Borgarstjórn 17. desember 2019

Bókun Flokks fólksins við samkomulag um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni:

Hvassahraun sem möguleg staðsetning fyrir nýjan innanlandsflugvöll hefur verið lengi í umræðunni. Farið var að mæla veðurskilyrði þar fyrir um 2-3 árum en engar tilraunir í flugi s.s. mælingar á kviku eða skýjahæð hafa verið gerðar. Eins og málið horfir við í dag er óvissan um þennan stað því mikil. Ef mælingar og tilraunir reynast ekki hagstæðar þá erum við á núllreit með þessi mál. Það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir nokkur ár þegar niðurstöður mælinga og flugtilrauna liggja fyrir. Verði farið í að byggja flugvöll í Hvassahrauni er reiknað með að allt að áratugur verði áður en hægt verði að hefja flugsamgöngur þar. Engar sérstakar breytingar eru því í farvatninu um flugsamgöngur í Vatnsmýrinni nema að þar mun rísa samgöngumiðstöð.  Þeir sem vilja að flugvöllurinn verði þar áfram þurfa því ekki að hafa áhyggjur a.m.k. næsta áratuginn og jafnvel lengur. Ef til kemur að Hvassahraun stenst skoðun er ekki sanngjarnt að borgin greiði helming af hönnunarkostnaði flugvallar í Hvassahrauni. Sá flugvöllur verður ekki innan borgarmarka Reykjavíkur. Ef til kæmi þá er nær að þau sveitarfélög þar sem flugvöllurinn verður tækju þátt í hönnunarkostnaðinum.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins um áskorun til Alþingis um endurskoðun fjölda borgarfulltrúa:

Flokkur fólksins telur að fjölgun borgarfulltrúa var tímabær og af hinu góða. Ótalmargt hefur breyst til hins betra. Minnihlutinn er fjölbreyttari og fleiri sjónarmið komast að. Eldra fyrirkomulagið var gallað og kostnaðarsamt. Sem dæmi, fólk sem var jafnvel lítt tengt pólitíkinni tók sæti í hinum ýmsu nefndum því borgarfulltrúar gátu ekki annað þeirri vinnu. Núna sjá kjörnir fulltrúar um mestu vinnuna. Það er lýðræðislegra en vissulega óhemju álag fyrir litla flokka. Kosturinn við fjölgunina er að nú eru fleiri mál, fyrirspurnir, tillögur, dýpri og lengri umræða sem  er allt af hinu góða. Öflugur minnihluti getur stuðlað að bættum rekstri í borginni,  aukins aðhalds og gegnsæi. Borgarbúar eiga fleiri málsvara nú. Fleiri eyru hlusta og meðtaka skilaboð frá borgarbúum. Ef borgarfulltrúar eru fáir falla mörg greidd atkvæði dauð sem kemur verst niður á litlum flokkum. Stórir flokkar nýta atkvæði sín best við þessar aðstæður og því kemur þessi tillaga Sjálfstæðismanna ekki á óvart. Má nefna að sá flokkur hélt oft meirihluta í Reykjavík fyrr á árum með minnihluta atkvæða. Það eru minni líkur á slíku þegar borgarfulltrúar eru 23 en ekki 15. Álit Alþingis er að borgarfulltrúar í Reykjavík eigi að vera 23-31. Lægsti mögulegi borgarfulltrúafjöldi er í Reykjavík eins og er.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar forsætisnefndar sem er Staðfestingu ráðuneytis á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

Staðfestingu ráðuneytis á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar hefur verið lögð fram. Í samþykkt þessari er talað um að fundir hefjist að jafnaði kl. 14:00. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að fundir hefjist mun fyrr. Að færa fundi framar og freista þess að ljúka þeim fyrir kvöldmat er nú orðið enn meira knýjandi í ljósi umræðu um kostnað við borgarstjórnarfundi þ.m.t. matarkostnað. Ekki er mikið til af reglum um áheyrendur. Í 17. gr. segir þó að ef áheyrandi á borgarstjórnarfundi raskar fundarfriði getur forseti látið vísa honum út. Gæta þarf meðalhófs í þessu sem öðru að mati Flokks fólksins enda “fundarfriður” bæði teygjanlegt og háð túlkun. Skemmst er að minnast hóps barna sem klappaði á áheyrendapöllum borgarstjórnar en var hótað að þeim yrði fleygt á dyr klöppuðu þau aftur. En klapp stöku sinnum á pöllunum í borgarstjórn skaðar engan að mati Flokks fólksins. Í reglum segir einnig að leyfi þarf frá forseta til myndatöku í fundarsal. Ekkert er hins vegar um að leyfi þurfi fyrir myndatöku í matsal. Gegnsæi verka og verkefna borgarstjórnar og gott aðgengi borgarbúa og fjölmiðla að borgarstjórn og borgarfulltrúum er mikilvægt að sjálfsögðu innan þeirra marka sem lög og reglur gera ráð fyrir.

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um reglur um viðbrögð við uppsögn eða riftun leigusamnings um félagslegt húsnæði af hálfu Félagsbústaða eða velferðasviðs

Flokkur fólksins leggur til að reglur um félagslegt húsnæði verði endurskoðaðar með tilliti til viðbragða stjórnvalda ef leigusamningi um félagslegt húsnæði er sagt upp eða rift af hálfu Félagsbústaða eða velferðasviðs. Jafnframt verði reglum breytt og það tekið skýrt fram að fylgja þurfi reglum stjórnsýslulaga við ákvörðunartöku um að segja upp eða rifta leigusamningi um félagslegt húsnæði. Ákvörðunin um hvort viðkomandi eigi rétt á félagslegu leiguhúsnæði á vegum borgarinnar er í höndum velferðarsviðs og er þar með stjórnvaldsákvörðun. Sú ákvörðun að slíta leigusamningi, t.d. þegar leigjandi gerist brotlegur gegn honum á einhvern hátt, er á hinn bóginn í höndum Félagsbústaða, enda er sú stofnun eins og staðan er núna í raun aðeins leigusali og ber ekki sérstakar skyldur gagnvart leigjendum sem slíkur, fyrir utan þær sem Reykjavíkurborg setur á þeirra herðar. Að undanförnu hefur velferðarsvið í auknum mæli tekið meiri ábyrgð í málum leigjenda hjá Félagsbústöðum en betur má ef duga skal. Ef fylgja á sveitarstjórnarlögum er það skylda sveitarfélags að sjá um þá einstaklinga sem ekki geta það sjálfir. Þetta á við um grunnþarfir einstaklinga eins og húsnæði, fæði og klæði. Missi viðkomandi húsnæði hjá Félagsbústöðum hlýtur það ávallt að vera á ábyrgð Reykjavíkurborgar að finna honum annað húsnæði eða úrræði. Enginn á að lenda á vergangi.

Greinargerð
Umboðsmaður Alþingis hefur bent á að það hvíli skyldur á herðum sveitarfélaga við lok leigusamnings um félagslegt húsnæði, sbr. mál 5544/2008 þar sem umboðsmaður segir:

„Ég legg í þessu sambandi sérstaka áherslu á að þegar kemur til loka á leigusamningi getur reynt á skyldur sveitarfélagsins að öðru leyti samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, svo sem um fjárhagsaðstoð. Það getur vart samrýmst þeim lagagrundvelli sem þar er lagður að hinni fjölþættu félagsþjónustu sveitarfélaga, og er grunneining í opinberri félagsþjónustu, að afnotum þeirra sem fengið hafa úthlutað félagslegu leiguhúsnæði af hálfu sveitarfélags sé alfarið lokið á grundvelli einkaréttarlegra reglna án þess að samhliða sé gætt að þeim skyldum sem hvíla að lögum á sveitarfélaginu um aðstoð og félagsþjónustu við íbúa þess.“

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði er ekki fjallað um með hvaða hætti velferðasvið eða Félagsbústaðir skuli aðstoða nánar einstakling sem missir félagslegt leiguhúsnæði. Mikilvægt er að hafa skýrar reglur um hvernig skuli bregðast við í þeim aðstæðum og þess vegna er lagt til að Reykjavíkurborg endurskoði reglur um félagslegt húsnæði og fjalli þar nánar um viðbrögð stjórnvalda við því þegar leigusamningi um félagslegt húsnæði er sagt upp eða rift af hálfu Félagsbústaða eða velferðasviðs með það að markmiði að tryggja að einstaklingur sem missir félagslegt leiguhúsnæði lendi ekki á götunni.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði kemur m.a. fram að afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um úthlutun húsnæðis teljist stjórnvaldsákvörðun sem geti leitt til uppsagnar samnings eða riftunar. Ekki er þó fjallað um það hvort uppsögn eða riftun teljist stjórnvaldsákvörðun. Því er óljóst af ákvæðum reglugerðarinnar hvort Félagsbústöðum beri að fylgja reglum stjórnsýslulaga þegar ákvörðun er tekin um að segja upp eða rifta samning án þess að ákvörðun um úthlutun hafi verið afturkölluð. Hér koma til greina tilfelli þar sem leigjandi greiðir ekki leigu en brýtur ekki gegn ákvæðum reglugerðarinnar sem fjalla um skilyrði fyrri úthlutun.

Umboðsmaður Alþingis fjallaði um starfsemi Félagsbústaða í  máli nr. 5544/2008 og sagði m.a.:
„Ákvörðun um uppsögn eða riftun húsaleigusamnings vegna þess að leigjandi efnir ekki samninginn hefur sambærileg áhrif á líf og aðstæður einstaklings og þegar ákvörðun um úthlutun er afturkölluð eða leigusamningi er sagt upp af öðrum ástæðum en vegna vanefnda. Einstaklingur nýtur þá ekki lengur að lögum réttar til að dveljast í tilteknu húsnæði og kann í framhaldinu að verða að sæta útburði. Í reynd er því með ákvörðuninni bundinn endir á rétt borgarans til dvalar í tilteknu félagslegu leiguhúsnæði þótt hann fullnægi áfram skilyrðum laga og reglna að mati þar til bærra aðila til aðstoðar vegna húsnæðisvanda. Slík ákvörðun hefur mikla þýðingu fyrir hagsmuni viðkomandi en með henni er bundinn endir á rétt aðila til dvalar á stað sem kann að teljast „heimili“ hans og fjölskyldu í skilningi 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. til hliðsjónar fyrrnefndan dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 13. maí 2008 í máli McCann gegn Bretlandi í máli nr. 19009/04.

Í tengslum við þetta verður að hafa í huga að leigutakar hafa fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði á grundvelli þeirra allsherjarréttarlegu reglna sem gilda um félagslegt húsnæði og aðstoð. Grundvöllur leigunnar er því ekki að öllu leyti byggður á einkaréttarlegu réttarsambandi þótt um hana hafi verið gerður húsaleigusamningur. Afleiðing riftunar Félagsbústaða hf. á húsaleigusamningi við leigutaka er, sem fyrr segir, sú að viðkomandi missir leiguhúsnæði sem hann fékk úthlutað með stjórnvaldsákvörðun.“

Af framangreindu er ljóst að ef segja á upp samningi um félagslegt húsnæði eða rifta, þá ber að gæta að reglum stjórnsýslulaga, um rannsóknarskyldu, meðalhóf og andmælarétt. Félagsbústaðir geta því ekki tekið ákvörðun um að segja upp eða rifta samning nema að undangenginni athugun á því hvers vegna leigutaki efni ekki leigusamning og veiti leigutaka færi á að tjá sig um ástæður vanefnda. Jafnframt skal ekki ganga lengra en nauðsynlegt er þegar brugðist er við vanefndum leigutaka.

Því er lagt til að reglur um félagslegt húsnæði verði endurskoðaðar og þar tekið af öll tvímæli um að ákvörðun um uppsögn eða riftun samnings teljist stjórnvaldsákvörðun og að við töku slíkrar ákvörðunar beri að fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga.

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá gegn atkvæði Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

Tillögu Flokks fólksins um endurskoðun á reglum um viðbrögð við uppsögn eða riftun leigusamnings um félagslegt húsnæði af hálfu Félasgsbústaða eða velferðarsviðs hefur verið vísað frá. Sennilega uppfylla reglur lögin en búið er að framselja allt of mikið vald til Félagsbústaða að mati Flokks fólksins.  Valdið á að vera hjá velferðarsviði enda Félagsbústaðir angi þar af. Flokki fólksins finnst sem borgin hafi misst nokkuð sjónar af Félagsbústöðum í gegnum árin og séu í of litlum tengslum við móðurstöðina. Ótal dæmi eru um að leigusamningum hjá Félagsbústöðum hafi verið rift og fólk lent á götunni. Velferðarsvið er ábyrgt fyrir þessu fólki en mörg dæmi eru um að sviðið hafi ekki axlað þá ábyrgð sem skyldi og jafnvel látið sem málið sé sviðinu óviðkomandi. Félagsbústaðir eru ekki bara eitthvað leigufyrirtæki út í bæ og á ekki að haga sér sem slíkt. Þegar upp er staðið þá ber velferðarsvið ávallt lokaábyrgðina að viðkomandi lendi ekki á götunni eða á margra mánaða vergangi ef samningi við hann hefur verið rift hjá Félagsbústöðum. Nú situr formaður velferðarráðs í stjórn Félagsbúastaða og var þess vænst að þar með væri kominn eins konar naflastrengur milli móðurstöðvarinnar sem er borgin og Félagsbústaða. Leigjendum sem vegna ekki vel hjá Félagsbústöðum af einhverjum ástæðum eru á ábyrgð velferðarsviðs.

Tillaga Flokks fólksins að velferðarsvið ásamt Félagsbústöðum móti úrræði fyrir úrlausn deilumála sem vakna á milli leigjenda Félagsbústaða

Flokkur fólksins leggur til að velferðarsvið ásamt Félagsbústöðum móti úrræði fyrir úrlausn deilumála sem vakna á milli leigjenda Félagsbústaða og ráðist í aðgerðir til að aðstoða þá sem búa í félagslegu húsnæði eða óska eftir félagslegu húsnæði sem jafnframt glíma við fíknisjúkdóma. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að velferðarsvið í samvinnu við Félagsbústaði sem hefur fengið ríka ábyrgð til að halda utan um leigjendahópinn, veiti stuðning og ráðgjöf og svari kalli hans um aðstoð eftir atvikum. Til dæmis er mikilvægt að leigjendur sem eru í erfiðum aðstæðum sem geta verið af ýmsum toga, hafi aðgang að ráðgjöf og jafnvel fagaðila ef vandinn tengist á einhvern hátt búsetu þeirra hjá Félagsbústöðum.

Flokkur fólksins hefur sérstakar áhyggjur af þeim hópi leigjenda sem glímir við  fíknivanda og velt er upp spurningum hvort borgin geti komið sterkar inn í að aðstoða þá sem vilja aðstoð t.d. með með ráðgjöf eða meðferð. Hugmynd um teymi sem sinnti þessum hópi sérstaklega hefur komið upp hjá fulltrúa Flokks fólksins. Sú hugmynd kallar á að borgin þrói úrræði fyrir fólk með fíknivanda. Eins og staðan er núna eru þessi  úrræði, aðallega hjá SÁÁ og svo hjá félagasamtökum sem taka að sér endurhæfingu, sporavinnu, námskeið og annan stuðning. Margra mánaða biðlisti er í öll þessi úrræði.

Greinargerð

Dæmi eru um að leigjendur með fíknisjúkdóma sem eru í virkri neyslu valdi vanda í nærumhverfi sínu og hafa neikvæð áhrif á lífsskilyrði annarra íbúa. Margir leigjendur sem búa við þessar aðstæður hafa komið að máli við borgarfulltrúa Flokks fólksins og óskað leiðsagnar. Það er krefjandi og oft mikið álag að búa við hlið einstaklings sem er í virkri neyslu og fær jafnvel ítrekaðar heimsóknir frá lögreglu. Aðrir íbúar þurfa jafnvel að grípa til þess að leita til lögreglu eða annarra yfirvalda til að fá aðstoð við að koma hömlum á hegðun viðkomandi. Hér þarf velferðarsvið og Félagsbústaðir sem fær þá aukna ábyrgð að koma sterkar inn með stuðning og eftirfylgni.

Slík eftirfylgni ætti að vera regla t.d. ef kalla þarf til lögreglu vegna ofbeldis eða afbrota. Í kjölfarið ætti að vera boðið upp á að  funda með íbúum til þess að athuga hvort um viðvarandi vanda sé að ræða og þá hvert umfang hans er, svo eitthvað sé nefnt. Spurning er hvort ekki sé hægt að koma á einhverju verklagi í þessu sambandi. Hér geta Félagsbústaðir ekki skorast undan ábyrgð og á heldur ekki að gera það.

Sama gildir ef upp kemur ágreiningur milli leigjenda hvort heldur má rekja hann til lífsstíls eða annars en í þeim tilfellum mætti skoða að setja upp  einhverskonar sáttamiðlun sem velferðarsvið og Félagsbústaðir halda utan um í sameiningu. Stundum gæti verið um að ræða leigjanda annars vegar og eiganda íbúðar hins vegar þar sem blanda er af hvorutveggja í stigagangi.

Flokkur fólksins hefur eins og áður segir sérstakar áhyggjur af þeim hópi leigjenda sem glímir við  fíknivanda og áhrif þess vanda ekki aðeins á þá sjálfa heldur einnig fjölskyldu þeirra, nágranna og nærumhverfið allt. Borgin getur á grundvelli reglna um félagslegt húsnæði hafnað umsóknum um félagslegt húsnæði og afturkallað úthlutanir til þeirra sem glíma við virkan vímuefnavanda.  Nú er raunveruleikinn sá að neyðarástand ríkir í meðferðarmálum og borgin ekki með úrræði fyrir t.d. fólk sem bíður eftir að komast í meðferð, hvað þá fyrir fólk sem ekki vill þiggja aðstoð. Óskandi væri  að borgin byði upp á einhverja aðstoð t.d. fyrir þá sem eru að bíða eftir að komast í meðferð, enda er hver dagur í lífi þess sem glímir við neysluvanda jafnvel lífsspursmál. Allir þurfa að hafa húsaskjól hvernig sem komið er fyrir þeim og það er á ábyrgð velferðarráðs og velferðarsviðs  að veita.

Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs gegn atkvæði Miðflokksins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Síðastliðið vor voru samþykktar nýjar reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, þar sem brugðist hefur verið við þeim ábendingum sem fram koma í tillögunni. Félagsbústaðir og velferðarsvið bjóða fjölbreytt úrval húsnæðis eins og sjá má meðal annars í reglum um félagslegt húsnæði. Unnið er að því að styrkja þjónustukeðju og stuðning við leigjendur félagsbústaða og þá sem bíða eftir úthlutun.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

Tillögu um úrræði fyrir úrlausn deilumála er vísað til velferðarsviðs. Félagsbústaðir er hlutafélag sem er alfarið í eigu Reykjavíkurborgar. Um mitt þetta ár áttu Félagsbústaðir hf. um 2.700 íbúðir. Hlutverk Félagsbústaða er að tryggja og reka félagslegt leiguhúsnæði í borginni til þess að mæta húsnæðisþörf þeirra sem ekki geta séð sér og sínum fyrir húsnæði vegna lágra tekna eða félagslegra aðstæðna. Samhliða fjölgun eigna hjá Félagsbústöðum þarf að vera hægt að halda utan um leigjendahópinn og leysa þau mál sem upp koma innan hans.  Leigjendur hjá Félagsbústöðum eiga að fá bestu mögulegu þjónustu að öllu leyti. Eins og gengur í sambýli fjölbýlishúsa geta komið upp ýmis mál sem þarf að leysa. Á þessu þarf Félagsbústaðir að geta tekið. Fyrirtæki eins og Félagsbústaðir má aldrei verða svo stórt að það ráði ekki við innviðina og geti ekki þjónustað fólkið. Þetta er ekki venjulegt leigjendafyrirtæki. Mörgum finnst að Félagsbústaðir séu allt of aftengdir velferðarkerfi borgarinnar. Félagsbústaðir hefur árum saman verið að glíma við ímyndarvanda. Sá vandi er ekki tilkominn af engu. Það myndi gera mikið fyrir Félagsbústaði ef þeir hefðu úrræði sem leigjendur geta gengið að með mál sem upp kunna að koma í íbúðahúsum Félagsbústaða. Slíkt úrræði myndi skapa öryggi meðal leigjendanna og auka traust þeirra á Félagsbústöðum.