Forsætisnefnd 16.4. 2021

Tillaga Flokks fólksins fyrir fund borgarstjórnar 20. apríl 2021

 

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að borgarstjórn samþykki að hjúkrunarheimili starfi eftir Eden hugmyndafræði

Samkvæmt kröfulýsingu fyrir hjúkrunar- og dvalarrými eiga heimilin að hafa hugmyndafræðilegar forsendur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að þau tvö hjúkrunarheimili sem borgin rekur verði rekin með Eden-hugmyndafræðinni að leiðarljósi og samþykki einnig að hvetja hjúkrunarheimili í Reykjavík sem eru sjálfseignastofnanir að taka upp hugmyndafræðina hafi þau ekki gert það. Nokkur dvalar- og hjúkrunarheimili á landinu eru rekin sem Eden-heimili t.d. Ás í Hveragerði og dvalar- og hjúkrunarheimilið á Akureyri.

Eden-hugmyndafræðin snýst um að fólk haldi sjálfræði sínu og reisn þó flutt sé á hjúkrunarheimili og að heimilisfólk taki sjálfstæðar ákvarðanir um daglegt líf sitt.

Líklegt þykir að á hjúkrunarheimilum í dag sé reynt að stuðla að því að fólk haldi sjálfstæði sínu en hugmyndafræði Eden gengur lengra og þá sérstaklega í áherslu sinni á lifandi umhverfi. Sérstök áhersla er lögð á samneyti kynslóðanna. Einnig er áhersla á að hver íbúi hafi eigin húsgögn/eigur, rík samskipti við yngri kynslóðina, nálægð við líffræðilegan fjölbreytileika/ræktun plantna og grænmetis auk þess sem íbúar hafa heimild til að halda gæludýr. Samneyti dýra og manna umbreytir hjúkrunarheimili í fjölbreytilegt og líflegt heimili. Að halda gæludýr dregur úr streitu, einmanaleika og þunglyndi og eykur gleði og samskiptahæfni meðal aldraðra.

Greinargerð

Hugmyndafræðin Eden varð til í Bandaríkjunum fyrir meira en þrjátíu árum og er höfundur hennar læknirinn Bill Thomas. Hugmyndin spratt út frá því hversu algengt það var að fólk á hjúkrunarheimilum væri einmana og einangrað. Við einmanaleika, leiða og vanmáttarkennd eru engin lyf til nema þau lyf sem deyfa og sljóvga. Kjarni hugmyndafræðinnar er að fólkið taki fullan þátt í því sem lífið hefur upp á að bjóða og séu virkir. Umhverfi þeirra er gert persónulegt og er skreytt af þeim sjálfum. Mest um vert er að opnað er fyrir þann möguleika að fólk haldi gæludýr og komist í tengsl við plöntur/ræktun. Með dýrunum er hægt að gefa íbúunum hlutverk, gildi og auka virkni þeirra, t.d. má bjóða þeim að hafa páfagauk inni í herbergi sínu, fiska eða önnur gæludýr. Þar sem Eden-hugmyndafræðin er viðhöfð hefur það sýnt sig að  íbúar njóta þess að hafa ábyrgðina. Nærveran við dýr veitir gleði og birtu í ýmsum myndum og formum. Fólk nýtur þess að heyra hljóð þeirra og hreyfingar svo ekki sé minnst á félagsskapinn við dýrin.

Reykjavíkurborg á og rekur tvö hjúkrunarheimili, Droplaugarstaði og Seljahlíð. Sólarhringsþjónusta er á báðum stöðum.

Önnur átta dvalar- og hjúkrunarheimili í Reykjavík eru sjálfseignarstofnanir sem starfa samkvæmt heilbrigðislögum til að vinna að málefnum aldraðra. Í Reykjavík er hjúkrunarheimilið Mörk  vottað Eden heimili og Grund er að undirbúa að verða Eden heimili.

Öldrunarheimili Akureyrar varð fyrst íslenskra hjúkrunarheimila til að hljóta alþjóðlega viðurkenningu sem fullgilt Eden-heimili. Þar er lögð áhersla á heimilislegt umhverfi og að íbúarnir séu ekki alltaf í hlutverki þiggjandans heldur fái tækifæri til að gefa af sér. Á þeim hjúkrunarheimilum þar sem Eden hugmyndafræðin ríkir búa gæludýr. Þangað koma einnig börn  reglulega í heimsókn, með starfsfólki og í samstarfi við skóla. Allir heimilismenn geta komið með sín húsgögn í sitt herbergi, rúmföt ef þeir kjósa, rúmteppi, gardínur og svo framvegis.

Eden-stefnan er alþjóðleg hugmyndafræði sem dvalarheimili víða um heim vinna eftir. Samkvæmt henni er talið þýðingarmikið að öldrunarheimili séu heimili þeirra sem þar búa og áhersla lögð á sjálfræði íbúa og einstaklingsmiðaða þjónustu. Í tilkynningu frá Öldrunarheimili Akureyrar kemur fram að innleiðing Eden-hugmyndafræðinnar hafi hafist árið 2006 með breytingum á húsakynnum. Hvatt hafi verið til dýrahalds og samstarf við skóla og ýmis konar félagasamtök aukið.

Heimilin sem fylgja hugmyndafræðinni eru orðin mörg hundruð, í Danmörku, Hollandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og víða um Evrópu.. Aðstandendur eru ávallt velkomnir og hvattir til að koma sem oftast. Þeir eru hvattir til að leggja af mörkum, taka þátt í daglegu lífi og vera virkir inni á heimilinu þar sem þeirra aðstandandi býr.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Gagnsjá, kjörnir fulltrúar boðaðir í notendaviðtal:

Fulltrúi Flokks fólksins áttar sig ekki á tengslum þess að óska eftir að fá mál flokkanna sem skipa minnihlutann sett inn á vef borgarinnar t.d. heimasvæði oddvita og þess að borgarfulltrúar séu nú orðnir einn notendahópur hinnar svokallaðar Gagnsjáar. Nú er verið að óska eftir að borgarfulltrúar (kjörnir fulltrúar) komi í „notendaviðtöl“ til að greina þarfir þeirra?
Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt fjáraustur þjónustu- og upplýsingasviðsins í alls kyns óþarfa sem hefur sumt hvert fátt að gera við útfærslur og afurð stafrænna umbreytingu. Þessi notendaviðtöl við kjörna fulltrúa eru óþörf og því tímaeyðsla og sóun á fé.
Beiðni fulltrúa Flokks fólksins er skýr og var fyrst lögð fram 2019 og aftur í borgarráði 15.4. 2021. Bent er á fordæmi á vef Alþingis þar sem finna má öll mál þingmanna. Verkefnið er einfalt en er vissulega handavinna. Þetta hefði verið einfaldara ef byrjað hefði verið strax þegar kjörtímabilið hófst og vinna það síðan jafnhraðan en það var ekki gert. Þessi tillaga Flokks fólksins kallar því ekki á nein sérstök notendaviðtöl. Hugsunin er fyrst og síðast að borgarbúar hafi greiðan aðgang að málum borgarfulltrúa, feril þeirra og afgreiðslu. „Þarfir“ eru því alveg skýrar og þarf ekki að eyða frekara fjármagni í einhver „notendaviðtöl“ við kjörna fulltrúa í þessu tilliti.