Skipulags- og samgönguráð 9. febrúar 2022

Bókun Flokks fólksins Hverfisskipulag, Laugardalur 4.1 Laugarnes, kynning

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því hvernig samráðsferlið er kynnt. Sagt er að byrja á með autt blað. En einnig er tekið fram að forsendurnar frá aðalskipulaginu eru komnar á blað og með því er gefið í skyn að þeim verði ekki breytt. Sú staða gæti komið upp að íbúar líki ekki við forsendurnar og hvað þá? Ætla skipulagsyfirvöld að vera tilbúin að hlusta á það og breyta þeim ef margir telja það nauðsynlegt og mikilvægt?

Ekki er munað eftir því að lögð hafi verið svona mikil áhersla á samráð a.m.k. það ekki kynnt með þessum hætti. Fulltrúi Flokks fólksins vill trúa að dropinn hafi hér holað steinninn en Flokkur fólksins hefur oft talað um að bæta þarf samráð þannig að borgarbúinn og íbúinn finni að taka á mark á honum en ekki aðeins að tilkynna honum.

Samráðsferlið sem snýr að krökkunum í hverfinu lítur vel út. Hafa á skapandi samráð og fræðslu um skipulagsmál. Fulltrúi Flokks fólksins vill hafa varann á hér að ekki eigi að innræta börnin um einhverja hugmyndafræði heldur veita þeim hlutlausa fræðslu. Ef margir standa að baki ákveðnum mótmælum á að hlusta á það og reyna að mæta fólki á miðri leið eða hætta við framkvæmd og endurskoða hana.

Sama bókun er við eftirfarandi liði:

Hverfisskipulag, Laugardalur 4.2 Kleppsholt, kynning

Hverfisskipulag, Laugardalur 4.3 Vogar, kynning

 

Bókun Flokks fólksins við KR svæðið – Frostaskjól 2-6, nýtt deiliskipulag

Tillögurnar segja að framundan eru viðamiklar breytingar á deiliskipulagi. Fyrirhugað er að nýta hluta af íþróttasvæði félagsins við Frostaskjól fyrir uppbyggingu og er til skoðunar að opna á heimildir fyrir verslun og þjónustu, íbúðir eða atvinnuhúsnæði á svæðinu Hugmyndir ganga út á að bæta um leið við núverandi íþróttaaðstöðu og að auki byggja allt að 20 þúsund fermetra af öðru húsnæði, meðfram Kaplaskjólsvegi og Meistaravöllum í 3-4 hæða háum byggingum sem yrðu áfastar fyrirhugaðri áhorfendastúku. Völlurinn verður rammaður inn með húsum. Hvernig verður með aðgengi/bílastæði þegar eru fjölmennir leikir? Vanda þarf hér til verka, en líta á á þetta sem fyrstu tillögur og ræða enn betur við íbúa í kringum svæðið. Markmið er að bæta félagsaðstöðu sem hlýtur að vera aðalatriðið. í ljósi áætlunar um mikla þéttingu allt um kring má ætla að mikil umræða þurfi að vera um þessar tillögur og nú reynir á hæfileika meirihlutans að „hlusta“. Hér hefði kannski verð betra að byrja með auðara blað? Sennilega eru flestir hlynntir einhverri þéttingu en gengið hefur verið víða of langt í borginni í ákafanum að þétta þannig að borgarbúum, mörgum, þykir nóg um.

 

Bókun Flokks fólksins við Hlíðarendi – Reitir G, H og I, breyting á deiliskipulagi

Málið er um að breyta deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reita G, H og I. Í breytingunni felst að breyta lóðum G og H úr atvinnulóðum í íbúðalóðir, breyta opnu svæði til bráðabirgða í íbúðalóð, I, fjölga íbúðum og breyta bílastæðakröfum til samræmis við bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkurborgar. Við þetta er sýnt að mati fulltrúa Flokks fólksins að umferð um Nauthólsveg mun aukast, t.a.m. vegna uppbyggingar námsmannaíbúða við Nauthólsveg og uppbyggingar í Skerjafirði og brúar yfir Fossvog.

Núverandi íbúar kvarta einkum yfir því að skerða eigi grænt svæði sem þó er sagt vera framtíðar byggingarreitur og gert er ráð fyrir 460 íbúðum. Græna svæðið er mikið notað á hverjum degi hjá íbúum hverfisins hvort sem það eru börn með fullorðnum eða hundaeigendur. Fulltrúi Flokks fólksins sér að þarna er gott færi á að koma til móts við íbúa og Íbúaráð vill að það verði athugað með formlegum hætti, umfram það sem gert hefur verið til þessa álit íbúa á Hlíðarenda á að byggt verði á reit I. Þetta er sameiginlegt grænt svæði og líkur á að íbúar vilji halda í það til sameiginlegra afnota. Fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á að þetta verði gert.

 

Bókun Flokks fólksins við Loftlagsstefna fyrir höfuðborgarsvæðið, sóknaráætlun 2020-2024:

Hluti loftslagsstefnunnar er til bóta. Sjálfsagt er að minnka sóun, nýta efni og orku betur en nú er gert, styðja við uppbyggingu innviða sem gera göngu, hjólreiðar og almenningssamgöngur að samkeppnishæfum ferðamáta. Samþætting skipulags byggðar og samgangna á að stuðla að því að íbúar hafi val um að sækja verslun, þjónustu og atvinnu án langra ferða. Kaflinn um orkuskiptin er rýr. Stefnt er að því að allar samgöngur á svæðinu, verði án jarðeldsneytis og þess í stað knúnar af orkugjöfum sem aðeins leiða til óverulegrar losunar gróðurhúsalofttegunda (t.d. rafmagni, vetni, metan eða rafeldsneyti). Hér er verið að bera saman fjóra orkugjafa og þeir lagðir að jöfnu en því fer fjarri að það sé hægt. Metan er verðlaust á söfnunarstað og þess vegna á að nýta það að fullu. Rafmagn nýtist vel, einkum ef farartæki eru sítengd rafmagnslínu eins og þekkist í nágrannalöndunum. En framleiðsla vetnis með rafgreiningu sem er eini kosturinn hér á landi krefst mikillar orku því orkunýting þess ferils er lítil. Rafeldsneyti er líka dýrt. Í svona áætlun verður að bera saman kosti með tilliti til kostnaðar. Án þess er ekki hægt að meta kostina.

 

Viðbót Stafræn sóun

Flokkur fólksins er þeirra skoðunar að stafrænar lausnir séu framtíðin. Ekkert virðist þó vera laust við kolefnisspor. Í hvert sinn sem við gerum eitthvað á netinu; lækum færslu eða opnum vefsíðu nú eða streymum myndbandi, fer af stað ferli sem krefst orku og leiðir af sér losun gróðurhúsalofttegunda. Það á líka við um stafræna notkun á Íslandi, því þó rafmagnið okkar sé úr endurnýjanlegum auðlindum er vinnsla og geymsla gagna samfélagsmiðla og annarrar stafrænnar þjónustu oftast nær í löndum þar sem rafmagn er fengið með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku.

Bylting á sviði upplýsingatækni hefur opnað ótal tækifæri og gjarnan eru færð rök fyrir því að mikil umhverfislegur ávinningur felist í þessari þróun. Sparnaður á pappír, fækkun bíl- og flugferða og notast þá frekar við fjarfundi og svo mætti lengi telja.

Kolefnisspor í stafrænum heimi.

Allt sem við gerum á netinu leiðir af sér kolefnisspor. Áætlað er að 2% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminu séu sökum raforkunotkunar alnetsins og gagnageymslu í skýjum. Eins og segir í grein sem birt var í blaði Neytendasamtakanna, ef hinn stafræni heimur væri sérstakt land væri það í fimmta sæti yfir þau lönd sem mest losa í heiminum. Gert er ráð fyrir að stafræn losun muni tvöfaldast fyrir árið 2025. Síðan er það ferlið við að framleiða tækin, allt frá námugreftri til förgunar og það hefur sín kolefnisspor. Ef kolefnisspor tækjanna er tekið með ber hinn stafræni heimur ábyrgð á 4% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum en það er sambærileg losun og vegna allra flugsamgangna. Bitcoin rafmyntin er sér kapítuli.

Tölvupóstar

Venjulegur tölvupóstur losar um 4 g. af koldíoxíði (CO2) og með mynd um 50 g. Að senda 65 tölvupósta losar jafn mikið og að keyra einn kílómetra á bensínbíl. Hvað er hægt að gera til að draga úr losun í stafrænum heimi. Það er hægt að draga úr kolefnisfótspori tölvupóstsamskipta með því að skipta viðhengjum út fyrir hlekki og afskrá sig frá ónauðsynlegum tölvupóstlistum. Umhverfisvænast er að senda SMS. Hvert SMS losar 1.014 g. CO2.

Vissulega eru fjarfundir betri en ferðalög þegar kemur að umhverfinu. Og umhverfisvænni leið er að lesa fréttir á netinu en að lesa í blöðum. En einungis á að skima yfir skjal á netinu er umhverfisvænna að lesa skjalið í blaðformi.

Ljóst er að hægt er að gera ýmislegt til að draga úr stafrænni sóun. Þetta er eitt af því sem margir eru ekki mikið að spá í. En það þarf öflug gagnaver til að varðveita gögn og halda vefsíðum og streymisveitum gangandi. Sífellt fleiri hafa aðgang að alnetinu og flest notum við meira af gögnum í dag en í gær. Þetta er orkufrekur iðnaður sem vex hvað hraðast í heiminum. Áætlað er að árið 2040 muni geymsla stafrænna gagna valda allt að 14% af allri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Aukin krafa er um endurnýjanlegri orku og er þróunin í þá átt en á sama tíma eykst gagnamagnið ár frá ári.

Úr grein í Neytendablaðinu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða, um bætt hjólastólaaðgengi í grunnskólum og félagsmiðstöðvum, umsögn:

Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögu ungmennaráðsins um að bæta aðgengi fatlaðra í grunnskólum og félagsmiðstöðvum. Fyrsta skrefið er að yfirfara aðgengi fyrir hjólastóla og skoða hvernig það er háttað í dag. Hefja þarf verkið sem fyrst og reyna að ljúka því eigi síðar en í árslok 2022 að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Smyrilshlíð:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fyrirhugaðar breytingar á skipulagi í Smyrilshlíð 2 (n.t.t. íbúð 502) og hvernig grenndaráhrif hún muni hafa? Einnig hvaða áhrif mun breytingarnar muni hafa á birtu/skuggavarp.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, varðandi íbúa við Hlemm. Mál nr. US220026

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fundinn verði staður fyrir djúpgáma við Hlemm. Við Hlemm býr fólks sem átt hefur í mesta basli með að koma frá sér sorpi. Einnig er lagt til að íbúum Hlemm verið gefið formlegt leyfi til að aka bíl sínum upp að dyrum til að afferma vörur/vistir eða ef flytja þarf þunga hluti inn á heimilið.
Tillögunni fylgir greinargerð.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

 

Ný mál

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um fyrirkomulag meðan á framkvæmdum stendur.
Mál nr. US220037

Samkvæmt skipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið stendur til að setja Sæbraut og Miklubraut í stokk á tímabilinu 2023 – 2026. Á Sæbraut verður á framkvæmdatíma gert ráð fyrir því að umferð um Sæbraut verði breytt í 1 plús 1 í stað 2 plús 2.

Óljóst er hvort það sama gildi um Miklubraut en þó er ljóst að umferð mun þrengjast mjög á þessum tíma og a.m.k. á einhverjum tímapunkti í 1 plús 1.

Í þeim hugmyndum sem kynntar hafa verið er gert ráð fyrir því að Suðurlandsbraut verði með tilkomu Borgarlínu breytt í 1 plús 1 í stað 2 plús 2. Líklega munu þær breytingar skarast í tíma við framkvæmdir við Sæbraut og Miklubraut.

Í ljósi þessa: Hefur verið kannað hvaða áhrif þetta hefur á umferð og hafa verið skipulagðar einhverjar mótvægisaðgerðir til að greiða fyrir umferð á framkvæmdatíma?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Gufunes, Loftkastala.
Mál nr. US220038

Fyrirspurnir Flokks fólksins vegna lóðanna Gufunesvegur 34. Þengilsbás 1 sem skipt var í tvennt. Reykjavíkurborg setti sem eitt af skilyrðum framkvæmdaleyfis að það yrði samráð um sveigjanleika með m.a. aðkomu og innkeyrslur í útgefnu framkvæmdaleyfi fyrir gatnagerð og fl. í Gufunesi. Einnig hefur skipulagshöfundur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að mikið hafi borið af leið frá kynntu skipulagi. Nú situr borgarbúi uppi með skertar eignir vegna samskipta- og samráðsleysis. Vandinn snýr að því að það er ekki sama gólfhæð í tveimur samliggjandi húsum en þessi mismunandi hæð hindrar nýtingu þar sem ekki er hægt að renna stórum hlutum, leikmunum, á milli húsanna.

Staðan er núna óásættanleg. Af gögnum má ráða að gefið hafi verið út framkvæmdaleyfi fyrir gatnagerð í Gufunesi sem ekki fellur að þeim húsum sem sem fyrir eru í Gufunesi?

Þessi gatnagerð hindrar nýtingu húsa Loftkastalans.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr:

Hvernig á að nýta húsnæði ef engin er aðkoman og gatnagerð í Gufunesi fellur ekki að þeim húsum sem fyrir eru?

Spurt er einnig: Á eftir að hafa þetta samráð við lóðarhafa t.d. þegar kemur að lokaútfærslu lóðar og hvernig lóðin tengist götunni?

Hvenær á að ganga í þetta mál og leysa það?

Loftkastalinn þarf að fá úrlausn mála sinna þannig að hægt sé að renna stórum hlutum á milli húsa.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um merkingar og sektir á Bryggjugötu 4.
Mál nr. US220039

Fyrirspurn Flokks fólksins um merkingar á vistgötu og sektir í aðkeyrslu að Edition Hótel við höfnina. Aðkeyrslan að hótelinu er þannig að það er pláss fyrir bíla á svokallaðri vistgötu en þarna er merkingum ábótavant og óljóst hvort megi leggja þarna. Dæmi eru um að fólk hafi lagt þarna í góðri trú til að sinna erindum en fengið síðan háa sekt.

Þarna er bann við lagningu í vistgötu nema í sérmerktum stæðum en litlar sem engar merkingar eru um að þarna sé vistgata og óheimilt að leggja. Fulltrúi Flokks fólksins fékk þá upplifun við að heyra lýsingar fólks sem lent hafa í þessu að það sé eins og verið sé að að leiða fólk í gildru.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum frá Bílastæðasjóði um merkingar á þessari götu og á þessum stað nákvæmlega sem er Bryggjugata (101) 4 og hvort talið sé að þær séu nægjanlegar?

Óskað er einnig upplýsinga um hvað margir hafa verið sektaðir nákvæmlega þarna á þessum svæði sem fyrirspurnin snýr að?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um sektir vegna stöðubrota í miðbænum.
Mál nr. US220040

Fyrirspurn um yfirlit yfir sektir vegna stöðubrota í miðbænum. Fulltrúa Flokks fólksins hefur borist ábendingar og kvartanir vegna innheimtu Bílastæðasjóðs. Kvartað er yfir óvægnum aðferðum þar sem fólk upplifir jafnvel að verið sé að leiða sig í gildru með því að hafa merkingar ábótavant.

Margt er að breytast í miðbænum og ekki allir átta sig á þessum breytingum enda breytingar örar. Sums staðar eru merkingar ekki nógu góðar eða hreinlega ábótavant t.d. þar sem er algert stöðubann. Einnig eru víða framkvæmdasvæði sem byrgja sýn.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að sjá sundurliðað yfirlit yfir þá staði sem mest er sektað vegna stöðubrots.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem fara fram hjá útgönguleiðum bílastæðahúsa.
Mál nr. US220041

Tillaga Flokks fólksins að skipulags- og samgöngusvið kanni öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem fara fram hjá útgönguleiðum bílastæðahúsa. Vegfarendur sjá ekki að bíll er á leiðinni út, enda ekið út úr húsi.

Oft hefur legið við slysi þegar bíll kemur akandi út úr bílastæðahús/kjallara og ökumaður gætir ekki að því að á sama tíma gæti hjólandi eða gangandi vegfarandi verið að fara fram hjá.

Þarna þarf að merkja vel báðu megin frá, bæði fyrir ökumann sem er að aka út úr bílastæðahúsi, að hann sé minntur á að aka löturhægt út þar sem gangandi eða hjólandi gæti verið að fara fram hjá. Að sama skapi þarf að vera áberandi skilti á gangstétt áður en kemur að útkeyrslu bílastæðahúss þar sem náð er athygli vegfarenda að bíll gæti skyndilega ekið út úr bílastæðahúsinu.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um bætta þverun yfir Geirsgötu.
Mál nr. US220042

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þverun verði bætt frá Edition hótel og yfir Geirsgötuna vegna mikillar umferðar. Næsta göngubraut er a.m.k. um 70 metra í átt að Kolaportinu. Hér þarf að bæta úr áður en umferðarslys verður.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um orkuskoti í samgöngum.
Mál nr. US220043

Fyrirspurn frá Flokki fólksins um orkukosti í samgöngum.

í Loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar eru meðal annars nefndir orkukostir í samgöngum þar sem ekki er annað að sjá að notkun rafmagns, vetnis, metans og rafeldsneyti séu lagðir að jöfnu. Þekkt er að metan er verðlaust á söfnunarstað og rafmagn er góður kostur. Rafmagni er hægt að hlaða á rafgeyma og það má einnig nota á farartæki sem eru sítengd við rafmagn. Bæði lestir og strætisvagnar eru knúin með þessum hætti víða um lönd. En notkun vetnis og rafeldsneytis er ekki eins útbreitt.

Fulltrúi Flokk fólksins spyr um samanburð á orkugjöfunum metani, rafmagni, vetni, og rafeldsneyti. Hver er orkunýting við framleiðslu vetnis og rafeldsneytis?

Hafi slíkur samanburður ekki verið gerður er farið fram á að það verði gert, annars er ekki hægt að bera kostina saman.

Frestað.