Borgarstjórn 16. febrúar 2021

Tillaga Flokks fólksins að stofnað verði embætti hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að stofnað verði embætti hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík. Meginhlutverk hans verður að skoða málefni eldri borgara og halda utan um hagsmuni þeirra, fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hann kortleggur stöðuna í húsnæðismálum aldraðra, heimahjúkrun og dægradvöl og fylgist með framkvæmd heimaþjónustu. Hann skal leggja sjálfstætt mat á það hvort borgaryfirvöld uppfylli skyldur sínar gagnvart öldruðum. Hann fylgist einnig með hvort einkaaðilar uppfylli kröfur laga um aðgengi og banni við mismunun þegar kemur að réttindum eldri borgara. Hann tæki á móti ábendingum frá borgurum um málefni eldri borgara og fræðir eldri borgara um eigin réttindi. Auk þess ber hagsmunafulltrúa að hafa frumkvæðiseftirlit með högum eldri borgara, sérstaklega með tilliti til þess að koma í veg fyrir félagslega einangrun, næringarskort og almennt bágan aðbúnað.

Hagsmunafulltrúi aldraðra skal vekja athygli stjórnvalda og almennings á málum sem hann telur að brjóti á réttindum eldri borgara. Jafnframt skal hann gera tillögur um úrbætur á réttarreglum sem snerta aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.
Lagt er til að Öldungaráð Reykjavíkur komi að mótun hlutverks embættis hagsmunafulltrúa og að hagsmunafulltrúi gefi Öldungaráði reglulega skýrslu um starfsemi embættisins.

Greinargerð

Með því að stofna embætti hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík næst betri heildarsýn yfir málefni eldri borgara og eldri borgarar fá sinn málsvara sem þeir geta leitað til með eigin málefni telji þeir brotið á réttindum sínum.

Hagsmunafulltrúa aldraðra er samkvæmt tillögunni ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um réttindi sín innan borgarkerfisins og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim.

Þjónusta við aldraða dreifist á ríki, sveitarfélög, félagasamtök og einkaaðila. Lög og reglur um málaflokk aldraðra eru flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og misjafnlega fær um að gæta eigin réttar og hagsmuna. Fordæmi eru fyrir því að réttindagæsla fyrir ákveðna hagsmunahópa skili árangri. Sem dæmi hefur Umboðsmaður barna unnið mikilvægt starf undanfarna áratugi og einnig má nefna réttindagæslumenn fatlaðs fólks. Öldungaráð Reykjavíkur er samráðsvettvangur sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna eldri borgara gagnvart stjórnvöldum og kemur að stefnumótun í málefnum þeirra. Markmiðið með þessari tillögu er ekki að hagsmunafulltrúi eldri borgara taki við starfsemi Öldungaráðs.  En ráðning hagsmunafulltrúa myndi tryggja það að faglega menntaður einstaklingur í launaðri stöðu sinni virkri réttargæslu í þágu eldri borgara. Þá getur slíkt embætti veitt Öldungaráði mikla aðstoð í sínum störfum þar sem hagsmunafulltrúi gæti þá fylgst með því að ábendingum Öldungaráðs sé fylgt eftir í framkvæmd. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar þess vegna eftir því að Öldungaráð Reykjavíkur fá tillögu þessa til umfjöllunar og umsagnar.

Að mati fulltrúa Flokks fólksins er rík þörf á því að aldraðir eigi málsvara í Reykjavík sem gætir réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeinir þeim um rétt þeirra.

Tillagan um stofnun embættis hagsmunafulltrúa eldri borgara var áður flutt af fulltrúa Flokks fólksins í borgarstjórn vorið 2019 en var þá felld í kjölfar umsagnar Öldungaráðs. Þáverandi Öldungaráð Reykjavíkur veitti neikvæða umsögn þar sem sagði að nú þegar væri verið að fjalla um þessi mál auk þess sem starfandi var Umboðsmaður borgarbúa sem fer meðal annars með málefni eldri borgara.“ eins og segir í umsögninni.  Ekki var talin þörf á sérstökum hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík. Umsögnin kom á óvart í ljósi þess hversu brösuglega gekk að reka embætti Umboðsmanns borgarbúa. Fram kom hjá umboðsmanninum að mikið álag væri á embættið og málsmeðferðartími langur. Ljóst var að embættið hefði þurft mun meira fjármagn og  mannafla til að anna öllum þeim málum sem það fékkst við. Embætti Umboðsmanns borgarbúa var stuttu síðar lagt niður.

Flokkur fólksins á Alþingi hefur einnig í þrígang lagt fram tillögu um hagsmunafulltrúa aldraðra á vegum ríkisins.  Öldungaráðs Reykjavíkur sendi inn umsagnir í tvö skipti en sem voru innihaldslega ólíkar. Sú sem send var vegna þingsályktunartillögu Flokks fólksins um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra á vegum ríkisins var sú sama og hafði áður verið send vegna tillögu um hagsmunafulltrúa á sveitarstjórnarstigi 2019. Öldungaráðið á þessum tíma lagðist gegn tillögunum með þeim rökum að nú þegar væri verið að vinna þessi störf af starfsmönnum velferðarsviðs og hagsmunafélaga.

Síðari umsögn Öldungaráðs Reykjavíkur sem dagsett er 14. október 2019 fagnar hins vegar tillögu Flokks fólksins á Alþingi um hagsmunafulltrúa og hvetur til þess að félags- og barnamálaráðherra leggi fyrir árslok 2020 fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra. Félag eldri borgara hefur ávallt verið hlynnt og stutt hugmynd um hagsmunafulltrúa aldraðra. Fulltrúi Flokks fólksins óskar þess að tillaga um hagsmunafulltrúa á sveitarstjórnarstigi sem nú er lögð fram verði send til umsagnar Öldungaráðs Reykjavíkur og væntir þess að fá þaðan jákvæða umsögn.

Það er skylda sveitarfélags að sjá til þess að haft sé frumkvæði að því að nálgast jaðarsetta hópa, svo sem aldraða. Með því að útvega eldri borgurum í Reykjavík eigin hagsmunafulltrúa nálgumst við það markmið og sköpum á sama tíma vettvang fyrir aldraða svo þeir geti leitað á tiltekinn stað til að fá virka hagsmunagæslu og réttarvernd. Það er jákvætt að á vegum borgarinnar sé starfrækt Öldungaráð en engu að síður er þörf á embætti sem sinnir virkri réttindagæslu í þágu eldri borgara. Þannig fá eldri borgarar bæði sína fulltrúa þegar kemur að stefnumótun í formi Öldungaráðs og framkvæmd í formi hagsmunafulltrúa.

Tillagan er felld.  Sjálfstæðisflokkur sátu hjá

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar:

Það er vont til þess að vita að meirihlutinn í borgarstjórn vill ekki gera öldruðum hærra undir höfði en raun ber vitni. Tillagan er felld. Allar tillögur sem lúta að bættum kjörum og réttindagæslu fulltrúa Flokks fólksins hafa verið felldar eða vísað frá. Látið er eins og ekkert þurfi að bæta í þjónustu við þennan viðkvæma hópa. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þessi tillaga sé send til umsagnar Öldungaráðs. Sú umsögn sem þáverandi Öldungaráð veitti um tillöguna þegar hún var lögð fram í borgarráði 2019 var neikvæð og einkenndist jafnvel af hroka. Sagt var að Umboðsmaður borgarbúa væri að fjalla um málefni aldraðra. Það var ekki rétt. Umboðsmaðurinn þáverandi upplýsti um að mikið álag væri á embættinu og hefði þurft aukið fjármagn ef hann hefði átt að geta haft  frumkvæði að því að nálgast jaðarsetta hópa, svo sem aldraða, með það að markmiði standa vörð um hagsmunagæslu þeirra.

Aftur kemur fram að verið sé að vinna alla þessa vinnu nú þegar, en það er hvorki satt né rétt. Fulltrúi Flokks fólksins vill að núverandi Öldungaráð fái tækifæri til að veita tillögunni umsögn. Rannsóknir hafa sýnt að þunglyndi og einmanaleiki einkenna þennan viðkvæma hóp sem gefur til kynna að hlúa þarf vel að honum.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um frumdrög að fyrstu lotu borgarlínu:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt margra spurninga um borgarlínu en fátt er um svör enda lítið vitað um marga þætti útfærslu hennar. Verkefnið er komið af stað og búið er að leggja í það milljarða nú þegar. Enda þótt samgöngur séu sannarlega mikilvægar eru áherslumál Flokks fólksins á fólkið. Fólkið fyrst. Á sama tíma og milljarðar streyma í borgarlínu fer fátækt og vanlíðan barna vaxandi og biðlistar lengjast. Áhyggjur eru jafnframt að því að ráðgjafi borgarinnar í borgarlínuverkefninu hefur nú sagt sig frá verkefninu. Að mati ráðgjafans hefur borgin allt að því afsalað sér völdum og ábyrgð til Vegagerðarinnar sem kemur að verkefninu fyrir hönd ríkisins. Borgarlínuverkefnið er dæmigert byggðarsamlagsverkefni þar sem borgin ræður of litlu og þarf að beygja sig fyrir hagsmunum ríkisins og annara sveitarfélaga. Hlutur borgarinnar er rýr í stjórnun en rík í fjárhagslegri ábyrgð í bs.-fyrirkomulaginu. Þetta er áhyggjuefni. Flokki fólksins finnst forgangsröðun þessa meirihluta skökk en leggur á sama tíma áherslu á mikilvægi þess að samgöngur gangi greiðlega fyrir sig. Umferðarmál hafa lengi verið í hnút. Orsakir eru margar og hefði mátt vera búið að leysa stóran hluta vandans með ýmsum hætti. Flokkur fólksins hefur komið með fjölmargar tillögu þar að lútandi sem dæmi hefði mátt bæta ljósastýringar fyrir löngu.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að ljúka uppskiptingu rekstrareininga Orkuveitu Reykjavíkur þannig að eignarhaldsfélagið verði lagt niður og dótturfélög verði að sjálfstæðum félögum:

Tillaga um uppskiptingu rekstrareininga Orkuveitu Reykjavíkur er ágæt tillaga þar sem hún gæti leitt til þess að minnihlutafulltrúar og borgarbúar hafi meiri aðkomu að stjórn rekstrareininganna, gefið að þau verði þá undir stjórn sveitarfélaganna beint. Borgarstjórn og borgarbúar hafa nú enga aðkomu að rekstri dótturfélaganna, aðeins að eignarhaldsfélaginu Orkuveitu Reykjavíkur.

 

Bókun Flokks fólksins við auglýsingu á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi stefnu um íbúðabyggð og tengsl húsnæðisuppbyggingar og fyrirhugaðrar borgarlínu:

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 stefna um íbúabyggð er stórt og viðamikið mál og að mörgu að hyggja. Áhyggjur eru af þessari lensku meirihlutans að fylla fjörur til að þétta sem mest byggð. Einnig eru áhyggjur af fyrirhuguðum þriðja áfanga Arnarnesvegar. Eins og með borgarlínu þá hafa borgaryfirvöld gefið ríkinu/Vegagerðinni og í þessu tilfelli einnig Kópavogi nánast fullt umboð með þessa framkvæmd. „Þetta stendur að eigi að gera í samgöngusáttmálanum“ segja fulltrúar meirihlutans. Nú er farið að auglýsa fyrirhuguð útboð og það áður komið er svar frá Skipulagsstofnun um nýtt umhverfismat. Það er alvarlegt að umhverfis- og skipulagsráð meti það svo að lagning vegarins eins og hann er fyrirhugaður hafi engin áhrif á svæðið. Hér ætti skilyrðislaust að kalla eftir nýju umhverfismati í stað þess að byggja á 18 ára gömlu mati. Með þessari framkvæmd er eyðilagt eitt helsta útsýnissvæði Reykjavíkur og lokað er fyrir frekari þróun Vetrargarðar. Þetta stríðir gegn einu af leiðarljósum í aðalskipulaginu en þar segir „að ekki verði gengið á svæði sem hafa hátt náttúru- og/eða útivistargildi“. Meirihlutinn er ekki sammála um mikilvægi þess að fá nýtt umhverfismat. Viðreisn, einum flokka meirihlutans, finnst í lagi að svo mikið inngrip sem þessi vegur er verði byggður á 18 ára gömlu umhverfismati.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um um könnun og úrbætur á stöðu þeirra sem búa í atvinnuhúsnæði:

Aldrei er góð vísa of oft kveðin og fagnar fulltrúi Flokks fólksins þessari tillögu. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram sambærilega tillögu 3. febrúar um að borgaryfirvöld grípi strax til aðgerða sem miða að því að finna öruggt húsnæði fyrir þann hóp fólks sem býr í ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Þeirri tillögu var frestað og þrátt fyrir fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hana hefur ekkert svar borist. Óljóst er hvað margir búa í ósamþykktu húsnæði í borginni, atvinnuhúsnæði eða öðru óleyfishúsnæði. Í sumum tilfellum er aðbúnaður ekki í samræmi við öryggiskröfur sem getur skapað íbúum mikla hættu. Grípa þarf strax til aðgerða sem miða að því að finna öruggt húsnæði fyrir þann hóp fólks sem býr í ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Óttast er að sá hópur sem leitar í óleyfis- eða ósamþykkt húsnæði hafi stækkað. Ætla má að þessi hópur fólks sé nú í vaxandi mæli atvinnulaus vegna áhrifa faraldursins og eigi því ekki annara kosta völ en að dvelja áfram í óöruggu húsnæði. Um 500 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Flestir búa í óleyfishúsnæði vegna þess að þeir hafa ekki efni á að koma yfir sig betra og öruggara skjóli. Mikið af þessu fólki er fjölskyldufólk.

 

Bókun Flokks fólksins við undir 6. og 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. febrúar um Dýraþjónustuna Dýr og hundaeftirlitsgjald:

Að sveitarfélag haldi skrá yfir hunda og hundaeigendur er tímaskekkja. Nægilegt er að hafa þá skráða í landlægan örmerkjagagnagrunn. Hundaeigendur standa einir undir öllum kostnaði við dýraeftirlit í borginni. Hundaeigendur sjá um sig sjálfir enda eru þeir öflugir á samfélagsmiðlum og fljótir til að aðstoða hvern annan ef upp koma vandamál. Hundar valda sjaldan tjóni og hægt er að tryggja hunda hjá tryggingarfélögum. Hundaeftirlitsgjaldið er ekkert annað en refsiskattur sem lýsir fordómum. Mál þar sem hafa þarf afskipti af hundum eru sárafá og kvörtunum hefur fækkað um mörg hundruð niður í fáa tugi. Samt sem áður hefur starfsgildum við hundaeftirlit ekki fækkað. Ekkert fæst í staðinn fyrir skattinn. Hundagerði vantar í flest hverfi og þetta sem koma á upp í vesturbæ var frá upphafi klúður, flest var gert rangt, stærð, girðing og fleira. Samráðið við hagsmunasamtök vegna breytinganna varði í 20 mínútur og var ekkert hlustað á óskir þeirra. Með nýju fyrirkomulagi á ekki að spara. Hundaeftirlitið er fært til í þeirri von að skráningum fjölgi en þeim þarf að fjölga um 80% á þessum þremur „tilraunaárum“ ef dæmið á að ganga upp. Samráð við hagsmunaaðila er ekkert. Flokkur fólksins situr hjá við atkvæðagreiðslu. Mótmælt er alfarið hundaeftirlitsgjaldinu.

 

Bókun Flokks fólksins við  5. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs:

Í lið 5 fer fram umræða um Sundhöllina í Reykjavík. Gerð voru slæm hönnunarmistök við endurgerð og nýbyggingu Sundhallarinnar sem lýtur að nýju kvenbúningsklefunum. Undir lok síðasta árs stóð loks til að hefja framkvæmdir við endurgerð á kvennaböðum í eldri byggingu Sundhallar Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað farið þess á leit við borgar/skipulagsyfirvöld að konur fái aftur að nota að fullu kvennaaðstöðuna í eldri byggingunni um leið og hún er tilbúin. Til upprifjunar þá var konum úthýst úr kvennaklefa Sundhallarinnar og settar í klefa nýbyggingar þar sem þær þurfa að ganga í blautum sundfötum langa leið utandyra frá klefa í laug. Karlar héldu sínum. Hér er um lýðheilsumál að ræða. Að jafnrétti kynja var ekki gætt við hönnun og eru þessar breytingar ekki í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttismálum. Mannréttindastjóri segir að „áður hafi konur ekki notið sömu þjónustu og karlar og fatlaðir ekki sömu þjónustu og ófatlaðir en nú uppfylli Sundhöllin mannréttindastefnu borgarinnar“. Fátt af þessu stenst reyndar. Hver var t.d. sú þjónusta sem karlar nutu í Sundhöllinni umfram konur? Að hvaða leyti var aðstaða fyrir konur lélegri en karla og er hún betri núna, og þá hvernig? Við þessum spurningum hafa ekki fengist svör.