Borgarstjórn 20. apríl 2021

Bókun Flokks fólksins við tillaga að alþjóðastefna Reykjavíkur til 2030, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. mars 2021:

Alþjóðastefna Reykjavíkurborgar til 2030  í erlendum samskiptum endurspeglar vart þróun síðustu ára með sístækkandi hlutverki borga á alþjóðavettvangi.  Margt er gott í stefnunni en áhyggjur eru af því sem fram kemur t.d. að „sérstaka starfsmenn þarf til að sinna alþjóðlegu samstarfi.“ Auka þjónustu við kjörna fulltrúa – t.d. vegna ferðalaga og móttaka og til að setja þá inn í ýmis alþjóðamál. Hér vill fulltrúi Flokks fólksins minna á að huga þarf að kostnaði eins og í svo mörgu öðru en farið hefur verið offari í sóun þegar kemur að ferðalögum meirihlutans og embættismanna erlendis, fram að COVID. Samskipti eiga að vera í gegnum fjarfundi nema í undantekningartilfellum. Annað sem vekur áhyggjur er að sagt er að nota eigi  „skilvirkar snjalllausnir og ráða fleira starfsfólk“. Hér hræða sporin og mikilvægt er að opna ekki enn á ný á stjórnlaus útgjöld eins og nú þegar hefur verið gert á sviði þjónustu og upplýsingatækni í verkefni sem hafa hvorki verið skilgreind til hlítar né hafa sýnileg markmið. Þekkingarmiðlun er í ójafnvægi – miklu er miðlað en minna sótt. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að hægt er að sækja meiri þekkingu til annarra borga og taka til fyrirmyndar borgir sem viðhafa góða og ábyrga stjórnsýslu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins styður tillögu um snjallvæðingu í grunnskólastarfi í Reykjavík en setja þarf verkefnið í hendur ábyrgra aðila og þeirra sem hafa þekkingu og skilning á snjallvæðingu sem snýr beint að börnunum og námi þeirra. Skilgreind markmið og mælanlegir verkferlar verða að vera til staðar þegar verið er að sýsla með fjármuni borgarinnar. Skynsamlegast væri að færa hluta þessara 10 milljarða sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur fengið nánast frítt spil með yfir á skóla- og frístundasvið sem myndi halda utan um Fab Lab og snjallvæðingu skólanna. Það er aldrei að vita nema að hugmyndaauðgi grunn- og framhaldsskólanema (Fab Lab) myndu skila fyrr af sér lausnum og draga þar með úr milljarða ráðgjafakaupum til einkafyrirtækja. Þrátt fyrir að miklum fjármunum hafi nú þegar verið veitt í stafræna umbreytingu og snjalllausnir er ekki að finna mikið af lausnum. Benda má á þetta fræga gróðurhús en í það hafa farið milljónir ef ekki milljarðar þrátt fyrir að vera aðeins „jarðvegur“ eins og meirihlutafulltrúi lýsir því, eða „prósess þar sem útkoman skiptir engu máli“. Einnig mætti nýta þær lausnir sem til eru nú þegar og hafa virkað vel, t.d. í skólakerfum annarra landa eins og raunin virðist vera með Fab Lab (sköpunarsmiðja).

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að nýju deiliskipulag fyrir Skerjafjörð Þ5 ásamt fylgiskjölum, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars 2021:

Nýtt deiliskipulag fyrir Skerjafjörð Þ5 er til afgreiðslu og hefur verið samþykkt af meirihlutanum. Með því að samþykkja tillöguna er stoppað í hvert gat í kringum  flugvöllinn. Skerjafjörðurinn og málefni hans hafa verið lengi á dagskrá í borgarstjórn og þá ekki síst vegna fyrirhugaðra landfyllinga og auðvitað vegna flugvallarins. Þótt ákvörðun um landfyllingu sé ekki hluti af þessari afgreiðslu þá eru áform um landfyllingar á þessum stað óásættanlegar enda skerðing á fjöru. Skerjafjörðurinn og uppbygging hans hefur margar hliðar. Umferðarmálin er einn flötur sem dæmi og einnig hvort flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni til langs tíma eða verði fluttur annað eftir 10-20 ár. Ekki er hægt að segja til um hvað verður á þessu stigi máls. Fulltrúi Flokks flokksins hafnar ekki alfarið að einhver uppbygging eigi sér stað í Skerjafirði en í raun er erfitt að fullgera nokkuð skipulag á meðan framtíð flugvallarins er óljós. Það væri þroskamerki hjá þessum meirihluta að ákveða ekki neitt með Skerjafjörðinn nú þegar aðeins eitt ár er eftir af valdatíð hans. Fari flugvöllurinn þá verður allt annað landrými undir til skipulagningar fyrir húsabyggð. Eðlilegt væri að meirihlutinn leyfði þeim næsta að taka þennan bolta. Skerjafjörðurinn er verðmætt svæði með blómlega náttúru og hefur tilfinningagildi fyrir fjölmarga.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Allar tillögur sem styðja við bakið á fátæku fólki eru tillögur sem Flokkur fólksins styður. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt mýmargar sambærilegar tillögur fram í borgarstjórn en þær ýmist felldar eða vísað frá. Ljóst er að grípa þarf til sértækra aðgerða ef vinna á að jöfnuði. Hvort sem ákveðið er að hafa þjónustu gjaldfrjálsa eð tekjutengda þá liggur fyrir að það þarf að gera meira fyrir foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði til að létta af þeim álagi sem fylgir því að vera fátækur. Eðlilegt er í samfélagi eins og okkar að lágtekjufólk sem oft eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og námsmenn sem eru undir lánsviðmiðunarmörkum borgi minna eða ekkert fyrir þjónustu eins og leikskóla og frístund og þeir efnaðri borgi meira. Jöfnuður er ein mikilvægasta forsenda þess að öll börn nái að vaxa og dafna í samfélaginu. Dæmi um ójöfnuð er að börn tekjulágra foreldra stunda síður skipulagðar íþróttir og annað tómstundastarf. Foreldrar hafa þurft að grípa til frístundakorts barna sinna til að greiða frístundaheimili og þar með nýtist kortið ekki fyrir barnið til að velja sér tómstund eða íþrótt. Útbúa þarf tekjuviðmið til að hægt verði að styðja við tekjulágar fjölskyldur með viðbótarniðurgreiðslu á t.d. gjöldum frístundaheimila. Samfylkingin í borginni ætti að styðja þessa tillögu vilji hún vera samkvæm þeirri stefnu sem Samfylkingin boðar sem er jú að auka jöfnuð.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Tillögu Flokks fólksins um að borgarstjórn samþykki að hjúkrunarheimili starfi eftir Eden hugmyndafræði hefur verið vísað í velferðarráð. Það boðar ekki gott því að í öll þau skipti sem tillögum Flokks fólksins hefur verið vísað til velferðarráðs beint úr borgarstjórnarsal þá eru þær felldar eða vísað frá á einhverjum næstu funda ráðsins. Hér er meirihlutinn að kaupa sér tíma því málið er viðkvæmt og treystir meirihlutinn sér ljóslega ekki til að fella tillöguna eða vísa henni frá hér og nú. Það hefði verið meirihlutanum að meinalausu að samþykkja þessa tillögu og verið sómi af. Þá hefðu hjúkrunarheimili borgarinnar tækifæri til að að skoða hana fyrir alvöru og hin heimilin sem eru sjálfseignastofnanir fengju hvatningu til að gera það saman. Í andmælum meirihlutans fær borgarfulltrúinn tvö valmöguleika, að samþykkja að vísa henni í velferðarráð eða draga hana til baka. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur leggja áherslu á að Eden hugmyndafræðin er einstök. Allmörg heimili vinna eftir Eden hugmyndafræðinni og hafa sum gert lengi við mikla ánægju heimilisfólks, aðstandenda og starfsfólks. Ástæðan fyrir því að Eden er svo vinsæl er að hún felur í sér áhersluna á hlýju, nánd, sjálfstæði og valdi yfir eigin lífi. Rúsínan í hugmyndafræðinni er áherslan á samneytið við lífríkið, börn og dýr.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Eden-hugmyndafræðin er áhugaverð og byggir á fjölbreytileika til að auðga daglegt líf hvers íbúa. Meirihluti borgarstjórnar lagði til að tillögunni yrði vísað til velferðarráðs til umfjöllunar og samráðs. Ákvörðun um að innleiða hugmyndafræði þarf alltaf að taka í nánu samráði við stjórnendur, starfsfólk og íbúa hjúkrunarheimila.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það hefði verið meirihlutanum að meinalausu að samþykkja þessa tillögu og verið sómi af. Þá hefðu hjúkrunarheimili borgarinnar fengið tækifæri til að skoða hana fyrir alvöru og hin heimilin sem eru sjálfseignarstofnanir fengið hvatningu til að gera það saman. Að vísa tillögunni í velferðarráð boðar ekki gott því að í öll þau skipti sem tillögum Flokks fólksins hefur verið vísað til velferðarráðs beint úr borgarstjórnarsal þá eru þær felldar eða vísað frá á einhverjum næstu funda ráðsins. Hér er meirihlutinn að kaupa sér tíma því málið er viðkvæmt og treystir meirihlutinn sér ljóslega ekki til að fella tillöguna eða vísa henni frá hér og nú.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir borgarráðs frá 18. og 25. mars og 15. apríl undir 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars:

Borgarráð samþykkti nýlega að heimila þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja verkefnaklasa í stafrænum umbreytingum. Sjálfsagt er að veita fé í stafræna umbreytingu enda er borgin eftir á með flest í þeim efnum enn sem komið er. Eins og komið hefur fram í fjölda bókana Flokks fólksins telur borgarfulltrúinn að afar frjálslega sé farið með það fé sem veitt hefur verið í málaflokkinn. Ekki er gætt aðhalds og ráðvendni. Starfsfólk var rekið og verkefnum útvistað. Ráðgjafakaup eru óeðlilega mikil í þessum málaflokki, fram úr öllu hófi. Sett er fé í tilraunastarfsemi á stafrænum verkefnum án þess að skilgreina hvert það leiðir. Minnt er á að til eru þessar lausnir nú þegar hjá flestum fyrirtækjum, stórum og smáum. Að verja milljörðum í hugmyndasmiðjur og nýsköpunarverkefni sem óvíst er að eitthvað komi út úr, er óverjandi. Með fagurgala og háfleygum lýsingum sem sjá má í svörum við fyrirspurnum, er reynt að fá fólk til að kaupa þá ímynd að verið sé að gera hér einhverja tímamótahluti sem leiði borgina á toppinn í stafrænni umbreytingu svo aldrei hafi sést annað eins. Allt er þetta undir merkjum græna plansins. Grænt eða ekki grænt, þá er þetta sóun og bruðl. Illa er farið með fjármuni borgarinnar sem ekki er hægt að horfa upp á.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Mikill undirbúningur liggur til grundvallar stafrænni umbreytingu borgarinnar. Að sjálfsögðu er ráðvendni gætt og er fullyrðingum um annað vísað á bug. Verið er að hraða stafrænni umbreytingu í þjónustu borgarinnar um fjöldamörg ár með það að markmiði að bæta þjónustu við borgarbúa. Liggur fyrir að þessi stafræna vegferð mun kalla á um 60-80 ársverk sem mun skiptast í aðkeypta þjónustu og tímabundin stöðugildi eftir því hvað hagkvæmast er hverju sinni. Tilbúnar lausnir eru keyptar þar sem það er skynsamlegt. Hér er um að ræða fjárfestingu sem mun spara mikið til lengri tíma eins og verkefni sem þegar hafa verið unnin hafa sýnt. Þjónustuþörfin er stanslaust að aukast og til að fletja út kúrvuna á aukinni þörf á fjölgun starfa er hægt að mæta aðstæðunum með nútímavæðingu þjónustu og stafrænni umbreytingu um leið og þetta leiðir til betri þjónustu sem er aðgengilegri, hagkvæmari og umhverfisvænni. Það gengur ekki að fullyrða að það þurfi nauðsynlega að ráðast í stafræna umbreytingu en halda því svo fram að það sé algjör vitleysa að fjárfesta í nákvæmlega þessu.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það fjáraustur og ábyrgðarleysi þjónustu- og nýsköpunarsviðs undir verndarvæng formanns mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og borgarstjóra sem fulltrúi Flokks fólksins hefur marglýst í bókunum sínum er með eindæmum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið það óþvegið fyrir að gagnrýna þetta, sökuð um vanþekkingu og fleira hálfu verra. Fulltrúi Flokks fólksins ætlar ekki að fara niður á þetta plan en biðlar þess í stað til formannsins að axla ábyrgð og spyrna við fótum. Spyrna átti við fótum þegar hópur kerfisfræðinga var rekinn og verkefnum þeirra útvistað. Ekki hefur verð sýnt fram á hagkvæmni með þeirri aðgerð. Einnig átti að spyrna við fótum þegar milljarðar streymdu til ráðgjafafyrirtækja greiðslur sem eru sumar ekki sundurliðaðar í opnu bókhaldi á vef borgarinnar. Spyrna átti við fótum þegar sérstakar skrifstofur voru settar á laggirnar í kringum ákveðin tilraunaverkefni sem jafnvel er hægt að fá fullbúin annars staðar eða hefði mátt setja í hendur nemenda grunn- og framhaldsskólanna (Fab Lab) til að þróa frekar. Reykjavík er sveitarfélag en ekki hugbúnaðarfyrirtæki eða hönnunar- og nýsköpunarfyrirtæki á heimsmælikvarða. Hér er ekki um að ræða milljónir heldur milljarða, vel á annan tuga milljarða þegar allt er tiltekið. Og hvað svo? Er þetta botnlaus brunnur sem halda á áfram að hella í?

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Meirihluti borgarstjórnar er metnaðarfullur þegar kemur að þjónustu við fólk. Þess vegna er verið að endurhanna þjónustuna á forsendum notandans. Tilbúnar lausnir eru keyptar þar sem það er hagkvæmt. Verkefnum er ýmist útvistað eða unnin innanhús byggt á því hvað er hagkvæmt fyrir útsvarsgreiðendur Reykjavíkurborgar og byggt á því hvaða þekking er til staðar innan kerfis. Öll stór fyrirtæki og stofnanir sem veita mikilvæga þjónustu og taka sig alvarlega eru að vinna að stafrænni umbreytingu. Einfaldlega vegna þess að nútíminn krefst þess í takt við væntingar íbúa. Þessi fjárfesting kostar en sparar gríðarmikið til lengri tíma. Talið er að hagræðið af þessari stafrænu umbreytingu muni skapast á þremur til fimm árum eða jafnvel hraðar. Verkefni sem hefur verið lokið sýna mikinn ábata.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins biðlar aftur til meirihlutans um að sýna hér ábyrgð, viðhafa gagnrýna hugsun og almenna heilbrigða skynsemi. Meirihlutanum sem völdin hafa er skylt að gæta þess ávallt að farið sé vel með fjármuni borgarinnar og gæta að hagræðingu og hagkvæmni. Standa þarf einnig vörð um störfin, ekki síst á þeim erfiðu tímum sem nú ríkja vegna kórónuveirufaraldursins. Minnt er á stöðu mála á biðlistum borgarinnar í hina ýmsu þjónustu. Á velferðarsviði og skóla- og frístundasviði vantar sárlega fjármagn. Rík ástæða er því að horfa í hverja krónu og finna ávallt hagkvæmustu leiðirnar að markmiðunum. Hér er um gríðarlega fjármuni að ræða.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir undir 9. og 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 23. mars og 7. og 8. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs 13. apríl:

Liður 9. og 10. í fundargerð 23. mars: Tillögur Flokks fólksins um hagsmuni barna af erlendum uppruna í leik- og grunnskóla voru felldar í skóla- og frístundaráði. Sláandi er hversu mörg þessara barna, sem hafa alist upp í Reykjavík eru illa stödd í íslensku. Skortur er á fjölbreyttari bjargráðum fyrir tvítyngd börn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einnig gagnrýnt vöntun á samræmdum árangursmælingum í sérkennslu og öðrum úrræðum. Liðir 7. og 8. í fundargerð 13. apríl: Fulltrúi Flokks fólksins lagði til breytingar á niðurgreiðslum vegna þjónustu við dagforeldra. Ekki gengur upp að fólki sé refsað fyrir hvenær árs þau eignast börn og þurfi að greiða meira vegna dagvistunar barna því þau komast ekki í leikskóla. Tekið er undir með áheyrnarfulltrúa foreldra leikskólabarna að fagna beri endurskoðun gjaldskrár. Hvatt er til samræmingar skólastiga í gjaldtöku og að forráðafólk beri ekki aukinn kostnað þegar skortur er á leikskólaplássum. Einnig var tillaga að gjald skólamáltíða í leik- og grunnskólum verði lækkað hjá þeim verst settu felld með þeim rökum að „lækkun á gjaldi kæmi niður á gæðum máltíða.“ Fulltrúi Flokks fólksins er ósammála. Lækkun gjalds þýðir vissulega að hækka þarf framlag til sviðsins en ekki að dregið verði úr gæðum máltíða. Skárra væri það nú.