Borgarstjórn 19. október 2021

 

Borgarstjórn Reykjavíkur

19. október 2021
Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins með umræða um fátækt í Reykjavík og mikilvægi nýrrar úttektar á stöðu fátæks fólks

Eitt af aðaláherslumálum Flokks fólksins er að útrýma fátækt. Rannsóknir sýna vaxandi fátækt svo ekki er um að villast. Aðstæður fátækra eru bagalegar og er sá fjöldi manns sem leitar eftir mataraðstoð til hjálparsamtaka lifandi merki þess. Erfitt er fyrir fólk sem berst í bökkum, láglaunafólk, öryrkja með skertar bætur og aðra minnihlutahópa að eiga fyrir mat allan mánuðinn. Fyrir þennan hóp er erfitt að lifa mannsæmandi lífi í Reykjavík. Þeir sem eru á leigumarkaði greiða margir um 70% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og þá er oft ekki mikið eftir til að lifa af.
Nýlega lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að Reykjavíkurborg gerði sérstaka úttekt á fátækt í Reykjavík sambærilega þeirri sem gerð var 2008 en þá skipaði Reykjavík starfshóp um fátækt. Tillögunni var vísað frá með þeim rökum að margar slíkar úttektir hafi verið gerðar og að ekki væri þörf á annarri. Þessu er Flokkur fólksins ekki sammála. Staðan í dag er gjörbreytt eftir að COVID reið yfir og tími COVID er hvergi nærri liðinn.
Í ljósi þessa er mikilvægt að kortleggja þann fjölda sem lifir undir fátæktarmörkum í Reykjavík. Greina þarf þarfir þessa hóps og finna skýringar á af hverju Reykjavíkurborg hefur ekki sinnt þessum hópi betur og lagt sig meira fram um að mæta þörfum þeirra sem minnst hafa milli handanna, lágtekjufólks, öryrkja og einnig hóps eldri borgara.

Öllum er kunnugt um hversu alvarlegar afleiðingar efnahagshrunið 2008 hafði. Afleiðingarnar elta fjölskyldur kynslóða á milli í áratugi. Við höfum lært af þeirri reynslu og helsta lexían er sú að byrja að sporna við áhrifum fátæktar strax og hennar verður vart. Horfa verður á að þessi vandi er raunverulegur og kanna jafnframt hvaða leiðir séu færar til að vinna gegn áhrifum fátæktar og styðja við borgarbúa sem lifa undir fátæktarmörkum. Grípa þarf til úrræða í stað þess að treysta sífellt á hjálparsamtök sem hafa ekki undan að gefa fólki, sem á hvorki til hnífs né skeiðar, mat á diskinn.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins mun fara stuttlega yfir stöðu fátæktar í Reykjavík og umfang hjálparsamtaka sem gefa þúsundum manns að borða hverja viku.

Bókun Flokks fólksins við umræða um fátækt í Reykjavík og mikilvægi nýrrar úttektar á stöðu fátæks fólks:

Eitt af aðaláherslumálum Flokks fólksins er að útrýma fátækt og þess vegna var óskað eftir umræðu um fátækt hér í borgarstjórn. Í Reykjavík leitar nú stækkandi hópur til hjálparsamtaka og félagsþjónustunnar, þetta er breiður hópur. Stærsti hópurinn er á atvinnuleysisbótum eða örorkubótum. Einnig leita ellilífeyrisþegar, láglaunafólk og fólk af erlendum uppruna til hjálparsamtaka. Opinber framfærsla og lægstu laun standa ekki straum af grunnþörfum. Húsnæðiskostnaður er liður sem tekur stóran hluta af ráðstöfunartekjum heimila. Ef allt væri eðlilegt væri starfsemi hjálparsamtaka óþörf, við búum jú í velferðarsamfélagi. Úrræði Reykjavíkur duga ekki til. Dæmi eru um að fólki er bent á hjálparsamtök þótt lög um sveitarfélög kveði á um að velferðarkerfið eigi að grípa þá sem höllum fæti standa. Reykjavíkurborg þarf að endurmeta kerfið allt og hækka upphæðina til framfærslu. Borgin bendir stundum á ríkið. Ríkið greiðir lífeyri til öryrkja en ef tekjur eru undir viðmiði á borgin að taka við. Nýleg rannsókn Vörðu fyrir ÖBÍ 2021 sýndi sláandi niðurstöður. Það er vont til þess að vita að í Reykjavík býr stækkandi hópur barna foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði. Ætti ekki að vera sjálfsagt að þessi börn njóti fyrirgreiðslu innan leikskóla, grunnskóla, skólamáltíða og frístundaheimila?

Bókun Flokks fólksins við framlagningu lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar 2021-2030, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. október sl:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem segir að tekið hafi verið mark á fjölmörgum ábendingum og umsögnum sem og athugasemdum sem bárust í umsagnarferlinu við gerð lýðræðisstefnu. Markmið lýðræðisstefnunnar, sem eru fjögur, að hlusta, rýna, breyta og miðla, eru góð og verður þeim vonandi fylgt eftir með aðgerðaáætlun og mælanlegum markmiðum til þriggja ára. Sérstakt áhersluatriði er lýðræðisleg þátttaka ungmenna sem er afar ánægjulegt. Á ýmsu hefur gengið á kjörtímabilinu fram til þessa þegar kemur að „samráði“ við borgarana. Samráð, gegnsæi og traust er kjarni þess að hægt sé að byggja upp lýðræðislegt samfélag að mati fulltrúa Flokks fólksins. Auk samráðs þar sem aðilar koma saman til að taka grundvallarákvarðanir sem lúta að borgarmálum þarf meira gegnsæi. Einnig telur fulltrúi Flokks fólksins að auka þurfi almennt lýðræði þannig að látið sé t.d. af forræðishyggju gagnvart fullorðnu fólki og ákvörðunum þess um hvernig lífsstíl það velur að að tileinka sér. Hér er átt við málefni eins og hvernig samgöngumáta fólk velur sér og til dæmis hvenær það, sem eldra fólk, ákveður að yfirgefa vinnumarkaðinn. Traust á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar er lítið sem stendur en mun án efa vænkast verði þessari lýðræðisstefnu fylgt af heilindum og ábyrgð.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Það er sérstakt að við skulum vera að glíma við húsnæðisvandamál í höfuðborginni eins og raun ber vitni. Borgarstjóri segir borgina hafa tekið forystu í húsnæðismálum. En ekki hvað? Hver annar hefði átt að taka forystu en framkvæmdastjóri stærsta sveitarfélags landsins? Umræða um húsnæðisskort væri ekki svo hávær nema af því að um er að ræða raunverulegt vandamál. Varla væru seðlabankastjóri, Samtök iðnaðarins og verkalýðsfélög að tjá sig með þessum hætti ef umræða um húsnæðisskort væri bara eitthvað pólitískt upphlaup. Þetta er sannarlega pólitík og eiginlega frekar pólitískur þvermóðskuháttur meirihlutans að vilja ekki horfa raunsætt á þennan vanda. Að byggja sem aldrei fyrr var jú helsta loforð þessa meirihluta þegar hann tók við. Sagt hefur verið að borgarstjóri „skilji þetta bara ekki“ og „sé í afneitun“. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem líkja mætti þéttingarstefnu meirihlutans við spennitreyju. Það komast bara ákveðið margir í þá spennitreyju. Flótti er orðinn úr Reykjavík, fólk í leit að húsnæði, hagkvæmu húsnæði. Það er ekki eins og skorti land í borgarlandinu. Þetta getur varla verið flókið, það vantar íbúðir í Reykjavík, hagkvæmt húsnæði, fyrir ungt fólk, fyrstu kaupendur, láglaunafólk og eldra fólk sem vill minnka við sig. Ef eitthvað er ekki nóg, þarf að gera meira og hraðar.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu, tillaga að aðalskipulagi Reykjavíkur 2040.

Endurskoðun stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og tæknileg uppfærsla aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040 ásamt fylgiskjölum, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. október sl. og 2. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 6. október.

Fyrri umræða fór fram á fundi borgarstjórnar 16. febrúar sl:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi breytingatillögu um að fallið verði frá þessari breytingu er vegna skotæfingasvæðanna á Kjalarnesi.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að samþykkt verði breyting á framlagðri tillögu á aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 á þann hátt að fallið verði frá síðustu breytingum sem gerðar voru á „Álfsnes iðnaðarsvæði 12“, bls. 99, og hverfa aftur að þeim heimildum sem fram komu við fyrri umræðu um tillögurnar.

Breytingatillagan er felld með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, endurskoðun stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og tæknileg uppfærsla aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

Skortur er á húsnæðismarkaði. Eignir hækka í verði því barist um hverja eign. Fasteignaverð er í neysluvísitölu svo þetta hækkar verðbólgu. Stýrivextir eru að hækka vegna skipulagsmála í Reykjavík. Afleiðingar fyrir sveitarfélagið eru alvarlegar. Húsnæðisverð og hækkun á því leiðir út í verðlag, vextir hækka í kjölfarið. Umsóknarferli um byggingarleyfi er enn alltof flókið og langt.

Erindi Íbúasamtaka Kjalarness, dags. 15. október 2021,
vegna skotæfingasvæðanna á Kjalarnesi.
Í aðalskipulaginu er alvarlegt að sjá að búið er að bæta við Álfsnes, iðnaðarsvæði 12, skilgreiningu svæðisins, sbr. bls. 99 í gögnum. Þetta er grundvallarbreyting á aðalskipulagi Álfsness sem fer fram án auglýsingar og fór því hvorki fram kynning á breytingunni né umhverfismat. Svæðið sem um er rætt hefur verið mjög umdeilt að minnsta kosti sl. 16 ár og því er óskiljanlegt að „lauma“ því nú inn í aðalskipulagið. Krafist er að þessi breyting fari í venjulegt ferli sem tilheyrir breytingu/nýtt aðalskipulag. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram eftirfarandi breytingatillögu: Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að samþykkt verði breyting á framlagðri tillögu á aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 á þann hátt að fallið verði frá síðustu breytingum sem gerðar voru á „Álfsnes iðnaðarsvæði 12“, bls. 99, og hverfa aftur að þeim heimildum sem fram komu við fyrri umræðu um tillögurnar. Tillagan var felld með öllum atkvæðum gegn atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um fjárhagsstöðu Strætó bs:

Fulltrúi Flokks fólksins veit til þess að mikið hefur gengið á hjá Strætó bs. í mörg ár. Nú er gríðarlegur taprekstur. Illa gekk fyrir tíma COVID og ekki bætti veirufaraldurinn úr skák. Það sem er ekki síður alvarlegt er að fólk hefur stigið fram og kvartað yfir neikvæðum samskiptum sem mætt hefur í einhverjum tilfellum sofandahætti eftir því sem fullyrt er. Fengið var sálfræðifyrirtæki til að greina málin og leiddi könnun til staðfestingar á einelti í einhverjum tilfellum. Veitt var ráðgjöf með tilheyrandi kostnaði sem ekki bar  tilætlaðan árangur. Enn eru mál erfið eftir því sem heyrist. Þótt Strætó sé bs.-fyrirtæki er það ekki yfir gagnrýni hafið af hálfu borgarfulltrúa sem hafa sína ábyrgð og skyldur. Flokkur fólksins telur að í ljósi rekstarvanda og ekki síður samskiptavanda þyrfti að gera stjórnsýsluúttekt á Strætó bs., þar sem farið yrði yfir ferla og vinnulag síðustu fimm ára. Skoða þarf stjórnsýslu og vinnubrögð stjórnenda og leggja mat á hvort vinnubrögð og ferlar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja fram þessa tillögu við fyrsta tækifæri.

 

Bókun Flokks fólksins við Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. október:

Laugardalur – austurhluti – deiliskipulag, það þarf að gera allt til að ná sátt um þetta viðkvæma mál við íbúa hverfisins. Á staðnum er mikilvægt að hafa umsjón allan sólarhringinn, einstaklingur og fagteymi sem er tilbúið að stíga inn og aðstoða eftir þörfum. Hér er mikilvægt að velferðarsvið bregðist ekki skyldum sínum, ella er hætta á að þetta úrræði sem búið er að leggja mikið í mistakist. 7. liður; breytingar á reglum um leikskólaþjónustu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins mótmælir styttingu á opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar og tekur þar með undir með foreldrafélaginu. Einnig er mótmælt takmörkun á leyfilegum heildarvistunartíma í 42,5 klst. Sumar fjölskyldur þurfa meiri vistunartíma en þetta. Breytingarnar munu auka álag á fjölskyldur í borginni. Stytting opnunartíma leikskóla og skerðing á þjónustu sem lögð er til mun hafa neikvæð áhrif á fjölmargar fjölskyldur sem hafa minnst bakland og þurfa mest á leikskólavist að halda. Skert þjónusta leikskóla eykur ekki endilega gæðasamverustundir foreldra og barna heldur getur aukið álag á fjölskyldur og minnkað gæðastundirnar í fjölskyldunni. Þessi breyting mun minnka þjónustu í nærumhverfi íbúa og leiða til meiri aksturs í andstöðu við markmið borgarinnar í umhverfismálum. Niðurstöður jafnréttismatsins sýna líka ótvírætt að stytting opnunartíma hefur meiri áhrif á mæður en feður.

 

Bókun Flokks fólksins við undir 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs og 17. lið fundargerð velferðarráðs frá 6. október:

Svar við áhyggjum um framtíð skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi. Í svari kemur fram að starfshópur er að rýna í stöðuna með tilliti til úrbóta í húsnæðismálum grunnskóla- og frístundastarfs. Starfshópurinn skilaði tillögum af sér síðastliðið vor en ekki hefur frést meira. Fulltrúa Flokks fólksins og fleiri er farið að lengja eftir þarfagreiningu og að sviðsmyndir sjáist. Tíminn líður og nemendum fjölgar hratt í hverfinu. Fundargerð velferðarráðs frá 6. október, liður 17: Fulltrúi Flokks fólksins var með fyrirspurn um hvort ekki mætti vera meiri fjölbreytni í kvöldmat eldri borgara í einni af þjónustuíbúðum aldraðra í Reykjavík. Í öll mál eru súpur og grautar. Hugsa mætti sér margt annað í kvöldmat, jafnvel léttan kvöldmat. Segir í svari að greiddar séu 390 kr. fyrir kvöldverð og sé tekið mið af þeirri upphæð þegar valið er á matseðilinn. Fulltrúi Flokks fólksins telur að annað eins sé niðurgreitt í borginni og mætti vel niðurgreiða þetta meira, öðru eins er nú eytt í vitleysu í borgarkerfinu. Þessi aldurshópur þarf einmitt á hollum og staðgóðum mat að halda í öll mál. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þetta verði endurskoðað með tilliti til gæða og fjölbreytni.