Borgarstjórn 3. janúar 2023

Umræða um ofbeldi og vopnaburð ungmenna og áhrif samfélagsmiðla á ungt fólk að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Greinargerð
Á síðasta ári reið bylgja ofbeldis yfir meðal íslenskra barna og ungmenna í Reykjavík þar sem vopnaburður er notaður þ.m.t. eggvopn. Einnig hefur færst í aukana að ungt fólk taki myndskeið af ofbeldi sem það sjálft, beint eða óbeint er þátttakandi í eða verður vitni að, og setji það á samfélagsmiðla. Myndskeið af þessu tagi hafa farið eins og eldur í sinu og virðist stækkandi hópur barna sýna þeim áhuga og dreifa þeim áfram um netmiðlana. Þetta er áhyggjuefni. Það er ekki seinna vænna en ráðamenn borgarinnar, í samstarfi við foreldra og skólasamfélagið, kanni hvaða orsakir liggja að baki því að hópur barna velji að dreifa slíku efni í von um auknar vinsældir. Ljóst er að skýringar eru hvorki einfaldar né einhlítar.

Tölulegar staðreyndir staðfesta að útköllum lögreglu og sérsveitar hefur fjölgað vegna eggvopna þar sem ungt fólk kemur við sögu sem gerendur. Gerendur eru jafnvel niður í 12 ára aldur. Verið er að undirbúa breytingu á vopnalögum. Reglur eru þegar vissulega strangar en engu að síður fjölgar tilfellum þar sem ungt fólk grípur til hnífa með það að markmiði að skaða annan einstakling. Erfitt er að ná utan um skráningu eggvopna.

Hvað þurfa börnin?
Öll vitum við hvað það er sem börn þurfa til að geta vaxið úr grasi og orðið heilbrigðir og heilsteyptir einstaklingar. Grunnþörfum barna þarf að sinna. Barn sem er svangt vegna fátæktar foreldra fær ekki einni af helstu grunnþörfum sínum mætt. Barn sem ekki fær tækifæri til að festa rætur í félagslegu umhverfi, mynda vinatengsl og stunda nám meðal jafninga fær ekki námslegum, félagslegum né tilfinningalegum þörfum sínum mætt. Börn sem beitt eru ofbeldi af einhverju tagi eiga á hættu að skaðast andlega og koma út í lífið stundum full af reiði og biturleika.

Það sem börn þurfa til að þrífast er ást og aðhald. Börnum þarf að sinna á öllum sviðum til að þeim geti liðið vel og notið hæfileika sinna. Börn þurfa fræðslu og þeim þarf að setja mörk. Kenna þarf börnum að koma ávallt vel fram við aðra og vera góð við minnimáttar, börn og dýr. Sé skortur á einhverjum þessara þátta eru auknar líkur á að barnið þrói með sér vandamál og vanlíðan sem mun marka þau og hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir þeirra jafnvel alla ævi. Börn þrá tengingu við aðra, fullorðna jafnt sem jafningja og þau þrá viðurkenningu. Fái þau ekki umbun, ást og viðurkenningu í raunheimi eru líkur á að þau leiti að henni á samfélagsmiðlum eða í gerviveröld.

Rannsóknir og lærðar skýrslur hafa ítrekað bent á niðurstöður sem sýna að vanlíðan og vansæld hefur farið vaxandi hjá börnum. Það sýnir sig í aukningu í sjálfsvígsgælum, sjálfsskaða og sjálfsvígstilraunum.
Af hverju er ekki verið að vinna markvisst og kerfisbundið að innleiðingu Barnasáttmálans í Reykjavík? Í Barnasáttmálanum er kveðið á um að börn eigi rétt á fræðslu, vernd, aðstoð og meðferð, leiki grunur á að þau séu skaðleg sjálfum sér og eða öðrum. Í Skólaþjónustu Reykjavíkurborgar bíða nú 2048 börn eftir sálfræðiaðstoð og greiningu og meðferð hjá talmeinafræðingum. Reykjavíkurborg hefur sofnað á verðinum. Ástandið er ekki skárra á ríkisstofnunum eins og BUGL og Þroska- og hegðunarstöð. Biðlistar eftir þjónustu þar eru í sögulegu hámarki.

Flokkur fólksins kallar eftir að borgarstjórn sem stjórnvald vakni til lífsins og sinni þessu mikilvæga verkefni. Í umræðunni sem kallað er eftir í borgarstjórn 3. janúar er þess vænst að borgarstjórn öll leggist yfir stöðuna, ræði viðbrögð, aðgerðir og forvarnir sem lúta að þeirri neikvæðu þróun sem hér er lýst. Orð eru til alls fyrst en huga þarf að aðgerðum og aðferðarfræði. Málefni barna og ungmenna varða okkur öll. Kjarnaspurningin er hvernig Reykjavíkurborg geti og ætli að beita sér til að spyrna fótum við þeirri óheillaþróun sem hér er lýst. Reykjavíkurborg sem sveitarfélag sem rekur m.a. skóla og félagsmiðstöðvar verður að axla einhverja ábyrgð enda á þessi þróun sér djúpstæðar orsakir og langan aðdraganda.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðunni um ofbeldi og vopnaburð ungmenna og áhrif samfélagsmiðla:

Aukning hefur verið á ofbeldi á meðal barna og ungmenna í Reykjavík. Einnig hefur færst í aukana að ungt fólk taki myndskeið af ofbeldi sem farið hafa um samfélagsmiðla eins og eldur í sinu. Það vekur ugg aðhópur barna er tilbúinn að dreifa slíku myndefni. Ungmenni sem beitir ofbeldi af ásetningi líður ekki vel.
Grunnþörfum barna þarf að sinna til að börnum geti liðið vel. Barn á ekki að þurfa að óttast að vera heimilislaust eða að fá ekki nóg að borða. Börn þurfa stöðugleika, festa rætur í félagslegu umhverfi, mynda vinatengsl og stunda nám meðal jafningja ef barn á að þrífast. Börn sem beitt eru ofbeldi eiga á hættu að skaðast og koma út í lífið full af reiði og biturleika og með brotna sjálfsmynd. Borgarfulltrúi Flokks fólksins kallar eftir að borgarstjórn vakni upp og sinni þessu mikilvæga verkefni. Orð eru til alls fyrst en huga þarf að aðgerðum og aðferðarfræði. Hlutverk borgarstjórnar er styðja betur við skólasamfélagið og foreldra með fræðslu og snemmtækri íhlutun. Stytta verður biðlista. Nú bíða 2048 börn eftir faglegri aðstoð skólanna hjá Reykjavíkurborg.

 

Bókun Flokks fólksins við um umræða um fyrirkomulag snjóruðnings í Reykjavík (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins):

Snjóhreinsun þarf að ganga snurðulaust. Bæta þarf þjónustu í húsagötum. Auka þarf afköst, breyta fyrirkomulagi, vinnulagi og fjárfesta í tækjum. Þetta mun kosta aukið fjármagn og þess vegna þarf meirihlutinn að hagræða og spara á sviðum sem ekki snerta fólk beint. Í fyrstu lotu er e.t.v. nægilegt að ryðja 60-80% af breidd húsagötu og láta ruðninga vera á götunni, ekki ryðja upp á gangstéttir hvað þá fyrir innkeyrslur. Ef innkeyrslur eru opnar skapast svæði til að mætast á bíl á meðan að ruðningar eru enn á götunni. Ef rutt er upp á gangstétt þarf annað tæki að koma og ryðja aftur út á götuna. Úrsalt er ódýrasta saltið og sjálfsagt að nota það og spara það ekki. Í útboðslýsingu þarf að koma skýrt fram til hvers er ætlast. Til eru teikningar af öllum götum og þarf verktaki að vita af þeim þannig að hann sjái hvert best er að ýta ruðningum. Stytta á upplýsingaferla milli þátttakanda í ferlinu öllu. Bæta þarf hönnun saltkassa þannig að úrkoma komist ekki í þá, annars verður saltið fljótt illmokanlegt. Saltgeymslur er kapítuli út af fyrir sig. Borgin á ekki þessar geymslur en borgin greiðir fyrir viðhald þeirra og endurgerð.

 

Bókun Flokks fólksins við umræða um baráttuna gegn spilakössum (að beiðni borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands):

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til árið 2021 að Reykjavíkurborg endurskoðaði reglur og samþykktir borgarinnar með það að markmiði að minnka rekstur spilakassa. Tillagan var felld. Reykjavík getur takmarkað rekstur spilakassa og hefur ýmsar heimildir til að setja reglur sem gætu komið í veg fyrir áframhaldandi rekstur spilakassa í borginni eða í það minnsta dregið úr slíkri starfsemi. Lögreglusamþykkt Reykjavíkur kveður m.a. á um að enginn megi reka leiktækjastað eða þess háttar starfsemi gegn borgun nema með leyfi lögreglustjóra að fenginni umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Jafnvel þótt engar reglur hafi verið settar um rekstur spilakassa þá eru í gildi ýmsar samþykktir sem hægt er að breyta og gera ítarlegri kröfur til rekstraraðila. Spilafíkn veldur samfélagslegum skaða. Þrátt fyrir það eru reknir spilakassar í Reykjavík. Þörf umræða um hvort rétt sé að banna rekstur spilakassa hefur skapast fyrir tilstilli Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem hafa staðið fyrir átakinu lokum.is

 

Bókun Flokks fólksins við umræða um loftgæði í Reykjavík í kringum áramót (að beiðni borgarfulltrúa Vinstri grænna):

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað rætt loftgæði á síðasta kjörtímabili og lagði m.a. til að borgarráð samþykkti að hvetja borgarbúa til að styrkja starf björgunarsveita án þess að kaupa flugelda. Tillagan var felld seint m.a. af VG sem þá sat í meirihluta. Mikið svifryk hefur mælst í loftinu um áramót af völdum flugelda. Mengun frá flugeldum er vandamál. Svifryk frá flugeldum er talið varasamt og heilsuspillandi. Bent hefur verið á af ýmsum sérfræðingum að loftmengun af völdum flugelda hafi neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða,sérstaklega viðkvæma hópa. Björgunarsveitir hafa treyst á sölu flugelda við tekjuöflun, en styrkja má þær þótt flugeldar séu ekki keyptir. Tvöfaldur gróði felst í því, styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi og á sama tíma taka ákvörðun um að menga ekki andrúmsloftið. Flokkur fólksins lagði fram aðra tillögu um þessi mál nú fyrir síðustu áramót og barst þá umsögn. Í umsögn er ljóst að ekki á að gera neitt. Málið er að það þarf að finna leiðir til að fá fólk til að draga úr kaupum á flugeldum á sama tíma og tryggt sé að slysavarnafélögin fái fjármagn til að halda úti sínu góða starfi.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bætta aðstöðu strætisvagnafarþega í Mjódd:

Flokkur fólksins tekur undir ábendingar sem tengjast strætó í Mjódd en þær fjalla um aðgengi að strætósamgöngum almennt séð í Mjódd. Þörf er á umbótum. Bókað hefur verið í íbúaráði um aðgengi frá aðalbyggingu í strætó (í hjólastól). Taka þarf niður kant við húsið sjálft, eyjuna þar sem strætó stoppar beggja megin við og líka eyjarnar tvær sem tengjast göngustíg og gangbraut upp í Álfabakka. Margt er hægt að segja um aðstæður biðsalar strætó í Mjódd. Árið 2019 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að biðsalurinn í Mjódd verði opinn lengur en til klukkan 18 á kvöldin eða eins lengi og vagnar Strætó ganga. Í salnum þarf að vera viðunandi aðstaða, næg sæti og aðgengileg salernisaðstaða. Nefnt hefur verið að þarna þyrfti að vera læst hjólageymsla. Það myndi nýtast t.d. farþegum sem koma lengra að, þ.m.t. frá nágrannasveitarfélögum. Umbætur á þessum stað eru liður í að gera almenningssamgöngur að fýsilegri kosti. Sannarlega má skoða aukna gæslu og auka hreinsun salerna. Varla kostar mikið að fjölga sætum og gera salinn hlýlegri.

 

Bókun Flokks fólksins undir Fundargerð forsætisnefndar frá 30. desember –   1. liður; dagskrá borgarstjórnar 3. janúar 2023 – staðfesting borgarstjórnar:

Samningur hefur verið gerður milli Ljósleiðarans og Sýnar. Hann verður staðfestur af forstjóra OR og stjórn Ljósleiðarans. Flokkur fólksins á fulltrúa í hinum svokallaða rýnihóp Reykjavíkurborgar sem er varaborgarfulltrúi Flokks fólksins situr í. Oddviti Flokks fólksins hefur ekki fengið aðgang að gögnum málsins og hefur einnig varaborgarfulltrúanum verið sagt að hún megi hvorki sýna oddvita sínum gögn né ræða við hann um það sem fram fer í rýnihópnum. Þetta stenst engan skoðun enda eru kjörnir fulltrúar allir innherjar auk þess sem oddviti og varaborgarfulltrúi leysa hvorn annan af í forföllum á fundum ráða og nefnda og í borgarstjórn. En slík er leyndin yfir þessu máli sem sannarlega vekur upp ákveðna tortryggni. Flokkur fólksins styður þá almennu reglu að öll mál sem lúta að sveitarfélaginu á að vera hægt að setja á dagskrá borgarstjórnar og skal þá meta ef nauðsynlegt er að fundur verði lokaður til að tryggja trúnað/leynd. Borgarfulltrúar utan meirihlutans verða að fá allar upplýsingar til að geta sinnt sínu lögboðna starfi. Þessi leynd gagnvart kjörnum fulltrúum samræmist augljóslega ekki sveitarstjórnarlögum og samþykktum borgarinnar. Flokkur fólksins vonar að mjög fljótt verði upplýst um allt sem snýr að þessum samningum.