Borgarráð 10. janúar 2021

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarstjóra, dags. 11. janúar 2021 um stofnun Aðgengissjóðs Reykjavíkur:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst það hið besta mál að Reykjavíkurborg sé með framlag í stofnun aðgengissjóðs. Víða er pottur brotinn í þessum efnum í borginni. Hins vegar finnst fulltrúa Flokks fólksins ekki vera mikið samræmi í ákvörðunum meirihlutans sem lúta að því auka og bæta aðgengi hreyfihamlaðra í borginni. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 13. janúar var tillögu Flokks fólksins um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum þeirra sem notast við hjólastóla og göngugrindur felld. Slík úttekt er nauðsynleg og myndi nýtast öllum. Reykjavíkurborg hefur ekki staðið sig vel í þessum efnum. Nærtækast er að horfa til almenningssamgangna. Á flestum biðstöðvum strætó er aðgengi og yfirborð ófært fólki í hjólastólum. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir meiri samkvæmni hjá meirihlutanum í þessum málum. Borgaryfirvöld þurfa að vinna þéttar með fyrirtækjum og verslunum til að bæta aðgengi fyrir hreyfihamlaða.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 11. janúar 2021, þar sem erindisbréf starfshóps um hröð orkuskipti Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar er sent borgarráði til kynningar:

Lögð eru fram erindisbréf starfshóps um Evrópusamstarf um kolefnishlutlausa og snjalla Reykjavík 2030, starfshóps um græn innkaup, starfshóps um hringrásarhagkerfið í Reykjavík og starfshóps um hröð orkuskipti Reykjavíkurborgar. Í öllum þessum erindisbréfum kemur fram að hóparnir megi kaupa ráðgjöf. Það vekur upp spurningar hjá fulltrúa Flokks fólksins þegar strax í upphafi, í erindisbréfum, sé það talið mikilvægt að nefna að heimilt sé að kaupa utanaðkomandi ráðgjöf. Sporin hræða og hér vill fulltrúi Flokks fólksins minna á að það þarf að sýna aðhald. Verið er að sýsla með fé borgarbúa. Ráðgjöf utanaðkomandi verktaka t.d. við endurbyggingu braggans kostaði mikið en skilaði litlu. Um slíkt eru fjölmörg dæmi hjá þessum meirihluta. Hér er almennt verið að vinna tímabær verkefni, og ekki er amast við því, en það vekur spurningar hvers vegna strax í upphafi þarf að nefna það að kaupa megi utanaðkomandi ráðgjöf. Er ekki hægt að byggja upp þekkingu á svona mikilvægum málaflokknum innan borgarkerfisins?

 

Bókun Flokks fóksins við skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, ódags., um eldsvoða að Bræðraborgarstíg 1.

Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg 1 var mikill harmleikur sem nauðsynlegt er að draga lærdóm af og gera nauðsynlegar breytingar í stjórnkerfinu til að hægt sé að fyrirbyggja að svona gerist aftur og til að stjórnvöld og embættismenn geti gripið inn sé grunur um að öryggi sé ábótavant. Fulltrúi Flokks fólksins telur, í ljósi skýrslunnar, að mikilvægt sé að borgin afli frekari heimilda til inngripa ef ábendingar hafa borist eða rökstuddur grunur liggur fyrir að brunavörnum sé ábótavant. Þar með talið er nauðsynlegt að byggingarfulltrúi, sem hefur sérþekkingu og skriflegar upplýsingar um aðstæður, fái heimild til að fara inn í hús og sannreyna upplýsingar sem lúta að öryggismálum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til áður að borgaryfirvöld eigi frumkvæði að því að fá ríkari heimildir, þar með talið til að gera átak gegn hættulegu húsnæði með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið verði eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Tillagan var felld með þeim rökum að borgina skorti lagaheimildir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt hvort meirihlutinn hyggist þá ekki eiga frumkvæði að því að fá auknar lagaheimildir. Ekki hafa fengist nákvæm svör við því enn.

Bókun Flokks fóksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 11. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um innleiðingu á stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um hvernig innleiðing eineltisstefnu og verklags, samþykkt 2019 hefur gengið, afrakstur stýrihóps sem fulltrúi Flokks fólksins leiddi. Sjá má á svari að innleiðing er í gangi en hefur gengið hægt. Til stóð að búa til myndband til kynningar en ekki fékkst til þess fjármagn. Fram kemur að verkefnið er strandað hjá starfshópi um fræðslu og starfsþróun m.a. vegna þess að í mars 2020 komu ábendingar frá Vinnueftirliti um að uppfæra þyrfti verkferilinn með breytingum sem lúta að „óformlegri meðhöndlun máls“. Má skilja þetta svo að Vinnueftirlitið hafi viljað hafa hinn óformlega verkferil aðskilinn frá hinum formlega og ef svo er hverjar eru ástæður þess? Þetta er fremur óskýrt að mati fulltrúa Flokks fólksins en til glöggvunar fyrir lesendur, þá er óformlegur verkferill sem dæmi þegar þolandi velur að ræða við meintan geranda milliliðalaust; þegar þolandi leitar óformlegra ráða hjá yfirmanni, trúnaðarmanni, mannauðsþjónustu eða fulltrúa eineltis- og áreitniteymis eða þegar hlutverk stjórnanda/mannauðsráðgjafa/fulltrúa eineltis- og áreitniteymis kannar hvort hægt sé að miðla málum án þess að málið fari í formlegt feril. Út af stendur þegar svarið er lesið að innleiðing nýrrar stefnu og verklags gengur hægt og hefur mætt ýmsum hindrunum.

 

Bókun Flokks fóksins við svari mannauðs- og starfsumhverfisssviðs, dags. 11. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um jólagjöf Reykjavíkurborgar til starfsmanna 2018 og 2019 og nýtingarhlutfall, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. nóvember 2020.

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að vita um nýtingarhlutfall á gjafamiða í Borgarleikhúsið sem var jólagjöf frá borginni 2019. Nýting 2019 var 70%. Segir að ánægja hafi ríkt með jólagjöfina. Eðlilegt er að ánægja sé með gjöfina meðal starfsfólks. Þetta er jólagjöf. En einmitt þess vegna hefði fulltrúi Flokks fólksins haldið að nýting hefði verið meiri. Heil 30% nýttu ekki gjöfina þrátt fyrir mikla ánægju með hana.

 

Bókun Flokks fóksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 11. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um jólagjöf Reykjavíkurborgar til starfsmanna 2018 og 2019 og Tjarnarbíó:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um jólagjöf Reykjavíkurborgar til starfsmanna 2018 og 2019 og Tjarnarbíó. Jólagjöfin til starfsmanna borgarinnar síðustu ár hefur verið gjafabréf í Borgarleikhúsið einungis. Nýting 2019 var 70%. Þessi tvö leikhús, Borgarleikhúsið og Tjarnarbíó eru bæði styrkt af borginni. Segir í svari að það sé flókin framkvæmd að bjóða upp á val á milli Borgarleikhúss og Tjarnarbíós þar sem um er að ræða tvo mismunandi rekstraraðila. Það finnst fulltrúa Flokks fólksins frekar ótrúlegt. Minnsta mál hefði verið að bjóða upp á val og myndu aðilar síðan senda reikning til borgarinnar. Tjarnarbíó er gamalt og rótgróið menningarhús með fjölbreyttar leiksýningar við allra hæfi eins og Borgarleikhúsið þannig að engin ástæða er til að gera upp á milli þessara tveggja staða.

Bókun Flokks fóksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 11. janúar 2021, við fyrirspurn um áætlaðan kostnað borgarinnar við styttingu vinnuvikunnar árið 2021, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. nóvember 2020.

Stytting vinnuvikunnar er frábær kjarabót og því mikilvægt að afleiðan verði ekki neikvæð og að fólk finni sig undir allt of miklu álagi þá tíma sem það er í vinnunni. Forsenda Reykjavíkurborgar á styttingu vinnuviku hjá dagvinnufólki erað breyting á skipulagi vinnutíma megi ekki leiða til breytinga á launum starfsfólks eða launakostnaði starfsstaða þrátt fyrir að opnunartími verði óbreyttur.Það er sérkennilegt að fullnægjandi fjármagn skuli ekki fylgja styttingu vinnuvikunnar þar sem að með styttingunni eykst álag á starfsfólk vegna undirmönnunar sem stytting vinnuviku leiðir til. Þetta er í andstöðu við boðun meirihlutans sem er að halda vel utan um starfsfólk. Þar sem engin viðbót verður á starfsfólki og starfsemin ekki styrkt með aukamönnun þarf hver og einn að hlaupa hraðar til að fá að fara einu sinni í viku fyrr heim. Góð þjónusta við börn byggir m.a. á að fjöldi stöðugilda sé í samræmi við fjölda barna og kröfur sem starfsemin gerir til starfsfólksins. Að óbreyttu mun stytting vinnuskyldu vaktavinnufólks, úr 40 í 36 virkar stundir, hafa veruleg áhrif á starfsemi margra starfsstaða og svokallað mönnunargat myndast. Til að bregðast við því á kostnaður vegna yfirvinnu að lækka og mæta á mönnunargatinu á dagvinnutíma samkvæmt svari sem lagt er hér fram.

 

Bókun Flokks fólksins við við svari fyrirspurna Flokks fólksins er varðar lausra/tómar íbúður Félagsbústaða:

Spurt var um: Hversu margar íbúðir losnuðu hjá Félagsbúðstöðum á þessu og síðasta ári, ástæður þess að þær losna, hve margar íbúðir voru lausar í september 2020 og hvað hafa þær verið lausar lengi. Einnig var spurt um hvenær fara íbúðir sem eru lausar núna í útleigu og hversu langur tími líður frá því að íbúð losnar og þar til að hún er leigð út aftur. Að lokum var spurt af hverju standa íbúðir Félagsbústaða lausar svo mánuðum skiptir. Það sem er sérstakt í svörum er að mun fleirum íbúðum var skilað 2020 en 2019. Ástæður eru margar og eru þær svipaðar milli ára utan einnar, „flutningur á hjúkrunarheimili“, sem var 20% 2019 en 11% 2020. Ekki eru frekari skýringar birtar um þetta atriði. Í janúar eru 61 íbúð laus og þar af eru 41 í standsetningu. Segir í svari að stefnan er að ekki meira en einn mánuður líði frá standsetningu og þar til hún er leigð út. Fulltrúi Flokks fólksins vill að það komi fram hér að þetta svar samræmist ekki því sem ítrekað hefur verið tekið eftir og það er að íbúðir standa stundum lausar í heilt ár. Á þessu vantar skýringar.

 

Bókun Flokks fóksins við við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 13. janúar 2021. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13.-17. lið:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst kærur allt of margar sem berast umhverfis- og skipulagssviði og mikilvægt að skoða hvað veldur. Kvartað er yfir að verið sé að breyta gildandi skipulagi eftir á, t.d. minnka bil á milli húsa og byggja ofan á hús sem ekki stóð til að yrðu hærri og þar með skerða útsýni frá næstu húsum. Við skoðun á sumum kærum í gegnum tíðina finnst fulltrúa Flokks fólksins eins og komið hafi verið aftan að fólki í sumum þessara mála. Nefna má dæmi úr Úlfarsárdal sem er nýlegt hverfi. Þar hefur fjöldi manns fjárfest og ekki rennt í grun að eiga eftir að upplifa það að skipulagi muni verða breytt eftir á.  Í sakleysi sínu flytur fólk inn og því verið sagt að ef byggt verði við hliðina á eða fyrir framan þá verði hús ekki hærra en X. En það næsta sem skeður er að hús er byggt sem er hærra en ákveðið hafði verið í skipulagi. Einnig eru kvartanir vegna synjana án sýnilegra raka t.d. stækkun glugga, framkvæmd sem engin hefur mótmælt og hefur ekki áhrif á umhverfið. Einnig kvartanir vegna synjana á framkvæmd sem fordæmi eru fyrir í götunni.

 

Bókun Flokks fóksins við fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 12. og 20. nóvember og 8., 16. og 30. desember 2020. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið:

Fundargerðir SORPU eru nú aðeins ítarlegri en áður var. Loksins hefur eitthvað verið hlustað, en fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bókað um rýrar fundargerðir SORPU. Það er miður hvað mikið þarf til, til að farið er að lagfæra það sem betur má fara. Er það ekki umhugsunarefni fyrir stjórn SORPU?

Bókun Flokks fólksins við lið 3 í yfirliti um embættisafgreiðslur:

Erindi Vegagerðarinnar um Arnarnesveg er ákveðið áfall. Það er miður að sjá að fara eigi í verkútboð áður en heildarmynd þessa verks er skoðuð og áhrifin sem framkvæmdin mun hafa. Vegagerðin biður um framkvæmdaleyfi. Um leið og framkvæmdir eru hafnar er ekki aftur snúið. Margsinnis hefur verið beðið um nýtt umhverfismat á Vatnsendahvarfinu. Án þess að niðurstaða fáist í það, á engu að síður að byrja á verkinu. Í aðalskipulagi er stefna um einstök gatnamót eða nýjar samgönguframkvæmdir oft sett fram með fyrirvara um niðurstöðu umhverfismats (og þá frumhönnunar mannvirkja). Eftir því sem næst er komist gæti það átt við um þessi gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar. Þ.e. ef niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að fara þurfi fram nýtt umhverfismat, þýðir það að setja þarf fram skýran fyrirvara við umrædda hönnun vegarins (þ.e. ef nýtt umhverfismat getur leitt í ljós aðra útfærslu og þá leitt til nýrrar breytingar á aðalskipulaginu). Ef hins vegar það verður niðurstaðan að ekki þurfi nýtt umhverfismat, er hægt að setja fram umrædda tillögu  um gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar án fyrirvara, skv. upplýsingum sem fulltrúi Flokks fólksins hefur aflað. Í bréfi Vegagerðarinnar er ekki minnst á neina fyrirvara, greinilega í trausti þess að eldra umhverfismatið gildi.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu til að gerð verði könnun á hvort og þá hvaða áhrif stytting vinnuvikunnar hefur á börnin, starfsmenn og starfið í leikskólum:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerð verði könnun á hvort og þá hvaða áhrif stytting vinnuvikunnar hefur á börnin, starfsmenn og starfið í leikskólum. Þetta er lagt til í ljósi þess að forsenda Reykjavíkurborgar á styttingu vinnuviku hjá dagvinnufólki er að breyting á skipulagi vinnutíma megi ekki leiða til breytinga á launum starfsfólks eða launakostnaði starfsstaða þrátt fyrir að opnunartími verður óbreyttur. Það er sérkennilegt að fullnægjandi fjármagn skuli ekki fylgja styttingu vinnuvikunnar þar sem að með styttingunni eykst álag á starfsfólk vegna undirmönnunar sem stytting vinnuviku leiðir til. Þetta er í andstöðu við boðun meirihlutans sem er að halda vel utan um starfsfólk. Þar sem engin viðbót verður á starfsfólki og starfsemin ekki styrkt með aukamönnum þarf hver og einn að hlaupa hraðar til að fá að fara einu sinni í viku fyrr heim. Góð þjónusta við börn byggir m.a. á að fjöldi stöðugilda sé í samræmi við fjölda barna og kröfur sem starfsemin gerir til starfsfólksins. Álag á starfsfólk kemur niður á því sjálfu, börnunum og utanumhaldi starfseminnar. Stytting vinnuvikunnar er frábær kjarabót og því mikilvægt að afleiðan verði ekki neikvæð og að fólk finni sig undir allt of miklu álagi þá tíma sem það er í vinnunni.

Greinargerð

Til að tryggja trúverðugleika er mikilvægt að könnun sem þessi verði gerð af óháðum aðilum. Meta þarf áhrif styttingar vinnuvikunnar (bæði kosti og galla) á börnin, starfsmenn og starfið á hlutlausan og faglegan hátt.
Þeir sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hafa lýst ánægju sinni með verkefnið. Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði þessu verkefni og batt ávallt vonir við að það myndi verða til framtíðar. Engar upplýsingar hafa þó borist um að styttingin hafi haft einhver áhrif á faglegt starf, öryggi og gæði og því ber að fagna. Eðli málsins samkvæmt leiðir stytting vinnuviku til þess að fleiri börn eru á starfsmann sem þýðir minni tími er til að sinna hverju barni fyrir sig og þá sérstaklega þeim börnum sem höllum fæti standa.  Vel kann að vera að þetta jafnist út, að einhverjir  foreldrar sæki einfaldlega börnin sín fyrr t.d. þeir sem vinna sjálfir “styttri vinnuviku”. En það eru margir foreldrar sem eru ekki með styttingu vinnuvikunnar og ef svo er þá er útfærslan oft ólík milli stétta. Því er ekki hægt að stóla á að slík aðlögun/jöfnun verði. Í ljósi alls ofangreinds leggur fulltrúi Flokks fólksins til að skoðað verði með markvissum hætti hvaða áhrif þessi breyting hefur á starfsfólk, starfið og börnin.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að stofnuð verði útgáfa af byggðasamlögum um félagslega þætti, svo sem félagslegar íbúðir og menningarstarfsemi, menningarhátíðir, tónlistarhús og leikhússtarfsemi:

Tillaga Flokks fólksins að stofnuð verði útgáfa af byggðasamlögum um félagslega þætti, svo sem félagslegar íbúðir og menningarstarfsemi, menningarhátíðir, tónlistarhús og leikhússtarfsemi. Í ljósi þess hversu meirihlutinn í borgarstjórn er hrifinn af bs. stjórnkerfi, þ.e. byggðasamlögum, leggur Flokkur fólksins til að slíkt kerfi verði allt eins nýtt í kringum félagslegt kerfi eins og félagslegar íbúðir og menningarþætti enda fer fólk gjarnan milli sveitarfélaga til að þiggja þjónustu á þessum sviðum. Bs.-kerfi sem nú eru við lýði hafa virkað illa sem stjórnkerfi við sum stór og kostnaðarsöm verkefni eins sorpúrvinnslu og almenningssamgöngur. Ástæðan er sú að hlutur Reykjavíkur er rýr í stjórnun en ríkur í fjárhagslegri ábyrgð. En skoða mætti að nota slíkt stjórnkerfi til að jafna kostnaðarhlutdeild allra íbúa höfuðborgarsvæðisins við önnur verkefni s.s. menningarverkefni og þess háttar. Reykjavík hefur upp á margt að bjóða sem nágrannasveitarfélög hafa ekki sinnt í sama mæli en geta nýtt að vild án þess að taka nokkra ábyrgð á rekstri. R21010172

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skoðað verði að gera breytingar á niðurgreiðslum vegna þjónustu við dagforeldra.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði að gera breytingar á niðurgreiðslum vegna þjónustu við dagforeldra. Í nágrannasveitarfélögum er fyrirkomulagið í þessum efnum bæði betra og sanngjarnara,  þá helst gagnvart einstæðum foreldrum, láglaunafólki og þeim sem mælast undir viðmiði velferðarráðuneytis, einstæðir eður ei. Lagt er til að foreldrar eða forráðamenn barna geti sótt um viðbótarniðurgreiðslu af almennu vistunargjaldi í samræmi við tekjuviðmið sem Reykjavík setur. Niðurgreiðslur gætu annars vegar verið 20% af almennu gjaldi og hins vegar 40%. Í tillögunni felst að til að öðlast rétt til viðbótarniðurgreiðslu sé horft til tekna foreldra, bæði einstaklinga og foreldra í sambúð, sem grundvallast á staðfestu staðgreiðsluyfirliti frá Ríkisskattstjóra síðustu þriggja mánaða. Tekjuviðmið eru reiknuð út frá launavísitölu. Einnig er lagt til að foreldrar með fleiri en eitt barn á sínu framfæri geti sótt um undanþágu frá tekjuviðmiðum ef ráðstöfunartekjur eru rétt fyrir ofan tekjumörk og félagslegar aðstæður viðkomandi eru þannig að rétt sé að meta þörf fyrir undanþágu. Þá skal horfa til fjölda barna í fjölskyldu og greiðslubyrði forsjáraðila vegna þessa. Niðurgreiðslukerfi vegna þjónustu dagforeldra hjá Reykjavíkurborg er lakara en hjá öðrum sveitarfélögum og er tímabært að skoða það með ofangreinda þætti í huga. R21010174

Frestað.