Borgarstjórn 18. maí 2021

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að auknu fjármagni verði veitt til að sporna við klámáhorfi grunnskólabarna

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að veita auknu fjármagni  til skólanna þ.e. kennara og starfsfólk frístundaheimila og Ráðgjafateymis um kynferðisofbeldi í skóla- og frístundastarfi (Jafnréttisskólans) til að efla fræðslu og forvarnir grunnskólabarna um skaðsemi og afleiðingar klámáhorfs. Þetta er lagt til í ljósi niðurstaðna könnunar um klám og klámáhorf grunnskólabarna sem Rannsókn og greining birti í febrúar 2021. Niðurstöður sýna að um 30% stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir og um 6% hafa selt slíkar myndir. Um  24% stráka í 10. bekk hafa verið beðin um að senda slíka mynd og 15% hafa gert slíkt.
Styðja þarf jafnframt við bakið á samtökum s.s.  Heimili og skóla (Landssamtök foreldra) sem reka einnig SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) og Samfok (Svæðissamtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík). Markhópur þessara samtaka eru foreldrar/forsjáraðilar. Markmiðið er að veita þeim fræðslu og stuðning m.a. með því að halda málþing og námskeið. Skóla- og frístundasvið, skólastjórnendur, starfsfólk frístundaheimila og hagsmunasamtök barna og foreldra þurfa nú að taka höndum saman með það að markmiði að stuðla að vitundarvakningu og styrkja foreldra til að setja börnum sínum viðeigandi reglur og fylgjast grannt með net- og tölvunotkun barna sinna.

Greinargerð

Niðurstöður Rannsóknar og greiningar komu flestum á óvart. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að kennarar og starfsfólk frístundaheimila, Ráðgjafateymi um kynferðisofbeldi (Jafnréttisskólinn) og samtök sem standa vörð um hagsmuni foreldra og barna fái aukinn fjárhagslegan stuðning og ekki síður móralskan stuðning til að sporna við klámáhorfi grunnskólabarna.

Til að spyrna við fótum við þessari vá sem niðurstöður könnunar Greiningar og ráðgjafar sýna þarf aukið fjármagn úr borgarsjóði svo efla megi fræðslu og forvarnir til þeirra aðila og samtaka sem sinna því hlutverki.  Það er í höndum skóla- og frístundaráðs/sviðs í samvinnu við skólana, starfsfólks frístundaheimila og Jafnréttisskólans að meta hversu mikið viðbótarfjármagn er nauðsynlegt til að geta gert enn betur í forvörnum og fræðslu í ljósi þessara niðurstaðna.

Víða er unnið gott starf bæði í skólum, af fagteymi á vegum borgarinnar og samtökum foreldra og barna.  Í skólum eru kennarar og frístundafólk að takast á við þessi mál þegar þau koma upp. Styrkja þarf innviði skólanna til að geta sinnt forvörnum í auknum mæli og tekið á málum sem kunna að koma upp. Tryggja ber einnig að kennarar og starfsfólk frístundaheimila eigi vísan stuðning og fræðslu hjá skóla- og frístundasviði. Með auknu fjármagni mætti einnig efla starf Ráðgjafateymis og Jafnréttisskólans svo hægt sé að fjölga fyrirlestrum og námskeiðum um m.a. klám og ofbeldi.

Meginniðurstöður könnunar Rannsóknar og greiningar voru að um þrjátíu prósent stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir og/eða nektarmyndir.
Um 6 prósent nemenda í 10. bekk hafa selt slíkar myndir.
Um 5 prósent stúlkna í 10. bekk á Íslandi hafa verið beðnar um að senda af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir í gegnum netið. Þriðjungur stúlkna hefur sent slíkar myndir.
Alls hafa 24 prósent stráka í 10. bekk verið beðin um að senda slíka mynd og 15 prósent 
hafa gert slíkt. Um  2,2 prósent stráka í 10. bekk hafa sent slíka mynd gegn greiðslu en 3,8 prósent stúlkna á sama aldri Af þessu má sjá umfang  kynferðislegra myndsendinga meðal barna. Stór fjöldi ungmenna hefur sent ögrandi mynd eða nektarmynd gegn greiðslu.

Fræða þarf börn og ungmenni um þessi mál, hjálpa þeim að þjálfa gagnrýna hugsun og hvetja þau til að  „vingast“ ekki eða eiga í samskiptum á netinu við aðila sem þau vita ekki í raun hver er. Nú þarf að bregðast við af krafti sem aldrei fyrr með enn meiri fræðslu um t.d. hættuna sem fylgir því að þiggja greiðslu fyrir kynferðislegar myndsendingar.

Ástæður fyrir þessum geigvænlegu niðurstöðum eru flóknari en svo að þær verði reifaðar hér. Víst má þó telja að það er eitthvað að breytast varðandi viðhorf til þessara mála, ný norm hafa myndast. Hópur barna finnst þetta ekki tiltökumál en því miður eru þau ekki að átta sig á hættunni sem þessu fylgir og afleiðingum sem myndsendingunum, dreifingu og sölu geta fylgt.

Fram hefur komið hjá forstöðumanni Barnahúss að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafi 15 börn undir 15 ára aldri komið í Barnahús eftir að hafa sent kynferðislegar sjálfsmyndir. Þau voru innan við tíu allt árið í fyrra. Þetta sýnir að klámáhrif barna er að aukast mjög. Stundum hafa börnin verið þvinguð til að senda slíkar myndir og sláandi er að sjá hversu mörg barnanna hafa kynnst gerandanum í gegnum netið.

Það er mikið áfall fyrir foreldra að uppgötva að barnið þeirra hafi sent kynferðislegar sjálfsmyndir sem eru jafnvel komnar í sölu og dreifingu á netinu. Dreifing á myndum er líka gríðarlegt áfall og byrði fyrir unga manneskju. Þegar brotið er á ungu fólki eða börnum með þessum hætti er mikilvægt að bjóða upp á áfallahjálp, ráðgjöf og eftirfylgni til lengri tíma. Eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur marg ítrekað bráðvantar fleiri fagaðila hjá Skólaþjónustu borgarinnar sem anna engan veginn beiðnum um aðstoð. Nú bíða eftir þjónustu rúmlega 950 börn í það minnsta. Það er jafnframt hlutverk Skólaþjónustunnar að hlúa að foreldrum og styðja þá í foreldrahlutverkinu með viðtölum og námskeiðum. Hvetja þarf foreldra og leiðbeina þeim að setja viðeigandi reglur um net- og skjánotkun barna þeirra og gera kröfu um að fylgjast með hvað það er sem börnin þeirra eru að skoða á netinu og við hverja þau eru að hafa samskipti.

Spurt hefur verið um hvort foreldrar geti og eigi að hafa óheftan aðgang að snjalltækjum barna sinna. Á því leikur enginn vafi enda foreldrar ábyrgir fyrir hversu mikil net- og skjánotkun er á heimilinu. Margir foreldrar veigra sér hins vegar við því að setja reglur sér í lagi ef börn þeirra mótmæla slíku eftirliti.

Með samstilltu átaki má efla allt foreldrasamfélagið til að fylgja reglum. Umboðsmaður barna hefur m.a gefið út net- og skjáviðmið ásamt leiðbeiningum fyrir foreldra.  Foreldrar verða að þora að fara eftir viðmiðunum og vera vakandi yfir við hverja börn þeirra eru að vingast. Foreldri sem er forvitinn og afskiptasamur er foreldri sem sýnir ábyrgð þegar kemur að þessum erfiðu málum.

Mikilvægt er að foreldrar virði aldurstakmörk leikja og samfélagsmiðla og séu að sjálfsögðu sjálfir góðar fyrirmyndir. Það eru aldurstakmörk á samfélagsmiðlum og þau eru ekki sett að ástæðulausu. Foreldrar og ungmenni þurfa að eiga samtal um netið og skjánotkun. Best af öllu er ef hægt er að sammælast um reglur og jafnvægi.

Styðja þarf við kennara og starfsfólk frístundaheimila sem eru lykilaðilar á vettvangi til að takast á við vandann sem við blasir.  Námskeið eða annað inngrip Jafnréttisskólans og fagteymis hans koma að miklu gagni. Heimili og skóli (SAFT), Samfok og Barnaheill á Íslandi vinna einnig ómetanlegt starf með ábendingum sínum, fræðslu og hvatningu. Það er því afar mikilvægt að einskis verði látið ófreistað til að snúa við þeirri þróun sem sýnilega hefur orðið og færa hana til betri vegar. Hér má einnig nefna áhrif fjölmiðlanna. Fjölmiðlar gegna ábyrgðarhlutverki í þessari umræðu sem og annarri.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu tillögunnar en henni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að auknu fjármagni verði veitt til að efla fræðslu og forvarnir grunnskólabarna um skaðsemi og afleiðingar klámáhorfs hefur verið vísað frá með rökum sem reyndar eru fulltrúa Flokks fólksins ekki ljós. Tillagan er lögð fram í ljósi niðurstaðna könnunar um klám og klámáhorf grunnskólabarna sem Rannsókn og greining birti í febrúar 2021. Niðurstöður sýna að um 30% stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir og um 24% stráka í 10. bekk hafa verið beðin um að senda slíka mynd. Ljóst er af þessum niðurstöðum að við höfum sofnað á verðinum. Það er ábyrgð okkar að sjá til þess að börn fái þjálfun að viðhafa gagnrýna hugsun og hvetja þau til að „vingast“ ekki eða eiga í samskiptum á netinu við aðila sem þau vita ekki í raun hver er. Það er áfall fyrir foreldra að uppgötva að barnið þeirra hafi sent kynferðislegar sjálfsmyndir sem eru jafnvel komnar í sölu og dreifingu á netinu. Að hafa dreift sjálfsmynd sem komin er í dreifingu er einnig byrði fyrir unga manneskju. Eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur áður sagt er biðlisti hjá Skólaþjónustunni í sögulegu hámarki en nú bíða 1033 börn eftir aðstoð fagaðila vegna ýmissa vandamála og vanlíðunar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Unnið er að forvörnum vegna klámáhorfs barna á vettvangi ofbeldisvarnarnefndar, Jafnréttisskólans og sem hluta af heilsueflandi skóla. Þessi tillaga er því í vinnslu á ýmsum stöðum innan borgarkerfisins og því rétt að vísa henni frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins telur að megi gera betur í þessum málum og sérstaklega styðja við innviði skóla- og frístundafólks. Til er fjármagn í borgarsjóði sem vert væri að setja í þennan málaflokk nú þegar ljóst er að við sem samfélag og borg höfum sofnað á verðinum eins og niðurstöður Rannsóknar og greiningu sýna í þessum málum.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Umræða um innleiðingu menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030:

Margt er gott í þessari stefnu en stefna leysir engin vandamál nema henni sé fylgt eftir með framkvæmdum. Mestu skiptir að börn stundi nám þar sem þeim líður vel og mæta þarf þörfum allra barna. En það er ekki raunin á vakt þessa né síðasta meirihluta. Flokkur fólksins greiddi atkvæði með stefnunni á sínum tíma í þeirri von að tekist væri á við það sem þarf að bæta. Vandinn er m.a. að skólaþjónustan er sprungin og ekki er hreyfður fingur til að bæta þar úr þrátt fyrir hávært ákall. Nú bíða 1033 börn eftir þjónustu. „Skóli án aðgreiningar“ fær ekki nægt fé til að bera nafnið með rentu. Ekki öll börn stunda nám þar sem þau finna sig meðal jafningja. Sérskólaúrræðin eru löngu yfirfull. Mikið álag er á mörgum kennurum/sérkennurum og starfsfólki. Ekki eru samræmdar árangursmælingar á hvort sérkennsla skilar sér. „Snemmtæk íhlutun“ er auðvitað sjálfsagt mál og hefur alltaf verið en kemur ekki í staðinn fyrir sértækar greiningar. Hætta er á að barni sé ekki veitt rétt meðferð ef vandi þess er ekki greindur með gagnreyndum mælitækjum. Samkvæmt PISA 2018 lesa um 34% drengja um 15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings hefur fjölgað hlutfallslega.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hefja skipulagsundirbúning m.a. við Arnarnesveg:

Fulltrúi Flokks fólksins hefði ekki getað samþykkt þessa tillögu vegna þessa að í henni er verið að reka á eftir að ljúka skipulagsvinnu Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut. Fyrirhugaðar framkvæmdir við Arnarnesveg hafa verið kærðar af vinum Vatnsendahvarfs og afgreiða verður kærumál áður en framkvæmdir hefjast. Hagur borgarinnar af þessari framkvæmd er lítill, en ókostir eru margir. Þúsundir fugla, þar á meðal lóur, hrossagaukar og spóar verpa á svæðinu og verulega er þrengt að fyrirhuguðum vetrargarði og framtíðarþróun hans er því í uppnámi. Byggja á framkvæmdina á 18 ára umhverfismati. Lögfræðingur Vegagerðarinnar reynir að fá kærunni vísað frá á þeim rökum að vinir Vatnsendahvarfs séu ekki skráð hagsmunasamtök. Því er velt upp hvort fólk sem „dílar og vílar“ með þetta svæði hafi ekki séð það með eigin augum heldur skoði það aðeins á kortum. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur sem flesta til að koma á staðinn og sjá hvernig landið liggur. Á sama tíma og þetta er að gerjast talar meirihlutinn um grænar áherslur, aukið gildi náttúruverndar og útivistar. Engu að síður er búið að kvitta upp á að setja hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarfið og ekki aðeins skaða lífríkið heldur er brautin einnig ofan í leiksvæði barna, skíðalyftunni og svo auðvitað væntanlegum vetrargarði.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum við tillögu Miðflokksins að hefja nú þegar deiliskipulag fyrir blandaða byggð í Úlfarsárdal. Áhersla verði lögð á blandaða byggð – sérbýli og fjölbýli:

Umræðan um Úlfarsárdal, blandaða byggð, hefur verið gagnleg og vill fulltrúi Flokks fólksins nefna nokkur atriði í tengslum við þetta hverfi en mikið hefur gengið þar á að undanförnu. Kærur hafa verið allt of margar. Uppbygging sumra lóða hefur tafist og eru þær lóðir jafnvel notaðar fyrir byggingarúrgang. Skoða þarf umferðaröryggi, ljósastýringu, lýsingu, þveranir, göngu- og hjólastíga en íbúar, margir hverjir, hafa lýst áhyggjum sínum af þessum þáttum. Kvartað hefur verið yfir að tilfelli eru um að verið sé að breyta gildandi skipulagi eftir á, t.d. minnka bil á milli húsa og byggja ofan á hús sem ekki stóð til að yrðu hærri og þar með skerða útsýni frá næstu húsum. Einnig eru kvartanir vegna synjunar skipulagsyfirvalda án sýnilegra raka, t.d. stækkun glugga, framkvæmdir sem enginn hefur mótmælt og hefur ekki áhrif á umhverfið. Skipulagsyfirvöld verða að taka tillit til íbúa, þótt uppbygging sé á valdi þeirra. Húsnæði í þessu nýja hverfi er nokkuð einsleitt. Fram hefur komið hjá fulltrúa meirihlutans að til séu lóðir á þessu svæði sem bjóða upp á meira rými umhverfis, lóðir sem ekki hafa gengið út. Það er ánægjulegt að heyra þótt heyrst hafi annað, að ekki sé hægt að fá slíkar lóðir í þessu hverfi.

Bókun Flokks fólksins við tillögu  (J)  að vinna aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að vinna aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni sem hér er lögð fram af Sósíalistaflokki. Tillögunni er hins vegar vísað frá. Í þessum málaflokki er seint nóg gert. Það er ekki nóg að hlusta aðeins heldur þarf að bregðast við. Viðbrögð í formi viðeigandi stuðnings, fræðslu og eftirfylgni mála. Ekki nægir að leggja fram aðgerðaáætlanir ef þær eru ekki innleiddar. En mótun aðgerðaáætlunar er fyrsta skrefið. Ofbeldi er í mörgum birtingamyndum og er einelti þar með talið. Af og til koma fram upplýsingar um einelti sem viðgengst hefur á einstaka vinnustöðum borgarinnar. Kjörnir fulltrúar vita oftast lítið sem ekkert hvernig gengur að vinna úr þeim málum, því miður. Í þeirri bylgju sem nú er í hæstu hæðum hafa fjölmargir þolendur stigið fram og greint opinberlega frá reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi og samfélagslegu. Gerendur hafa einnig stigið fram og hugtakið gerendameðvirkni er nýtt sem mun opna fyrir nýjan skilning og nýjan vinkil á þessum erfiðu málum. Í öllum samfélögum er eitthvað ofbeldi en ótal margt er hægt að gera til að vinna að því að það dragi úr ofbeldi. Reykjavíkurborg er hér stór ábyrgðaraðili.

Stefna Flokks fólksins í málefnum sem lúta að kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni:   

Flokkur fólksins hefur skýra afstöðu á sinni stefnuskrá að uppræta skuli með öllum ráðum allt ofbeldi og áreitni. Flokkurinn hvorki umber né líður ofbeldi af neinu tagi. Flokkur fólksins er stofnaður m.a. til að berjast fyrir bættum hag barna, eldri borgara og öryrkja og til að útrýma fátækt. Börn sem alast upp við heimilisofbeldi sem fær að viðgangast óáreitt bíða þess aldrei bætur. Flokkur fólksins vill að umfjöllun um ofbeldi gegn öldruðum fari inn á svið stjórnmála enda hagur eldri borgara í svo mörgum efnum mótaður af ákvörðunum stjórnvalda. Flokkur fólksins mun styðja heilshugar aukna fræðslu til ólíkra hópa, barna og fullorðinna og annað sem er til þess fallið að sporna við ofbeldishegðun af hverju tagi, kynbundnu, kynferðislegu, einelti eða öðru.

Stefna Flokks fólksins í málum sem lúta að fjölþættri mismunun og jafnrétti í víðum skilningi.

Flokkur fólksins vill uppræta fjölþætta mismunun og tryggja jafna stöðu fólks óháð kyni, fötlun, uppruna, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu, aldri, búsetu og lífsskoðun. Flokkur fólksins fordæmir alla mismunun hvort heldur hún eigi rætur að rekja til stöðu, kynja, fötlun, aldurs, búsetu eða lífsskoðun. Flokkur fólksins er stofnaður til að útrýma hvers lags mismunun og hefur sett áhersluna á fátækt fólk, fátæka foreldra og börn þeirra, öryrkja og eldri borgara sem beittir eru óréttlæti í samfélaginu og verða ítrekað fyrir barðinu á ósveigjanlegu kerfi sem neitar að taka tillit til aðstæðna hverju sinni. Flokkur fólksins berst fyrir fullum réttindum fyrir  lágmarksréttindum sínum með blóði svita og tárum. Við munum á engum tímapunkti sporna við eða hafna aðgerðum sem stuðla að jafnri stöðu fólks. Flokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu og því oft erfitt að ná fram breytinum.  Flokkur fólksins berst fyrir allt fólk enda er kjörorð okkar „Fólkið fyrst, og svo allt hitt.“

Flokkur fólksins berst fyrir að leiðrétta kynj
að kjaramisrétti, bæta aðstæður kvennastétta og leiðrétta ójafna umönnunarábyrgð.

Flokkur fólksins hefur barist gegn aðhaldskröfum ríkisstjórnarinnar. Slíkar kröfur gera það að verkum að stjórnendur neyðast til að fækka starfsfólki og samhliða eykst álag á þá sem eftir eru. Ríkið á ekki að mæta erfiðleikum með því að fækka starfsfólki á sama tíma og neyðarástand ríkir í heilbrigðiskerfinu. Við viljum fara í þveröfuga átt og laga mannekluvandann víðsvegar í opinberum rekstri með því að borga samkeppnishæf laun. Við megum ekki við því sem samfélag að missa allt okkar hæfasta fólk til annarra landa vegna þess að launin eru ekki samkeppnishæf á Íslandi. Við eigum að borga starfsfólki í umönnunar og menntastörfum sanngjörn laun. Í þessum störfum eru konur í miklum meirihluta.  Þessar stéttir verða ítrekað eftir á í kjarasamningalotum og ítrekað er farið á svig við réttindi fólks í þessum stéttum með því að ráða ófaglært fólk í stað þess að takast á við hinn raunverulega vanda, sem er að launin endurspegla ekki sanngjarnt endurgjald fyrir starfsálag.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð borgarráðs frá 6. maí undir liðnum Laugardalur og Vogabyggð, deiliskipulag:

Liður 4: Fulltrúi Flokks fólksins hefur stutt þetta úrræði enda þurfa allir að eiga þak yfir höfuð og það er einmitt eitt af baráttumálum Flokks fólksins Það er þó afar mikilvægt að vandað sé til þessa úrræðis með þeim hætti að eitt af húsunum á hverjum stað verði frátekið fyrir starfsmann sem verði á sólarhringsvakt til að styðja við einstaklingana í þeirra nýja umhverfi. Um er að ræða einstaklinga með fjölþættan vanda og þurfa einhverjir þeirra bæði mikla þjónustu og stuðning. Hér er mikilvægt að velferðarsvið bregðist ekki skyldum sínum ella er hætta á að þetta úrræði sem búið er að leggja mikið í mistakist. 6. liður: Krafa um að hafa berjarunna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur skilning á að þegar hanna á hverfi sé reynt að stíla inn á ákveðið heildarútlit. Gæta þarf þess að fara ekki út í öfgar með slíkt eins og gerst hefur í þessu máli sem fjallar um að íbúar eru neyddir til að hafa gróðurþekjur og berjarunna innan sérafnotareita íbúða sinna. Hér hefðu mátt vera tilmæli en sannarlega ekki gera kröfur um slíkt. Um er að ræða lítinn reit sem sjálfsagt er að leyfa fólki að ráða hvernig er skipulagt. Íþyngjandi kröfur af hálfu borgarinnar eru forræðishyggja.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. maí undir 9. og 10. lið:

Nú liggur fyrir gjaldskrá sumarnámskeiða í Fjölskyldugarðinum. Hálfsdags námskeið í 5 daga hækkar og kostar nú 19.400 og 4 daga 15.500. Í þessi námskeið er ekki hægt að nota frístundakortið. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt það til að opnað verði fyrir að nota frístundakortið á sumarnámskeið m.a. Kortið er langt því frá að vera fullnýtt allt niður í 65% til 70% í einstaka hverfum. Reglurnar voru endurskoðaðar í haust og viðmiðið lækkað úr 10 vikum í 8 vikur. En sú breyting nær skammt. Hópur foreldra er svo bágstaddur að þeir hafa þurft að nota frístundakort barns síns til að greiða frístundaheimili. Væri ekki nær að leyfa þessum börnum að nota sjálf sinn rétt til kortsins á t.d. sumarnámskeið og styrkja foreldrana sem hér um ræðir sérstaklega til að greiða gjald frístundaheimilis samkvæmt gr. 16 grein b í reglum um fjárhagsaðstoð? Liður 9, gjaldskrá hunda. Að innheimta hundagjald og hafa skráningar er óviðunandi og ósanngjarnt ef horft er til þessa hóps sem heldur gæludýr. Vissulega hefur orðið einhver þróun til betri áttar, t.d. eru störf dýraþjónustunnar nú eilítið gagnsærri en áður. Þróun þessara mála í borginni er afar hæg borið saman við aðrar borgir.