Velferðarráð 19. maí 2021

Bókun Flokks fólksins við kynningu á drögum að nýjum reglum um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og reglur um stuðningsþjónustu:

Ábendingar frá ÖBÍ og Þroskahjálp voru afar gagnlegar og ætti undantekningalaust að taka tillit til þeirra ekki síst þeirra sem kosta borgina ekki krónu eins og tillögur um orðalagsbreytingar. Í 1. gr. er bent á að það skortir tengingu við samning Sameinuðu þjóðanna. Ábendingar eru um skort á notendasamráði sbr. í 3 C og víðar þar sem orða mætti hlutina meira í þágu notandans. Stafrænar og tæknilegar lausnir þurfa að vera í samráði við viðkomandi. Tekið er undir mótmæli ÖBÍ (í 8. gr.) um  forgangsröðun umsókna enda ætti skortur á fjármagni í fjárhagsáætlun aldrei að vera ástæða fyrir skorti á þjónustu. Í 8. gr. er talað um móttöku- og matsteymi og í því teymi þyrfti að vera fulltrúi notenda. Notendur og stjórnvöld horfa ekki á reglur og gagnsemi þeirra með sömu gleraugunum. Fjölga þarf þjónustuþáttum við eldri borgara í heimahúsi og bæta suma sem fyrir eru. Til að geta verið sem lengst heima þarf að veita meiri  einstaklingsbundna aðstoð. Fulltrúi Flokks fólksins hefði haldið að fleiri ábendingar kæmu frá Öldungaráði,  FEB, Félagi eldri borgara og Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks því af nógu er að taka sem má bæta. Hækka verður viðmið til að þeir efnaminnstu borgi sem minnst, helst ekki neitt.

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 19. maí 2021, ásamt fylgigögnum, um breytingar á starfsemi og rekstri Vinjar:

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sumir þurfa og vilja vera í og heimsækja sérúrræði. Annað af tveimur sjónarmiðum sem kynnt eru af meirihlutanum og  sögð vegast á er sjónarmið að „vinna þarf gegn því að ákveðnir hópar séu jaðarsettir eða aðgreindir í samfélaginu og því eigi ekki að draga fólk í dilka með því að búa því sérúrræði“.
Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ef þetta sjónarmið ætti að gilda myndi margt kollvarpast í borginni því fjöldi fólks er í ýmis konar sérrúrræði hvort heldur af þörf eða vilja nema hvort tveggja sér. Í mannréttindastefnu segir að sveitarfélag á að mæta þörfum allra, sérþörfum einnig og ávallt að hafa hagsmuni og vellíðan einstaklingsins að leiðarljósi. Gestir/notendur eru skýrir í sinni afstöðu. Þeir vilja að starfsemin haldist óbreytt. Allar ákvarðanir um Vin skal taka í samráði við notendur. Tillaga starfshópsins er að reka þetta úrræði á sama grunni og félagsstarfið en það er í endurskoðun og hefur verið lengi. Sá stýrihópur sem endurskoða á félagsstarfið og sem fulltrúi Flokks fólksins er aðili í er stopp, af óljósum ástæðum.

Mikilvægt er að valta ekki yfir gesti og starfsmenn Vinjar og mun fulltrúi Flokks fólksins ekki styðja að Vin verði lagt niður í núverandi mynd og sett undir félagsstarf borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á hugmyndafræði sem starfað er eftir á hjúkrunarheimilum Reykjavíkurborgar:

Kynning er á starfsemi Droplaugarstaða í tengslum við  tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um að hjúkrunarheimili starfi eftir Eden hugmyndafræðinni  en henni var  vísað  úr borgarstjórn í velferðarráð. Hugmyndafræðin á Droplaugarstaði er að sjálfsögðu sú að þetta sé heimili enda er þetta heimili fólksins sem þarna er. Heimilið er ISO vottað. Þróunin hefur verið góð og því ber að fagna. Margir þættir minna vissulega á Eden hugmyndafræðina en nær því þó ekki í megin áherslum.  Tengingin við lífríkið er m.a. kjarninn í Eden hugmyndafræðinni t.d. að þeir sem vilja hafi gæludýrin sín hjá sér eins og kostur er og vissulega væri hvert tilfelli metið fyrir sig. Eins er það tengingin við ræktun plantna og matjurta sem kannski er ekki alveg á sama stigi og á Eden heimilum. Gæludýr, páfagaukar eru í almenningi og er það frábært og því er fagnað að hundar eru velkomnir á Droplaugarstaði. Fram kemur að heimilisfólk hafi ekki viljað hænur í garðinn. En af hverju eru Droplaugastaðir ekki bara rekið með Eden hugmyndafræðinni að leiðarljósi? Spurning er hvort og þá hvað standi í vegi fyrir því, hvort ekki sé um það sátt? Það er vissulega mikilvægt að um hugmyndafræði hjúkrunarheimila ríki sátt heimilisfólks og starfsmanna.

Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, forstöðumaður hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjórnar, dags. 23. apríl 2021, varðandi svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins sem vísað var til meðferðar velferðarráðs á fundi borgarstjórnar, þann 20. apríl 2021:

Samkvæmt kröfulýsingu fyrir hjúkrunar- og dvalarrými eiga heimilin að hafa hugmyndafræðilegar forsendur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að þau tvö hjúkrunarheimili sem borgin rekur verði rekin með Eden-hugmyndafræðina að leiðarljósi og samþykki einnig að hvetja hjúkrunarheimili í Reykjavík sem eru sjálfseignarstofnanir til að taka upp hugmyndafræðina hafi þau ekki gert það. Nokkur dvalar- og hjúkrunarheimili á landinu eru rekin sem Eden-heimili, t.d. Ás í Hveragerði og dvalar- og hjúkrunarheimilið á Akureyri. Eden-hugmyndafræðin snýst um að fólk haldi sjálfræði sínu og reisn þó flutt sé á hjúkrunarheimili og að heimilisfólk taki sjálfstæðar ákvarðanir um daglegt líf sitt. Líklegt þykir að á hjúkrunarheimilum í dag sé reynt að stuðla að því að fólk haldi sjálfstæði sínu en hugmyndafræði Eden gengur lengra og þá sérstaklega í áherslu sinni á lifandi umhverfi. Sérstök áhersla er lögð á samneyti kynslóðanna. Einnig er áhersla á að hver íbúi hafi eigin húsgögn/eigur, rík samskipti við yngri kynslóðina, nálægð við líffræðilegan fjölbreytileika/ræktun plantna og grænmetis auk þess sem íbúar hafa heimild til að halda gæludýr. Samneyti dýra og manna umbreytir hjúkrunarheimili í fjölbreytilegt og líflegt heimili. Að halda gæludýr dregur úr streitu, einmanaleika og þunglyndi og eykur gleði og samskiptahæfni meðal aldraðra. VEL2021050006.

Greinargerð fylgdi tillögunni.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

Velferðarráð samþykkir að hvetja hjúkrunarheimili á vegum borgarinnar til að til að skoða að starfa eftir Eden hugmyndafræði eða annarri svipaðri hugmyndafræði í samvinnu við starfsfólk og íbúa.

Tillagan er samþykkt svo breytt.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúarnir þakka borgarfulltrúa Flokks Fólksins fyrir góða tillögu. Eden hugmyndafræðin er áhugaverð og byggir á fjölbreytileika til að auðga daglegt líf hvers íbúa á hjúkrunarheimilum. Ákvörðun um að innleiða hugmyndafræði þarf alltaf að taka af stjórnendum í nánu samráði við starfsfólk og íbúa hjúkrunarheimila.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur samþykkt að gerð verði smávægileg breyting á tillögu Flokks fólksins um að hjúkrunarheimili starfi eftir Eden hugmyndafræði sem vísað var úr borgarstjórn í velferðarráð. Breytingatillagan hljómar þannig að velferðarráð samþykkir að hvetja hjúkrunarheimili á vegum borgarinnar til að til að skoða að starfa eftir Eden hugmyndafræði eða annarri svipaðri hugmyndafræði í samvinnu við starfsfólk og íbúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að velferðarráð sendi út hvatningu sem þessa ef hún getur orðið til þess að fleiri hjúkrunarheimili skoði Eden sem er einstök að því leiti að hún hefur ríka tengingu við lífríkið, samskipti við börn og gæludýr. Allmörg heimili vinna eftir Eden hugmyndafræðinni og hafa sum gert lengi við mikla ánægju heimilisfólks, aðstandenda og starfsfólks.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 19. maí 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins í tengslum við niðurstöður greiningar á stöðu aldraðra kvenna og karla í heimahjúkrun Reykjavíkurborgar og hjúkrunarrýmum ríkisins:

Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn var að það segir í þessari greiningu nemenda að „vinnubrögð“ Reykjavíkurborgar varðandi kynjuð fjármál séu til fyrirmyndar og að óskandi sé að önnur sveitarfélög tileinki sér „þessa aðferðarfræði“.  Ekki er ljóst um hvaða vinnubrögð og aðferðarfræði er verið að ræða en það segir „að vegna vinnubragða/aðferðarfræði eru kynjuð fjármál að bæta konum upp mismun“. Þetta er óljóst. „Konur lýsa meiri þörfum en karlar“ en samt eru þær metnar með minni þörf en karlar sem vísar mögulega til þess að verið sé mismuna mati á þjónustuþörf eftir kynjum “. Af hverju skyldu konur sem lýsa meiri þörf metnar með minni þörf er ekki skýrt og heldur ekki hvernig það tengist vinnubrögðum og kynjuðum fjármálum eins og segir. „að vegna vinnubragða eru kynjuð fjármál að bæta þeim þennan mismun“. Ef horft er til staðreynda þá eru konur  fleiri en karlar, þær lifa lengur en karlar. Einnig er rétt að það hefur hallað á konur í samfélaginu, lægri laun, lægri greiðslur ellilífeyris o.s.frv.  Hvort það sé ástæða fyrir að þær lýsi meiri þörf skal ekki segja. Svörin sem hér eru lögð fram kalla eiginlega á enn frekari spurningar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun er gagnreynt tæki sem notað er til þess að stuðla að auknu jafnrétti og betri nýtingu opinberra fjármuna. Til þess að þjónusta borgarinnar henti öllum íbúum til jafns og stuðli að jöfnum tækifærum er mikilvægt að greina áhrif opinbers fjármagns og verklags á alla íbúa. Markmiðið með innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg er að samþætta mannréttindastefnu og fjármálastefnu borgarinnar. Markmiðið er að stuðla að réttlátri dreifingu fjármuna og gæða með tilliti til mismunandi þarfa borgarbúa.