Borgarráð 18. nóvember 2021

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra dags. 16. nóvember 2021, um að Reykjavíkurborg sæki formlega um að vera ein af 100 kolefnishlutlausum snjallborgum Evrópu árið 2030:

Meirihlutinn leggur til að borgarráð heimili að Reykjavíkurborg sæki formlega um að vera ein af 100 kolefnislausum snjallborgum Evrópu árið 2030. Þetta ber keim af oflæti. Verkefnið er kallað siglingakort! Af hverju þarf að spyrða saman kolefnishlutleysi og snjallvæðingu sem er sá þáttur í borginni þar sem sóun virðist vera dyggð. Og SORPA og Strætó taka þátt, en hvorugt þessara bs.-fyrirtækja stendur vel og ættu þau að einbeita sér að því að taka til í eigin ranni, eða hvað? En þarna kemur þó fram að rafmagn megi nota í almenningssamgöngum, sem er gott. En það hlýtur að vera mikil bjartsýni að Reykjavíkurborg verði ein af 100 kolefnishlutlausum borgum árið 2030, hvað sem það þýðir. Áður hefur verið stefnt að kolefnishlutleysi, sem er ágætis stefna.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að fjárfestinga- og áhættustýringasviði Reykjavíkurborgar verði falið að fylgja eftir tillögum starfshóps um græn innkaup:

Lagðar eru fram tillögur starfshóps um græn innkaup, græna, sjálfbæra og félagslega fjármögnun og önnur græn fjármál. Hugtakið „grænn og grænt“ hefur verið notað óspart síðustu misseri um nánast hvað sem er. Það er vissulega tímabært að hugtakið ,,græn“ verði skilgreint því svo sannarlega eru til mismunandi skilgreiningar á grænu og alls konar skilningur hefur verið lagður í hvað átt er við með grænu þessu og grænu hinu. Eiginlega eru lítil takmörk á því hvað sett hefur verið undir græna planið. Annað dæmi eru sjálfbær innkaup og vita fæstir hvað verið er að vísa í nákvæmlega. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að margt í þessari umræðu fari ofan garðs og neðan. „Grænt“ er tískuhugtak og mjög sennilega ofnotað, því slegið fram í tíma og ótíma og þá eiga allir að hugsa að á ferðinni sé „eitthvað gott“. Liður 7.4. heitir innkaupastefna til grænkunar. Er gert ráð fyrir að allir skilji hvað hér er átt við?

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. nóvember 2021, á kynningu á lýsingu að deiliskipulagi fyrir borgarlínu frá Steinahlíð að Katrínartúni:

Efast má um að lýsing á fyrirhugaðri borgarlínu sé nákvæm þegar sagt er „að byggt verði upp nýtt hágæðakerfi almenningssamgangna, Borgarlína, sem flytur fjölda fólks á milli helstu kjarna og valinna þróunarsvæða.“ Auk þess verði kerfi strætisvagna „aðlagað að og samþætt við leiðarkerfi borgarlínunnar, þótt strætisvagnar og önnur farartæki sem þjóna almenningssamgöngum eiga að njóta forgangs“. Að leggja sérakreinar, þar sem þeim verður við komið, sem hafa forgang á ljósastýrðum gatnamótum, segir ekki að þetta sé hágæðakerfi. Í raun er þetta gamaldags kerfi, enn eru vagnar á ferð sem nota jarðefnaeldsneyti, en nýjungin felst í að akreinum fyrir aðra akandi umferð fækkar. Ekki er hugsað um nýjungar í ferðatækni svo sem léttlestir á teinum tengdum rafmagni, stundum fyrir ofan aðra umferð stundum fyrir neðan, og sem ekki skerða aðra umferðarmöguleika, nokkuð sem borgir í nágrannalöndum hafa innleitt eða eru að innleiða. Reykjavík er sem nátttröll í þessu samhengi. Svona áætlanir hafa engin áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda eða leggja grunn að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Bílar halda áfram að aka þessar götur og þeim mun jafnvel fjölga þrátt fyrir komu borgarlínu.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. nóvember 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi svæðis 5 í Vogabyggð:

Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð samþykki meðfylgjandi reglur um notkun stöðureita í Reykjavík og gjaldtöku. Gott er að áhersla er lögð á að stæðin verði vel merkt sem gjaldskyld svæði, en á því hefur stundum verið misbrestur, einkum þegar aðrar framkvæmdir standa yfir. Tækniþróun hefur vissulega orðið á gjaldtöku en samt sem áður á ekki að gera ráð fyrir að allir geti nýtt sér nýjustu tækni við greiðslu. Fyrir marga eru þessir mælar flóknir og ekki allir treysta sér til að nota símaapp til að greiða fyrir bílastæði. Þannig er komið, sem margar kannanir hafa sýnt, að eldra fólk, Íslendingar sem búa utan miðbæjar koma hreinlega ekki lengur niður í bæ. Þetta er sorgleg þróun. Fyrir kynslóðina sem nú er komin yfir sextugt var miðbærinn vinsæll hér áður og þótti skemmtilegur heim að sækja.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skóla- og frístundasviðs, dags. 9. nóvember 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. nóvember 2021 á tillögu um breytingu á skipuriti sviðsins samhliða innleiðingu verkefnisins betri borg fyrir börn:

Tillaga meirihlutans er að innleiða verkefnið betri borg fyrir börn í öll þjónustuhverfi borgarinnar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að treysta á árangursmat meðal annars vegna þess að matsaðilar voru allir innanbúðar og hallaði þar á suma hópa. Foreldrar og börn voru ekki spurð um árangur. Tilraunatímanum er ekki lokið auk þess sem COVID setti strik í reikninginn. Ef horft er til þjónustu við skólabörn eins og þeirrar sem börn bíða eftir hjá skólaþjónustu þá sér ekki högg á vatni. Ekki er séð að staðan sé neitt betri í Breiðholti en í öðrum hverfum. Biðlistinn í Breiðholti telur nú 285 börn, í Grafarvogi/Kjalarnesi 206 börn, í Árbæ/Grafarholti 278 og í Vesturbæ 203 börn. Því er velt upp hvað liggi á að tilkynna innleiðingu þessa verkefnis í önnur hverfi þegar árangur er ekki skýrari en raun ber vitni. Fulltrúi Flokks fólksins óttast um að jafnvel þótt allt það starfsfólk sem kemur að málum sé að vinna stórkostlegt starf sé meirihlutinn í borginni meira að skreyta sig vegna komandi kosninga. Hugsunin og hugmyndin að baki verkefninu er góð og auðvitað styður fulltrúi Flokks fólksins innleiðingu eins og allt annað sem hjálpað getur börnum og foreldrum þeirra.

 

Bókun Flokks fólksins við BRÉFI skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. nóvember 2021, varðandi áhrif innleiðingar Hlöðunnar, nýs upplýsingastjórnunarkerfis Reykjavíkurborgar, á fundi borgarráði:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lýsir samúð með starfsfólki skrifstofu borgarstjórnar vegna tafa á innleiðingarfasa Hlöðunnar. „Hlaðan“ var keypt fyrir um þremur árum síðan og er nú fyrst í einhvers konar innleiðingarfasa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um kostnað vegna tafa á innleiðingu Hlöðunnar, en fátt hefur verið um svör. Það væri fróðlegt að vita hvort skipulagðar prófanir á þeim kerfum sem komu til greina hafi átt sér stað á vegum þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) áður en Hlaðan var keypt? Fulltrúi Flokks fólksins kom ítrekað inn á forgangsröðun verkefna í borgarstjórn 16. nóvember sl. þegar lögð var fram tillaga um breytingu á skipuriti og innra skipulagi ÞON. Fylkið svokallaða átti að vera svona „forgangsröðunarkerfi“. Var Hlaðan ekki sett í forgang í fylkinu? Og ef svo var af hverju er hún nú fyrst þremur árum seinna mögulega að líta dagsins ljós? Á sama tíma og miklum fjármunum er varið í uppfærslur á sorphirðu- og viðburðadagatali sem hvor tveggja hafa verið til á vefjum borgarinnar í langan tíma, hefur innleiðing nauðsynlegra vinnukerfa eins og Hlöðunnar setið á hakanum. Áherslan hefur verið á hugmyndasmiðjur og tilraunaeldhús í stað þess að verja kröftum þessa sviðs í verkefni sem raunverulega skipta máli?

 

Bókun Flokks fólksins við svari  SORPU bs., dags. 19. október 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um útflutning SORPU bs. á úrgangi, sbr. 56. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. september 2021:

Útflutningur á sorpi er óaðlaðandi tilhugsun. Ekki á að þurfa að flytja neitt út sem rotnar í jörðu eða er hægt að endurnýta. Vandamálið er plast og spilliefni. Samt vill SORPA fá allt sorp í plasti, glærum plastpokum og þá poka þarf síðan væntanlega að flytja út. Tekið er undir klúður GAJU sem átti að taka við öllum úrgangi af höfuðborgarsvæðinu og framleiða hágæðamoltu og metangas. Framkvæmdakostnaður fór langt fram úr áætlun. GAJU var lýst sem töfrabragði, geta tekið blandað sorp og gert úr því hágæða moltu. Blása átti plasti frá og veiða málma úr sorpinu með segli sem ná aðeins járni en t.d ekki álpappír. Niðurstaðan er plastmenguð molta með þungmálmum og gleri, langt yfir viðmiði. Og áfram er metani brennt á báli í stað þess að nýta það. SORPA getur kannski staðið undir afborgunum lána en gera þarf ráð fyrir töluverðri lántöku, yfir 200 milljónum. Á sama tíma á að fjárfesta fyrir 559 milljónir. Lausafjárstaða er slæm. Gert er ráð fyrir að skammtímaskuldir séu 667 milljónir króna á sama tíma og veltufjármunir séu 320 milljónir. Það þýðir að veltufjárhlutfallið sé undir 0,5. Framundan bíður greiðsla á miklum dráttarvöxtum.


Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kostnað við að rífa Toppstöðina, fyrri kostnað og fyrirhugaðan kostnað, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. september 2021:

Samkvæmt svari er gert ráð fyrir 200 m.kr. í fjárfestingu í Toppstöðinni (áætlun fyrir árið 2022). Áætlað var á sínum tíma að rífa Toppstöðina sem hefði og er enn góður kostur. Réttast er að rífa bygginguna og byggja nýja sem hægt væri að klæðskerasauma að framtíðarverkefnum. Toppstöðin hefur ekki verið talin merkileg bygging. Um er að ræða hús, stálgrindarhús sem auðvelt er að rífa. Þarna er auk þess asbest sem þarf að fjarlægja með ærnum kostnaði, sama hvað gert verður við húsið. Hér er lag að reisa fallega byggingu á einstaklega góðum stað þar sem aðstaða yrði fyrir t.d. jaðaríþróttir.

 

Bókun Flokks fólksins við 2 lið fundargerðar aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 4. nóvember 2021:

Lögð fram aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi. Á fundi mannréttindaráðs 11. nóvember sl. gerði fulltrúi Flokks fólksins athugasemd við umsögn um aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi vegna þess að ekki er minnst einu orði á einelti í aðgerðaáætluninni en einelti er ein birtingarmynd af ofbeldis. Í kjölfarið var ákveðið að bæta við eftirfarandi: Einelti er ein birtingarmynd ofbeldis og mikilvægt er að ávarpa það í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar og leggja til að eineltisáætlanir séu uppfærðar og aðgengilegar og með þeim sé virkt eftirlit.

 

Bókun Flokks fólksins við lið 4 í fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 8. nóvember 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem fram kemur í lið 4 að samþykkt er að veita Götubita ehf. styrk að upphæð kr. 200.000 vegna verkefnisins Götubiti á jólum. Einnig samþykkt að veita Laugalæk ehf. styrk að upphæð kr. 245.000 vegna verkefnisins Litlu jólin í Kaffi Laugalæk – fjölskylduskemmtun. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að gera þurfi meira af nákvæmlega svona löguðu í fleiri hverfum. Það sárvantar veitingastaði í mörg hverfi og kaffihús þannig að íbúar hverfisins þurfi ekki alltaf að fara annað langi þá að fara út að borða eða fá sér kaffi á kaffihúsi. Vonandi eiga fleiri íbúaráð eftir að ræða sambærileg mál fyrir sín hverfi.

 

Bókun Flokks fólksins við lið 3 í fundargerð öldungaráðs frá 8. nóvember 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega hverju skrefi í átt til réttlætis og lýðræðis sem er að eldra fólk ráði því sjálft hvenær það vill fara af vinnumarkaði. Um þetta var rætt í upphafi kjörtímabils og nú er komið að lokum tímabilsins og það eina sem gert hefur verið er að setja á laggirnar þennan hóp og þetta er samt eitt af því sem stendur í meirihlutasáttmálanum. Fulltrúi Flokks fólksins lagði tillögu fram 2019 um sveigjanleg starfslok. Öldungaráð vísaði tillögunni frá þá. Eitt aðalmál Flokks fólksins er að eldri borgarar og öryrkjar sem treysta sér til að vera á vinnumarkaði geti það án skerðinga. Sveitarfélagi er ekki skylt að fylgja almannatryggingalögum þegar kemur að skerðingum og getur því bætt kjör þessa hóps með því að taka sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum. Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Kjarasamningar gefa heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs í einu, en með sérstöku leyfi borgarstjóra. Árið 2016 kom út skýrsla í tengslum við aldursvænar borgir og þá voru lagðar til ýmsar leiðir að sveigjanlegum starfslokum. Vegferðin hófst fyrir meira en 6 árum en er enn á byrjunarreit hjá þessum meirihluta.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að Reykjavíkurborg, frá og með 2024 upplýsi að útboð  borgarinnar sem snúa að aðkeyptum leigubílaakstri eða bílaleigubílum miði ávallt við bifreiðar sem eru knúnar umhverfisvænu eldsneyti:

Lagt er til að Reykjavíkurborg upplýsi að frá og með árinu 2024 muni útboð borgarinnar sem snúa að aðkeyptum leigubílaakstri eða bílaleigubílum ávallt miða við að bifreiðar þurfi að vera knúnar umhverfisvænu eldsneyti. Þar með verði hagsmunaaðilar upplýstir með góðum fyrirvara. Ýmsar stofnanir hafa þegar tekið þetta ákvæði upp. Meirihlutinn í Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á vistvænan ferðamáta og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að samþykkja þetta strax. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg sýni hér frumkvæði og framsýni og sé í fararbroddi í umhverfismálum. Athugið að ekki er hér átt við aðkeyptan akstur stærri flutningabíla eða sérhæfðra ökutækja eins og ferðaþjónustu fatlaðra, strætó, götusópa o.s.frv. þar sem umhverfisvæn úrræði eru tæpast til. R21110184

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að stofnanir og fyrirtæki Reykjavíkurborgar sem geta notað vistvænar bifreiðar ættu að skrifa undir yfirlýsinguna  Hreinn, 2 og 3:

Lagt er til að stofnanir og fyrirtæki Reykjavíkurborgar skrifi undir Hreinn, 2 og 3. https://analytics-eu.clickdimensions.com/cn/azxai/greenorkuskipti.

Stofnanir og fyrirtæki sem geta notað vistvænar bifreiðar ættu að skrifa undir þessa yfirlýsingu. Í henni kæmi fram að slíkt tæki gildi í seinasta lagi árið 2025. Miða ætti við að allar bifreiðar hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki verði því vistvænar árið 2025 verði slíku komið við. Slík undirritun yfirlýsingar myndi sjá til þess að nýjar bifreiðar verði ekki keyptar nema þær standi undir því að vera vistvænar. Skilaboð Reykjavíkurborgar væru hér skýr. Með þessu væru gefin 3 ár til að skipta út þeim bifreiðum sem þegar hafa verið keyptar og óhagkvæmt væri að skipta strax út. Forsendur þess að við náum Parísarsamkomulaginu eru orkuskipti í samgöngum. Reykjavíkurborg má ekki láta sitt eftir liggja í því brýna umhverfismáli. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg sé í fararbroddi í umhverfismálum og sýni þar frumkvæði og framsýni. R21110187

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um um hvað skóla- og frístundasvið er að gera í málinu, ef eitthvað. Hefur verið skoðað hvað áhrif þetta hefur á foreldra og stöðu þeirra í vinnum sínum :

Nú er staðan þannig á mörgum leikskólum að börn eru send heim heim nánast daglega vegna skorts á starfsfólki og þetta er með öllu óásættanlegt. Í fyrsta lagi þá á þetta að vera fyrsta stig menntunar fyrir börnin og með þessu er verið að svíkja þau um hana. Í öðru lagi er ekki hægt að ætlast til þess að foreldrar stökkvi fyrirvaralaust úr vinnu til að sækja börnin sín. Í þessum málum ríkir ófremdarástand.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað skóla- og frístundasvið er að gera í málinu, ef eitthvað. Hefur verið skoðað hvað áhrif þetta hefur á foreldra og stöðu þeirra í vinnum sínum? Orlofsdagar rétt duga fyrir sumarfríi og þá á eftir að gera ráð fyrir skipulagsdögum. Ekki öll heimili búa svo vel að vera með tvo foreldra sem skipta þessu á milli sín og efnaminna fólk hefur bara alls ekki efni á að fjölga þeim dögum sem það er frá vinnu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ólíðandi ástand fyrir foreldra og börnin og hlýtur ekki síður að vera erfitt fyrir starfsfólkið.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.