Borgarstjórn 21. desember 2021

Tillaga Flokks fólksins um skipulagða byggð fyrir eldra fólk
Eldumst heima – sérstök uppbygging svæða

Fjölgun eldri íbúa er eitt af þeim verkefnum sem Reykjavíkurborg þarf að takast á við. Hugmyndir nútímans ganga út á að eldra fólk geti búið sem lengst í eigin húsæði og það er hlutverk okkar í Reykjavíkurborg að aðstoða og skipuleggja slíka byggð.

Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hefur ekki verið hugsaður til slíks. Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Þar þarf að hugsa til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. Með slíku er hægt að styðja við að eldast heima.

Ýmis vandamál geta komið í veg fyrir það að eldra fólki líði vel í núverandi húsakynnum. Húsnæðið getur verið of stórt, of dýrt sé að flytja, fólkið vill komast í rólegt umhverfi, langt er í þjónustu við eldri borgara o.s.frv. Þetta er atriði sem við í Flokkur fólksins viljum taka á.

Greinargerð:

Tillaga Flokks fólksins er sú að svæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þarfir eldra fólks. Svæðin verði skilgreind sem plús 60 og jafnvel plús 75 og eingöngu hugsuð út frá þeirra þörfum.

Engin þörf væri fyrir uppbyggingu leik- og grunnskóla eða aðra þjónustu sem hugsuð er fyrir börn og barnafjölskyldur. Einblínt yrði á t.d. útisvæði með mini golfi, skemmtilegum garði eins og Hellisgerði, innisvæði þar sem hægt yrði að koma fyrir verkefnastofu, sameiginlegu svæði, aðstöðu fyrir heimahjúkrun o.s.frv. Svæðið verður að höfða til eldri borgara og hvetja til útivsitar og tómstunda. Aðkoma félaga eldri borgara yrði hér afar mikilvæg. Hugsa mætti sér  minni sérbýli sérhönnuð fyrir þarfir eldri borgara með miðlægum þjónustukjarna. Gönguleiðir og strætisvagnaleiðir yrðu vel hugsaðar með upphituðum skýlum. Gæta yrði að öryggismálum í hvívetna.

Flokkur fólksins leggur til að efnt verði til samkeppni meðal arkitektastofa þar sem að þeim er gefinn kostur á að skipuleggja svæði annars vegar fyrir 60 plús íbúa og hins vegar fyrir 75 plús íbúa. Fyrra svæðið yrði þá með meiri útisvistarmöguleikum en síðara með meiri nærþjónustu eins og heimahjúkrun og sameiginlegu þjónusturými.

Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um skipulagða byggð fyrir eldra fólk:

Tillögu Flokks fólksins um skipulagða byggð fyrir eldra fólk hefur verið felld nánast með þeim rökum að þetta sé ekki það sem þessi hópur þarf né vill.
Tillagan gekk út á að farið yrði í samkeppni um sérstaka uppbyggingu svæða víðs vegar sem yrði sérsniðið fyrir eldra fólk. Markmiðið er að gefa sem flestum tækifæri til að geta elst heima hjá sér við góðar aðstæður og er það hlutverk Reykjavíkurborgar að aðstoða og skipuleggja slíka byggð.
Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hefur ekki verið hugsaður til slíks. Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Það þarf að hugsa til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. Þjóðin er að eldast og því þurfi að horfa til þess hvernig Reykjavíkurborg ætlar sér að þjónusta eldri borgara sem best. Það er ekki seinna vænna en að fara að hugsa það strax.
Borgarskipulag á að vera lifandi, breytilegt og taka tilliti til allra hópa. Ef að ekki er hugsað til þarfa eldri borgara strax í skipulagi er slíkt einungis ávísun á óþarfa vandamál síðar meir. Flokkur fólksins hefur þegar kynnt þetta mál og rætt við hagsmunasamtök og hugnast mörgum svæði sem þessi.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um deiliskipulag Elliðaárvogs – Ártúnshöfða – svæði 1, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. desember 2021:

Fram kemur í gögnum að byggja á allt að 8.000 íbúðir þegar allt er komið og er markmið deiliskipulagsins að „sjá til þess að uppbygging svæðisins hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki svæðisins og lágmarka á sjónmengun frá ofanvatnskerfinu í viðtaka, við árbakka Elliðaáa og strandlengju Elliðaárvogs.“ Hér er um öfugmæli að ræða að mati fulltrúa Flokks fólksins. Uppbyggingin eins og hún er hér framsett mun einmitt hafa mikil áhrif á lífríkið. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Það á að vera hægt að skipuleggja án þess að þurfa alltaf að ganga á fjörur. Hætta ætti því við landfyllingar. Þétting byggðar tekur of mikinn toll af náttúru. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverðum ósasvæðum hennar. Allt of mikið er manngert, búin til gerviveröld. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Fáar ósnortnar fjörur eru eftir í Reykjavík. Árbakkarnir til sjávar meðfram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á borgarlína að skera Geirsnef í tvennt og sá möguleiki því ekki lengur til. Forsendur fyrir þéttingu byggðar eiga ekki að byggjast á að raska lífríkustu svæðum Reykjavíkur.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu  borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins  að myndaður verði formlegur samráðsvettvangur milli Reykjavíkurborgar og aðila vinnumarkaðarins um skipulags- og samgöngumál:

Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögu um samráðshóp um húsnæðisuppbyggingu og samgöngur með fyrirvara um að allir stjórnmálaflokkar borgarstjórnar hefðu þar aðkomu auk fulltrúa frá atvinnulífinu, verkalýðshreyfingunni, öðrum samtökum sem nefnd eru í tillögunni og jafnvel fleirum.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að Skóla- og frístundasviði verði falið að búa til aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar:

Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir ræðu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks og tekur einnig undir margt í bókun meirihlutans í þessu máli. Þetta eru flókin mál og afar viðkvæm. Sýnilegir verkferlar eru afar mikilvægir. Á þessari vakt megum við aldrei sofna.


Bókun Flokks fólksins undar lið 11 við fundargerð 16. desember 2021.

Reykjavíkurborg er beðin um að veita Strætó bs. ábyrgð með veði í útsvarstekjum borgarsjóðs vegna lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð 400.000 þ.kr og vegna lántöku hjá Arion banka hf. að fjárhæð 300.000 þ.kr. Staða Strætó er alvarleg og það er áhyggjuefni. Fram undan eru lántökur upp á 700 milljónir. Minna má á að A-hlutinn er fjárhagslegur bakhjarl fyrirtækja borgarinnar ef í harðbakka slær. Ítrekað hefur verið óskað eftir því að borgarráð samþykki veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til tryggingar á ábyrgð bs. fyrirtækja. Þetta þarf að horfa á, ekki síst í ljósi þess að fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er óviðunandi. Gert er ráð fyrir sjö milljörðum í halla hjá A-hlutanum. Veltufé frá rekstri er neikvætt sem þýðir að tekjur A-hlutans nægja ekki til að greiða útgjöld hans.

 

Bókun Flokks fólksins undir 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 16. desember og 16. og 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 14. desember:

Samkvæmt 3. gr. samþykktar segir: „Þá fer mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð með það verkefni að hafa umsjón með stafrænni umbreytingu“, Fulltrúa Flokks fólksins líst illa á þetta því skort hefur alla gagnrýna hugsun um hvernig verkefnum er forgangsraðað og fé sóað í tilraunir á gæluverkefnum. Allt sem kemur frá ÞON er samþykkt gagnrýnislaust. Fundargerð skóla- og frístundaráðs 14. desember, liður 16: Við lestur svarsins um fjárhagslegan ávinning við sameiningu skóla í norðanverðum Grafarvogi fæst sú upplifun að allir séu ánægðir með þetta fyrirkomulag og breytingar hafi heppnast vel. Hvergi kemur t.d. fram hvað breytingar á mannvirkjum og umferðarmannvirkjum vegna sameiningarinnar kostuðu. Hægt gekk að fá samgöngurnar í lag og nú eru börnin keyrð á milli hverfa. Borgin vill draga úr umferð og mengun, svo þetta er ákveðin þversögn. Liður 18: Það er léttir að fá það staðfest að engum áskriftum á skólamáltíðum hefur verið sagt upp vegna vanskila sem þýðir þá að börn fá að borða þótt foreldrar séu með áskriftina í vanskilum. Af 9.514 útgefnum reikningum í hverjum mánuði fóru 4,2% til Momentum og voru 1,5% ennþá ógreiddir þann 1. nóvember 2021. Ef foreldrar geta ekki greitt safnast dráttarvextir sem elta fátæka foreldra næstu árin.