Borgarstjórn 21. mars 2023

Borgarstjórn Reykjavíkur
21. mars 2023

Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins með umræðu um verkefnið Betri borg fyrir börn og skilvirkni þess

Reykjavík hefur illa getað sinnt lögbundinni þjónustu við börn í Reykjavík þegar kemur að tilfinningalegum, félagslegum og öðrum sálrænum vanda eins og kvíða. Þess vegna voru miklar vonir bundnar við verkefnið betri borg fyrir börn þegar það var sett á fót, fyrst í Breiðholti. Í lýsingu á verkefninu segir að betri borg fyrir börn miði að því að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi. Færa þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna, veita viðeigandi stuðning sem fyrst og þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustumiðstöð hverfisins. Verkefnið betri borg fyrir börn hefur ekki tekist sem skyldi alla vega ef horft er til tveggja þátta, annars vegar að fagfólk er staðsett fjarri skólaumhverfi barnanna og hins vegar að biðlisti barna eftir fagfólki skóla, einna helst sálfræðingum og talmeinafræðingum, lengist með viku hverri.

Þess utan hefur innleiðing á verkefninu betri borg fyrir börn tafist von úr viti. Það er ekki að undra ef horft er til þess flókna ferils sem farið var í. Eitthvað hefur farið úrskeiðis og telur borgarfulltrúi Flokks fólksins að skilvirkni skorti. Þegar rýnt er í ferli og skipulag þessa verkefnis má sjá ótal flækjustig og fjölmörg skref sem mætti sleppa. Leiðin frá fagfólki til barns virðist býsna tyrfin.
Sett voru á laggirnar lausnateymi með það að markmiði að málin héldust innan veggja skólanna, þ.e. að færri beiðnir bærust til „miðstöðva“ en þar eru allir sálfræðingarnir staðsettir. Í lýsingu á ferlinu segir ennfremur að með þessu minnkar t.d. þörf á erindum til sálfræðings. Það er sem sagt allt kapp lagt á að barn hitti ekki sálfræðing. Lausnateymin vinna ekki með börnunum, aðeins starfsfólki, og reynt er að valdefla það. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að horfa upp á sérstakar aðgerðir til að börn þurfi ekki að hitta sálfræðinga og lausnateymi eigi heldur ekki að vinna með börnunum heldur foreldrum. Hver á eiginlega að vinna með börnunum?
Óskað er umræðu um ferlið og samhliða spyr borgarfulltrúi Flokks fólksins þeirrar spurningar hvort það sé nokkur furða að biðlistar lengist.

Ferli betri borgar fyrir börn

Skipaðir voru fimm starfshópar til að koma verkefninu af stað.
Skipaður var eigendahópur verkefnisins með sviðsstjórum, formanni verkefnastjórnar og fulltrúa miðstöðva.
Settur var á laggirnar stýrihópur innleiðingar.
Skipaðar voru verkefnisstjórnir betri borgar fyrir börn á hverri miðstöð sem samanstóðu af röð stjórnenda með hina ýmsu titla.
Og öll þessi hersing var svo í samvinnu við þjónustu- og nýsköpunarsvið.
Flokkur fólksins kallar eftir umræðu um skilvirkni verkefnisins og hvort ekki þurfi að endurskoða ferla og boðleiðir. Kallað er eftir umræðu um af hverju sálfræðingar skólanna starfi ekki í nærumhverfi barnanna. Kallað er eftir umræðu um fundafjölda og skilvirkni funda. Kallað er eftir umræðu um samskipti skólaþjónustu við foreldra og árangursmati. Frést hefur að starfsfólk sé ánægt. Því er sinnt af lausnateymum og deildir eru sagðar ánægðar, hvað sem það þýðir.
Borgarfulltrúi upplifir þetta verkefni, sem vissulega er skref í rétta átt, afar flókið og óskilvirkt. Tengingin við börnin er lítil samkvæmt lýsingu og mestur tími fer í alls konar fundarhöld.

Bókun Flokks fólksins við umræðunni:

Verkefnið Betri borg fyrir börn státar ekki af nægjanlegri skilvirkni. Nú bíða 2049 börn eftir ýmist fyrstu eða frekari félags- og sálfræðilegri þjónustu. Ekki er vitað hvort eitthvað af þessum börnum eru að fá snemmtæka íhlutun.  Eitt helsta markmiðið með Betri borg fyrir börn var að færa sálfræðinga í nærumhverfi barna og var talið að það þýddi að starfsstöð þeirra yrði þá í skólunum. Það hefur ekki gerst. Kallað er sárlega eftir fleira fagfólki inn í skólana þar sem þeir vinna á gólfinu við að þjónusta börnin og foreldra þeirri í uppeldishlutverkinu. Ef ferli Betri borg fyrir börn er skoðað virkar það flókið. Byrjað var á að skipa starfshópa sem nú hafa verið lagðir niður. Þá var skipaður eigendahópur með sviðsstjórum, skrifstofustjórum, formanni verkefnastjórnar og fulltrúa framkvæmdastjóra miðstöðva. Stofnaður var stýrihópur innleiðingar sem í sátu allir þeir sömu ásamt ráðgjafa. Þá voru skipaðir verkefnisstjórnir Betri borg fyrir börn á hverri miðstöð með framangreindri hersingu auk deildarstjóra barna- og fjölskyldudeildar, plús staðgengli hans og öðrum þremur frá velferðarsviði og enn öðrum þremur frá skóla- og frístundasviði. Viðurkennt hefur verið að allt reyndist þetta þyngra en reiknað var með og að fundarálag sé mikið. Hvað með foreldra barnanna? Finnst þeim þjónustan hafa batnað með tilkomu Betri borg fyrir börn? Ekki hefur verið leitað eftir viðbrögðum foreldra svo vitað sé til.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Bráðaaðgerðir í leikskólamálum:

Neyðarástand ríkir í leikskólamálum Reykjavíkurborgar. Loforð um leikskólapláss hafa ítrekað verið svikin. Leikskólaplássum hefur fækkað. Til stendur að loka alls 25 af 67 leikskólum næsta skólaár. Foreldrar eru í áfalli og miklir erfiðleikar blasa við þeim. Nú ríkir neyðarástand í leikskólamálum. Aldrei hafa borgarbúar, foreldrar verið sviknir af neinum meirihluta svo gróflega eins og hér hefur átt sér stað. Við þetta þurfa borgarbúar að búa í önnur þrjú ár. Flokkur fólksins krefst þess að meirihlutinn endurskoði forgangsröðun sína hið snarasta og setji barnafjölskyldur og þar með leikskólamál í algeran forgang. Hætta á strax við öll áform um endurgerð Grófarhúss og Lækjartorgs og með því endurskoða fjárhagsáætlun í ljósi neyðarástandsins. Leggja þarf meira fé til leikskólamálanna, viðgerðir á híbýlum leikskóla vegna myglu, lagfæra laun og minnka álag (með því að fjölga starfsfólki) til að laða fólk til starfa. Flokkur fólksins hefur lagt sitt af mörkum til að bæta þennan málaflokk. Tillögur eins og heimgreiðslur/styrki getur verið einn valmöguleiki í því úrræðaleysi sem nú ríkir. Eins lagði Flokkur fólksins til að verulegar umbætur yrðu gerðar á dagforeldrakerfinu til að mæta þessu ástandi. Ekkert hefur gerst í þessum málum hjá meirihlutanum nema kannski fundað. Hvergi er að sjá áþreifanlegar úrbætur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna um stefnu skólasafna:

Stefna er mikilvæg en umfram allt þarf að fylgja henni eftir. Mikið er til af flottum stefnum í borginni en allur gangur er á hvort þær séu virkar. Flokkur fólksins telur að skólabókasöfn séu mikilvægur þáttur í skólaumhverfinu og þar fer fram gríðarlega mikilvæg starfsemi. Skólasöfn grunnskóla gegna lykilhlutverki í að miðla menningu og upplýsingum til skólasamfélagsins og styðja við árangursríka lestrar- og læsisfærni nemenda. Flokkur fólksins styður því tillöguna og að víðtækt samráð verði haft við skólasöfnin og Félag fagfólks á skólabókasöfnum. Flokkur fólksins óttast að ráðist verði á skólasöfnin og þeim jafnvel lokað líkt og gert var með Borgarskjalasafnið en það var eitt af stærstu mistökum þessa meirihluta. Sú aðgerð var ómerkileg og aðfarirnar til skammar auk þess sem sett er i uppnám gríðar mikil verðmæti og reynslu starfsfólks þar með kastað á glæ. Skólasöfnin hafa einnig mikla sérstöðu og víða hefur þeim verið sinnt af alúð og natni. Börn upp til hópa njóta skólasafnanna með ýmsum hætti og hafa söfnin í gegnum tímans rás útvíkkað hlutverk sitt með ýmsum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands að útrýma heimilisleysi innan sinna marka:

Auðvitað á að útrýma heimilisleysi og fátækt. Útrýming fátæktar er kjarninn í stefnu Flokks fólksins og hefur flokkurinn barist gegn fátækt bæði í borgarstjórn og á Alþingi. Til að útrýma fátækt þarf þessi meirihluta að endurraða verkefnum í þágu fólksins í stað glæsibygginga og torga. Hér er vísað í Grófarhús og Lækjartorg sem hefja á hönnun og framkvæmdir við á þessu ári með tilheyrandi tugi milljóna kostnaði. Á meðan stækkar sá hópur sem á hvergi heima, sem býr við fátækt og sem bíður eftir nauðsynlegri þjónustu, lögbundinni og annarri þjónustu. Í mars 2022 spurði fulltrúi Flokks fólksins um fjölda heimilislausra í kjölfar þess að COVID var þá á undanhaldi. Fyrir liggja upplýsingar um að árið 2021 voru 301 heimilislaus í Reykjavík, þar af 54% % í húsnæði (getur verið sjúkrahús, fangelsi, áfangaheimili), 3% á víðavangi og 31% í reglubundinni neyðargistingu. Staðan hefur versnað ef eitthvað er. Smáhýsin eru aðeins að hluta til komin í gagnið. Heimilisleysi þeirra sem eru með flóknar þjónustuþarfir urðu hvað mest áberandi þegar fólk sem leitaði skjóls í gistiskýlum borgarinnar var vísað út ákveðinn tíma dags þegar kuldinn beit hvað mest í vetur. Sem betur fer var tekin ákvörðun um sólarhringsopnun en aðeins tímabundið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Borgarstjórn samþykkir að ráðist verði í uppsetningu skjólgóðra og upphitaðra biðskýla fyrir strætisvagnafarþega í Reykjavík:

Flokkur fólksins styður tillöguna að borgarstjórn samþykkir að ráðist verði í uppsetningu skjólgóðra og upphitaðra biðskýla fyrir strætisvagnafarþega í Reykjavík. Borgarmeirihlutinn er að hvetja borgarbúa að nota strætó en lítið er gert til að laða fólk í strætó. Þjónusta hefur verið skert, færri ferðir og lengra að stoppistöðvum. Þau fáu innibiðskýli sem til eru í borginni eru í slæmu ástandi og þau eru ekki opin á kvöldin. Sum skýli eru varla bjóðandi, slíkt er ástand þeirra. Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2019 um endurbætur á öllum biðstöðvum strætó sem voru þá víða í lamasessi. Tillagan kom til afgreiðslu þremur árum síðar og var þá felld. Í umsögn var minnst á niðurstöður úttektar frá 2020 á aðgengismálum á biðstöðvum Strætó. Þá voru yfir 500 biðstöðvar metnar ófullnægjandi. Aðeins á 11 biðstöðvum af 556 var aðgengi viðunandi. Aðgengi og lélegt yfirborð stétta við strætóbiðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Staðfest var í umsögn með málinu að endurbætur eru á bið vegna væntanlegrar borgarlínu sem búið er að upplýsa um að tefjist um 3-5 ár. Flokkur fólksins telur að endurmeta verði endurbætur á þeim fjölda biðstöðva sem eru í lamasessi í ljósi fyrirsjáanlegrar seinkunar borgarlínu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. og 16. mars.Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 4. lið fundargerðarinnar frá 16. mars:

Með þessari verklýsingu er skapað skilyrði fyrir starfsemi skotfélaga og það á að vera til skemmri tíma. Auðvitað á að hefja strax leit að nýju skotæfingasvæði í stað þess að aðlaga Álfsnesið að skotæfingasvæði. Miklar líkur eru á að það verði þarna þar til Sundabraut byggist eða að skipulagsyfirvöld finni einhvern iðnað sem þau telja skipta meira máli en skotæfingasvæði. Úrskurðinum um lokun skotæfingasvæðis er hent út um gluggann. Í sextán ár hafa íbúar Kjalarness mátt þola hljóðmengun auk þess sem blý hefur safnast í jarðveginn, sjóinn og á ströndina og líklega í fuglum. Skothvellir er mikil hljóðmengun. Gönguleiðin á Esjuna er í 700 m fjarlægð og bergmál skotkvellanna mikið. Einhverjar leiðir hafa verið nefndar sem mótvægisaðgerðir s.s. breyta skotstefnu en áhrif þeirra til batnaðar eru óljós. 4. liður; Loftslagsstefna. Skógrækt er eitt aðalatriðið þegar talað er um loftslagsmál. Skógrækt reiknast sem kolefnisbinding svo og endurheimt votlendis. Minnka þarf sóun og endurnýta kolefni. Nýta allt metan sem myndast og glatvarma og sóun frá matvælageiranum, hefja söfnun á endurnýjanlegum úrgangi svo sem fitu sem brenna mætti í stað olíu. Landbúnaður losar verulega. Samgöngur eru í raun lítill hluti orkunotkunar, en ástæða er til að breyta vali á samgöngumátum með tilliti til losunar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5., 6. og 7. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 8. mars:

Fram kemur í svari í 5. lið að samstarf Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stafræna Íslands er í gangi upp að vissu marki og eru alls kyns upptalningar týndar til því til sönnunar. Það breytir þó ekki því að Reykjavíkurborg hefur á vissan hátt brugðist því hlutverki m.t.t.  stærðar sinnar, að vera meira leiðandi í þeirri stafrænu umbreytingu sveitarfélaga sem í gangi hefur verið undanfarin ár með aðkomu Stafræns Íslands. Svör í 6. lið varðandi áskriftarkaup sviðsins að ráðgjöf Gartner Group á Írlandi, skauta framhjá þeirri staðreynd að þau kaup byrjuðu löngu áður en sviðið hóf stafræna vegferð og hafa staðið í næstum áratug. Bent er á að sú nálgun sviðsins hvað stafræn mál varðar, hefur sætt gagnrýni fagaðila hérlendis þ.á.m. frá Samtökum iðnaðarins. Þeir fjármunir sem sviðið er búið er eyða í alla þessa erlendu ráðgjöf, virðist ekki hafa stuðlað að árangursmiðaðri verkefnastjórnun þegar litið er til þess tíma sem það tekur sviðið að innleiða margar af þeim lausnum sem beðið er eftir. Rök sviðsins í 7. lið fyrir kaupum á dýrum Apple búnaði fyrir starfsfólk, eru ekki í takt við þær hagræðingarkröfur sem önnur svið þurfa að hlíta og virðist sem að sviðið sé með sín eigin viðmið hvað fjármál varðar.