Velferðarráð 10. ágúst 2022

 Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2022, um undirbúning að opnun tímabundins neyðarhúsnæðis í miðborginni fyrir heimilislausa karlmenn:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verið sé að stofna starfshóp um opnun á neyðarhúsnæði fyrir karla og vill jafnframt ítreka þá skoðun að húsnæðið verði opið allan sólarhringinn. Flestir hafa engan samastað annan en götuna og því mikilvægt að aðgengi verði gott að húsnæðinu.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um ráðningar sálfræðinga til að vinna niður biðlista í skólaþjónustu Reykjavíkurborgar, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um ráðningar sálfræðinga til að vinna niður biðlista hjá skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Einnig var spurt um hve marga sálfræðinga ætti að ráða á árinu 2022 til viðbótar við þá sem fyrir eru? Loks var spurt hvort verið sé að leita eftir að fastráða sálfræðinga? Í svari kemur fram að eftirspurn eftir þjónustu sálfræðinga i samfélaginu er mikil og hefur m.a. verið erfitt að ráða sálfræðinga í fastar stöður á miðstöðvum velferðarsviðs. Flokkur fólksins sér að nokkuð er búið að reyna til að fá sálfræðinga til starfa. Launamálin skipta hér sköpum og það verður ekki fyrr en þau verða bætt að takast mun að leysa þennan vanda. Taka má Reykjanesbæ til fyrirmyndar en þar hafa  grunnlaun sálfræðinga verið hækkuð. Nauðsynlegt er að fjölga stöðugildum og leita allra annarra leiða til að ná niður biðlistum.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um samráð við Sálfræðingafélag Íslands vegna skorts á sálfræðingum hjá skólaþjónustu Reykjavíkurborgar, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2022:

Flokkur fólksins fagnar því að velferðarsvið hafi haft samband við Sálfræðingafélagið eftir að fulltrúi Flokks fólksins benti á mikilvægi þess.  Nú styttist í að kjarasamningar losni og fagnar Flokkur fólksins því að meta eigi störf sálfræðinga sem ekki hafa verið metin síðan árið 2017 og að starfslýsingar þeirra verði endurskoðaðar.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um óafgreidd mál Flokks fólksins frá síðasta kjörtímabili, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að öll óafgreidd mál Flokks fólksins frá síðasta kjörtímabili, tillögur sem og fyrirspurnir komi til afgreiðslu hið fyrsta, nú þegar nýtt kjörtímabil er hafið.  Í svari segir að á kjörtímabilinu 2018 – 2022 hafi verið lagðar fram ríflega 130 fyrirspurnir og tillögur frá fulltrúum Flokks fólksins er snéru að velferðarsviði og velferðarráði. Fram kemur að einungis einni fyrirspurn, sem lögð var fram í borgarráði 4. júlí 2019, hefur ekki verið svarað. Sú fyrirspurn snýr að afdrifum búsetuhúss en ekki hefur fengist niðurstaða í það mál. Jafnframt eru fjórar tillögur frá 2020 sem vísað var til frekari og áframhaldandi meðferðar innan stjórnkerfisins. Fulltrúi Flokks fólksins vill í framhaldinu fá upplýsingar um skiptingu mála í tillögur og fyrirspurnir og einnig hvaða tillögur það voru frá 2020 sem vísað var til áframhaldandi meðferðar. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja fram formlega fyrirspurn um það.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn vegna óafgreiddra mála sem vísað hefur verið annað:

Fyrirspurn í framhaldi á svari við óskum um upplýsingar um óafgreidd mál Flokks fólksins. Í svari segir að málin hafi verið 130. Spurt er hvað það voru margar tillögur og hvað margar fyrirspurnir. Óskað er eftir að vita hvaða tillögur það eru frá 2020 sem vísað var til áframhaldandi meðferðar eins og fram kemur í svari og hvenær er að vænta afgreiðslu á þeim?

 

Lögð fram tillaga Flokks fólksins að veita þeim foreldrum sem eru í mestri neyð aðstoð í formi sérstaks styrks vegna þess að börn þeirra komast ekki að á leikskóla.

Tillagan fór ekki í fundargerð að ósk formanns velferðarráðs.

Tillagan er lögð fram í ljósi alvarlegs ástands í leikskólamálum borgarinnar en mikill skortur er á leikskólaplássum í Reykjavík fyrir yngstu börnin. Staðan er alvarleg og kemur sérstaklega illa niður á foreldrum með lágar tekjur og eru ekki með stuðning fjölskyldu. Bréf frá örvæntingafullum foreldrum hrannast upp í pósthólfum borgarfulltrúa.  Þessi staða veldur streitu og kvíða hjá þessum foreldrum. Á meðan þetta ástand ríkir ætti velferðarsvið að hlaupa undir bagga með öllum ráðum.

Greinagerð

Nýlega barst borgarfulltrúum skeyti frá foreldrum sem fá ekki pláss fyrir 18 mánaða gamalt barn sitt og í gær barst okkur bréf frá örvæntingarfullum föður sem ekki hefur fengið pláss fyrir 20 mánaða son sinn. Í angist sinni hafa foreldrar reynt að ná eyrum embættismanna borgarinnar og leikskólanna sem taka ekki lengur síma enda hafa þeir fá svör. Við borgarfulltrúar verðum að sýna auðmýkt og hlusta á þessa foreldra og senda þeim skýr skilaboð um að við séum að vinna að því að leysa þennan vanda. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á að á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss þá sé ein lausn að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk(Heimgreiðslur)  sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss.

Flokkur fólksins telur að með því að bjóða foreldrum sem þess óska og sem geta nýtt sér  heimagreiðslur allt þar til barn þeirra verður tveggja ára að þá muni það létta á biðlistum. Ef ekki verður gripið til heimgreiðslu þá væri möguleiki á að velferðasvið bregðist við með því að veita aðstoð í formi sérstaks styrks vegna þess að börn  komast ekki að á leikskóla. Það er  mikilvægt að velferðarsvið bregðist við þessu vandræðaástandi og sendi frá sér skýr skilaboð.

Helga Þórðardóttir varaborgarfulltrúi er aðalmaður í Velferðarráði