Borgarstjórn Reykjavíkur
20. desember 2022
Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins við umræðu um framtíðarþjónustu við eldra fólk í Reykjavík
Hvernig viljum við sjá þjónustuna þróast, stefnur, áherslur og hver verður þörfin og hvernig viljum við sjá þjónustu við aldraða þróast?
Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda tillagna til að bæta þjónustu við eldra fólk í Reykjavík, bæði þá sem eru á hjúkrunarheimilum og sem búa heima. Einnig hafa verið lagðar fram tillögur um að fjölga þjónustuþáttum við eldra fólki sem býr heima.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins mun ræða sérstaklega um stuðningsþjónustu og nýjar reglur um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fólk.
Stoð- og stuðningsþjónusta er annars vegar praktísk og hins vegar sálfélagslegur stuðningur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins mun ræða aðstoðina sem þjónustuþeginn þarf. Sú þjónusta á að koma auðveldlega til þjónustuþegans að mati Flokks fólksins og um hana á aldrei að þurfa að vera barátta eða ágreiningur. Áður en þjónustan hefst er gert mat á stuðningsþörf. Flokkur fólksins bendir á að þörf á stuðningi getur breyst hratt. Sem dæmi getur eldri einstaklingur verið metinn á einhverjum tímapunkti að hann geti farið út með rusl, skipt á rúmi eða hengt upp þvott. En það getur breyst í einu vettvangi. Reynslan á mati er að oft líður langt á milli matsins. Helst þyrfti að vera árlegt mat og jafnvel oftar eftir atvikum. Bæði sjón, heyrn og hreyfing breytist árlega eins og gengur þegar komið er á þennan aldur. Kvartanir hafa borist til borgarfulltrúa um að eftir að reglum var breytt hefur fólki verið ætlað að gera hluti sem það hefur ekki lengur getu til. Þetta þarf að skoða og ræða opinskátt.
Ef það að búa heima á að vera alvöru kostur þarf að bæta ýmsum nýjum þjónustuþáttum við og hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt fram tillögur að hugmyndum um nýja þjónustuþætti. Þjónusta þarf einnig að vera um helgar og á rauðum dögum ef þess er þörf en dæmi er um að miklir erfiðleikar hafa verið að fá t.d. aðstoð við böðun lendi þjónustan á rauðum degi.
Í nýrri rannsókn Berglindar Blöndal á aðstæðum aldraðra kemur fram að þunglyndi og einmanaleiki einkenndi þátttakendur rannsóknarinnar og voru sumir einnig vannærðir. Fleiri rannsóknir hafa sýnt að þunglyndi og einmanaleiki einkenna þennan viðkvæma hóp sem gefur til kynna að hlúa þurfi vel að honum. Einmanaleiki háir sérstaklega þeim sem búa einir. Sumir eldri borgarar sem búa einir eiga ekki ættingja eða vini sem þeir geta leitað til eftir aðstoð með þætti sem þjónusta velferðarsviðs býður ekki upp á. Þessi hópur er einnig sennilega sá sem minnst er tæknivæddur og ekki allir nota þá velferðartækni sem er þó í boði og hefur vissulega gagnast mörgum.
Ein tillaga frá fulltrúa Flokks fólksins um að koma á laggirnar sálfélagslegu meðferðarúrræði fyrir eldri borgara á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum til að draga úr einmanaleika og notkun geðlyfja vegna dapurleika, kvíða og einmanaleika var vísað til velferðarráðs með öllum greiddum atkvæðum á fundi borgarstjórnar 2. febrúar 2021. Þar var tillagan felld. Líðan eldra fólks er misgóð enda aðstæður þeirra mismunandi. Huga þarf að hverjum og einum út frá einstaklingsþörfum og áhuga.
Hér að ofan er brot af þeim atriðum sem borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ræða undir þessum lið á fundi borgarstjórnar 21. Desember.
Bókun Flokks fólksins við umræðunni:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill sjá þjónustu við eldra fólk í Reykjavík með talsvert öðrum hætti en nú er. Eldra fólk í Reykjavík hefur mætt afgangi með margt þegar horft er til þjónustuþátta og nú er t.d. verið að skerða þjónustusamning við þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara við Sléttuveg 25-27. Biðlistar eftir heimaþjónustu er rótgróið mein og er dæmi um að fólk sé fast á sjúkrahúsi sökum manneklu í heimaþjónustu.
Frumskilyrði er að hafa eins mörg hjúkrunarheimilisrými og þarf fyrir þá sem þarfnast víðtækrar umönnunar. Öll hjúkrunarheimili ættu að vera rekin eftir Eden hugmyndafræðinni sem gengur út á nálægð og tengsl við lífríkið. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu þess efnis í borgarstjórn.
Það þurfa líka að vera til fjölbreyttir þjónustukjarnar víðar um borgina en nú er. Það þarf að styðja fólk við að vera heima eins lengi og það mögulega getur og vill. Til þess þarf að dýpka og fjölga þjónustuþáttum. Enda þótt velferðartækni hjálpi mörgum er ákveðinn hópur einmana og dapur. Sumt eldra fólk tekur geðdeyfðarlyf vegna depurðar sem afleiðing einsemdar. Flokkur fólksins lagði fram tillögu um aukinn sálfélagslegan stuðning fyrir eldri borgara en henni var hafnað. Ekkert kemur í staðin fyrir nálægð, samtal, samverustundir og afþreyingu.
Bókun Flokks fólksins við fundargerðalið borgarráðs:
Liður 2 sameining ÍTR og MOF
Í þessu tilfelli er ekki skýrt hver hagræðingin verður með sameiningunni. Sameiningin mun hafa í för með sér útgjöld. Undirbúa á nýja aðstöðu fyrir sameiginlegt svið í Borgartúni. Flokkur fólksins vill benda á kolefnisspor í þessu sambandi og að það er í lagi nota eldri búnað. Gæði þjónustu er ekki tengd einhverjum fínheitum eða glamúr. Búið er að ráða hönnuði sem öllu jafna kalla á mikil útgjöld. Mörg dæmi eru um að „“svona vegferð““ beri með sér fyrirsjáanlega hagræðingu og sparnað en síðan hefst „þensla“ í kringum hið nýja verkefni. Þegar upp er staðið verður sparnaður enginn. Fyrir liggur að fjárhagur borgarinnar er kominn á heljarþröm.
Liður 6 gjaldskrá hunda
Gjaldskrá fyrir hundahald er hækkað verulega
Meirihlutinn leggur til að gjaldið fyrir að halda hund verði 15.700 í stað 10.300 á ári. Ekki á að rukka gjald á skráningarári en það var 2200 kr. Eins og fulltrúi Flokks fólksins skilur þetta þá er gulrótin sú til að fá hundaeigendur til að skrá hunda sína þar sem ekki verður rukkað árgjald fyrsta skráningarár hunds. ATH. Að hér er ekki um neina lækkun að ræða fyrir hundaeigendur þótt kerfið sé einfaldað.
Bókun Flokks fólksins við fundargerðarlið:
Liður 1
Fulltrúa Flokks fólksins þykir miður hvernig komið er í skólamálum í Staðahverfi. Á síðasta kjörtímabili stóð þáverandi meirihluti borgarstjórnar fyrir því að loka eina grunnskólanum í Staðahverfi, Korpuskóla, og í ár hafa málefni leikskólans í Staðahverfi, Bakka, verið mikið til umfjöllunar. Nú stefnir í einkarekstur sem eins konar „neyðarúrræði“ vegna fámennis í Staðahverfi þrátt fyrir að margir foreldrar hafi sótt um að fá pláss fyrir börn sín en verið synjað. Hluti af vandræða ganginum er sagður vera mannekla. Þrátt fyrir það tilkynnti meirihlutinn við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar að segja ætti upp starfsfólki á leikskólum sem ráðnir höfðu verið sérstaklega til að annast hólfun í COVID. Það er ekki ljóst hvað er rétt og hvað er rangt í starfsmannamálum leikskóla borgarinnar. Er mannekla eða ekki? Þetta mál lyktar sérkennilega. Mjög líklega er fyrir löngu búið að ákveða að einkavæða þennan leikskóla. Sé fámenni og mannekla er líklegt að sá vandi loði við einkarekstur jafnt sem annars konar rekstrarfyrirkomulag nema launin í einkareknum leikskóla sé þeim mun hærri en í borgarreknum leikskólum.