Umhverfis- og skipulagsráð 25. janúar 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram og kynnt ársskýrsla Byggingarfulltrúans í Reykjavík fyrir árið 2022 ásamt yfirliti yfir úrskurði kærumála 2022 hjá Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála:

Í skýrslunni er yfirlit yfir samþykkt byggingarmagn á árinu 2022 og það borið saman við byggingarmagn síðustu ára. Í Fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru 1.062 nýjar íbúðir skráðar fullgerðar og teknar í notkun á árinu 2022. Mótteknir uppdrættir eru hlutfallslega fáir 2022. En svo má spyrja hvort þessar tölur séu áreiðanlegar. Komið hefur í ljós að mælaborð borgarinnar yfir uppbyggingu húsnæðis á vefsíðu Reykjavíkurborgar er ekki í samræmi við mælaborð Húsnæðis og mannvirkjastofnunar en það er mælaborð sem er rauntímauppbygging á húsnæði á landinu öllu. Það eru tvö mælaborð í gangi, sem er út af fyrir sig afar sérstakt, þ.e. að Reykjavíkurborg skuli fjárfesta í slíku þegar HMS hefur þetta aðallega á sinni könnu. Svo virðist sem ekki sé tenging þarna á milli en gerð mælaborðs af þessu tagi hlýtur að kosta peninga og tíma. Ef leggja ætti mat á þessar upplýsingar þá er lítill gangur í byggingargeiranum og klárlega ekki nóg byggt sem er ávísun á að íbúðaverð verði enn hátt. Fram kemur að mesta byggingarmagn var samþykkt árið 2018. Meirihlutinn hefur klifað stöðugt á því að aldrei hafi verið byggt eins mikið í Reykjavík og nú en það er ekki rétt samkvæmt þessari ársskýrslu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð SORPU bs., nr. 475, dags. 9. desember 2022:

Liður 5 og 6. Gallamál sem tengjast GAJU voru til umræðu undir þessum lið en engar niðurstöður eru birtar sem er bagalegt. Borgarbúar, meirihlutaeigendur SORPU, hafa ekki grænan grun um hvað fer fram bak við tjöldin í SORPU. Þetta getur varla talist góð stjórnsýsla eða gagnsæi til eigenda. Alvarleg mistök voru gerð hjá SORPU á síðasta kjörtímabili og er margt ennþá óljóst í þeim efnum. Til dæmis liggur ekki fyrir heildarkostnaður vegna byggingar GAJU, gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU bs. Endanlegar upplýsingar um kostnað vegna galla liggja ekki fyrir og heldur ekki hver kostnaður hefur verið af málaferlum, endurbótum og viðgerðum sem gerðar hafa verið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar. Í breytingunni felst að lóðarmörk við Einimel 18-26 eru færð út sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdr. Eflu:

Færa á lóðarmörk við Einimel 18-26 sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur. Íbúar fá leyfi meirihlutans til að stækka lóð sína inn á tún Vesturbæjarlaugar. Ár er liðið frá því að tillögu um breytingu á lóðamörkum við Vesturbæjarlaug var fagnað og tilkynnt að sátt væri um málið. Samkvæmt athugasemdum í gögnum er greinilegt að þessi sátt var eingöngu sátt á milli meirihlutans og lóðareigenda. Haft var eftir meirihlutanum í bókun frá 2022 að með breytingunni stækkaði túnið miðað við raunverulega stöðu síðustu áratuga. Flokki fólksins finnst þetta sérkennileg röksemdafærsla því borgin á þetta land. Íbúar við Einimel fá leyfi meirihlutans til að stækka lóð sína inn á tún Vesturbæjarlaugar. Fulltrúi Flokks fólksins finnst verulega hæpið að leyfa stækkun lóða sem gengur á almennt grænt svæði. Eftir auglýsingu tillögunnar kemur fram mikil andstaða sem er eðlilegt enda fer landið úr almenningseigu í einkaeigu. Hér er um dýrmætt svæði að ræða og verðmæti sennilega það hæsta á öllu landinu. Landrými á þessu svæði er eftirsótt. Flokkur fólksins telur að þarna sé verið að minnka möguleikana á að skapa fjölreytt útivistarsvæði við Vesturbæjarlaug.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt fram bréf Félag atvinnurekenda um samstarfsverkefni um nýtingu rafbíla við vörudreifingu í miðborg Reykjavíkur:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta gott eirndi og tekur heilshugar undir 1. lið þess sem er að borgin veiti i undanþágu frá reglum um hámarkslengd vörubifreiða sem nota má við vörudreifingu í miðborginni. Núgildandi reglur kveða á um 8 metra hámarkslengd, en Volvo-bíllinn sem Ölgerðin hefur tryggt sér er 8,5 metrar svo dæmi sé tekið. Varðandi lið 2 þar sem óskað er heimildar að rafknúnum vörubifreiðum verði leyft að aka á sérakreinum sem eingöngu strætó, leigubílum og neyðarumferð er heimilt að nota í dag skal hafa í huga að það mun þá tefja umferð á sérakreinum. Ef þessi fengju líka forgang þá þurfa aðrir að bíða. Að veita forgang kostar aðra alltaf eitthvað.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um bætta nýtingu á bílastæðum við ráðuneyti á Lindargötu, sbr. 55. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. ágúst 2022:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta gott eirndi og tekur heilshugar undir 1. lið þess sem er að borgin veiti i undanþágu frá reglum um hámarkslengd vörubifreiða sem nota má við vörudreifingu í miðborginni. Núgildandi reglur kveða á um 8 metra hámarkslengd, en Volvo-bíllinn sem Ölgerðin hefur tryggt sér er 8,5 metrar svo dæmi sé tekið. Varðandi lið 2 þar sem óskað er heimildar að rafknúnum vörubifreiðum verði leyft að aka á sérakreinum sem eingöngu strætó, leigubílum og neyðarumferð er heimilt að nota í dag skal hafa í huga að það mun þá tefja umferð á sérakreinum. Ef þessi fengju líka forgang þá þurfa aðrir að bíða. Að veita forgang kostar aðra alltaf eitthvað.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um nýtingu bílahúsa, sbr. 34. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs, dags. 24. nóvember 2021. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 19. janúar 2023:

Flokkur fólksins hefur lagt fram nokkrar tillögur um að auka nýtingu bílastæðahúsa. Fram kemur í svari að mest er notkun á dagvinnutíma á virkum dögum. Í einhverjum húsum er einnig mikil notkun á fimmtudags og föstudagskvöldum. Innan vikunnar er minnsta notkunin í húsunum á sunnudögum. Minnst er notkunin að nóttu til en það er þó mismunandi á milli húsa frá því að vera innan við 10% í rúmlega 40% á Vesturgötu um helgi samkv. svari. Fulltrúa Flokks fólksins finst það undarlegt að byggja bílahús og hafa nýtingu svo slaka sem raun ber vitni. Mikill skortur er á bílastæðum á götum og á meðan eru bílastæðahúsin hálf tóm. Margt er hægt að gera til að gera bílastæðahúsin meira aðlaðandi t.d. hafa meiri þjónustu og hafa þau opin allan sólarhringinn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lýsingu í borgarlandi, sbr. 23. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 23. nóvember 2022. Einnig er lagt fram svar skrifstofu borgarlandsins, dags. 16. janúar 2023:

Flokkur fólksins spurði um lýsingu í borginni en borgarbúar hafa kvartað vegna mikils myrkurs og rekja má slys til ónógrar lýsingar í borginni. Í svari kemur fram að um síðustu áramót var lýsing bætt. Allt jákvætt um það að segja. Í borginni eru þó að finna dimm svæði þar sem bæta þarf lýsingu. Verkefni af þessu tagi þarf að vera í stöðugri endurskoðun og taka þarf öllum ábendingum sem berast vel. En allt kostar þetta og vissulega þarf að forgangsraða. Ef borgin ætlar að vera einhver alvöru þátttakandi í Nordic Safe Cities um öruggar borgir er ekki nóg að hafa það á blaði.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengi á viðburðum, sbr. 14. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 21. september 2022.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengi á viðburðum
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengi á viðburðum, sbr. 14. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 21. september 2022.
Fyrirspurn um aðgengi á viðburðum. Flokkur fólksins óskar að spyrja um aðgengi að viðburðum m.t.t. aðgerðar 3.2: „Gefnir séu út gátlistar um aðgengismál á viðburðum sem berist sviðum og starfsstöðum borgarinnar. Markmið 3.2: 10-15 viðburðum verði fylgt eftir með könnunum á framkvæmd og að 75-90% viðburða hafi nýtt gátlista. Ábyrgð: Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa í samstarfi við velferðarsvið, umhverfis- og skipulagssvið og þjónustu- og nýsköpunarsvið.“ Spurt er af Flokki fólksins: Viðburðir hafa verið haldnir frá því að aðgengisstefnan var samþykkt s.s. 17. júní og Menningarnótt. Voru gátlistar tilbúnir og nýttir, var framkvæmd könnuð?

Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK22090117

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Svansvottun byggingar, sbr. 39. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Svansvottun byggingar
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Svansvottun byggingar, sbr. 39. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.
Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing VSÓ ráðgjafar dags. ágúst 2022 vegna nýs deiliskipulags að Kleppsgörðum. Í gögnum segir að ráðgert er að byggingin verði vottuð af Svaninum í samstarfi við Umhverfisstofnun sem mun koma fram í hönnun og efnisvali. Flokkur fólksins spyr hver sé  að Svansvotta bygginguna? hvað mun það kosta aukalega og hver er ávinningurinn? Hversu kostnaðarsamara verður viðhald þegar uppfylla þarf kröfu um svansvottun?

Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK23010113

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umferðamál, sbr. 40. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til s.l. 4 ár að farið verði að skoða ljósastýringar í borginni og bæta og laga erfiðustu gatnamótin með ýmsum leiðum sem stungið hefur verið upp á í gegnum tíðina. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld séu með einhverjar hugmyndir í farvatninu sem létt geta á umferð s.s. að bæta ljósastýringar þar sem verst lætur? Hvaða aðgerðir eru í gangi hjá borginni til að draga úr umferðarteppu? Þegar horft er til samgöngumála er ekki um marga valkosti að ræða. Borgarlína verður ekki komin og farin að virka fyrr en eftir nokkur ár. Komu hennar hefur verið seinkað eins og allir vita. Strætósamgöngur er slakar og hefur dregið úr þjónustu sérstaklega eftir að nýja greiðslukerfið kom. Margir treysta sér ekki til að nota það. Þeir sem hefðu getað nýtt sér einstaka ferð með strætó finna aðrar leiðir, taka jafnvel frekar leigubíl, þeir sem hafa ráð á því þ.e.a.s. þar sem ekki tekur því að setja sig inn í Klapp kerfið eða taka sér ferð á hendur  á á bækistöð Strætó til að kaupa sér Klapp tíu. Klapp tíu er aðeins fyrir  annaðhvort fullorðna, ungmenni (12-17 ára) eða aldraða (67+)

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um eftirlit og eftirfylgni kvartanna vegna slakrar þjónustu strætó bs.:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig eftirliti sé háttað vegna kvartana um ófullnægjandi þjónustu í almenningssamgöngum í Reykjavík. Ástæðan er endurteknar kvartanir fólks sem berast til Flokks fólksins vegna ófullnægjandi þjónustu strætó. Dæmi: Heilbrigðisstarfsmaður sem þarf að mæta snemma til vinnu og þarf því að taka fyrsta vagn dagsins. Viðkomandi lendir í því endurtekið að fyrsti vagn mætir alls ekki og eftir langa bið mætir loks næsti vagn. Heilbrigðisstarfsmaðurinn spyr ávallt hvers vegna viðkomandi vagn hafi ekki komið. Því miður hefur starfsmaðurinn ekki fengið skýringu eða afsökunarbeiðni frá vagnstjórum í öll þau fjögur skipti sem þetta hefur gerst undanfarnar fjórar vikur. Þessi einstaklingur er búinn að gefast upp og ætlar að fjárfesta í bíl en fjölskyldan hefur reynt að láta einn bíl duga fyrir fjölskylduna. Flokkur fólksins telur að það sé afar mikilvægt að fólk geti treyst því að útgefin áætlun standist. Traust til almenningssamgangna er algjört lykilatriði til að fá fólk til að nýta þær. Staðan í dag er þannig að almenningur lítur ekki á almenningssamgöngur sem raunverulegan valkost við einkabílinn. Þetta sjáum við og upplifum á degi hverjum með síaukinni bílaumferð. USK23010273