Borgarstjórn 21. febrúar 2023

Bókun  1 Flokks fólksins undir liðnum: Umræða um samgöngusáttmálann og tillaga Sjálfstæðisflokksins um að endurskoða hann:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: Samgöngur ganga illa í Reykjavík. Umferðartafir eru hvert sem litið er og almenningssamgöngur í ólestri. Hér er rætt um samgöngusáttmála og því hlýtur kjarninn að vera sá hvernig fólki tekst að komast á milli staða. Staðreyndin er að fólk kemst illa milli staða í Reykjavík. Endalausar umferðartafir með löngum bílaröðum. Reykvíkingar eru orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi meirihlutans við þessum vanda.
Um flýtingar framkvæmda er rætt en ekkert bólar á þeim. Umferðarstýringar eru óbreyttar en það væri hægðarleikur að ráðast í að bæta umferðarstýringar til hagsbóta fyrir vegfarendur. Ekkert bólar á stokkum Miklubrautar og Sæbrautar. Eina sem er á áætlun er að þröngva Arnarnesvegi á framkvæmdarstig þrátt fyrir mótmæli mörg hundruð manns í Reykjavík og víðar. Hönnunarkostnaður hefur farið langt fram úr áætlun. Við viljum öll góðar og öflugar almenningssamgöngur. Borgarlína hefur tafist og verður auk þess mun dýrari en áætlað var. Á meðan er ekki verið að reyna að laga Strætó. Strætó þyrfti að vera eingöngu rekinn af Reykjavík. Það gekk ágætlega áður en bs fyrirkomulagið tók yfir. Hugmynd meirihlutans um flýti- eða tafagjöld mun mæta harðri andstöðu. FIB hefur bent á að langeinfaldast sé að greitt sé samkvæmt notkun bíla með þeirri innheimtutækni að lesið sé af ökumæli við almenna bifreiðaskoðun.

 

Bókun 2 v. samgöngusáttmála

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: Með sáttmálanum var ákvörðun tekin um að ráðast í ríflega 52 milljarða króna fjárfestingu í ellefu stofnvegaframkvæmdum,- 50 milljarða króna fjárfestingu í borgarlínu og fimmtán milljarða í hjóla- og göngustígum auk búnaðar í umferðarstýringu.
Í ljós hefur komið að framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans er þegar komin 50 milljarða fram úr áætlun, þótt framkvæmdir séu vart hafnar. Stokkur við Sæbraut er ein framkvæmdanna sem nú er metin ríflega fimmtán milljarða umfram upphaflega áætlun þessa verkefnis. Brýnt er að kanna hvort slíkar vanáætlanir eigi við um önnur verkefni sáttmálans. Ef svo er þarf að taka ákvörðun um hvernig skuli bregðast við því.
Hefur Reykjavíkurborg staðið við ákvæði sáttmálans, m.a. um þær framkvæmdir sem átti að flýta sérstaklega samkvæmt efni hans? Ríkið fjármagnar sáttmálann að mestu leyti og þarf því að hafa virkt og öflugt eftirlit með því að Rvk. standi við samkomulagið. Þetta kemur m.a. fram í grein sem þingmaður skrifar í dag.
Að minnsta kosti 2 sveitarfélög eru með spurningarmerki um
samkomusáttmálann. Flokkur fólksins vill að áætlanir verði endurmetnar. Borgarlína eða ekki þá viljum við öll samgöngur sem virka. Tímabært er að endurmeta stöðuna í ljósi vanáætlunar. Flokkur fólksins vill að horft sé til betri strætó samgangna og losa Strætó úr bs kerfinu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Umræða um hlutfall félagslegs húsnæðis í borginni  (að beiðni borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands)

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: Reykjavíkurborg hefur sett fram samningsmarkmið vegna uppbyggingarsvæða í Reykjavík. Í nýjum byggingarreitum er oft samið um kauprétt Félagsbústaða á 5% íbúða og að 20% íbúða verði skilgreindar sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Flokkur fólksins hefur verið með tillögur um að skilgreina hærra hlutfall sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir og leiguíbúðir Félagsbústaða vegna langra biðlista í slíkt húsnæði. Gott er að heyra að samningsmarkmiðin hafi náð fram að ganga. Fram kemur í svari að fjöldi íbúða til félagsbústaða frá 2018-2022 er 177. Vandinn er sá að það dugar ekki til. Sama má segja um 698 íbúðir Félagsbústaða. Nú bíða mörg hundruð manns eftir leiguhúsnæði hjá Félagsbústöðum. Húsnæðisástandið kemur hvað verst niður á leigjendum og efnaminna fólki. Í svörum hefur komið fram að samningsmarkmið hafi verið endurskoðuð þegar ástæða hefur þótt til frá því þau voru fyrst samþykkt árið 2014. Flokkur fólksins áttar sig ekki alveg á hvað það þýðir „þegar ástæða hefur þótt til“. Sjálfsagt er að hækka þessi viðmið enn meira nú þegar svo illa árar í samfélaginu og verðbólga há.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerðir. Bókað er undir fundargerð borgarráðs 16. febrúar lið 31:

Tillaga meirihlutans að leggja niður borgarskjalasafn hefur verið á öllum fréttamiðlum. Staldra þarf við og leita umsagna hagsmunaaðila eins og lagt er til. Víkur sögunni aftur til 2020 en þá gerði borgarskjalavörður frumkvæðisathugun á braggamálinu. Niðurstaðan var að lög voru brotin í endurgerðarferli braggans. Fulltrúi Flokks fólksins hugsar hvort verið sé að refsa borgarskjalaverði fyrir niðurstöðu sína? Flokkur fólksins bókaði þá: Hér er verið að draga niður frumkvæðisathugun borgarskjalavarðar sem kemst að þeirri niðurstöðu að farið var á svig við lög við endurgerð braggans. Borgarskjalavörður fær bágt fyrir að vera fagaðili, nákvæmur og athugull, og tók ákvörðun um að gera frumkvæðisathugun í óþökk meirihlutans.
Að sömu niðurstöðu kemst Björn Bjarnasonar í pistli sínum.
https://www.bjorn.is/dagbok/nr/10921.
“ Nú réttum þremur árum frá því að sviðsstjórinn (ÞON) gagnrýndi safnið vegna frumkvæðis í braggamálinu vilja hann og borgarstjóri bara loka borgarskjalasafninu – helst með hraði og leynd. Í braggamálinu svonefnda fyrir réttum þremur árum fann Óskar Jörgen að því opinberlega sem sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg að af hálfu borgarskjalasafns skyldi vakin athygli á að skjalameðferð vegna framkvæmda við bragga í Nauthólsvík stæðist ekki lög um skjalavörslu og skjalastjórn (dv.is 13. febrúar 2020). Sviðsstjórinn sagðist ósammála niðurstöðu borgarskjalasafnsins um lögbrot.”

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerðir. Bókað er undir fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnaráðs:

Mannréttindaráð 9.2. Liður 5 og 7
Tillögum Flokks fólksins sem lagðar hafa verið fram í mannréttindaráði hafa iðulega verið felldar með þeim rökum að þær séu ekki nógu sértækar, ekki framkvæmanlegar og stundum er einnig kvartað yfir að þær séu ekki kostnaðarmetnar. Dæmi um tillögur sem meirihlutinn í Ráðinu taldi ekki nógu sértækar eru
“ Að mannréttindaráð beiti sér þegar kemur að því að standa vörð um aðgengi fatlaðra, fólk með skerta hreyfigetu, að miðbænum á tyllidögum annars vegar og hins vegar Að Ráðið bregðist við og beiti sér gegn ofbeldi gagnvart fötluðu fólki t.d. með því að bjóða upp á fræðslufundi eða málþing. Þessar tillögur taldi Ráðið ekki vera framkvæmanlegar.
Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessar tillögur gætu varla verið sértækari t.d. sú síðari. Halda mætti að meirihlutinn í Ráðinu telji að minnihlutaflokkur eigi að útfæra hvert snifsi fyrir meirihlutann. Minnihluti á samt aldrei neina aðkomu að ákvörðunum meirihlutans. Það er mat Flokks fólksins að meirihlutinn sé kominn með svona frasa sem hann beitir án tillits til efnis tillagna.
Það er ekki hlutverk minnihlutans að kostnaðarmeta tillögur. Minnihlutinn fær ekki mannafla í slíkt. Flokkur fólksins hefur lagt til að hann fái aðgang að starfsmanni á fjármálasvið til að kostnaðarmeta tillögur hans en fékk synjun.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Umræða að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins um orsakir skólaforðunar og viðbrögð skólayfirvalda og fagfólks skóla þegar barn glímir við skólaforðun

Umræða um skólaforðun hefur aukist nokkuð síðan Velferðarvaktin fór að kanna umfang hennar. Nýlega var haldið málþing um skólaforðun. Skólaforðun felst í því að börn og ungmenni forðast að fara í skólann af einhverri ástæðu/ástæðum. Um þúsund íslensk börn eru talin glíma við skólaforðun og treysta sér ekki til að mæta í skólann. Ætla má að fjöldinn sé mun meiri. Skólaforðun er ekki nýtt vandamál.  Þær ástæður eða orsakir sem helst eru nefndar eru mest raktar til andlegrar vanlíðunar og kvíða. Ástæður og orsakir kvíða geta verið margvíslegar og margslungnar.

Borgarfulltrúi  Flokks fólksins kallar eftir umræðu um helstu orsakir og það faglega umhverfi, ferli sem mál af þessu tagi fara í Reykvískum grunnskólum. Kallað er eftir umræðu um samræmd viðmið við að greina skólaforðun og hvernig þau viðmið hafa nýst. Einnig er óskað eftir svörun meirihlutans við þeirri staðreynd að fagfólki skólans hefur ekki fjölgað síðustu ár samhliða mikilli fjölgun nemenda.

Öll þekkjum við biðlistann hjá Skólaþjónustunni í Reykjavík. Með hverri viku lengist listinn. Gera má því skóna að ákveðinn fjöldi barna á biðlistanum glími við skólaforðun.

Allir helstu lykilaðilar hafa rætt um biðlista barna eftir sálfræðingum og öðru fagfólki jafnt í ræðu, riti og á málþingum. Margir foreldrar  í angist sinni upplifa sem kerfið hafi gefist upp á barni sínu og fjölskyldunni.

Barnasáttmálinn sem lögleiddur er á Íslandi hefur ekki verið innleiddur í Reykjavík. Ef horft er til innihalds  Barnasáttmálans má segja að brotið sé daglega á börnum í Reykvísku skólakerfi.

Í þessum málum sem öðrum er varðar börn er ekki í boði að gera ekki neitt, eða gera lítið sem ekkert.  Áhrif og afleiðingar langvinnrar skólaforðunar getur leitt til félagslegrar fötlunar einstaklingsins sem kemur niður á möguleikum hans að fara í frekara nám eða að stunda vinnu. Ef ekki næst að finna viðunandi lausn getur það litað allt líf þessara einstaklinga sem er ekki aðeins skaði þeirra heldur samfélagsins alls.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðunni:

Hver er ábyrgð velferðarkerfisins á skólaforðunarmálum? Hafa viðbrögð borgaryfirvalda við þessum erfiðu málum verið viðunandi? Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni og engin tvö mál eru eins. Svona mál verða ekki unnin án aðkomu fagfólks. Fagfólki hefur ekki fjölgað í skólum borgarinnar í samræmi við fjölgun nemenda. Laun sálfræðinga hafa ekki verið leiðrétt í samræmi við menntunarstig þeirra. Öll þekkjum við biðlistann sem fengið hefur að lengjast stjórnlaust.
Finna þarf og fjarlægja hindrunina/ógnina sem skólaforðun byggir á hvort sem hún er innra með barninu eða í umhverfinu nema hvort tveggja sé. Miðlægt viðmiðunarkerfi hefur nú verið við lýði í fjögur ár sem á að greina á milli ástæðu fjarvista. Kerfið hefur ekki hugnast öllum skólum vegna þess að ekki er gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, s.s. vegna veikinda annars vegar og óleyfilegra fjarvista hins vegar. Það þarf að lagæra kerfið svo það nýtist öllum skólum. Ef barni er ekki hjálpað úr skólaforðunaraðstæðum mun það hafa áhrif á fjölmargt annað í lífi barnsins til skemmri og lengri tíma. Það er ekki í boði að “bara” bíða. Afleiðingar langvinnar skólaforðunar geta leitt til félagslegrar fötlunar sem kemur niður á möguleikum einstaklinga að stunda nám og vinnu.

Grein sem fylgir umræðunni:

Finna þarf ástæður skólaforðunar

Umræða um skólaforðun hefur aukist nokkuð síðan Velferðarvaktin hóf að gera könnun á umfangi hennar. Skólaforðun eins og orðið gefur til kynna er þegar barn forðast að fara í skólann af einhverjum ástæðum. Nýlega var haldið málþing um skólaforðun.  Um þúsund íslensk börn glíma við skólaforðun og treysta sér ekki til að mæta í skólann. Ætla má að fjöldinn sé mun meiri.

Skólaforðun er ekki nýtt vandamál.  Þær ástæður eða orsakir sem helst eru nefndar tengjast andlegri vanlíðan,  kvíða og þunglyndi.

Dæmi um aðrar ástæður er félagskvíði þ.e. þegar barn treystir sér ekki til að yfirgefa heimilið til að vera með jafnöldrum. Einnig erfiðleikar í námi ef vandinn er vitsmunaþroski  eða aðrar raskanir. Algengar ástæður eru einelti eða önnur ógn sem tengist skólanum hvort sem það  er innan veggja skólans eða á skólalóð.

Aðrar ástæður geta verið af þeim toga að barnið taki meðvitaða ákvörðun um að mæta ekki vegna þess að eitthvað annað áhugaverðara hefur tekið sér bólsetu í huga þess. Dæmi eru um að barn fái félagslegum þörfum sínum mætt á netinu,  á samfélagsmiðlum, (í tölvu eða síma) eða í tölvuleikjum. Þegar miðlar og leikir hafa tekið yfir í huga barns og skólagöngu ýtt til hliðar má ætla að svefnvenjur raskist sem eykur enn frekar skólaforðunarvandann.

Sé það látið eftir barni að velja ofangreint umfram skólann er barnið líklegt til að glíma við skólaforðunarvanda lengi. Í þessum tilfellum er brýnt að foreldrar fái ríkan stuðning og hjálp með að hjálpa barni sínu út úr þessum vítahring.

Þegar á þetta stig er komið er barnið komið með viðvarandi kvíða gagnvart öllu sem tengist skólagöngunni. Það hefur misst úr náminu og miklar fyrir sér að taka upp þráðinn að nýju. Það hefur einnig misst tengsl við skólafélaga og óttast að vera ekki tekinn aftur í hópinn, eða upplifir sig jafnvel aldrei hafa verið hluti af hópnum. Barnið forðast skólann og vill ekki fara í hann því það treystir því ekki að neitt hafi breyst eða geti breyst.

Grafast fyrir um orsakir

Eitt er víst að skólaforðunin á sér einhverja upphafsorsök eða ástæður. Það gæti hafa verið eitt tilvik eða uppsöfnuð vanlíðan sem tengist skólanum sem rekja má til margra þátta sem foreldrar og barnið sjálft á jafnvel erfitt með að skilgreina lengur.

Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni og engin tvö  mál eru eins. Fyrirfinnist undirliggjandi ástæða þarf að taka á henni og ekki linna látum fyrr en ástæðan er fundinn og vandinn er kominn í lausnarfarveg. Eina lausn skólaforðunar er að barnið sæki skólann á ný með reglubundnum hætti. Í algerum undantekningum þegar fyrirséð er eftir að reynt hefur verið til þrautar, fær barnið heimakennslu í samræmi við lög.

En fyrst þurfa allir aðilar sem koma að máli barns með skólaforðun (barnið sjálft, foreldrar þess, skólayfirvöld og fagfólk skóla) að reyna til þrautar. Finna þarf orsök og linna ekki látum fyrr en búið er að fjarlægja hindrunina eða breyta aðstæðum þannig að barnið sjái það sem orsakaði skólaforðunina ekki sem ógn lengur.

Sé ástæðan innra með barninu (klínískur kvíði, þunglyndi, fælni)  þarf að aðlaga skólaaðstæður að þörfum þess. Dæmi er um að skólatíma barns sé breytt, styttri viðvera, smærri hópar og að tekið sé á móti barninu sérstaklega og það hafi vissan tengilið innan skólans sem er ávallt til staðar fyrir barnið.

Sé ástæðan í umhverfi barnsins þarf að taka á því. Hér gæti verið um að ræða vanmátt gagnvart námi eða einelti. Aðlaga þarf námskrána að þörfum barnsins og að sjálfsögðu vinna úr eineltismálum. Námsráðgjafi og sálfræðingur skóla eru hér lykilaðilar svo og hjúkrunarfræðingur. Ekki síður skiptir máli skilningur skólayfirvalda, starfsfólks og samhugur bekkjarfélaga. Við komu barns í skólann eftir skólaforðun skiptir máli að búið sé að ræða við bekkinn og að sérstaklega sé tekið vel á móti barninu. Góður fyrsti dagur eftir skólaforðunartímabil getur skipt sköpum.

Umfram allt þarf að grafast fyrir um grunninn að skólaforðunni og rekja þróunina til að geta fjarlægt það sem kom skólaforðuninni af stað. Þetta er samvinnuverkefni skóla, foreldra og barnsins. Það skiptir öllu máli að taka strax á skólaforðuninni áður en hún fer að festa sig í sessi og vera meira almenna reglan hjá barninu en undantekningin.

Skólakerfið, vanmáttur þess og styrkleikar

Styrkleikar skólakerfisins eru vissulega margir. Börn upp til hópa eru sátt og líður vel í skóla sínum. Vandinn liggur í skorti á fagfólki til að  hjálpa öllum þeim börnum sem þess þurfa.

Fagfólki hefur ekki fjölgað í grunnskólum borgarinnar sem er ekki í neinu samræmi við fjölgun nemenda. Sálfræðinga vantar til að hjálpa börnum í reykvískum  grunnskólum. Ekki er skortur á sálfræðingum, alla vega ekki í nágrannasveitarfélögum. Reykjavíkurborg hefur ekki viljað leiðrétta laun sálfræðinga í samræmi við menntunarstig þeirra.  Öll þekkjum við biðlistann sem fengið hefur að lengjast stjórnlaust.

Með hverri viku lengist listinn. Í raun breytir engu hversu hátt er hrópað, skólastjórnendur, foreldrar, ungmennaráð og börnin sjálf. Kallað er út í tómið. Foreldrar eru í angist sinni og upplifa sem kerfið hafi gefist upp á barni sínu. Barnasáttmálinn sem lögleiddur er á Íslandi hefur ekki verið innleiddur í Reykjavík. Ef horft er á Barnasáttmálann má segja að brotið sé daglega á börnum í Reykvísku skólakerfi.

Skólaforðunarmál sem komin eru á efri stig verða ekki leyst án fagfólks. Einhver einn þarf að  halda utan um málið, sjá til þess að fundir séu haldnir, viðtöl höfð og máli fylgt eftir til að forðast að það dagi uppi í kerfinu og hver bendi á annan. 

Samræmd viðmið til að greina skólaforðun

Til að hægt sé að hefja vinnslu máls með faglegum hætti þurfa að liggja fyrir upplýsingar um það, stöðu þess og þróun. Samræma þarf skráningu á skólasókn í grunnskólum til að halda almennilega utan um þennan málaflokk.

Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Nokkru síðar var hvatt til þess að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem  sýndi  „hættumerki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista.

Viðmiðunarflokkunum er skipt í þrjú stig eftir alvarleika. Langvinn, alvarleg skólaforðun á við þegar hún hefur staðið yfir lengur en eitt ár og flokkast þá sem stig 3. Þegar á 3. stig er komið er þörf á sértækri íhlutun og nauðsynlegt getur verið að vísa málinu til Barnaverndar. Þetta á við um nemendur sem hafa ekki svarað þeim inngripum sem hafa verið reynd og vandinn því orðinn langvinnur og alvarlegur.

Hvernig hafa viðmiðin nýst?

Samræmdar skólasóknarreglur eða miðlægt viðmiðunarkerfi hafa nú verið við lýði í fjögur ár og er hugsað til að greina á milli ástæðu fjarvista. Ekki hafa allir skólar þó stuðst við kerfið. Vel kann að vera að stjórnendum einhverra skóla finnist erfitt að ekki skuli vera gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, s.s. vegna veikinda annars vegar og óleyfilegra fjarvista hins vegar. Ekki er ósennilegt að endurskoða þurfi þetta viðmiðunarkerfi, skera af því agnúa.

Ég tel tímabært að skoða með markvissum hætti hvort og þá hvernig hinar samræmdu viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst til að greina á milli ástæðu fjarvista. Til að hægt sé að átta sig á hvort þessi viðmið eru að virka þyrfti að gera á þeim úttekt. Ef þau eru ekki að nýtast öllum skólum er til lítils unnið með þeim.

Afleiðingar skólaforðunar

Það er til mikils að vinna að taka á þessum erfiðu málum og gera það faglega. Barn sem er með félagskvíða eða hefur glímt við námserfiðleika án þess að fá viðeigandi greiningu eða aðstoð hefur e.t.v. hreinlega gefist upp og neitar að fara í aðstæður, skólann þar sem það finnur sig ekki meðal jafningja.

Ef ekki er grafist fyrir um orsakir þess að barnið fór að forðast skólann og lausnir á því fundnar er hætta á að barni verði ekki  hjálpað til að vinna sig úr ástandi skólaforðunar og komast aftur á þann stað að finna sig geta og langa til að fara í skólann.  Þá eru miklar líkur á að kvíðinn sem viðheldur ástandinu festi sig í sessi.

Viðvarandi skólaforðun, ástand sem tekið hefur stjórn mun hafa áhrif á fjölmargt annað í lífi barnsins til skemmri og lengri tíma.  Í þessum málum eins og öðrum sem varðar börn er ekki í boði að gera lítið sem ekkert eða ekki neitt.

Áhrif og afleiðingar langvinnar skólaforðunar getur leitt til félagslegrar fötlunar einstaklingsins sem kemur niður á möguleikum þess að fara í frekara nám eða geta stundað vinnu. Vandi sem þessi sem ekki næst að meðhöndla getur litað allt líf einstaklingsins. Það er ekki aðeins skaði þess einstaklings heldur samfélagsins alls.