Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt á hvort samræmdar viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst til að greina skólaforðun
Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að fela skóla- og frístundasviði og velferðarsviði að framkvæma úttekt á hvort samræmdar viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst grunnskólum í Reykjavík til að fylgjast með fjölda þeirra tilvika þar sem nemendur forðast skóla og til að bæta skólasókn. Vísbendingar eru um að hópur þeirra nemenda sem glíma við þennan vanda fari stækkandi.
Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Í kjölfarið var Teymi um skólaforðun sett á laggirnar sem lagði m.a. til að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem sýndi „hættumerki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista. Fulltrúi Flokks fólksins telur að tímabært sé að skoða með markvissum hætti hvort og þá hvernig hinar samræmdu viðmiðunarreglur/viðmiðunarkerfið um skólasókn hafi nýst til að fylgjast með fjölda mála er lúta að skólaforðun og til að bæta skólasókn.
Greinargerð
Sniðganga skóla eða skólaforðun er skilgreind sem meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða unglingur sýnir þegar mæta á í skólann. Hegðunin birtist í erfiðleikum með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heilan skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma (Kearney, Albano 2007).
Hugmyndin um samræmdar skólasóknarreglur hefur verið til umræðu í nokkur ár hjá Reykjavíkurborg. Samræmdar skólasóknarreglur eða miðlægt viðmiðunarkerfi hefur nú verið við lýði í fjögur ár. Viðmið um skólasókn og viðmiðunarkerfi er m.a. hugsað í þeim tilgangi að greina á milli ástæðu fjarvista. Ekki hafa allir skólar þó stuðst við kerfið sem ætlað er að vara við því þegar skólasókn fer niður fyrir ákveðin skilgreind mörk. Vel kann að vera að stjórnendum einhverra skóla finnist erfitt að ekki skuli vera gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, s.s. vegna veikinda annars vegar og óleyfilegra fjarvista hins vegar.
Viðmiðunarflokkunum er skipt í þrjú stig eftir alvarleika og til að árétta hlutverk og ábyrgð skóla, foreldra, þjónustumiðstöðva, Barnaverndar Reykjavíkur og annarra stofnana.
Stig 1: Skammvinn skólaforðun
Stig 2: Langvinn, væg skólaforðun
Stig 3: Langvinn alvarleg skólaforðun
Langvinn, alvarleg skólaforðun á við þegar hún hefur staðið yfir lengur en eitt ár og flokkast þá sem stig 3. Þegar á 3. stig er komið er þörf á sértækri íhlutun og nauðsynlegt getur verið að vísa málinu til Barnaverndar.
Þetta á við um nemendur sem hafa ekki svarað þeim inngripum sem hafa verið reynd og vandinn því orðinn langvinnur og alvarlegur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur leitað upplýsinga um hve mörg tilvik hafa verið tilkynnt til Barnaverndar undanfarin fjögur ár sem tengjast skólasókn nemenda en ekki fengið svar.
Í þeirri tillögu sem hér er lögð fram er lagt til að kannað verði með markvissum hætti hve margir skólar hafa notað reglurnar og hvernig hafa þær nýst til að kortleggja skólaforðun og bæta skólasókn. Rannsóknirnar sýna að skólaforðun hefst mun fyrr en á unglingastigi og á sér oft rætur í leikskóla. Miklar fjarvistir frá skóla geta verið kvíðavaldandi fyrir börn eða unglinga og haft þau áhrif að sniðgangan ágerist enn frekar þegar þau missa ítrekað úr námi.
Með því að hafa verklagsreglur er hægt að átta sig á eðli og umfangi hegðunar þeirra nemenda sem forðast skólann. Það er þess vegna mikilvægt að ganga úr skugga um hvort þær viðmiðunarreglur sem skólar eru hvattir til að styðjast við hafi skilað árangri.
Skólaforðun vaxandi vandamál
Vísbendingar eru um að skólaforðun sé vaxandi vandamál. Erfitt getur verið að ná tökum á alvarlegustu tilvikunum. Ástæður skólaforðunar eru margvíslegar og geta þessi mál verið flókin.
Skólaforðun kemur til vegna þess að barninu líður illa í skólanum. Það vill ekki fara í skólann og leitar allra leiða til að forðast skólasókn og skólaástundun. Með því að forðast skólann er barn oftast að senda skýr skilaboð þess efnis að það sé eitthvað „í skólanum“ sem veldur því svo mikilli vanlíðan og streitu að það getur ekki hugsað sér að sækja skólann.
Ástæður skólaforðunar geta verið fjölmargar. Um getur verið að ræða erfiðleika í námi, vanda varðandi vitsmunalegan þroska eða aðrar raskanir sem ýmist hafa verið greindar eða eru enn ógreindar. Um getur verið að ræða félagslega þætti, að barni sé strítt, það lagt í einelti, að því standi ógn af einhverju á leið í og/eða úr skóla eða í nágrenni hans eða eigi í samskiptavanda við kennara eða skólastjórnendur. Stundum er um að ræða eitt af þessu, fleira en eitt eða samspil margra þátta. Sum börn glíma við kvíða og félagskvíða sem veldur því að þau vilja ekki fara út eða blanda geði við aðra.
Umfram allt þarf að finna undirliggjandi ástæður skólaforðunar
Teymi um skólaforðun lagði til ýmsar tillögur í þessu sambandi m.a. að hrinda af stað vitundarvakningu og gera átak í fræðslu til foreldra og koma á gagnreyndu verklagi virknimats til að greina þá hegðun sem einkennir skólaforðun nemenda. Allt eru þetta fínar tillögur. Ekkert er þó eins mikilvægt í málum sem þessum og að komast að raun um með barni, foreldrum og kennara hvað það er í skólanum eða tengslum við hann sem barnið er að forðast. Hvað veldur forðuninni? Finnist ekki viðhlítandi ástæður fyrir skólaforðunni er hætta á að málið leysist seint eða illa. Finna þarf hina undirliggjandi ástæðu og leysa úr henni með öllum tiltækum ráðum. Því langvinnari sem vandinn er því erfiðari er hann viðureignar. Líðan barnsins mun aðeins versna sem leiðir til enn frekari einangrunar og einmanaleika. Kvíðinn vex og úrvinnsla verður flóknari og erfiðari þegar fram líða stundir. Börn, sem eru hætt að mæta í skólann, ná sér ekki öll aftur á strik.
Dæmi um ástæður skólaforðunar geta einnig verið af þeim toga að barnið taki meðvitaða ákvörðun um að mæta ekki vegna þess að eitthvað annað áhugaverðara stendur því til boða að gera. Í þessu sambandi má nefna að barnið velur og vill frekar vera heima við tölvu, eigi það þess kost, en að fara í skólann. Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni til að hegðunin hætti. Fyrirfinnist undirliggjandi ástæða þarf að taka á henni.
Lífið að komast í samt horf eftir Covid
Nú er skólasókn vonandi að komast í eðlilegt horf eftir tveggja ára tímabil sem litast hefur af Covid með tilheyrandi fylgifiskum. Leiða má líkum að því að skólaforðun hafi aukist með Covid og fleiri börn bæst í þann hóp sem forðast skólann sinn vegna Covid og afleiðinga þess.
Gera má ráð fyrir að börnum, sem leið illa í skólanum af einhverjum orsökum fyrir Covid, líði ekki miklu skár og jafnvel verr nú í eftirmála Covid. Líðan þeirra barna sem leið e.t.v. þokkalega fyrir Covid hefur mögulega versnað til muna vegna þeirra aðstæðna sem Covid skapaði. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki síst áhyggjur af þessum málum vegna langs biðlista eftir faglegri aðstoð hjá Skólaþjónustu. Nú bíða 1804 börn eftir aðstoð og hefur talan hækkað um 200 börn á örstuttum tíma. Settar hafa verð 140 m.kr. til að fjölga fagfólki hjá skólaþjónustunni en biðlistinn lengist samt með hverri viku þannig að úrlausnarefnið er brýnt.
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að Reykjavíkurborg eigi frumkvæði að umræðu um húsnæðismarkaðinn á vettvangi svæðisskipulags Höfuðborgarsvæðis 2040
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg eigi frumkvæði að umræðu um stöðuna á húsnæðismarkaði á vettvangi svæðisskipulags Höfuðborgarsvæðis 2040.
Höfuðborgarsvæðið 2040 er sameiginleg stefna sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kjósarhrepps, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar um náið samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins næstu 25 árin. Höfuðborgarsvæðið er eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður með sameiginleg grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindir og náttúru. Þetta er réttur vettvangur til að ræða þá alvarlegu stöðu sem nú er á húsnæðismarkaði.
Nú þegar við blasir húsnæðisskortur er við hæfi að Reykjavík setjist niður með nágrannasveitarfélögunum og ræði húsnæðisvandann, uppbyggingaráætlun og framtíð húsnæðismála í hinu stóra samhengi. Svæðisskipulag Höfuðborgarsvæðisins til 2040 er kjörinn vettvangur til að ræða vandann sem nú blasir við vegna íbúðaskorts. Hraða þarf samráðsferli til að byggja megi hratt. Í viðræðum við nágrannasveitarfélög um hvernig staðið verði að uppbyggingu íbúða næstu árin er mikilvægt að ræða einnig um hvernig sveitarfélögin hyggjast deila ábyrgðinni á uppbyggingu félagslegs húsnæðis og hagkvæms húsnæðis fyrir fyrstu kaupendur, námfólk og efnalítið fólk. Fram til þessa hefur Reykjavík borið hitann og þungann af uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis meðan önnur nágrannasveitarfélög sitja hjá.
Greinargerð
Talið er að þörf sé á 3 – 4.000 íbúðum og að byggja þurfi allt að 30.000 íbúðir um land allt næstu 10 árin ef mæta á eftirspurn. Fólksfjölgun er meiri en reiknað var með og má jafnvel ætla að til landsins komi þúsundir erlendra verkamanna til að vinna að uppbyggingu m.a. í ferðamannaþjónustu þegar losað hefur verið um höft og hindranir vegna COVID. Skortur á nýjum íbúðum á hagstæðu verði er eitt stærsta vandamálið á höfuðborgarsvæðinu og því mikilvægt að búa til vettvang allra nágrannasveitarfélaganna til að leggja á ráðin um lausnir til framtíðar.
Almennt vantar meira af nýjum íbúðum og þess vegna hefur verðbólga vaxið. Verðhækkanir eru m.a. til komnar vegna lóðaskorts. Húsnæðisvandinn er heimagerður vandi.
Sjálfsagt er að þétta byggð og styður Flokkur fólksins þéttingarstefnu upp að skynsamlegu marki en brýna nauðsyn bert til að byggja ódýrara húsnæði fjær borgarmiðjunni. En eins og framkvæmdin hefur verið á þéttingarstefnunni er ljóst að hún hefur leitt til spennu á fasteignamarkaði, mikið til vegna þess að ekki hefur verið léð máls á að gera annað en að þétta.
Hátt verð þýðir að framboð er ekki nægjanlegt. Auka þarf lóðaframboð.
Litlar íbúðir á þéttingasvæðum eru dýrar. Á þeim hafa hvorki námsmenn, fyrstu kaupendur né þeir sem minna hafa milli handanna efni á. Meirihlutinn í borginni hefur brugðist við þessari staðreynd með varnarræðum. Reynt hefur verið að kenna bönkunum og verktökum um.
Leiga hækkar í takti við fasteignaverð. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með þeim sem segja að brjóta þurfi land undir byggð. Hér er enginn að tala um að borgin eigi að
þenjast mikið út. Horfa má til stækkunar á núverandi hverfum víða um borgina. Alls staðar þar sem fækkað hefur í úthverfum má bæta við og endurnýta innviði jafnhraðan eða auka þá. Stefna á að gera öll hverfi sjálfbær með blandaðri byggð og atvinnutækifærum.
Þar til Reykjavík sameinast nágrannasveitarfélögunum er nauðsynlegt að skipuleggja byggð í einhverju lágmarkssamkomulagi og að reyna að ná fram ávinningi með skipulagi samgangna og nýrra byggingareita, þvert á sveitarfélagamörk.