Borgarstjórn 16. mars 2021

Börn sem bíða, börn sem líða: Umræða um biðlista barna eftir fagþjónustu í Reykjavík að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Í inngangi fulltrúa Flokks fólksins að umræðu um biðlista barna eftir fagþjónustu skóla í Reykjavík verður farið yfir nýjustu tölur yfir þá sem bíða eftir þjónustu fagfólks skólaþjónustu. Tilvísunum hefur fjölgað eftir að COVID skall á sem leitt hefur til þess að biðlistar eru í sögulegu hámarki. Farið verður yfir birtingarmyndir vanlíðan barna og hvaða áhrif „bið“ eftir sálfræðiþjónustu getur haft á börnin. Staða drengja í skólakerfinu er sérstakt áhyggjuefni. Drengir eru í meirihluta í öllum biðlistaflokkum svo sem eftir þjónustu sálfræðings, talmeinafræðings, hegðunarráðgjafa og fleiri fagaðila. Drengir koma verr út í lestri og lesskilningi, sbr. niðurstöður PISA, og þeir eru í meirihluta barna sem fá sérkennslu. Tekið er dæmi um hvernig hægt er að flýta þjónustu við börn sem grunur leikur á um að glími við ADHD með því t.d. að tryggja markvisst samstarf við Þroska- og hegðunarstöð og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Reifuð verða viðmót og viðbrögð meirihlutans við tillögum Flokks fólksins um lausnir. Eftir því sem ræðutími leyfir verður rætt um tengd málefni s.s. „snemmtæka íhlutun“ og hvort rekja megi vaxandi vanlíðan barna til fyrirkomulags „skóla án aðgreiningar“ sem vegna fjárskorts getur ekki mætt þörfum allra barna.

Bókun Flokks fólksins í lok umræðu:

Nú bíða 957 börn eftir fagþjónustu skóla í Reykjavík, 360 stúlkur og 597 drengir. Ganga þarf í að ná niður biðlistum, sinna þessum börnum, veita þeim þá hjálp sem verið er að kalla eftir þegar hennar er óskað. Það verður aðeins gert með því að fjölga fagfólki alla vega tímabundið. Að baki hverju barni er tilvísun undirrituð af kennara/skóla og foreldrum. Flest bíða eftir að komast til skólasálfræðings. Sá meirihluti sem hér ríkir hefur varla vitneskju um hvernig þessum börnum líður á meðan þau bíða.  Í svari frá velferðarsviði kemur fram að flest mál hafna í hinum svokallaða  3. flokki en það er flokkur mála sem þolir „bið“ samkvæmt flokkunarmati skólaþjónustu. Á meðan á biðinni stendur stundum í marga mánuði getur mál sem flokkað er „að þoli bið“ orðið að bráðamáli. Fullvíst er að þegar mál er orðið að bráðamáli þá hefur vandinn átt sér aðdraganda, kannski kraumað á meðan á bið eftir þjónustu stendur. Þeir foreldrar sem hafa fjárráð sækja þjónustu frá  sjálfstætt starfandi fagaðila. En það hafa ekki allir foreldrar efni á því. Barn sem fær ekki aðstoð við hæfi fyrr en eftir dúk og disk er í mun meiri áhættu á að grípa til örþrifaráða.

Bókun Flokks fólksins við Aðgerðaráætlun um aðgerðir gegn sárafátækt og breyting á reglum um fjárhagsaðstoð 

Margt er til  bóta í þessum reglum.  Fl. f fagnar því að efni tillögu Flokks fólksins um að fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að ekki þurfi að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildagreiðslum skv. gr. 16. A, rataði inn í reglurnar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist fyrir þessu lengi enda var þetta afar ósanngjarnt ákvæði.
Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá að aðalfulltrúar sem sitja í Velferðarráði sem ekki sátu í stýrihópi hefðu fengið að koma að ákvörðunarborðinu við samningu á nýjum reglum.

Aðrar breytingar sem hefðu verið vel þegnar lúta að skerðingum. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá að skerðingar séu ekki í beinum hlutföllum við þær tekjur sem umsækjendur afla sér, þ.e. hið svokallaða „króna á móti krónu skerðing“. Til að stuðla frekar að valdeflingu fólks þarf að hverfa frá þessum skerðingum. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að Reykjavíkurborg geti aukið við fjárhagsaðstoð  eða dragi úr skerðingum.  Greinin um framfærsluskyldu sýnir að áfram á að skerða fjárhagsaðstoð vegna tekna maka. Ekkert stendur í vegi fyrir því að Reykjavíkurborg geti afnumið tekjutengingu. Þetta er spurning um hvernig við viljum búa að okkar viðkvæmustu hópum.  Markmið hjálparkerfis á að vera að valdefla einstaklinga. Kerfið þarf að vera hvetjandi, ekki letjandi.

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. mars, liður 24:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ákveðið að hækka laun forstjóra fyrirtækisins um 370 þúsund krónur á mánuði og eru þau nú orðin nærri 2,9 milljónir króna. Þessu mótmælir fulltrúi Flokks fólksins og krefst þess að þeir sem bera ábyrgð á þessum gjörningi hugsi til alls þess fjölda sem hefur tekjur lægri en það sem nemur hækkuninni. Rök stjórnar eru m.a. að aðrir forstjórar orkufyrirtækja séu með há laun og þessi forstjóri hafi staðið sig svo vel. Spyrja má hversu stórkostleg getur frammistaða forstjórans verið að hann beri að verðlauna með slíkri launahækkun. Forstjórar orkufyrirtækja eru sárafáir en þeir eru í höfrungahlaupi hver við annan og hækka á víxl í launum. Bókun Flokks fólksins við lið 2 í fundargerð öldungaráðs um drög að nýjum reglum borgarinnar um stuðningsþjónustu. Engin rök eru fyrir því að þegar einhver sæki um stuðningsþjónustu megi velferðarsvið skoða fjárhagsleg einkagögn hans bæði hjá skattinum og Tryggingastofnun. Stuðningsþjónustan er veitt án tillits til fjárhags og eingöngu veitt af heilsufarslegum ástæðum. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun Félags eldri borgara sem telur að ekki sé hægt að réttlæta þá kröfu að skylda umsækjanda til að heimila þjónustumiðstöðinni að afla fjárhagslegra persónulegra gagna vegna þjónustunnar þar sem hún er vegna heilsufarslegra ástæðna og er ótengd fjárhagsstöðu fólks.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. og 9. lið fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

Fulltrúi Flokks fólksins finnst erfitt að horfa upp á hvernig fjármagni borgarbúa er stundum eins og hreinlega sóað. Ef horft er til sviðanna sker Þjónustu og nýsköpunarsvið (ÞON) sig sérstaklega úr þegar kemur að miklum fjárútlátum í hluti og sem ekki er séð að séu að skila sér beint til borgarbúa. Þetta er meira kannski eins og verið sé að uppfylla eitthvað „egó“. Hér er eins og vanti alla stoppara og að stjórnendur hafi misst sjónar af ákveðnum raunveruleika. Fjármagni er streymt til einkafyrirtækja, innlendra og erlendra og hagar sviðið sér eins og það sé sjálft í einkarekstri og ætli að sigra heiminn í þessum málum. Á meðan skortir nauðsynlega sálfræðiþjónustu við börn, þjónustu við eldri borgara í heimahúsi og fátækt fer vaxandi. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þessi fjárútlát verði skoðuð og metin af eftirlitsaðilum og kannað sérstaklega hvort fjárútlát séu farin úr böndum. Fátt af þessu sést síðan í reynd, hvar eru afurðirnar og hvernig nýtast þær fólkinu í borginni. Skoða þarf fjármál þjónustu- og nýsköpunarsviðs aftur í tímann t.d. hvað varðar ferðir embættismanna/starfsmanna þjónustu- og nýsköpunarsviðs erlendis, námskeið og annað.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er með öllu ólíðandi að kjörinn fulltrúi taki starfsfólk fyrir og kasti á það rýrð fyrir það eitt að framfylgja vilja borgarstjórnar. Smekklegra væri að fulltrúinn beindi sínum athugasemdum að þeim sem tekið hafa þær ákvarðanir sem verið er að framfylgja inni á sviðunum og sem hafa sama aðgang að opinberri umræðu og borgarfulltrúinn það er að segja að meirihluta borgarstjórnar. Ljóst er að fulltrúinn hefur mjög takmarkaða þekkingu á málaflokknum en það er engin afsökun fyrir svívirðilegri hegðun í garð starfsfólks sem leggur sig allt fram í þágu borgarbúa.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Þetta varðar ekki starfsfólk per se heldur hvernig haldið eru utan um fjármálin á þessu sviði. Kallað er eftir að meirihlutinn taki hér ábyrgð. Ekki er séð að verið sé að fara vel með fjármuni borgarinnar. Hvað á borgarfulltrúi minnihluta að gera þegar horft er upp á að milljarðar fara í einhver verkefni sem ekki er séð hvernig komi borgarbúum beint til góða. Minnt er á að Reykjavík er ekki einkafyrirtæki. Hér er verið að sýsla með fé fólks sem vinnur hörðum höndum og greiðir sitt útsvar. væri ekki nær að fjármagni sé veitt til barnanna í borginni frekar en milljarðar streymi til einkafyrirtækja. Hvað ætlar formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs að gera í þessu. Bara að líta í hina áttina?