Velferðarráð 21. nóvember 2018

Lagt er til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á skilyrðum þess að hægt sé að sækja um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík.

Í stað þess að umsækjandi þurfi að hafa átt lögheimili í Reykjavík síðastliðin 2 ár nægir að hafi átt lögheimili á Íslandi síðastliðin 2. ár. Þessi breyting á skilyrðum er nauðsynleg fyrir margar sakir. Á meðan fólk bíður eftir félagslegu húsnæði á það oft ekki í önnur hús að venda á biðtímanum í Reykjavík. Sumir eiga þess kost að búa tímabundið í öðru sveitarfélaga á meðan það bíður en til þess að falla ekki útaf biðlistanum leggja það á sig að hírast við óviðunandi húsnæðisaðstæður, fá að liggja inni hjá vinum og ættingjum um tíma eða búa í ósamþykktu húsnæði. Með því að afnema þetta skilyrði getur fólk fundið sér tímabundið húsnæði annars staðar á landinu á meðan það bíður eftir að röðin komi að sér í félagslega íbúðakerfinu í Reykjavík. Þessi breyting opnar fyrir meiri sveigjanleika og möguleika á að fá viðunandi húsnæði á biðtímanum enda þótt um sé að ræða tímabundið. Þessi breyting gerir skilyrðin auk þess mun manneskjulegri en þau eru nú. Þetta skilyrði hefur óþarfa fælingarmátt og enda þótt fólk geti sótt um undanþágu þá veit fólk oft ekki um þann rétt sinn, er jafnvel ekki upplýst um hann.
Tillagan var felld.

Bókun Flokks fólksins: 

Lagt var til að krafan um að hafa þurft að eiga lögheimili í Reykjavík síðastliðin 2 ár yrði aflögð þegar sótt er um félagslegt húsnæði í Reykjavík. Þetta ákvæði hefur reynst mörgum umsækjendum erfitt og spurning hvort þetta sé löglegt? Aðstæður umsækjenda eru oft erfiðar og því ætti að vera í lófa lagið að reyna að gera umsóknarreglurnar eins sanngjarnar og hægt er. Hafa skal í huga að á meðan fólk bíður eftir félagslegu húsnæði á það oft ekki í önnur hús að venda á biðtímanum í Reykjavík. Sumir eiga þess kost að búa tímabundið í öðru sveitarfélagi á meðan það bíður en vill ekki gera það af ótta við að falla út af biðlistanum. Það er þess vegna leitt að velferðarráðið hafi ekki séð þetta sömu augum og borgarfulltrúi Flokks fólksins. Það skilyrði að hafa búið á Íslandi stærsta hluta ævi sinnar getur vel dugað í þessu tilliti.  Flokkur fólksins telur best að fá endanlegt álit á þessu atriði hjá Umboðsmanni Alþingis.