Borgarráð 16. maí 2019

Flokkur fólksins er með tveimur öðrum minnihlutaflokkum í tillögu um mötuneytismál í Dalskóla:

Lagt er til að fundin verði viðunandi lausn fyrir skólabyrjun í haust hvað varðar mötuneytismál Dalskóla þar sem mötuneyti skólans verður ekki tilbúið fyrr en 2020 þar sem gleymst hafði að gera ráð fyrir því við hönnun skólans. Það stefnir í að Dalskóli muni ekki geta uppfyllt þær lagalegu kröfur sem gerðar eru til skóla um sbr. einkum 1. mgr. 23. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 þar sem segir að í grunnskóla skuli nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja. Vísað er í erindi sem birt var skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, hinn 16. maí. R19050138

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: fundargerð endurskoðunarnefndar frá 29. apríl þar sem fjallað er um álit Trausta Fannars Valssonar vegna áritunar ársreiknings:

Loksins liggur allt uppi á borði er varðar hvað þýðir að skrifa undir ársreikning en nú er lögfræðiálit stjórnsýslufræðings sýnilegt öllum borgarráðsfulltrúum. Nokkur atriði er vert að leggja áherslu á og það er að staðfesting ársreiknings felur ekki í sér samþykki einstakra ráðstafana sem liggja til grundvallar í því reikningshaldi sem ársreikningurinn lýsir. Með undirskrift borgarfulltrúa Flokks fólksins, með fyrirvara, var þá ekki verið að staðfesta á neinn hátt eða samþykkja fjárútlát framúrkeyrsluverkefna og því þá síður fjárútlát sem voru án heimildar borgarráðs. Eins og menn muna var borgarráð platað, ýmist var haldið frá borgarráði upplýsingum eða því veittar rangar upplýsingar. Ekki síður mikilvægt er þessi niðurstaða (leiðbeiningar) reikningsskila- og upplýsinganefndarinnar sem máli skiptir þ.e. um meðferð og samþykktir viðauka við fjárhagsáætlun. Viðauka skal ekki gera til að leiðrétta fjárhagsáætlun, útgjöld eða fjárfestingu sem stofnað er til utan fjárheimildar en þessi leikur virðist leikinn í borginni og það ítrekað. Sveitarstjórn verður að hafa vitneskju um ástæður þess að tiltekin útgjöld eða fjárfesting séu umfram fjárhagsáætlun til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu gagnvart fjármálum borgarinnar. Í borgarfjármálunum þarf því margt að laga!

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Secret Solstice, drög að nýjum samningi 

Nú stendur til að halda aftur Secret Solstice í skugga himinhárra óuppgerðra skulda frá hátíðinni í fyrra. Einnig hafa borist fjölmargar umsagnir frá foreldrum og íbúum sem eru uggandi um börn sín. Fullyrt er að ekki sé hlustað á áhyggjur þeirra og að ekki hafi fengist viðtal við borgarstjóra vegna málsins. Gagnrýnt hefur verið að halda hátíð af þessari stærðargráðu þar sem íbúðarhverfi eru allt um kring ekki síst vegna þess að mikill misbrestur hefur auk þess verið á eftirliti. Fram hefur komið hjá foreldrum í kjölfar síðustu hátíðar „að stórfelld brotalöm var á skipulagi hátíðarinnar og framfylgd áfengiskaupalaga auk þess sem neysla og sala fíkniefna var mikil í tengslum við hátíðarhöldin“. Borgarfulltrúi Flokks fólksins bókaði um málið á þessum nótum í nóvember sl. þegar ljóst var að eigendur hátíðarinnar stóðu ekki í skilum. Engu að síður hófst undirbúningur hátíðarinnar fyrir 2019. Borgarfulltrúi vill styðja það sem fram kemur í umsögnum foreldrafélaga í hverfinu sem telja að þessi hátíð eigi ekki heima í Laugardalnum. Borgarfulltrúi veit að reynt hefur verið að gera ráðstafanir til að þessir hlutir fari ekki úr böndum. Engu að síður eru foreldrar áhyggjufullir vegna barna sinna enda eiga hagsmunir barna ávallt að vera í fyrirrúmi.

Flokkur fólksins og Miðflokksins sameinast í bókun undir fundargerð endurskoðunarnefndar frá 6. maí er viðauka:

Eftir að hafa fengið gögn sem eftirlitsnefnd Reykjavíkur kallaði eftir að beiðni oddvita Sjálfstæðisflokksins er ljóst að ekki stendur steinn yfir steini í rekstri borgarinnar. Sveitarstjórnarlög og lög um opinber skjalasöfn hafa verið brotin og farið hefur verið gegn reglum frá reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga. En í reglunum kemur fram að mælst er til að útgjöld eða fjárfesting sem stofnað er til utan fjárheimildar og ekki að undangengnum viðauka, séu sett á dagskrá sveitarstjórnar og bókað sérstaklega. Sveitarstjórn hefur þannig vitneskju um ástæður þess að tiltekin útgjöld eða fjárfesting séu umfram fjárhagsáætlun og getur þannig sinnt eftirlitshlutverki sínu gagnvart fjármálunum. Leiðréttingar á fjárhagsáætlun með gerð viðauka undir lok árs, vegna útgjalda eða fjárfestinga sem stofnað hefur verið til án samþykkis sveitarstjórnar, samræmast þannig ekki reglum um viðauka. Slíkar samþykktir þjóna ekki tilgangi laganna um fyrirfram samþykki sveitarstjórnar vegna breytinga á samþykktri fjárhagsáætlun. Nú blasir við hvers vegna meirihlutinn barðist hatrammlega á móti tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um að vísa braggaskýrslunni til þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar en tillagan var felld á fundi borgarstjórnar hinn 15. janúar sl.

Bókun Flokks fólksins við umræðunni um bruna í Seljaskóla:

Bruni í tvígang í Seljaskóla er mikið áfall. Öllum er brugðið. Orsakir liggja ekki fyrir en fullyrt er að eftirlit sé gott og strangt. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er hugsað til eldri skólabygginga sem ekki hefur verið haldið við en þær eru fjölmargar í Reykjavík. Byggingar í eigu borgarinnar hafa margar drabbast niður undanfarin ár. Því til staðfestingar er fjöldi tilvika um myglu í fasteignum borgarinnar. Í fréttum segir að á einhverjum tíma var verið að segja upp vöktunarsamningum á brunaviðvörunar- og vatnsúðakerfum og viðhaldssamningum þrátt fyrir að það hafa verið brunar af og til. Viðhald skiptir öllu máli og hafa viðhaldsmál einfaldlega rekið á reiðanum í borginni undanfarin ár. Brunavörnum þarf einnig að sinna. Ef brunavörnum er ekki sinnt dags daglega eru þær ekki til neins. Svo ábyrgð borgarinnar er mjög mikil. Ég spyr eins og margir, eru skólarnir á höfuðborgarsvæðinu öruggir fyrir börnin? Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að allt fór vel og þakkar slökkviliði og stjórnendum. Borgarfulltrúi er hins vegar ekki tilbúinn að bíða eftir næsta bruna. Hér verður að setja peninga í að taka út stöðu viðhalds bygginga þar sem börn stunda nám eða tómstundir.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Hagkvæmt húsnæði – Bryggjuhverfi – Variat:

Borgarfulltrúi vill aftur árétta það sama hvað varðar þetta vilyrði og annað sambærilegt sem áður hefur verið kynnt borgarráði. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það skilyrði fyrir úthlutun lóðar að Félagsbústaðir hf. skuli eiga rétt til að kaupa einungis 5% íbúða vera lágt. Þetta hlutfall mætti vera 10%. Fram kemur að Variat skulu bjóða Félagsbústöðum hf. íbúðirnar til kaups þegar hönnun liggur fyrir og skulu Félagsbústaðir hf. þá hafa einn mánuð til að taka afstöðu til kaupréttarins. Ef Félagsbústaðir hf. bregðast ekki við innan þeirra tímamarka er Variat rétt að líta svo á að Félagsbústaðir hf. hyggist ekki nýta sér kaupréttinn. Hér er um allt of skamman tíma að ræða. Við yfirferð þessara skilmála er smávegis eins og margt sé gert til að gera Félagsbústöðum erfiðara fyrir en ella að fjárfesta þarna.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Starfsáætlun og rýmingaráætlun almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins:

Borgarfulltrúi þakkar þessa kynningu og telur að slökkviliðið og almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins standi vakt sína með sóma. Engu að síður vill borgarfulltrúi nefna í tengslum við þessa umræðu að ekki er hægt að útiloka að það þurfi að koma til brottflutnings fólks af stóru svæði Reykjavíkur og Seltjarnarness. Þess myndi mögulega þurfa ef upp kæmi sú staða að ekki væri hægt að rýma milli svæða. Það er aldrei neitt útilokað í þessu lífi. Ef sú staða kæmi upp t.d. vegna náttúruhamfara sem gerði það að verkum að fólk þyrfti að komast í snarheitum frá Reykjavík og Seltjarnarnesi þá er alveg ljóst að engar raunhæfar áætlanir eru til. Þar er vissulega ekki við almannavarnarnefnd og slökkviliðið að sakast en því fyrr sem borgarpólitíkin er tilbúin að horfast í augu við þessa staðreynd því betra.