Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð

Bókun Flokks fólksins við umræðu um tillögu stýrihóps um innleiðingu íbúaráða:

Engin gögn fylgdu með málinu Tillögur stýrihóps um innleiðingu íbúaráða þannig að ekki var hægt að kynna sér þær fyrir fundinn. Hér er um að ræða stórt mál og mjög mikilvægt að fulltrúar geti kynnt sér tillögurnar og rökin fyrir þeim til að þeir geti verið umræðuhæfir um málið. Margt hefur án efa gengið vel með íbúaráðin en sumt alls ekki. Íbúar sjálfir hafa margir sagt að þeir hafi átt erfitt með að ná til íbúaráðanna og að ekki hafi verið á þá hlustað. Nærtækast er að taka dæmi um íbúaráð Breiðholts. Þar var ítrekað reynt að koma máli inn í ráðið til að fjalla um, sem er fyrirhugaður 3. áfangi Arnarnesvegar. Vinir Vatnsendahvarfs reyndu að fá sett á dagskrá íbúaráðs Breiðholts umræðu um nauðsyn þess að fá nýtt umhverfismat í stað þess að byggja eigi á 18 ára gömlu mati. Meirihlutinn í ráðunum er valinn af meirihlutanum í borginni og það má ekki vera þannig að erfitt eða ómögulegt verði að koma málum á dagskrá ef meirihlutanum í borginni hugnast þau ekki. Í stuttu máli eru ráðin, mörg hver, í allt of litlum tengslum við hverfin og íbúa hverfanna eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst.

 

Bókun Flokks fólksins um kynningu á leikvöllum Reykjavíkurborgar og algildri hönnun:

Kynning er á algildri hönnun á leiksvæðum og almenningsrýmum. Ekki kemur nægjanlega skýrt fram hver skilgreining er á algildri hönnun. Er hér átt við að hönnunin sé þannig að allir hafi aðgengi að tækjum/svæðum þ.m.t. fatlaðir þ.e. fólk með mismunandi þarfir? Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort hér sé einna helst hugsað um aðgengi og  rými. Umhverfis- og skipulagssvið í samvinnu við Vegagerðina létu árið 2019 sérmenntaðan ráðgjafa í aðgengismálum vinna leiðbeiningar í handbókar formi um algilda hönnun utandyra. Þessi fræði mætti kynna betur. Líklegt er að ekki allir viti út á hvað þetta gengur. Í þessu sambandi er fulltrúa Flokks fólksins einnig hugsað til  öryggisatriða t.d. hvað varðar leiktæki barna og kemur fram að gott eftirlit sé með því hjá borginni og öll frávik skoðuð.

 

Bókun Flokks fólksins um framlagningu bréfs mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 19. maí 2021, um yfirlit yfir innkaup mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, varðandi einstök innkaup yfir 1,0 m.kr. á 1. ársfjórðung 2021:

Það er ekki nógu gott að mati fulltrúa Flokks fólksins að kaup sem eru undir milljón séu ekki tilkynnt. Þótt hver einstök  kaup séu undir milljón kunna þar undir að vera miklir peningar þegar allt  er lagt saman. Einnig er minnt á að þótt útboðsskylda verði aðeins virk fari samningur yfir ákveðin fjárhæðarmörk þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að borgin bjóði út minni verk. Útboð eru til þess fallin að auka traust almennings á stjórnvöld og leiða gjarnan til sparnaðar fyrir borgina. Innkaupamál á þessu og síðasta kjörtímabili hafa verið í ólestri og mörg dæmi um að borgaryfirvöld hafi ítrekað virt lög og reglur um opinber innkaup að vettugi og gengið til samninga við einkaaðila  án þess að útboð fari fram. Dæmi um þetta er þegar borgin keypti ljósastýringu án undangengins útboðs og svo aftur nú fyrir skemmstu þegar orka var keypt án útboðs. Ekki er langt síðan braggamálið kom upp á yfirborðið og sú staðreynd að lítið var um útboð við endurgerð Braggans í Nauthólsvík. Verkið fór langt umfram kostnaðaráætlanir. Þar voru meira og minna öll verk og öll þjónusta keypt án undangengins útboðs.

Bókun Flokks fólksins um framlagningu minnisblaðs mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 19. maí 2021, um stöðu tilraunaverkefnis sem snýr að rafrænni upplýsingagjöf fyrir innflytjendur:

Rafræna upplýsingagjöf fyrir innflytjendur er sannarlega þess virði að skoða. Sambærilega rafræna lausn sem þessa er án efa víða að finna og er mikilvægt að nálgast það frá þeim sem eiga hönnunina með hagkvæmum hætti. Einnig hefur verið bent á að gera þarf ráð fyrir að stór hópur innflytjenda geti með engu móti nýtt sér rafræna upplýsingagjöf / lausnir vegna tungumálaerfiðleika. Það eru ekki allir innflytjendur sem læra íslensku og jafnvel hafa hvorki auðveldan aðgang að tölvum eða símum. Finna má nú þegar dæmi um snjalllausnir sem komnar eru í notkun í öðrum stofnunum sem Reykjavíkurborg ætti að geta nálgast og aðlagað að þjónustuþörfum borgarinnar. Svið borgarinnar vita best hvað þau þurfa og hvernig sú aðlögun þarf að vera.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á nýjum vef Reykjavíkurborgar:

Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á að vefur Reykjavíkurborgar fái einhverja uppfærslu. Erfitt er að skilja af hverju ekki er búið að því t.d. til samræmis við vefi annarra opinberra aðila þar sem fólk hefur getað sótt þjónustu bæði fljótt og vel t.d. vefir hjá Heilsuveru, Skattinum, Atvinnuleysistryggingasjóði og Tryggingastofnun. Ekki þarf að leita langt yfir skammt heldur hægt að sækja  það sem aðrir eru nú þegar komnir með og virkar. Fulltrúa Flokks fólksins hefur blöskrað hversu miklum fjármunum er búið að eyða í endalausar prófanir, án þess oft að áþreifanlegar afurðir hafi orðið til. Má benda á áralangar notendatilraunir Gróðurhúss þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem lítið hefur komið út úr hingað til. Nú er talað um notendarýni, vinnustofur, þjónustuhönnun og áfram verða prófanir sem aftur vísar til meiri tilraunastarfssemi. Fyrir sérfræðinga á sviðinu er ekki um nein geimvísindi að ræða. Ef horft er í fjárhæðir þá er vel hægt að taka umbætur í skrefum t.d. einfalda strax flóknustu ferlana. Margt annað má bíða nú á þessum erfiðu tímum vegna Covid. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þetta svið þjónustu- og nýsköpunarsvið, skili a.m.k. fimm milljörðum til baka inn í borgarsjóð svo hægt sé að deila þeim út til að taka á raunverulega vanda  sem t.d. stór hópur barna glímir við í grunnskólum en fær ekki aðstoð með.

 

Bókun Flokks fólksins um Lagt fram svar stjórnar Strætó b.s. dags. 20. maí 2021, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands, um aðgengi fatlaðs fólks að þjónustu Strætó bs., sbr. 12. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 11. mars:

Svar er lagt fram við fyrirspurn um aðgengi fatlaðs fólks og þjónustu Strætó bs. Svarið er greinargott en benda má á nokkur mál sem bæta mætti. Staðan á biðstöðvum  er slæm á meira en 500 stöðum. Eiginlega er aðgengi hvergi gott. Þarfir fatlaðs fólks í umferðinni hefur ekki verið forgangsmál árum saman. Strætó sem almenningssamgöngur hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu fólki og sjónskertu og blindu fólki. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma til að gera ástandið viðunandi hvað þá fullnægjandi þótt byrjað sé á verkinu. Engar hugmyndir eru um hversu langan tíma þetta á eftir að taka eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins  að mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð standi vörð um alla minnihlutahópa í borginni. Fulltrúa Flokks fólksins finnst, sem dæmi, að hallað hafi á að ráðið standi vörð um réttindi eldri borgara og barna sem eiga um sárt að binda af margvíslegum orsökum:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð standi vörð um alla minnihlutahópa í borginni. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem dæmi hafa hallað á að ráðið standi vörð um réttindi eldri borgara í borginni og barna sem eiga um sárt að binda af einhverjum orsökum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ráðið of sjaldan setja mannréttindamál þessara hópa á dagskrá. Eldri borgarar er hópur fólks sem lang flestir eiga eftir að tilheyra, ef Guð lofar.  Þetta er fólkið sem hefur lagt sitt af mörkum til samfélagsins allt sitt fullorðinslíf og langar til að fá að lifa ævikvöldið sitt áhyggjulaust og með þeim hætti sem það sjálf kýs. Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð gæti gert miklu meira til að hvetja borgarstjórn til að taka málefni eldri borgara ofar á forgangslistann og samþykkja fleiri tillögur þeim til heilla. Það mætti sem dæmi færa rök fyrir því að, sé maður skikkaður til að hætta að vinna 70 ára þrátt fyrir fulla starfsgetu, þá sé það mannréttindabrot. Einnig horfir fulltrúi Flokks fólksins til þeirra barna sem nú telja 1033 á biðlista Skólaþjónustu eftir faglegri aðstoð.  Bið barna eftir nauðsynlegri þjónustu hlýtur að ganga í berhögg við mannréttindi. Þessi biðlisti hefur t.d. aldrei komið til umræðu í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. R21050275

Frestað.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um kostnað við tillögum um verkefni þjónustu,- nýsköpunar og  lýðræðissviðs er varða rafræn verkefni sem sögð eru vera innan ramma sviðsins án þess að það sé tilgreint frekar:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita hver sér kostnaðurinn við tillögu 1-4, í gögnum segir aðeins að kostnaður sé innan ramma þjónustu- og nýsköpunarsviðs og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu? Hverjar eru þessar upphæðir? Eru þær teknar af 10 milljarða innspýtingu til þjónustu- og nýsköpunarsviðsins eða af almennu rekstrarfé? Óskað er sundurliðunar kostnaðar eftir tillögum. Um er að ræða eftirfarandi tillögur:
1.Tillaga um að búa til viðmótið á ensku Can I help you? 2. Tillaga um þýðingar á Spurt og svarað á vef, FAQ, á ensku og pólsku. 3. Tillaga um svör við algengum spurningum um málefni innflytjenda. 4. Tillaga um þjálfun tveggja þjónustufulltrúa þjónustuvers í samstarfi við sérfræðinga mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu auk þess að vinna upplýsingaefni.