Mál Flokks fólksins
4. Loftgæði í skólabyggingum og verkferlar vegna rakaskemmda. Þetta eru málefni sem brenna á kennurum borgarinnar og telur fulltrúi Flokks fólksins mikilvægt að fá gagnlega umræðu um þessi áhersluatriði kennara.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Umræða um starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara.
Í nýrri könnun sem Kennarasamband Íslands lét gera kemur fram að rúmlega fjórðungur leik- og grunnskólakennara segja ólíklegt eða mjög ólíklegt að þeir verði áfram í starfi eftir fimm ár. Formaður Kennarasambands Íslands segir þessar tölur vekja ugg. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það þurfi að taka þessar niðurstöður alvarlega því þarna eru hættumerki á ferð sem þarf að rýna. Bregðast þarf við af krafti til að koma í veg fyrir brottfall úr kennarastéttinni. Nægur er mannekluvandinn í leik- og grunnskólum borgarinnar. Álag á kennara hefur aukist mikið undanfarin ár. Í einum bekk getur verið stór hópur nemenda sem ekki skilur íslensku og til viðbótar geta verið nokkrir nemendur með ýmsar sérþarfir eins og athyglisbrest, einhverfu, málþroskaröskun og svo mætti lengi telja. Í þessum aðstæðum finnst kennurum þeir hafa litlar bjargir. Verkefnið verður of stórt og þeir upplifa sig vanmáttuga. Það þarf að efla íslenskukennslu sem annað tungumál. Ef börnin læra ekki íslensku þá verða þau útundan í samfélaginu og hætta mörg hver skólagöngu eftir grunnskólann. Það þarf að leita allra leiða til að flýta framkvæmd farsældarlaganna og veita kennurum auknar bjargir. Það er mikið óþol í kennurum að framkvæmd þeirra raungerist. Helsta ákall kennara er að fá stuðning inn í kennslustofuna.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins, sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 3. september – seinni umræða
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar uppfærslu samgöngusáttmálans. Uppfærslan var unnin nokkurn veginn af sama fólki og bjó til fyrri sáttmálann sem er galli því betur sjá augu en auga. Vonir stóðu til að sáttmálinn fæli í sér úrbætur og úrræði til að létta eitthvað á umferðarþunga borgarinnar. Fram kemur að fjárfesta eigi í tækjabúnaði, úrbótum og tækniþróun fyrir umferðarljósastýringar en það kemur ekki fram hvenær. Sáttmálinn fjallar hvað mest um stóru framkvæmdirnar, Miklubraut í göng, Borgarlínu og Fossvogsbrú, sem komast eiga í gagnið eftir mörg ár ef ekki áratugi. Þeir sem eru komnir vel yfir miðjan aldur munu aldrei upplifa eða sjá þennan veruleika en sitja hins vegar áfram fastir í umferðarteppum með tilheyrandi mengun og töfum. Ekki er ósennilegt að uppfæra þurfi plaggið einu sinni enn því í hann vantar fjölda kostnaðarliða, s.s. tölvubúnað, verkstæði, geymslur fyrir vagna, stjórnstöð, o.fl. Jákvætt er að ríkið skuldbindur sig til þess að fjármagna þriðjung kostnaðar vegna reksturs almenningssamgangna á móti sveitarfélögunum. Í gögnum segir að borgarlínan mun gera almenningssamgöngur eftirsóknarverðari og raunhæfan valkost. En þýðir þetta að borgarbúar eru ekki í bráð að fara að sjá bættar almenningssamgöngur? Eitthvað þarf að gera strax því Strætó í þeirri mynd sem nú er, er ekki fólki bjóðandi.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Umræða um skólamál, samræmt námsmat og fleira.
Fjölþætt, breiðvirkt námsmat byggt á ólíkum mælikvörðum er það sem Flokkur fólksins vill sjá komast í gagnið hið fyrsta. Mikilvægt er að hafa hluta matsins samræmt. Vandinn við eina tegund af mælikvarða eins og samræmdu prófin er sá að börn sem eru að standa sig vel í öðrum greinum en samræmdu prófin mældu féllu í skuggann þar sem framhaldsskólar einblíndu mest á einkunnir samræmdu prófanna. Nemendur með annan menningar- og tungumálabakgrunn en íslensku eiga ekki möguleika á að sitja við sama borð og íslensk börn t.d. á samræmdu íslenskuprófi. Börn í lægri efnahagsstöðu sitja heldur ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Sem dæmi fá þau síður einkakennslu sem hjálpar þeim með undirbúning eins og börn efnameiri foreldra geta veitt börnum sínum. Fjölþættara mat er nauðsynlegt til að gefa breiða mynd af getu nemenda, styrkleika þeirra. Börn með t.d. lestrarörðugleika eða annað móðurmál en íslensku þurfa að fá sanngjarnt mat og sömu tækifæri. Þegar rætt er um skólamál og samræmt námsmat má einnig horfa á málið út frá framhaldsskólunum og hvernig þeir geta tekið við nemendum á grundvelli meiri jöfnuðar. Umfram allt verður að reyna að mæta óskum barna um skóla og nám.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samræmd próf í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla.
Flokkur fólksins telur að ekki eigi að taka upp gömlu samræmdu prófin í óbreyttri mynd og að þau verði aftur eina námsmatið sem framhaldsskólar styðja sig við í vali á umsóknum. Rétt er að gefa nýju breiðvirku námsmati tækifæri sem hannað hefur verið hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Koma þarf því í gagnið hið fyrsta. Það skapaði losarabrag og nokkra óreiðu þegar samræmd próf voru aflögð með einu pennastriki og ekkert sambærilegt var tilbúið í staðinn. Framhaldsskólar hafa ekki haft neitt samræmt mat í nokkur ár til að meta umsóknir. Samræmd próf hafa bæði kosti og galla. Kostirnir eru að þau hvetja nemendur til að hefja snemma prófundirbúning. Í flestum skólum var sett af stað ákveðið kennsluátak fyrir samræmdu prófin sem skilaði sér í aukinni þekkingu, metnaði og þjálfun í öguðum vinnubrögðum. Pisa-kannanir sýna að staða íslenskra grunnskólanema í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum er óviðunandi. Nær 50% drengja og þriðjungur stúlkna geta ekki lesið sér til gagns að lokinni 10 ára skólagöngu. Ísland var neðst Norðurlandanna í síðustu Pisa-könnun og næstneðst allra Evrópuríkja. Nú þarf að hanna áreiðanlegt breiðvirkt námsmat sem tekur einnig til greina nemendur með sértæka námserfiðleika og nemendur sem koma frá ólíku mál- og menningarumhverfi.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að tryggja næringargildi gjaldfrjálsra skólamáltíða.
Fulltrúi Flokks fólksins telur sjálfsagt að leita allra leiða til að viðhalda næringargildi skólamáltíða. Það er þó ekki endilega sjálfgefið að skólamatur sem er eldaður á staðnum hafi meira næringargildi en sá sem matreiddur utan skóla. Nefna má fyrirtækið Skólamat sem sinnir sjö skólum í borginni af fagmennsku. Sjálfsagt eru fyrirtækin fleiri sem veita góða þjónustu. Sjá má á heimasíðu skolamatur.is þar sem segir að þar starfar gæðastjóri sem hefur það að markmiði að halda uppi gæðum ásamt því að tryggja öryggi viðskiptavina og starfsfólks. Skólamatur vinnur eftir gæðakerfi þar sem gæði og matvælaöryggi varanna er í fyrirrúmi. Skólamatur verslar aðeins við viðurkennda íslenska birgja og gerir miklar kröfur til þeirra, bæði hvað varðar gæði og ferskleika hráefnis. Ekki er heldur framhjá því litið að það er ákveðið hagræði fólgið í því að skipta við stórt eldhús þar sem hluti matarins er fulleldaður og sendur út í skólana. Einnig eru sumir skólar einfaldlega ekki með eldhúsaðstöðu til að elda allan mat en geta kannski eldað hluta hans eða hitað upp mat. Ef skólamatur á að vera eldaður frá grunni í öllum leik- og grunnskólum þarf að gera ráð fyrir auknum kostnaði til að bæta aðstæður og ráða kokka/matráða.
Greinargerð með umræðu um starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)
Rúmlega fjórðungur leik- og grunnskólakennara sjá sig ekki áfram í sama starfi eftir fimm ár. Hver er ástæðan og hvað er til ráða? Kennarasamband Íslands (KÍ) lét Félagsvísindastofnun framkvæma könnun um viðhorf kennara til starfsins og KÍ. Könnunin var gerð í febrúar á þessu ári. Meðal spurninga í könnuninni var „hversu líklegt eða ólíklegt er að þú verðir í sama starfi eftir fimm ár?“ Niðurstaðan sýnir að 27% félagsmanna í Félagi leikskólakennara, 26% félagsmanna í Félagi grunnskólakennara og 31% félagsmanna í Skólastjórafélagi Íslands segja ólíklegt eða mjög ólíklegt að þeir verði áfram í starfi eftir fimm ár. Í fyrstu mætti ætla að þetta væri vegna þess að kennarastéttin sé að eldast en í þessari könnun virðist líf- eða starfsaldur kennara í grunn- og leikskólum ekki skipta máli. Þessar tölur vekja ugg og við í Flokki fólksins teljum að það þurfi að taka þessar niðurstöður alvarlega því þarna eru hættumerki á ferð sem þarf að rýna. Tíu lykilþættir Evrópsku kennarasamtakanna voru lagðir til grundvallar í könnuninni en þeir snúast um það hvað fólki finnst skipta mestu máli fyrir kennarastarfið. Svörin voru afgerandi en mikill meirihluti nefndi samkeppnishæf laun eða 80%. Hæfilegt vinnuálag kom næst á eftir, en 61% nefndu það. Í þriðja sæti voru öruggar vinnuaðstæður með 45%. Þessi niðurstaða rímar vel við helstu áhersluatriði sem brenna á kennurum í Reykjavík. Helstu málefni sem þarf að bæta: 1. Íslenska sem annað tungumál, kennsla og móttaka nemenda með erlendan bakgrunn. 2. Ofbeldi gagnvart kennurum, verkferlar og tryggingar. 3. Hópastærðir, agamál og úrræði. 4. Loftgæði í skólabyggingum og verkferlar vegna rakaskemmda. Þetta eru málefni sem brenna á kennurum borgarinnar og telur fulltrúi Flokks fólksins mikilvægt að fá gagnlega umræðu um þessi áhersluatriði kennara.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september: 1. liður;
Keldur, verklýsing aðalskipulagsbreytingar: Á Keldnalandinu á að vera heilmikil atvinnustarfsemi umfram þá starfsemi sem nú þegar er þar. Hér eru grundvallar þjónustustörf svo sem verslun undanskilin að sjálfsögðu. Það er óskynsamlegt því landið er dýrmætt og ætti því að nýta að langmestu leyti sem íbúðabyggingarland. Auðvelt ætti að vera að sækja vinnu frá hverfinu enda stefnt að góðum almenningssamgöngum í gegnum hverfið til annarra borgarhluta t.d. í austurhluta Höfðahverfis og Hólmsheiði. Bein leið verður til miðsvæðis m.a. með væntanlegri Borgarlínu. Skoða þarf einnig að hafa bílastæðakjallara undir húsum þar sem hentar auk þeirra sex bílastæðahúsa sem gert er ráð fyrir í hverfinu. 8. liður, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fjárfestingaáætlunar A-hluta: Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur með tvennt í þessum viðauka. Kostnaður við breytingar á bökkunum í Sundhöll Reykjavíkur er of mikill. Þessi breyting er umdeild og fjölmargir telja hana ekki hafa neitt að gera með öryggi. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til fyrir skemmstu að borgarráð endurskoði ákvörðun um að breyta laugarbökkunum. Þessi breyting er ekki gerð með þarfir sundgesta að leiðarljósi. Hitt atriðið er að hætt er við að stækka hjúkrunarrýmið á Droplaugarstöðum. Öll vitum við hversu mikil þörf er á að fjölga rýmum þar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: Liður 4 fudargerð 19.6. 2024:
Því má fagna að komin sé vísir að einhverskonar verkáætlun með tilkomu verkefnaráðs. En eftir lestur fundargerða verkefnaráðs er Flokkur fólksins þó engu nær um raunverulega stöðu verkefna og enn mest púður sviðsins fara í það að uppgötva hið augljósa. Þar er átt við þá miklu vinnu sem eytt er í komast að því hver ábati hvers verkefnis sé. Svona rannsóknarvinna skilar í raun engu nema því sem vitað er fyrir. Það er löngu vitað að stafræn umbreyting skilar margvíslegum ábata og telur fulltrúinn því að fjármagni sviðsins sé betur varið í að innleiða lausnirnar sem fyrst í stað þess að mæla ábata af innleiðingum þeirra þar sem ábati stafrænna umbreytinga liggur nú þegar fyrir innanlands sem utan.
Rafskútuverkefni sviðsins kallar á fjármagn til þess að kalla fram gögn og mánaðarlegar greiðslur til Hopp. Minnt er á að Google maps er með flest af þeim gögnum sem ætlunin er að greiða fyrir. Fram kemur að gögn borgarinnar á Workplace hafi verið vistuð í Bandaríkjunum í langan tíma og því spurning hvort þarna hafi verið um að ræða brot á persónuverndarlögum af hálfu Reykjavíkurborgar.
„