Borgarstjórn 2. apríl 2022

Borgarstjórn Reykjavíkur 5. apríl 2022
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt á eftirliti með skólaforðun

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði og velferðarsviði að framkvæma úttekt á hvort samræmdar viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst grunnskólum í Reykjavík til að fylgjast með fjölda þeirra tilvika þar sem nemendur forðast skóla og til að bæta skólasókn. Vísbendingar eru um að hópur þeirra nemenda sem glíma við þennan vanda fari stækkandi.

Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Í kjölfarið var teymi um skólaforðun sett á laggirnar sem lagði m.a. til að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem sýndi „hættumerki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista. Fulltrúi Flokks fólksins telur að tímabært sé að skoða með markvissum hætti hvort og þá hvernig hinar samræmdu viðmiðunarreglur/viðmiðunarkerfið um skólasókn hafi nýst til að fylgjast með fjölda mála er lúta að skólaforðun og til að bæta skólasókn.

Greinargerð
„Sniðganga skóla eða skólaforðun er skilgreind sem meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða unglingur sýnir þegar mæta á í skólann. Hegðunin birtist í erfiðleikum með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heilan skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma.“ (Kearney, Albano 2007).

Hugmyndin um samræmdar skólasóknarreglur hefur verið til umræðu í nokkur ár hjá Reykjavíkurborg. Samræmdar skólasóknarreglur eða miðlægt viðmiðunarkerfi hefur nú verið við lýði í fjögur ár. Viðmið um skólasókn og viðmiðunarkerfi er m.a. hugsað í þeim tilgangi að greina á milli ástæðu fjarvista. Þó hafa ekki allir skólar stuðst við kerfið sem ætlað er að vara við því þegar skólasókn fer niður fyrir ákveðin skilgreind mörk. Vel kann að vera að stjórnendum einhverra skóla finnist erfitt að ekki skuli vera gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, s.s. vegna veikinda annars vegar og óleyfilegra fjarvista hins vegar.

Viðmiðunarflokkunum er skipt í þrjú stig eftir alvarleika og til að árétta hlutverk og ábyrgð skóla, foreldra, þjónustumiðstöðva, Barnaverndar Reykjavíkur og annarra stofnana.
Stig 1: Skammvinn skólaforðun
Stig 2: Langvinn, væg skólaforðun
Stig 3: Langvinn alvarleg skólaforðun
Langvinn, alvarleg skólaforðun á við þegar hún hefur staðið yfir lengur en eitt ár og flokkast þá sem stig 3. Þegar á 3. stig er komið er þörf á sértækri íhlutun og nauðsynlegt getur verið að vísa málinu til Barnaverndar.

Þetta á við um nemendur sem hafa ekki svarað þeim inngripum sem hafa verið reynd og vandinn því orðinn langvinnur og alvarlegur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur leitað upplýsinga um hve mörg
tilvik hafa verið tilkynnt til Barnaverndar undanfarin fjögur ár sem tengjast skólasókn nemenda en ekki fengið svar.

Hér er lagt til að kannað verði með markvissum hætti hve margir skólar hafa notað reglurnar og hvernig hafa þær nýst til að kortleggja skólaforðun og bæta skólasókn. Rannsóknirnar sýna að skólaforðun hefst mun fyrr en á unglingastigi og á sér oft rætur í leikskóla. Miklar fjarvistir frá skóla geta verið kvíðavaldandi fyrir börn eða unglinga og haft þau áhrif að sniðgangan ágerist enn frekar þegar þau missa ítrekað úr námi.

Með því að hafa verklagsreglur er hægt að átta sig á eðli og umfangi hegðunar þeirra nemenda sem forðast skólann. Það er þess vegna mikilvægt að ganga úr skugga um hvort þær viðmiðunarreglur sem skólar eru hvattir til að styðjast við hafi skilað árangri. Skólaforðun vaxandi vandamál.

Vísbendingar eru um að skólaforðun sé vaxandi vandamál. Erfitt getur verið að ná tökum á alvarlegustu tilvikunum. Ástæður skólaforðunar eru margvíslegar og geta þessi mál verið flókin.
Skólaforðun kemur til vegna þess að barninu líður illa í skólanum. Það vill ekki fara í skólann og leitar allra leiða til að forðast skólasókn og skólaástundun. Með því að forðast skólann er barn oftast að senda skýr skilaboð þess efnis að það sé eitthvað „í skólanum“ sem veldur því svo mikilli vanlíðan og streitu að það getur ekki hugsað sér að sækja skólann.

Ástæður skólaforðunar geta verið fjölmargar.

Um getur verið að ræða erfiðleika í námi, vanda varðandi vitsmunalegan þroska eða aðrar raskanir sem ýmist hafa verið greindar eða eru enn ógreindar. Um getur verið að ræða félagslega þætti, að barni sé strítt, það lagt í einelti, að því standi ógn af einhverju á leið í og/eða úr skóla eða í nágrenni hans eða eigi í samskiptavanda við kennara eða skólastjórnendur. Stundum er um að ræða eitt af þessu, fleira en eitt eða samspil margra þátta. Sum börn glíma við kvíða og félagskvíða sem veldur því að þau vilja ekki fara út eða blanda geði við aðra.

Umfram allt þarf að finna undirliggjandi ástæður skólaforðunar

Teymi um skólaforðun lagði til ýmsar tillögur í þessu sambandi, m.a. að hrinda af stað vitundarvakningu og gera átak í fræðslu til foreldra og koma á gagnreyndu verklagi virknimats til að greina þá hegðun sem einkennir skólaforðun nemenda. Allt eru þetta fínar tillögur. Ekkert er þó eins mikilvægt í málum sem þessum og að komast að raun um með barni, foreldrum og kennara hvað það er í skólanum eða tengslum við hann sem barnið er að forðast. Hvað veldur forðuninni? Finnist ekki viðhlítandi ástæður fyrir skólaforðunni er hætta á að málið leysist seint eða illa. Finna þarf hina undirliggjandi ástæðu og leysa úr henni með öllum tiltækum ráðum. Því langvinnari sem vandinn er því erfiðari er hann viðureignar. Líðan barnsins mun aðeins versna sem leiðir til enn frekari einangrunar og einmanaleika. Kvíðinn vex og úrvinnsla verður flóknari og erfiðari þegar fram líða stundir. Börn sem eru hætt að mæta í skólann ná sér ekki öll aftur á strik.

Dæmi um ástæður skólaforðunar geta einnig verið af þeim toga að barnið taki meðvitaða ákvörðun um að mæta ekki vegna þess að eitthvað annað áhugaverðara stendur því til boða að gera. Í þessu sambandi má nefna að barnið velur og vill frekar vera heima við tölvu, eigi það þess kost, en að fara í skólann. Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni til að hegðunin hætti. Fyrirfinnist undirliggjandi ástæða þarf að taka á henni.

Lífið að komast í samt horf eftir COVID

Nú er skólasókn vonandi að komast í eðlilegt horf eftir tveggja ára tímabil sem litast hefur af COVID með tilheyrandi fylgifiskum. Leiða má líkum að því að skólaforðun hafi aukist með COVID og fleiri börn bæst í þann hóp sem forðast skólann sinn vegna COVID og afleiðinga þess.
Gera má ráð fyrir að börnum sem leið illa í skólanum af einhverjum orsökum fyrir COVID líði ekki miklu skár og jafnvel verr nú í eftirmálanum. Líðan þeirra barna sem leið e.t.v. þokkalega fyrir COVID hefur mögulega versnað til muna vegna þeirra aðstæðna sem COVID skapaði. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki síst áhyggjur af þessum málum vegna langs biðlista eftir faglegri aðstoð hjá skólaþjónustu. Nú bíða 1804 börn eftir aðstoð og hefur talan hækkað um 200 börn á örstuttum tíma. Settar hafa verð 140 m.kr. til að fjölga fagfólki hjá skólaþjónustunni en biðlistinn lengist samt með hverri viku þannig að úrlausnarefnið er brýnt.

Vísað til skóla- og frístundaráðs

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins:

Skólaforðun er grafalvarlegt mál. Málinu er vísað til skóla- og frístundasviðs og er það vel.
Það er gott að búa til góðar viðmiðunarreglur en það þarf einnig að ganga úr skugga um að þær virki. Það er þess utan forvitnilegt að fá upplýsingar um hvað margir skólar hafi stuðst við þær og hvort skólastjórnendum finnist þær gagnlegar eins og þær eru eða myndu vilja breyta þeim eitthvað. Vísbendingar eru um að skólaforðun fari vaxandi. Hér er framtíð barna í húfi, sjálfsvirðing þeirra og félagslegt sjálfstraust. Leiða má líkum að því að skólaforðun hafi aukist með Covid og fleiri börn bæst í þann hóp sem forðast skólann sinn vegna Covid og afleiðinga þess. Börn hafa verið meira heima undanfarin misseri vegna Covid,  mörg meira við tölvu og eiga e.t.v. enn erfiðara með að fara aftur í rútinu. Mikilvægt er að standa vaktina í þessum málum enda fjölmörg mála það alvarleg að tilkynna þarf þau til Barnaverndar Reykjavíkur. Árið 2021 var 46 málum vísað til Barnaverndar vegna vanrækslu varðandi nám og 72 málum var vísað til Barnaverndar vegna þess að skólasókn var áfátt.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum atvinnu- og nýsköpunarstefna Reykjavíkurborgar til 2030, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. mars sl.:

Atvinnu- og nýsköpunarstefna þarf að rúma allt fólk án tillits til aldurs, menntunar, reynslu og fötlunar. Við erum fjölmenningarsamfélag. Tæknibylting er boðin velkomin en tækni kemur aldrei í staðinn fyrir mannlega hugsun og tilfinningar. Tækni er aðeins hjálpartæki í þjónustu mannsins. Stefnan sem hér er lögð fram er í raun stefna um stafræna umbreytingu en minna fer fyrir „atvinnumálum“. Ekki er lögð mikil áhersla á atvinnustoðir í öllum hverfum og almennt er ímynd borgarinnar óljós þegar kemur að atvinnumálum. Fram hefur komið að þetta er með ráðum gert. Ekki er fjallað um kolefnisspor og vaxandi ójöfnuð og fátækt. Megininntak skjalsins er lýsing á kostnaðarsömum tilraunum, þróun og uppgötvun á stafrænum lausnum, fjölmörgum sem hafa aðeins skemmtana- og afþreyingargildi. Ítrekað kemur fram að „það sé í lagi að gera tilraunir og prófa sig áfram með alls konar“. Það er eins það gleymist að verið er að sýsla með útsvarfé borgarbúa. Það er eins og að Reykjavíkurborg sé að stofna sitt eigið hugbúnaðarfyrirtæki og vilji vera á alþjóðamarkaði. Flokkur fólksins hefur kvartað yfir því að nauðsynlegar stafrænar lausnir voru ekki settar í forgang. Mikið álag er á starfsfólki vegna vöntunar á virkum nauðsynlegum rafrænum lausnum. Flokkur fólksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna.

 

Bókun Flokks fólksins við ályktunartillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Sjálfsagt er að nota þá orku sem hægt er að ná í í náttúru landsins ef ekki er gengið á aðra þætti svo sem önnur mikilvæg náttúrugæði. Hæpið er að lækka megi orkukostnað með því að ganga að grænum orkugjöfum í formi jarðhita og vatnsafls. Benda þarf á að ef rafmagni er breytt í rafeldsneyti er orkunýtingin innan við 20% og verðið mun taka mið af því. Væri ekki rétt að byrja á að nota það vistvæna eldsneyti, afurð sem Reykjavíkurborg/SORPA framleiðir, sem nú er brennt á báli, metanið?

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Hér er vikið að máli sem borgarkerfið gæti vel sinnt, sérstaklega ef stafrænar lausnir hefðu verið þróaðar til að auðvelda verkið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það almennt mjög erfitt að hugsa til þess að sendar skuli vera innheimtukröfur til lögfræðinga vegna skuldar fólks sem upp til hópa hefur ekki nægt fjármagn milli handanna til að greiða fyrir nauðsynjar, t.d. sem tengjast börnum þeirra. Fulltrúi Flokks fólksins vill að samið verði við fólk og í öllum tilfellum sé allt gert til að mæta erfiðri stöðu fólks sem býr við bág kjör. Sýna á sveigjanleika og umburðarlyndi og umfram allt manngæsku í málum af þessu tagi. Það er ekkert grín að vera svo illa staddur fjárhagslega að geta ekki greitt húsaleigu, skólamat fyrir barnið sitt eða frístund svo dæmi sé tekið. Í desember 2021 fékk fulltrúi Flokks fólksins svar við fyrirspurn um viðbrögð við vanskilum vegna áskrifta á skólamat. Fram kom þá að af 9.514 útgefnum reikningum í hverjum mánuði fóru 4,2% til Momentum og voru 1,5% ennþá ógreiddir þann 1. nóvember 2021. Það segir sig alveg sjálft að þarna er á ferð hópur foreldra sem nær engan veginn endum saman um mánaðamót. Við bætast svo dráttarvextir sem elta fátæka foreldra jafnvel ævilangt.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. mars:

Í kynningunni komu fram fjölmargar fullyrðingar sem eru hæpnar og sumar eru beinlínis rangar. Of mikið sjálfshól er ekki til bóta. Gagnrýnin hugsun þarf stundum að komast að. Efast má stórlega um eftirfarandi fullyrðingar ef horft er á aðgerðir meirihlutans síðustu ár: „Vel er farið með náttúruauðlindir, þjónustu vistkerfa og líffræðilega fjölbreytni með sjálfbærri landnotkun“. Minnt er á að meirihlutinn felldi tillögu Flokks fólksins um að hefja skógrækt frá Reykjavík að Hengli í samráði við nágrannasveitarfélög til að kolefnisjafna höfuðborgarsvæðið. Á því svæði eru Hólmsheiði, Mosfellsheiði, Nesjavallaleið en ekki Svínahraun né önnur nýrunnin friðuð hraun eins og borgarstjóri lét hafa eftir sér. Í Facebook-færslu hans mátti sjá að borgarstjóri kaus að misskilja tillöguna og ruglaði þessu svæði saman við svæðið milli Heiðmerkur og Bláfjalla. Og svo er sagt: Unnið verður að friðlýsingu svæða í Grafarvogi, Blikastaðakró og Skerjafirði en hið rétta er að verið er að eyðileggja fjörur í Skerjafirði og við Laugarnes. Viðaukar 37 sem eru tilfærslur í hinum ýmsum málaflokkum. Erfitt er að átta sig á hvort þessar tilfærslur séu af hinu góða, þess vegna situr fulltrúi Flokks fólksins hjá við atkvæðagreiðslu liðarins.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir skóla- og frístundaráðs undir 6., 9. og 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. mars og 8. og 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 29. mars:

Fundargerð skóla- og frístundaráðs 22. mars, liður 6: Ekki er vitað hvar 40 börn með lögheimili í Reykjavík eru með skólavist. Það er sláandi og er lögð áhersla á að fundið verði hið snarasta út hvar þessi börn eru niðurkomin og hvernig þau eru stödd. Liður 9: Fram kemur að verkefnið kveikjum neistann hafi fengið skoðun. Nýbreytni verkefnisins er fólgin í aukinni hreyfingu með hreyfitíma í upphafi dags og auknu vali í lok dags í list- og verkgreinum, eitthvað sem mætti vel taka upp í reykvískum grunnskólum. Liður 11: Innheimtur stafrænna lausna sem sviðið hefur kynnt eru frekar rýrar. Sagt er að nýja skjalastjórnunarkerfið „Hlaðan“ sé komið í fulla notkun. Var ekki verið að innleiða hana að hluta til fyrir fáeinum vikum á skrifstofu borgarstjórnar? Fundargerð skóla- og frístundaráðs 29. mars, liður 8: Rennt er blint í sjóinn á hverju ári með pláss. Ferlið er flókið, elstu börnin ganga fyrir, yngri mæta afgangi. Þessi árlega óvissa er erfið og eiginlega ólíðandi. Liður 9: Lág laun eru ein stærsta ástæða fyrir manneklu en einnig álag í starfi. Minnst er á nokkra þætti s.s. úrelta auglýsingaherferð og ruglingslega síðu sem auglýsir störf. Af úrræðum sem eru nefnd snúa fæst að starfsfólkinu sjálfu.