Borgarstjórn 18. október 2022

Borgarstjórn Reykjavíkur
18. október 2022

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um stofnun stýrihóps til að bregðast við auknum vopnaburði meðal unglinga
Bylgja ofbeldis hefur riðið yfir á meðal íslenskra barna og ungmenna í Reykjavík. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að settur verði á laggirnar stýrihópur sem kortleggur aukinn vopnaburð eggvopna meðal ungmenna í Reykjavík. Einnig meta viðbrögð borgarinnar sem lýtur að forvörnum. Hópurinn myndi hafa það hlutverk að koma með drög að hugmyndum um hvernig bregðast megi við auknum vopnaburði hjá ungu fólki sem er mikið áhyggjuefni. Tölulegar staðreyndir sýna að útköllum lögreglu og sérsveitar hefur fjölgað í meira magni vegna eggvopna þar sem ungt fólk kemur við sögu sem gerendur. Flokkur fólksins telur mikilvægt að Reykjavíkurborg setji sig í stellingar og leggist yfir stöðuna, viðbrögð, aðgerðir og forvarnir sem lúta að þessari neikvæðu þróun. Verið er að undirbúa breytingu á vopnalögum. Reglur eru þegar vissulega strangar en engu að síður er aukning í að ungt fólk grípi til hnífa með það að markmiði að skaða annan einstakling. Erfitt er að ná utan um skráningu eggvopna. Sá hópur sem hér er lagður til að verði settur á laggirnar mun hafa samvinnu við skóla- og frístundasvið, velferðarsvið og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð og aðra eftir atvikum. Kjarnaspurningin er: Hvernig getur Reykjavíkurborg beitt sér vegna aukins ofbeldis ungmenna þar sem eggvopn koma við sögu?

Greinargerð

Ekkert okkar hefur farið varhluta af fréttum um aukið ofbeldi meðal ungmenna í Reykjavík sem og víðar og fjölgun stunguárása. Reykjavíkurborg þarf að bregðast við. Fara þarf inn í skólana, íþrótta- og tómstundahreyfinguna í borginni og ná til barnanna og foreldra þeirra.

Setja þarf þessa vinnu af stað hið fyrsta, hefja samtalið. Þegar um börn er að ræða eru gerendur jafnframt þolendur. Snertiflöturinn við börn er í gegnum leik- og grunnskólana og íþrótta- og tómstundahreyfinguna. Kalla þarf eftir félagslegri umræðu og skerpa á ábyrgð foreldra, skólasamfélagsins og íþrótta- og tómstundahreyfinga. Allir aðilar þurfa að taka ábyrgð og koma að fræðslu og forvörnum. Stoppa þarf þessa þróun með öllum ráðum og dáð.

Lögregla gaf nýverið út yfirlýsingu þar sem hún lýsti áhyggjum yfir auknum vopnaburði í miðbæ Reykjavíkur. Alvarleg hnífstunguárás átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur 12. ágúst sl. Allir þeir sem áttu aðild að þeirri árás voru undir 20 ára aldri. Á menningarnótt voru endurteknar hnífstunguárásir þar sem börn undir lögaldri voru gerendur. Af fréttaflutningi að dæma eru þetta fyrst og fremst unglingspiltar. Mörg fleiri tilvik hafa verið síðan þá. Aukinn vopnaburður ungmenna og ofbeldisfullar árásir með vopnum færast í vöxt. Orsakir eru bæði flóknar og margslungnar. Sérfræðingar telja að rekja megi þessa þróun m.a. til fíknivanda og uppeldisvanda.

Unglingar ganga með vopn í vaxandi mæli á sér og beita þeim í átökum. Þetta helst í mörgum tilfellum í hendur við fíkniefnanotkun. Aukin fíkniefnanotkun er hins vegar ekki að mælast í niðurstöðum kannanna Rannsókna og greininga. Þvert á móti sýna niðurstöður að íslensk börn hafa verið að koma betur út sl. 22 ár. Þær rannsóknir hafa sýnt að neysla á öllum tegundum vímuefna hafa dregist saman og þau hafa ekki greint aukningu á ofbeldi meðal barna.
Þetta þarf að skoða nánar. Skilaboðin eru misvísandi, annars vegar niðurstöður um aukna vímuefnaneyslu og vopnaburð ungmenna vs. niðurstöður um að íslensk ungmenni komi betur út nú en áður þegar kemur að ofbeldi og vímuefnum. Hver er raunveruleikinn?
Kaup og sala fíkniefna fer að mestu fram á samskiptaforritum netsins. Allt of stór hópur barna er á samfélagsmiðlum sem hafa ekki aldur til þess og eftirlit foreldra með börnum á netmiðlum er afar mismunandi. Því má jafnframt velta upp í hversu miklum mæli vopnasala til barna undir aldri fer einnig fram á netinu.

Hvernig vopn?

Oftast er um að ræða hnífa en einnig, hnúajárn og hamra og jafnvel öxi. Dæmi eru um að ungmenni gangi um með vopn af þessu tagi í skólanum og eftir skóla. Þau eru einfaldlega geymd í skólatöskunni.
Hér er um raunverulegt vandamál að ræða sem við í borginni verður að taka alvarlega. Það líður varla sú vika að ekki berast fréttir af því að einhver er stunginn eða illa barinn með vopni af einhverju tagi í miðbæ Reykjavíkur. Um er að ræða gróf ofbeldisverk. Þetta eru ekki slagsmál heldur hnífstungur og skurðir.
Aukna ofbeldishegðun ungs fólks má einnig sjá í skýrslu Stígamóta fyrir árið 2021. Það vakti athygli hversu margir ofbeldismenn sem leitað hafa til samtakanna hafi verið undir átján ára aldri þegar brotið var framið. Fram kemur í skýrslunni að af þeim 700 brotamönnum, sem upplýsingum var safnað um í fyrra hafi 107 eða 16,7% verið á aldrinum 14 til 17 ára. Þá hafi 66,4% þeirra brotaþola sem leituðu til Stígamóta í fyrra verið yngri en átján ára þegar þau voru fyrst beitt kynferðisofbeldi.

Rafhjól eða vespur notaðar til að flýja fljótt af vettvangi

Annað sem vakið hefur athygli þegar þessi mál eru skoðuð er að ungmenni hafa notað rafhjól eða vespur til að þeysast á milli staða og berja einhvern. Erfitt hefur því reynst að finna suma gerendur. Árásir af þessu tagi hafa átt sér stað víða. Algengt er einnig að fórnarlömb og gerendur þekkist ekki heldur mætist í bænum um helgar fyrir tilviljun.

Myndir teknar og myndbönd

Af mörgum ofbeldisbrotum hafa síðan verið teknar ýmist myndir eða myndbönd sem dreift er út á netið með alvarlegum, langvinnum afleiðingum. Gerendur sem taka upp myndbönd og birta á samfélagsmiðlum geta gert ráð fyrir því myndböndin verði aðgengileg á netinu um ókomna tíð. Þetta er þess vegna ekki einungis harmur þolanda heldur geranda líka því myndbandið um að „þú“ hafir níðst á öðrum einstaklingi verður til um aldur og ævi og fylgir í gegnum lífið. Þetta þarf að ræða við börn og minna á að fullorðinslífið er ekki í öðru lífi heldur bíður handan við hornið. T.d. þegar viðkomandi gerandi fer í atvinnuleit, þegar kemur að makavali o.s.frv. er þessi fortíð meitluð í stein.

Reykjavíkurborg þarf að taka stórt skref og leggja línur, hefja umræðuna og markvissa vinnu. Það er gert með því að setja saman hóp sem leggst yfir fjölbreyttar aðgerðir í samvinnu við skólasamfélagið til að ná til barnanna, foreldra og annarra sem tengjast börnum og ungmennum. Sú neikvæða þróun sem hér er lýst kallar enn frekar á að Reykjavíkurborg hraði innleiðingarferli Barnasáttmálans í Reykjavík.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs.


Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

Flokkur fólksins vill að Reykjavíkurborg gangi rösklega til verks, hefji umræðuna og markvissa vinnu til að sporna við þessari þróun. Þessi tillaga er liður í því að fá upp á borð hugmyndir að fjölbreyttum aðgerðum sem hafa það að markmiði að ná til barnanna, foreldra og annarra sem tengjast börnum í starfi þeirra. Þessi neikvæða þróun kallar enn frekar á að Reykjavíkurborg hraði innleiðingarferli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Öll börn sem beita ofbeldi þurfa hjálp og hlúa þarf að foreldrum þeirra með ráðgjöf og stuðningi. Mál barna og ungmenna sem beita ofbeldi af einbeittum ásetningi er áfall, ekki aðeins fyrir foreldra og fjölskyldu heldur okkur öll. Í svona málum er ekkert einfalt og varast þarf að draga ályktanir eða dæma. Ótal margt kemur vissulega upp í hugann þegar fréttir berast af börnum sem fara út með vopn í hendi til þess eins að skaða, meiða annan einstakling s.s. Hver er áhrifavaldurinn? Hvaða tilfinningar og aðstæður liggja að baki? Flokki fólksins finnst það of mikil einföldun að kenna netinu og samfélagsmiðlum um allt þótt þar megi án efa finna sterkan áhrifavald. Allt of stór hópur barna er á samfélagsmiðlum sem hafa ekki aldur til þess og eftirlit foreldra með börnum á netmiðlum er mismunandi.


Bókun Flokks fólksins undir liðnum Umræða um samræmda móttöku Reykjavíkurborgar á flóttafólki:

Staðan í samræmdri móttöku flóttafólks er alvarleg. Í samningi Reykjavíkurborgar við félags- og vinnumálaráðuneytið er ekki gert ráð fyrir þeim mikla fjölda flóttafólks sem nú sækir um þjónustu. Miðstöðvar borgarinnar eru að kikna undan álagi vegna þessa mikla fjölda. Skortur er á starfsfólki, úrræðum og fjármagni. Það að bjarga mannslífum má ekki vera eins og heit kartafla sem menn kasta á milli sín. Sú staða sem upp er komin kallar á endurskoðun á fjölmörgu. Endurskoða þarf útdeilingu fjármagns. Flokkur fólksins kallar eftir nýrri nálgun þar sem fólk er sett í fyrsta sæti. Reykjavíkurborg þarf að vinna í fjölbreyttum lausnum til að unnt verði að taka vel á móti þeim fjölda barna sem fylgir inn í grunn- og leikskóla borgarinnar. Reykjavíkurborg hefur vissulega gert margt og er með mörg úrræði en það þarf að gera betur. Sennilega mun fjöldi tvítyngdra nemenda í grunnskólum Reykjavíkur fara yfir 3200 á þessu ári. Þessi hópur hefur litlar forsendur til þess að taka þátt í almennu grunnskólastarfi með jafnöldrum sínum án sérstakrar aðlögunar og stuðnings til að ná tökum á íslenskunni. Flokkur fólksins bendir á að nú eru þegar langir biðlistar í íslenskuver borgarinnar og að fjölga þurfi íslenskuverum sem hafa gefið góða raun.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins um styrki til rafíþróttadeilda:

Rafíþróttir virðast ná til ákveðins hóps barna sem ekki eru í öðrum íþróttum. Rafíþróttir virðast líka höfða til barna sem ekki færu í annað tómstundastarf og jafnvel höfða til jaðarsettra hópa. Flokkur fólksins styður að tillögunni verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um aðgerðir til að mæta stöðu heimilislausra:

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram tillögur um að gistiskýlum borgarinnar verði ekki lokað yfir daginn. Viljum við að dagsetur sé opið í borginni ef ekki er hægt að halda neyðarskýlum opnum yfir daginn? Á velferðarráðsfundi 5. október fengu fulltrúar kynningu á stöðu mála hjá gistiskýlum borgarinnar. Samkvæmt nýjustu tölum frá velferðarsviði er staðan mjög erfið. Mikil aukning hefur verið á nýtingu skýlanna. Í gistiskýlinu við Lindargötu hefur nýtingin verið vel yfir 100% frá því í apríl. Öll rúm nýtt ásamt neyðarplássum í sófa og stólum. Staðan hjá gistiskýlinu við Grandagarð er mun verri en þar var nýtingin í ágúst 146%. Staðan í Konukoti hefur líka versnað en þar fór nýtingin í 103% í ágúst. Aðstaðan í Konukoti er mjög slæm hvað varðar húsakost og þarf velferðarsvið sem fyrst að finna annað og hentugra húsnæði undir starfsemi Konukots. Flokkur fólksins hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna skorts á heilbrigðisþjónustu við skjólstæðinga neyðarskýlanna. Þar dvelja oft mjög veikir einstaklingar og eru sumir jafnvel á líknandi meðferð. Ekkert heilbrigðisúrræði er fyrir þennan hóp og þarf að ráða bót á því eins fljótt og auðið er.

 

Bókun Flokks fólksins undir 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. október og 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. október:

Öryggismál borgarinnar hvað varðar gagnaleka eru áhyggjuefni. Flokkur fólksins hefur gagnrýnt niðurlagningu starfs öryggisstjóra sviðsins árið 2020 og telur að með því hafi ekki verið tekið skref til aukins öryggis gagna borgarinnar. Áfram segist sviðið vera í tilraunastarfsemi og sé að þróa öryggismál. Það er orðið brýnt að innri endurskoðun kafi ofan í ýmsa þætti hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði eða að utanaðkomandi aðili verði fenginn til þess að fara yfir öryggismál sviðsins og Reykjavíkurborgar í heild. Liður 13 í fundargerð borgarráðs 13. október; Flokkur fólksins fagnar tillögu um hækkun tekjumarka sérstaks húsnæðisstuðnings. Flokkur fólksins lagði til svipaða tillögu um endurskoðun reglna um sérstakan húsnæðisstuðning í borgarráði 30. júní 2022. Það vakti furðu að þegar Flokkur fólksins lagði til samskonar tillögu var kostnaðurinn metinn á 24-30 m.kr. á ári og metið sem svo að auka þyrfti fjárheimildir. Umsögn velferðarsviðs barst Flokki fólksins 14. september. Það er athyglisvert að nú aðeins fjórum vikum síðar er samskonar aðgerð meirihlutans metin innan fjárheimilda. Þetta er allsérkennilegt en viðhorfsbreytingu meirihlutans er vissulega fagnað.

 

Bókun Flokks fólksins undir 2.  lið fundargerðar stafræns ráðs frá 5. október um vef Reykjavíkurborgar:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir það að nýr vefur Reykjavíkurborgar er einfaldur og fallegur. Einnig er gott að vita að leitarvél vefsins er á pari við erlend einkafyrirtæki en þannig er það vissulega með flesta nýrri vefi hins opinbera sem og einkafyrirtækja hér á landi. Nægir þar að nefna island.is og heilsuvera.is. Í fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins er spurt um almennt notagildi en ekki útlit. Alveg frá því að nýr vefur borgarinnar fór í loftið hefur hann ítrekað vísað á gamla vefinn þegar leitað er eftir fundargerðum og öðrum geymslugögnum. Þar kemur upp gluggi þar sem stendur orðrétt: „Við yfirfærslu fundargerða yfir á nýja vefinn fór ýmislegt úrskeiðis og vantar upp á að fundargerðir séu birtar með réttum hætti. Við biðjumst velvirðingar á þessu, unnið er að lagfæringu en við bendum á að allar eldri fundargerðir eru aðgengilegar á eldri vef.“ Fulltrúi Flokks fólksins hefur í langan tíma einmitt verið að benda á að þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur varið miklum fjármunum í útlit á kostnað bæði innihalds og notagildis þeirra lausna sem beðið hefur verið eftir.