okkar þjóðfélagi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgang Reykjavíkurborgar að forritinu Bara tala, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. febrúar 2024.:
Tillögunni var vísað frá á fundinum.

Fyrirspurnin var lögð fram á fundi borgarráðs 29. júní 2023 og var á þá leið hvort borgin hafi keypt aðgang að forritinu og ef svo er, hvort það væri komið í framkvæmd. Í framhaldi hafa hjólin greinilega farið að snúast en samt hefur ekki borist svar fyrr. Nú liggur fyrir að farið var að skoða aðgang að þessu ágæta forriti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Samþykkt að taka svohljóðandi ályktunartillögu borgarráðs á dagskrá: Reykjavíkurborg er tilbúin að taka þátt í yfirlýsingu ríkisins og sveitarfélaga sem felur í sér að Reykjavíkurborg haldi aftur af hækkun gjaldskráa sem snúa að börnum og barnafjölskyldum, taki þátt í því með stjórnvöldum að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og tryggi að auki að skólamáltíðir í grunnskólum verði gjaldfrjálsar með 75% greiðsluþátttöku ríkisins út samningstímabilið.

Flokkur fólksins tekur undir þessa ályktun og vonar innilega að skrifað verði undir kjarasamninga sem fyrst. Hins vegar hefði fulltrúi Flokks fólksins vilja sjá í þessari yfirlýsingu hversu mikið á halda aftur af gjaldskrárhækkunum. Hvaða prósentu er er verið að tala um hér? Flokkur fólksins hefur mótmælt harðlega gjaldskrárhækkunum síðustu ára sem verst hafa komið niður á bágstöddum. Gjaldskrárhækkanir hafa auk þess farið beint út í verðlagið.

 

Ný mál frá Flokki fólksins

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ósvaraðar fyrirspurnir og óafgreiddar tillögur hjá stafrænu ráði:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir samantekt á fyrirspurnum sem enn er ósvarað og tillögum sem enn eru óafgreiddar sem lagðar hafa verið fram af Flokki fólksins á þessu og/eða síðasta kjörtímabili sem vísað hefur verið til meðferðar stafræns ráð.

Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS24030045

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um tekjur af Bragganum:

Hvaða tekjur hefur Reykjavíkurborg haft af Bragganum síðastliðin 3-5 ár og hver hefur kostnaðurinn verið á sama tíma? Hvaða framkvæmdir eru yfirstandandi á húsinu?

Greinargerð

Sérstaklega með tillit til þess að þar virðast nú vera viðgerðir á húsinu. Bragginn er ekki enn alveg tilbúin því að ekki hefur verið klárað að ganga frá bílastæðum fyrir framan Braggann en framkvæmdum var þar hætt eftir að upp komst um gríðarlegan kostnað við byggingu hans.

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um nám og námskeið hjá stjórnendum Þjónustu- og nýsköpunarsviðs:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir sundurliðuðum upplýsingum um nám, námskeið og námsferðir á kostnað Reykjavíkurborgar, á vegum þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem og forvera þess á skrifstofu þjónustu og reksturs. Óskað er upplýsinga um kostnað per námskeið, nám, ferðir sem og annan afleiddan kostnað eins og dagpeninga þegar við á. Einnig er óskað eftir upplýsingum um kostnað þjónustu- og nýsköpunarsviðs og skrifstofu þjónustu og reksturs við stjórnendaráðgjöf frá upphafi. Óskað er upplýsinga um hvaða stjórnendur hafa fengið slíka ráðgjöf og hversu mikið hún kostaði hjá hverjum og einum.

Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS24030047

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um brostin markmið og áætlanir hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði samkvæmt skýrslu um Gagnastefnu frá 2018:

Á bls. 5 í skýrslunni Gagnastefna og fyrirkomulag gagnamála, stöðuskýrsla, frá 2018 koma fram helstu markmið sem átti að ná fyrir 2022. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um af hverju er ekki enn búið að vinna þá forvinnu sem átti að vera lokið 2020 og 2022 s.s.: Að búið sé að kortleggja allar tengingar á milli kerfa í borginni, að búið sé að fækka vistunarstöðum um 50%, að samræmd vinnubrögð verði innleidd og að öll gögn verði birt sem opin gögn, nema ríkar ástæður s.s. lög um persónuvernd hamli slíku. Þessu er ekki lokið og nú er árið 2024. Hver eru rekstrarmarkmið, þróunarmarkmið og þjónustumarkmið fyrir árið 2024 og hvaða tímamörk eiga við þau?

Greinargerð

Svo virðist sem það sé búið að að flækja rekstrarumhverfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs með fleiri og fleiri kerfum og hugbúnaði en aldrei er hætt að nota neitt á móti. Vert er að hafa samúð með starfsfólki þar sem enn eru kerfi ekki að vinna saman. Ennþá, allavega sums staðar, þarf að gera rafræn eyðublöð að PDF skjali og vista inn í ótal kerfum og hlaða niður á tölvur til að opna og lesa. Þetta hlýtur að hafa áhrif á öryggisþáttinn. Svo mikið er víst að ekki hefur skort fjármagn. Það hefur bara farið í eitthvað allt annað. Ef í ljós kemur að markmiðum hefur ekki verið náð fyrir 2022, 2023 og 2024 þá er þessi eyðsla á tug af milljörðum stefnulaus, hreint glórulaus. Þjónustu- og nýsköpunarsvið þarf að læra meira af Stafræna Ísland sem hefur nú fengið verðlaun, valin úr 182 ríkjum WSA (World Summit Award fyrir að stuðla að stafrænni nýsköpun í þágu samfélagslegra umbóta.  Verðlaun eru veitt í átta flokkum og fær Stafrænt Ísland verðlaun í flokki sem snýr að opinberri stjórnsýslu og þátttöku borgara (e. Government & Citizen Engagement). Stafrænt Ísland er verkefnastofa innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar starfa 11 manns en rúmlega 250 starfsmenn stofnana og samstarfsfyrirtækja miðla til Ísland.is samfélagsins. Reykjavík gæti verið þar með meiri umsvif en nú ef.

Vísað til meðferðar stafræns ráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um meintan sparnað vegna niðurlagningu borgarskjalasafns:

Hver verður sparnaður af niðurlagningu Borgarskjalasafns og flutnings gagna þess á Þjóðskjalasafn þegar búið verður að samþykkja lög (drög að frumvarpi til laga liggur nú fyrir), sem kveða á um að þegar skjöl sveitarfélags eru afhent Þjóðskjalasafni Íslands skal greiða fyrir móttöku þeirra, vörslu, ráðgjöf um skjalahald og eftirlit samkvæmt gjaldskrá?

Greinargerð

Niðurlagning Borgarskjalasafns var sögð vera í sparnaðarskyni? Nú liggja fyrir drög að frumvarpi um breytingu á lögum um opinber skjalasöfn. Þar segir að standi til að hætta starfsemi héraðsskjalasafna skal Þjóðskjalasafni afhent safngögnin á kostnað þess sveitarfélags sem að því stóð. Í 2. gr. b liðar er kveðið á um að þegar skjöl sveitarfélags eru afhent Þjóðskjalasafni Íslands skal greiða fyrir móttöku þeirra, vörslu, ráðgjöf um skjalahald og eftirlit samkvæmt gjaldskrá.
Af þessu er ljóst að allar gefnar forsendur vegna flutnings Borgarskjalasafns eða gagna safnsins yfir til Þjóðskjalasafns, hljóta að vera brostnar þegar þetta frumvarp verður samþykkt. Sá meinti sparnaður sem lagður var til grundvallar niðurlagningu safnsins getur því varla verið enn til staðar.