Bókun Flokks fólksins við kynningu á nýjum reglum um stuðningsþjónustu og nýjum reglum stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk. Lögð fram drög að reglum um stuðningsþjónustu, ásamt minnisblaði sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2021um reglur Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu.
Stoð og stuðningsþjónusta er annars vegar praktísk og hins vegar sálfélagslegur stuðningur. Tillaga frá fulltrúa Flokks fólksins um að koma á laggirnar sálfélagslegu meðferðarúrræði fyrir eldri borgara á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum til að draga úr óþarfa notkun geðlyfja var vísað til velferðarráðs með öllum greiddum atkvæðum á fundi borgarstjórnar 2.2. Eins og vitað er þá er oft gripið til geðlyfja þegar ekki býðst sálfélagslegt úrræði. Efla á viðkomandi til sjálfshjálpar en ávallt þarf að bera virðingu fyrir hvað viðkomandi treystir sér til að gera. Aðstoðin sem þjónustuþeginn þarf og vill á að koma auðveldlega til þjónustuþegans. Ef að búa heima á að vera alvöru kostur þarf að bæta ýmsum þáttum við og hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt fram tillögur um hvaða þættir það eru s.s. að hengja upp þvott og fara út með sorp. Þjónusta þarf einnig að vera um helgar og á rauðum dögum ef þess er þörf en dæmi er um að miklir erfiðleikar hafa verið að fá t.d. aðstoð við böðun lendi þjónustan á rauðum degi. Barnafjölskyldur fá nú aðstoð vegna umönnunar barna. Hér er verið að einfalda þjónustuna og gera hana heildstæðari og er það ánægjuleg breyting.
Bókun Flokks fólksins við drög að reglum um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk, ásamt minnisblaði sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2021, um reglur Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir:
Það eru klárlegar framfarir í þessum reglum, breytt hugsun, víðara sjónarhorn. Horfið verður frá því að meta stuðningsþörf á grundvelli stiga og er það jákvætt. Fulltrúi Flokks fólksins vill þó nefna að í 6. gr. er fjallað um mat á þjónustuþörf. Í b) lið segir að matið sé m.a. byggt á styrkleika og stuðningi frá fjölskyldu. Fara þarf varlega þegar meta á styrkleika og gæta þess að ofmeta ekki styrkleika fjölskyldu fatlaðra einstaklinga. Mikið álagt er oft á fjölskyldum fatlaðra einstaklinga. Í mörgum tilfellum lendir of mikið á fjölskyldumeðlimum að annast og aðstoða fatlaða einstaklinginn. Þetta hefur þau áhrif stundum að einstaklingar upplifa að þeir séu að leggja of þungar byrðar á fjölskyldumeðlimi og að þeir séu ekki að geta lifað sjálfstæðu lífi. Ef of mikið er lagt á fjölskyldumeðlimi getur það ýtt undir togstreitu og afleiðingin er oft hjálparleysi og vanlíðan, bæði hjá einstaklingnum sem þarf á þjónustu og stuðningi að halda sem og fjölskyldumeðlimum. Enda þótt NPA og reglur um NPA sé ekki hluti af þessum reglum þá eru engu að síður margir fatlaðir sem hafa fyrst og síðast áhyggjur af NPA samningum og samkomulag um þá. Best væri ef velferðarráð gæti skoðað þær reglur samhliða til að sjá heildarmyndina.
Bókun Flokks fólksins við kynningu á úttektir á heimsendum mat á vegum velferðarsviðs:
Fulltrúi öldungaráðs lagði til að óháður aðili gerði umrædda úttekt en þess í stað ákvað velferðarráð að endurtaka notandakönnun frá árinu 2014, könnun og spurningar sem lagðar voru fyrir notendur fyrir 8 árum Einhverjum spurningum var bætt við. Hringt var í 168 notendur sem skilaði sér í 47% svarhlutfalli. Spurningalistinn var sendur rafrænt á 93 notendur sem skilaði sér í 25% hlutfalli. Þetta sýnir ljóst að þessi hópur notar símann meira en rafrænar lausnir (tölvu og net). Tímasetning útkeyrslu hentar ekki 10% Spurning er hvort hægt er að mæta þessum hópi með því að finna annan tíma? Um verð matarins eru rúm fjörutíu prósent sem svara ekki, (hvorki né). Það er mikilvægt að finna út af hverju svo margir taka ekki afstöðu. Eina sem fólk er sammála um í þessari könnun er að stærð skammta eru mátulegir. Um helmingur finnst maturinn „oftast“ hollur. Af niðurstöðum að dæma þarf að taka þetta kerfi til einhverrar endurskoðunar og ekki linna látum fyrr en um 99% eru ánægðir með alla þætti þjónustunnar. Um 19% finnst maturinn alltaf girnilegur og um 24% finnst hann mjög fjölbreyttur. Kallað er eftir meira hráu grænmeti og ávöxtum. Vonandi verður brugðist jákvætt við því.
Bókun Flokks fólksins við kynningu á drögum að velferðarstefnu. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2021, um mótunarferli velferðarstefnu:
Það er að mörgu að hyggja þegar horft er til velferðarstefnu. Taka þarf á öllum þáttum velferðar. Tekið er skref í átt að meira notendasamráði en samt eru fulltrúar hagsmunaaðila ekki hafðir með á fyrstu stigum. Hagsmunaaðilar fá kynningu á drögum og veita umsagnir en oft er búið að draga megin línurnar á þeim tímapunkti. Það sem einnig þarf að bæta eru viðbrögð við erindum fólks, svörun í síma, svörun skeyta og stytting biðtíma eftir viðtali. Upplýsingaflæði þarf að bæta, að fólk fái upplýsingar um réttindi sín en þurfi ekki að frétta af þeim fyrir tilviljun. Þjónustuþegar eiga að geta fylgst með ferli máls síns, sjá hvar það er statt, á hvaða stigi það er. Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um þjónustumiðstöðvar og mikilvægi þess að endurskoða hlutverk þeirra með reglulegu millibili og samspil þeirra við aðrar borgarstofnanir eins og skólana. Ef horft er til barnanna má minnast á skólasálfræðingana sem hafa aðsetur á þjónustumiðstöðvum í stað þess að vera þar sem þeir sinna sínum störfum, í skólunum. Fulltrúi Flokks fólksins telur þetta fyrirkomulag ekki nægjanlega skilvirkt og tefji fyrir vinnslu mála sem fjölga með hverjum degi.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að borgaryfirvöld grípi strax til aðgerða sem miða að því að finna öruggt húsnæði fyrir þann hóp fólks sem býr í ósamþykktu íbúðarhúsnæði
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgaryfirvöld grípi strax til aðgerða sem miða að því að finna öruggt húsnæði fyrir þann hóp fólks sem býr í ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Talið er að allt að 7000 manns búi í ósamþykktu húsnæði í borginni. Í sumum tilfellum er aðbúnaður ekki í samræmi við öryggiskröfur sem getur skapað íbúum mikla hættu.
Það hefur ávallt tíðkast að hluti borgarbúa eigi heimili í húsnæði sem ekki hentar til íbúðar og er ekki samþykkt sem slíkt. Heimilisfesta í ósamþykktu íbúðarhúsnæði jókst verulega eftir hrun, þegar fjöldi fólks misstu vinnu og heimili. Góðærið varð til þess að sumir fundu betri aðstæður en í stað þeirra komu aðrir.
Vegna mikillar eftirspurnar eftir ódýru vinnuafli við ferðaþjónustu fluttu hér til landsins fjöldi fólks og hóf búsetu í ósamþykktum íbúðum. Ætla má að stór hópur þessa fólks sé nú atvinnulaus vegna áhrifa faraldursins og eigi því ekki annara kosta völ en að dvelja áfram í óöruggu húsnæði. Um 900 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Flestir búa í óleyfishúsnæði vegna þess að þeir hafa ekki efni á að koma yfir sig betra og öruggara skjóli. Mikið af þessu fólki er fjölskyldufólk.
Greinargerð
Því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku og efnalitlu fólki, aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði þar sem brunavörnum er oft ábótavant. Vandinn er meiri nú eftir að atvinnuleysi hefur aukist vegna COVID-19. Ástæður sem leiða til þess að fólk neyðist til að leita sér skjóls í óleyfishúsnæði er skortur á hagkvæmu leiguhúsnæði og fátækt. Hér er m.a. um að ræða húsnæði sem er skipulegt undir atvinnustarfsemi en nýtt til íbúðar fyrir einstaklinga. Einnig séu dæmi um að starfsmannaleigur og atvinnurekendur komi starfsmönnum sínum fyrir í óleyfisbúsetu.
Frestað.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs þann 16. september 2020 um markmið og aðgerðir í aðgengisstefnu:
Það er verið að setja aðgengisstefnu, loksins, en það er enginn fulltrúi frá hagsmunasamtökum í stýrihópnum. Það þarf að taka leyfismálin fastari tökum. Það er auðvitað óásættanlegt að undanþágur hafa ekki verið skráðar og því er erfitt að sannreyna og rekja þessar staðhæfingar. Vetrarþjónustan hefur svo sem aldrei miðast við að halda leiðum greiðum fyrir fatlað fólk að t.d. stoppistöðvum. Það eru alltaf ruðningar fyrir. Gönguleiðir eru tepptar í borgarlandinu og ekkert gert í málunum. Spurt var um merkingar fyrir bílastæði hreyfihamlaðra. Skipulagsyfirvöld hafa borið fyrir sig að slík umferðarskilti séu ekki til en það er, að mati Flokks fólksins aðeins fyrirsláttur. Enn liggur ekki fyrir um hvenær og með hvaða hætti merkingar og upplýsingar um þessi réttindi verði sett upp og fram. Fulltrúi Flokks fólksins vill hér með ýta við því máli og óskað er eftir að gengið verði í það hið fyrsta. Ef eitthvað er að í skipulagi og skapar hættur eða óþægindi fyrir vegfarendur þarf að laga það. Með fyrirspurnum Flokks fólksins er verið að spyrja um og benda á hluti sem þarf að laga. Í svari er sagt hvernig hlutirnir eru og vitnað í reglur en ekki hvenær á að laga og bæta.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Aðgengisstefnan er unnin í nánu samráði við aðgengis- og samráðsnefnd fatlaðs fólks þar sem hagsmunasamtök eiga fulltrúa.