Borgarstjórn 2. október 2018

Bókun í máli/tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um eineltiskönnun meðal fyrrverandi starfsmanna borgarinnar

Ískaldar kveðjur frá borgarmeirihlutanum til þeirra sem telja að hafi verið brotið á sér á starfsstöðvum borgarinnar og ekki fengið faglega úrvinnslu mála sinna. Bókunin hér segir allt sem segja þarf um þetta:

Flokkur fólksins og Miðflokkurinn vilja gera bókun vegna viðbragða meirihlutans við tillögu Flokks fólksins þess efnis að borgarstjórn kalli eftir ábendingum/ upplýsingum frá núverandi/fyrrverandi starfsmönnum sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða kynbundnu ofbeldi á starfsstöðvum borgarinnar. Lagt var til að skimað yrði eftir hvort þolendur kunni að telja að mál þeirra hafi ekki fengið fullnægjandi og /eða faglega meðferð mála sinna hjá Reykjavíkurborg og ef ekki yrði þeim boðið að fara, í sumum tilfellum aftur, yfir mál sín með mannauðsdeild. Þessi tillaga féll ekki vel í kramið hjá meirihlutanum sem vísaði henni frá þrátt fyrir að fullyrða að þau láti sig þessi mál varða fyrir alvöru. Borgarfulltrúum Flokks fólksins og Miðflokksins þykja þetta kaldar kveðjur til þeirra sem mögulega eru í stöðunni sem hér hefur verið lýst og líklegt til að auka enn frekar á sársauka þeirra og vonbrigði.

Braggabókun Flokks fólksins á fundi borgarstjórnar 4. október:

Braggamálið er einn stór skandall. Rúmar fjögur hundruð milljónir í verkefni sem átti að kosta 155 milljónir. Engar spurninga spurðar, alla vega hefur almenningur ekki vitneskju um þær. Svo virðist sem borgarmeirihlutinn hafi bara borgað og brosað? Mikil óvissa var í þessu máli segir borgarstjóri. Þegar verið er að sýsla með fé borgarbúa er óvissa ekki í boði. Borgarstjóri hefur komið með alls konar skýringar sem nú eftir á breytir ekki þessari alvarlegu niðurstöðu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins segir að þennan bragga átti bara að rífa. Ekki nema einhver fjársterkur aðili hefði viljað gera eitthvað við hann. Borgarbúar eru bálreiðir og krefjast skýringa og það strax.
Á meðan verið er að fella tillögur minnihlutans er varða að veita börnum í Reykjavík betri þjónustu er stórum upphæðum sóað í hégómleg verkefni eins og þessu og fleirum. Mörgum finnst hér næg ástæða komin fyrir að borgarstjóri segi af sér. Á fundi borgarráðs í síðustu viku var það gefið í skyn að Minjastofnun væri allt eins ábyrg fyrir þessari framúrkeyrslu en nú hefur komið í ljós að Minjastofnun  sver alla ábyrgð af sér, segist ekki hafa komið nálægt ákvörðunum sem leiddu til þessara framúrkeyrslu á áætluðum kostnaði. Það er ólíðandi að svona sé farið með útsvarsfé borgarinnar. Fram hefur komið að fela á Innri endurskoðun (IE) að rannsaka málið? Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst sem IE geti varla verið „nógu“ óháður enda hefur endurskoðunin fylgst með þessu máli allan tímann og séð hvernig það hefur þróast. Hvernig á IE að allt í einu núna að geta komið að rannsókn þessari sem óháður aðili?

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um nýja starfsemi fyrir stuðningsþjónustu í ljósi nýrra laga 

Þessi tillaga meirihlutans lítur vel út á blaði en væri án efa ekki lögð fram hér nema vegna tilkomu nýrra laga um NPA sem við öll fögnum. Flokkur fólksins vill minna á þann kalda veruleika sem ríkir í borginni sem er langvarandi, rótgróin mannekla í flest þjónustustörf sem borgarmeirihlutinn hefur ekki getað eða viljað taka á. Það lofar ekki góðu að þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið reynt til að laða að starfsmenn að þeirra sögn, þá hefur það ekki tekist. Það er langur biðlisti eftir stuðningsþjónustu sem annarri heima- og aðhlynningarþjónustu í Reykjavík. Eins og margoft hefur verið bent á eru laun fyrir þessi störf skammarlega lág og útilokað fyrir fólk að lifa af þeim. Sum þessara starfa eru álagsstörf og ætti sérstaklega að vera horft til þess þegar verið er að ákvarða launin. Hvernig á þessa metnaðarfulla tillaga að verða útfærð án starfsfólks til að sinna henni? Setjum okkur sem snöggvast í spor notenda þjónustunnar sem e.t.v. þurfa að lifa í þeirri óvissu hvern dag eða viku að starfsmaður verði kannski ekki tiltækur til að veita þjónustuna.

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um eineltiskönnun meðal fyrrverandi starfsmanna borgarinnar

Lagt er til að borgarstjórn kalli eftir ábendingum/upplýsingum frá núverandi/fyrrverandi starfsmönnum borgarinnar sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða kynbundnu ofbeldi á starfsstöðvum borgarinnar.

Lagt er til að skimað verði hvort þolendur telji að kvörtun/tilkynning hafi fengið faglega meðferð. Lagt er til að hvert þeirra mála sem kunna að koma fram verði skoðuð að nýju í samráði við tilkynnanda og ákvörðun tekin í framhaldi af því hvort og þá hvernig skuli halda áfram með málið. Lagt er til að mannauðsdeild verði falið að taka saman upplýsingar um fjölda starfsmanna (tímarammi ákveðinn árafjöldi aftur í tímann) sem telja sig hafa orðið fyrir einelti/kynferðislegri áreitni/kynbundnu ofbeldi í störfum sínum hjá Reykjavíkurborg.  Fram komi hversu mörg mál hafi leitt til starfsloka þolanda,
hvernig tekið hafi verið á málum, hvort og hvernig gerendum í þeim málum sem einelti hafi verið staðfest hafi verið gert að taka ábyrgð.

Lagt er til að metið verði til fjár hver fjárhagslegur kostnaður/skaði borgarinnar er vegna eineltis/kynferðislegrar áreitni/kynbundins ofbeldis á starfsstöðvum borgarinnar. Hafa skal í huga að hvert mál er einstakt og að ástæða sé til að skoða hvert mál fyrir sig. Lagt er til að mannauðsdeild borgarinnar verði falið að yfirfara málin með fyrirvara um hugsanlegt vanhæfi að mati tilkynnanda/þolanda.

Greinargerð:

Vitað er að ákveðinn hópur (ekki vitað hversu stór) sem starfað hefur eða starfar enn hjá Reykjavíkurborg upplifir að kvörtun um einelti og eða kynferðislega áreitni hafi ekki verið fagleg eða sé ekki lokið vegna þess að málsmeðferð hefur verið ófagleg og óréttlát eða að málsmeðferð hefur ekki átt sér stað þrátt fyrir að upplýst hafi verið um ofbeldið, áreitni eða einelti.

Í ljósi þeirrar umræðu sem #metoo byltingin hefur flett ofan af varðandi óviðeigandi hegðun á starfsstöðvum borgarinnar telur borgarfulltrúi Flokks fólksins mikilvægt að bjóða þeim sem kunna að telja sig þolendur/brotaþola í málum af þessu tagi eða telja að mál þeirra hafi ekki fengið fullnægjandi og/eða faglega meðferð hjá Reykjavíkurborg að fara yfir mál sitt í sumum tilfellum „aftur“ með það að markmiði að tryggja sanngjarna málsmeðferð.

Það er með öllu óásættanlegt ef starfsmaður situr uppi með þann sársauka og skaða sem fylgir því að hafa ekki fengið faglega lausn á máli af þessu tagi. Enginn á að vera skilinn eftir í slíkri stöðu. Í það minnsta er það tilraunarinnar virði að bjóða þeim sem þannig statt er með að koma og fara að nýju yfir mál sín. Í sambandi við þetta vill borgarfulltrúi vitna í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2018-2020 en þar segir um kynbundna og kynferðislega áreitni í starfsumhverfi borgarinnar:

„#Metoo byltingin sýndi fram á mikilvægi þess að allt samfélagið bregðist við og vinni gegn kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Niðurstöður viðhorfskannana meðal starfsfólks borgarinnar hafa einnig sýnt fram á nauðsyn þess að taka á þessum málum í starfsumhverfi borgarinnar. Einnig þarf að endurskoða siðareglur bæði starfsfólks og kjörinna fulltrúa og efla kynningu á þeim.“

Þessu til viðbótar vill borgarfulltrúi Flokks fólksins vitna í stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi þar sem segir að kynferðislegt ofbeldi, misnotkun eða áreitni er litið alvarlegum augum hjá Reykjavíkurborg. Grunnstefið í stefnu Reykjavíkurborgar er að einelti, áreitni eða ofbeldi af öðrum toga er ekki liðið og hart verður tekið á öllum slíkum atvikum. Jafnframt segir í stefnunni að þolendur fái aðstoð og leiðbeiningu við að leita sér stuðnings eftir þörfum. Kynferðislegt ofbeldi eða áreitni er ekki liðin hjá Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg er til staðar og styður þolendur kynferðislegs ofbeldis og áreitni.

Tillaga Flokks fólksins um að allir leik- og grunnskólar í Reykjavík verði grænfánaskólar

Lagt er til að öllum leik- og grunnskólum borgarinnar verði gert kleift m.a. fjárhagslega sem og hvattir til að taka þátt í verkefninu skólar á grænni grein (grænfáninn). Vissulega geta skólar verið grænir, heilsueflandi og í miklu umhverfisstarfi þótt þeir séu ekki grænfánaskólar. Fáninn er engu að síður góður og skýr mælikvarði og merki um að skóli hafi náð ákveðnu viðmiði í umhverfismálum. Borgin ætti því hiklaust að nota þennan mælikvarða sem nú þegar hefur verið búinn til og þróaður og styðja og styrkja alla skóla til að taka upp græna fánann.

Eitt af markmiðum skóla á grænni grein er að fræða börnin um matarsóun og mikilvægi þess að hætta notkun einnota plasts s.s. plastpoka. Að vera skóli á grænni grein gefur örnunum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum sem vekur þau til vitundar um umhverfið og hvernig þau geta hlúð að því. Verkefnin hjálpa börnunum að skynja mikilvægi þess að sporna gegn matarsóun í nærumhverfinu og setja sér skýr markmið í umhverfismálum.

Lögð fyrir aftur þar sem henni var frestað á síðasta fundi borgarstjórnar, sjá greinargerð neðar, Borgarstjórn 18. september
Felld