Borgarráð 7. september 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Meðfylgjandi greining, hugmyndir og tillögur um haftengda upplifun og útivist í Reykjavík draga fram að fjölmörg sóknarfæri:

Borgarstjóri leggur til að farið verði í frekari undirbúningsvinnu við gerð haftengdrar upplifunar og útivistar í Reykjavík í samræmi við meðfylgjandi greiningu og skýrslu starfshóps um haftengda upplifun og útivist í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þessi tillaga ekki nógu trygg. Svo virðist sem eyðileggja eigi fleiri fjörur. Þessu til áréttingar segir sem dæmi að „huga þurfi að ákveðnum svæðum þegar kemur að aðgengismálum s.s. Nauthólsvík, Nýi Skerjafjörður, Ægisíða, Laugarnes og Bryggjuhverfi og að aðgengi fyrir alla þýði að gerðar verði landfyllingar, varnargarðar, malbikaðir stígar“. Og þetta er allt á kostnað náttúrunnar. Hvað með friðlýsingu strandlengjunnar? spyr fulltrúi Flokks fólksins. Í gögnum má finna setningu eins og „Svæðið er framtíðarlandfylling“. Á þessu orðalagi má sjá að fjörur eru ekki virtar. Á það er minnst að landfyllingar eru ekki í þágu lifandi náttúru sem til lengdar er verðmætasta upplifun borgarbúa. Allt sem er manngert virðist í tísku nú og ef það er ekki manngert þá er það bara álitið hallærislegt. Þetta er slæm þróun að mati fulltrúa Flokks fólksins. Hvert er verið að stefna með viðhorfi sem þessu?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgar- og atvinnuþróunarteymi á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að kanna raunhæfni hugmyndar um að Parísarhjóli verði komið fyrir í tilraunaskyni til nokkurra ára á Miðbakka í samræmi við hugmynd í minnisblaði starfshóps um haftengda upplifun og útivist við útisvæði Faxaflóahafna:

Í þessari skýrslu birtist sama vandamálið, það er eins og öll mál verði að leysa með landfyllingu. Parísarhjól er skemmtileg hugmynd en er nauðsynlegt að fara í fyllingar til að finna því stað? Nóg er komið af eyðileggingu á fjörum. Með landfyllingu þar sem setja á afþreyingartæki mun verða að malbika stíga og gera gönguleiðir til að hafa aðgengi fyrir alla. Mynd af landfyllingu við Klettagarða er sérlega óaðlaðandi og þar sést hvernig fara á með fjöru sem er full af lífríki. Flokkur fólksins dregur hér fram eldri bókun við erindisbréf starfshóps um greiningu á tækifærum til haftengdrar upplifunar fyrir almenning í Reykjavík og sjá má að þar kveður heldur betur við annan tón: „Fulltrúa Flokks fólksins finnst ánægjulegt að sjá að loksins er hugsað um fjörur, án þess að moka yfir þær með landfyllingu.“ En í gögnum segir að „strandlengja Reykjavíkur er dýrmæt eign okkar allra, bætt aðgengi að henni hefur í för með sér meiri möguleika til haftengdrar upplifunar og útivistar.“ Vonandi verður landfyllingum hætt hér með.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 29. ágúst 2023. MSS23010024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:

Undir þessum lið fer fram kynning velferðarsviðs á stöðu útlendinga sem synjað er um alþjóðlega vernd. Hörmuð er sú staða sem komin er upp í málefnum hælisleitenda sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd. Það er mat Flokks fólksins í borgarstjórn að málaflokkurinn sé á ábyrgð ríkisins sem gera þarf ráðstafanir til að tryggja þessum hópi þak yfir höfuðið og framfærslu á meðan þau eru hér á landi. Brýnt er að skýrt sé kveðið á um hvað taki við eftir að einstaklingi er synjað um alþjóðlega vernd og grunnþjónusta fellur niður.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 30. ágúst 2023. MSS23010028. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

Lögð eru fram drög að umsögn íbúaráðs Breiðholts um skipulagslýsingu fyrir Norður-Mjódd. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun þar sem lýst er yfir vonbrigðum yfir því að reit M12 í aðalskipulaginu sé skipt upp með þessum hætti og hefði viljað að allt svæðið væri unnið sem ein heild. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki beinlínis áhyggjur af hæð íbúðarhúsa akkúrat þarna. Skuggavarp beinist að hraðbraut. En hver verður fjöldi íbúða og hvar á borgarlínustöð á svæðinu að vera? Margt er enn óljóst í þessu. Fulltrúi Flokks fólksins skorar á skipulagsyfirvöld að taka tillit til athugasemda sem berast og vinna þetta verkefni sem önnur í góðri sátt við íbúa og umhverfi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. september 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

Aðalskipulagsbreyting, Sundabraut. Um þennan lið má segja að það er áríðandi að klára hönnunarvinnu Sundabrautar sem fyrst. Dráttur á að ákvarða legu Sundabrautarinnar mun tefja aðra uppbyggingu. Svo þarf að árétta að ekki má skerða gæði strandarinnar og grunnsævis. Þess vegna þarf að byggja brýr en alls ekki landfyllingar. Sérkennilegt er að Hafrannsóknarstofnun sé ekki umsagnaraðili (ekki með á lista yfir umsagnaraðila) en þar eru rannsóknir á líffræði sjávar stundaðar, þar á meðal göngur fiska upp í ár og læki. Mestu hagsmunir borgarinnar með tilkomu Sundabrautar eru góð tenging milli Vogahverfis og Grafarvogs. Engum blöðum er um það að fletta að gera skal brú frekar en göng til að bæði gangandi og hjólandi geti nýtt brúna. Brú, fallega hönnuð, á þessum stað getur verið glæsileg, og gert aðkomu að Reykjavík virðulega. Tenging við Geldinganesið er mikilvæg enda klárlega framtíðaruppbyggingarsvæði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 16. lið yfirlitsins:

Þessi liður lýtur að félagsmiðstöðinni í Hraunbæ 105. Neyðarkall barst borgarráði nýlega frá eldri borgurum í Árbæjarhverfi vegna síendurtekinna hótana um að félagsmiðstöð hverfisins að Hraunbæ 105 verði lokað og breytt í skrifstofu eins og fram kemur í bréfinu. Segir enn fremur að í húsinu sé mjög fullorðið fólk, meðalaldur 84 ár. Flestir nota göngugrindur og stafi. Þetta fólk getur engan veginn sótt félagsmiðstöð utan hverfis. Í Hraunbæ 105 fer fram fjölbreytt starf og er staðsetningin hentug, tengdar tvær byggingar fyrir eldri borgara. Sárlega er beðið um stuðning okkar í borgarráði og beiðni um að þessi félagsmiðstöð fái að standa eldri borgurum til boða. Fulltrúi Flokks fólksins styður það heilshugar og skorar á aðra í borgarráði og borgarstjóra að gera slíkt hið sama.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 30. ágúst 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 29. ágúst 2023 á tillögu að breytingu á reglum um þjónustu félagsmiðstöðva:

Skóla- og frístundaráð ákvað styttan opnunartíma á félagsmiðstöðvum borgarinnar á fundi 12. júní 2023. Flokkur fólksins er mótfallinn þessari styttingu. Félagsmiðstöðvar borgarinnar gegna mikilvægu hlutverki í mótun ungmenna. Flokkur fólksins óttast að svona hagræðingaraðgerð muni kosta samfélagið meira þegar til lengri tíma er litið. Starfsemi félagsmiðstöðva hefur ríkt forvarnargildi. Sparnaðurinn af styttingu opnunartíma er rýr og næg tækifæri annars staðar í borgarkerfinu til að spara álíka fjárhæð. Þessari ákvörðun hefur verið mótmælt af fleirum, þ.m.t. hagsmunasamtökum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð heimili fjármála- og áhættustýringarsviði, eignaskrifstofu, að hefja söluferli á eign Reykjavíkurborgar að Varmahlíð 1, Perlunni, auk tveggja vatnstanka sem eru í eigu Reykjavíkurborgar:

Selja á Perluna sennilega vegna slæmrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst slæmt að það eigi að selja Perluna þar sem núna skilar hún loks umtalsverðum tekjum til borgarinnar. Auðvitað er gagnlegt að skoða hvað fæst fyrir Perluna. Stærð hússins og tanka er um 5.800 fermetrar og er fasteignamat 3.942.440.000 krónur. Söluferli er eðlilega háð þeim fyrirvara að eðlilegt verð fáist fyrir eignirnar. Mikilvægt að borgin selji ekki Perluna á einhverri brunaútsölu vegna bágrar fjárhagsstöðu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-júní 2023:

Fjárhagur borgarinnar heldur áfram að versna. Áætlanir standast ekki og er sama hvert litið er. Samhliða þessu hafa skuldir borgarsjóðs hækkað. Nú er verðbólgan vonandi á niðurleið en engu að síður er ekkert á vísan að róa í þeim efnum. Áfram þarf borgin að rýna í hvernig hægt er að spara án þess að það komi niður á þjónustu við fólk og velferð borgarbúa. Forgangsröðun skiptir hér höfuðmáli og það þarf að gera í þágu fólksins og sérstaklega barnanna. Á nýafstöðnu farsældarþingi voru kynntar sláandi niðurstöður um vanlíðan barna og hróp þeirra á faglega aðstoð. Hjálp kostar. Til að geta hjálpað öllum þeim börnum sem bíða aðstoðar þarf eitthvað annað undan að láta. Þetta er verkefni meirihlutans sem einn hefur stjórn á fjármagni borgarsjóðs og hvernig því er útdeilt.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lagt er til að meðfylgjandi gjaldskrár Reykjavíkurborgar verði hækkaðar um 3,6% frá og með 1. október 2023.

Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir öllum gjaldskrárhækkunum sem koma beint og óbeint við pyngju þeirra sem minnst mega sín. Nú stefnir meirihlutinn á að hækka gjaldskrár um 3,6% frá og með 1. október 2023. Hækkun gjaldskráa mun þess utan fara beint út í verðlagið og hafa áhrif á verðbólguhorfur. Reykjavíkurborg þarf að huga að fjölskyldum í borginni og barnafólki og í borginni eru margir sem finna fyrir þessum hækkunum. Hækka á gjaldskrár sem dæmi á frístundaheimilum, á sumarnámskeiðum, máltíðir í grunnskólum, skólahljómsveitum og leikskólum og námsgjald.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki að skipa þriggja manna nefnd til að rýna ráðningar á vegum sviða og starfsstaða Reykjavíkurborgar og fylgja eftir tímabundnum ráðningarreglum:

Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á hlutverk þessarar nefndar. Hlutverk hennar er að finna leiðir til að draga úr nýráðningum og skoða á móti hvernig megi skipuleggja betur þau störf sem fyrir eru þannig að skilvirkni verði meiri. Ráðningarmálin í borginni fram til þessa eru eins og frumskógur. Þegar draga átti úr ráðningum í sparnaðarskyni var eins og aukning yrði á þeim á sumum sviðum, þvert gegn boðaðri stefnu um sparnað. Nýlega var sem dæmi ráðinn enn einn mannauðsstjóri á tilteknu sviði. Fyrir voru einir 8 mannauðsráðgjafar. Þetta skýtur skökku við þegar ekki hefur verið til fjármagn til að bæta kjör leikskólastarfsfólks. Á leikskólum sárvantar að ráða í fjölmörg stöðugildi. Launakostnaður er stærsti útgjaldaliður borgarinnar.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð borgarinnar við niðurstöðum um mikla vanlíðan barna sem kom fram á nýafstöðnu Farsældarþingi:

Á nýafstöðnu farsældarþingi voru kynntar niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem lögð var fyrir grunnskólanemendur í vor. Sjötta hver stúlka í 10. bekk grunnskóla hefur orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri áreitni af hálfu fullorðins. Innan við helmingur þeirra sagði öðrum frá. Þetta er meðal þess sem kom fram í nýrri rannsókn á líðan barna og unglinga. Einnig kom fram að 30-44% barna eru döpur og allt að 56% með kvíða. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig skóla- og frístundasvið hyggist bregðast við þessari bláköldu staðreynd. Skýrt kom einnig fram hjá börnunum sem rætt var við sem og í rannsóknarniðurstöðum að börn vilja hitta fagaðila, sálfræðinga þ.m.t. Þau vilja fá tækifæri til að ræða sín mál beint við fagfólk. Í ljósi langs biðlista eftir fagfólki hjá skólaþjónustu, nú um 2.550 börn, spyr fulltrúi Flokks fólksins hvernig skólayfirvöld hyggjast bregðast við þessum niðurstöðum. Á að láta börn í mikilli vanlíðan bara bíða áfram og biðlistann lengjast með viku hverri? Aukin vanlíðan barna í Reykjavík eru ekki ný tíðindi og hafa verið margrædd í borgarstjórn og þar með talið að börn vilji beinan og óheftan aðgang að fagfólki. Unglingarnir sjálfir, unglingaráðin, hafa ítrekað sent sjálf inn tillögur um að fá greiðari aðgang að sálfræðingum skóla og að skólasálfræðingar séu ávallt staðsettir í skólunum sjálfum.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23090040

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð borgarinnar við fækkun dagforeldra:

Nú liggur fyrir að dagforeldrum fækkar. Hyggst skóla- og frístundasvið gera betur við dagforeldrastéttina til að freista þess að halda stéttinni við? Dagforeldrar hafa mátt þola ýmislegt að hálfu borgarinnar síðustu ár. Þegar haldið var að verkefnið Brúum bilið væri að raungerast og börn að komast inn á ungbarnaleikskóla var dagforeldrastéttinni nánast útrýmt. Fulltrúi Flokks fólksins telur að dagforeldrum hafi ofboðið framkoma síðasta meirihluta. Aðeins einn hefur sótt um rekstrarleyfi sem dagforeldri í Reykjavík þrátt fyrir átak borgarinnar og heldur dagforeldrum áfram að fækka. Gera þarf betur fyrir þessa stétt. Árið 2022 var ákveðið að hækkun kæmi á niðurgreiðslu til dagforeldra vegna barna hjá dagforeldrum. Hækkunin er óveruleg, 3.220 kr., en hækkunin er hjá giftum/sambúðarfólki með vistun í 8,5 tíma. Í raun var þetta nánasarleg hækkun og eins og margir hafa orðað það, dugði hún ekki fyrir einni pizzu. Fulltrúi Flokks fólksins taldi, miðað við umræðu í ágúst og september í fyrra, að meiri hækkun myndi koma, einhver krónutala sem skipti sköpum í lífi fjölskyldna sem þarfnast sárlega þjónustu dagforeldra.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. SFS23060023

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort auka eigi fræðslu í ljósi niðurstaðna um vaxandi vopnaburð ungmenn sem fram kom á nýafstöðnu Farsældarþingi:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort skóla- og frístundasvið hyggist auka fræðslu í skólum um ofbeldi meðal barna. Fræðsla um áhrif og afleiðingar ofbeldis getur skipt sköpum í lífi barns. Það er mat fólks að ofbeldi hafi verið normalíserað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með umræðu og tillögur sem lúta að því að ná utan um vaxandi vopnaburð ungmenna og hvernig Reykjavíkurborg getur reynt að spyrna fótum við þeim vanda. Börn þurfa aðstoð ef þeim líður illa en einnig fræðslu og foreldrar þurfa ekki síður fræðslu. Kennarar þurfa fræðslu og stuðning til að styrkja sig í hvernig þeir eiga að taka á ofbeldismálum sem upp kunna að koma í skólastofunni. Einnig spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort ekki þurfi að auka og dýpka fræðslu í skólum um heimilisofbeldi og hvernig börn, foreldrar og kennarar geti brugðist við komi vísbendingar um að barn sé beitt ofbeldi af einhverju tagi af jafnaldra eða á heimili sínu. Tölurnar eru sláandi. 15% unglingsstúlkna í 10. bekk grunnskóla hefur verið nauðgað af jafnaldra og 17% verið beittar kynferðisofbeldi af hálfu fullorðins eins og fram kom á farsældarþingi. Meirihluti þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi sagði engum frá.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23090041