Borgarstjórn 5. október 2021

Mál Flokks fólksins:
Vanefndir meirihlutans á kjörtímabilinu. Meirihlutasáttmálinn
, (umræða að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins).

Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins með umræðu um vanefndir meirihlutans á kjörtímabilinu. Meirihlutasáttmálinn

Farið verður yfir meirihlutasáttmálann og nefnd dæmi um vanefndir sem birtast á hinum ýmsu sviðum borgarlífsins. Sem dæmi er ekki hægt að segja að borgin sé í örum vexti ef miðað er við sveitarfélög á atvinnusvæðinu en of lítið framboð er af lóðum í Reykjavík. Skortur er á hagkvæmu húsnæði og sérbýlum. Slegist er um hverja eign.

Talað er um grænar áherslur en skortir mjög á samkvæmni í þeim málflutningi. Á sama tíma og sagt er að stefna skuli að því að Reykjavík verði kolefnishlutlaus borg fyrir árið 2040 er verið að brenna metani í stórum stíl.

Fátækt er vaxandi vandamál í Reykjavík. Það hafa ekki allir fæði, klæði og húsnæði. Lágtekjufólk sem oft eru öryrkjar og einstæðir foreldrar á leigumarkaði eiga iðulega ekki eftir krónu þegar búið er að borga leiguna og setur allt sitt traust á hjálparstofnanir.

Þjónusta við börn er ábótavant og eru biðlistar eftir t.d. sálfræðingum og talmeinafræðingum í sögulegu hámarki. Á tveimur árum hefur biðlisti eftir fagfólki skólaþjónustu nærri þrefaldast og nú bíða 1448 börn eftir fagþjónustu Skólaþjónustunnar. Á fjórða hundrað barna bíða eftir að komast á helstu námskeið á vegum borgarinnar s.s. PMTO foreldranámskeið, Klóka krakka og fleiri námskeið.

Öryggisþættir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í borgarlandinu eru slakir. Talað er um hjól sem samgöngutæki en innviðum er ábótavant. Lítið hefur þokast í bættri aðstöðu fyrir rafmagnshjól. Hleðslustöðvar hafa ekki verið settar nógu víða þrátt fyrir ríka áherslu um að flýta orkuskiptum. Ekki hefur dregið úr svifryki og hafa umferðarvandamál, umferðarteppur með tilheyrandi mengun og ljósastýringarvandamál aldrei verið í eins miklum ólestri og einmitt nú.

Ekki er spurt um kostnað við innleiðingu á stafrænni tækni. Peningaupphæðin sem þjónustu- og nýsköpunarsvið fær á þremur árum er 10 ma.kr. Sett er upp glansmynd og verkefnin sett í spariföt en fæst eru komin í notkun og sum voru aldrei kláruð. Enn er beðið eftir hinni frægu Hlöðu, nýju upplýsingastjórnunarkerfi borgarinnar sem líta átti dagsins ljós 2019 en náði ekki að fæðast vegna öryggisvandamála. Þannig er um fjölmörg önnur stafræn verkefni sem virðast föst á tilraunastigi en sem fyrirfinnast í fullri virkni hvert sem litið er hjá öðrum fyrirtækjum í borginni, þar með hjá ríkisfyrirtækjum.

Atvinnustefna borgarinnar er ómarkviss og skautað framhjá því að dreifing vinnustaða þarf að vera í samræmi við hvar íbúar búa. Slíkt minnkar umferðarþunga við upphaf og lokun vinnutíma.

Hugmyndir um sveigjanleg starfslok og loforð um að stuðla að virkri þátttöku þeirra sem hafa verið utan vinnumarkaðar, atvinnutækifæri fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu, hafa ekki verið efndar.

Meirihlutinn er áfjáður í að gera úttekt á  úttekt á klefa- og salernisaðstæðum, sem eru af hinu góða. Á sama tíma hefur konum nánast verið úthýst úr Sundhöll Reykjavíkur því nú er þeim gert að ganga langa leið frá klefa í laug í blautum sundfötum í stað þess að þær fái aðgang að nýendurgerðum búningsklefunum í aðalbyggingu eins og karlar hafa fengið.

Ekkert bólar á fjölgun skólahljómsveita sem aðeins eru fjórar. Af 15.500 nemendum í Reykjavík eru um 700 börn í þeim fjórum skólahljómsveitum sem ætlað er að dekka 10 hverfi borgarinnar. Segja má að það sé útilokað að allir þeir nemendur sem þess óska rúmist í þessum fjórum hljómsveitum. Áform voru um hverfiskóra sem ekkert heyrist um.

Fátækum foreldrum er bent á að nota frístundakort barna sinna til að greiða upp í gjald frístundaheimilis í stað þess að styrkja þá með öðrum hætti og hvetja barn til að nota frístundakortið sitt sem er réttur þess.

Í þessari kynningu hefur aðeins verið tæpt á broti af málum sem lesa má í meirihlutasáttmálanum. Raktar verða fleiri vanefndir þessa meirihluta í ræðu á fundi borgarstjórnar og farið dýpra í þær sem hér eru nefndar.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um vanefndir meirihlutans og meirihlutasáttmálann

Íbúðaskortur og biðlistar er kjarninn í vanefndum þessa meirihluta. Þvert gegn því sem stendur í Meirihlutasáttmálanum þar sem segir að byggja eigi sem aldrei fyrr. Samt hafa aldrei verið færri íbúðir á markaði í Reykjavík frá 2017. Ástæðan er skortur á lóðaframboði. Lóðaskorturinn kemur í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu á þéttingarreitum.
Langur biðlisti er eftir félagslegri leiguíbúð og sértæku húsnæði fyrir fatlaða.
Fátækt er vandamál í Reykjavík. Lágtekjufólk á ekki mikið eftir þegar búið er að borga leiguna. Hópurinn sem leitar til hjálparstofnana hefur stækkað.
Á þremur árum hefur biðlisti eftir fagfólki í skólaþjónustu þrefaldast og nú bíða 1448 börn á listanum. Ekki voru efnd loforð um sveigjanleg starfslok eldra fólks. Atvinnutækifæri fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu eru sárafá. Grænum áherslum hefur verið hampað á meðan metan er brennt á báli í stórum stíl! Ævintýralegar upphæðir hafa streymt í stafræn tilraunaverkefni til að borgin geti verið stærst og mest á heimsmælikvarða. Fátt er um afurðir, hvar er t.d. „Hlaðan“ og Gagnsjáin nýtt skjala- og upplýsingakerfi sem átti að koma í notkun fyrir 2 árum. Ekki skal undra ef einhverjir eru farnir að telja niður þetta kjörtímabil í þeirri von að nýr meirihluti breyti forgangsröðun verkefna í þágu þjónustu við fólk, börn, öryrkja og eldri borgara.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: tillaga að lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030 sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. september sl.:

Lýðheilsa er samheiti yfir heilsuvernd og forvarnir og miðar að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks. Í stefnunni eru ávarpaðir góðir og mikilvægir hlutir. Ef þetta er það sem vilji stendur til af hverju hefur þá ekki verið tekið betur á lýðheilsumálum? Mælingar á líðan barna sýna versnandi líðan þeirra. Heilsa og hamingja byggir á svo mörgu, t.d. að hafa fæði, klæði og húsnæði og þurfa ekki að hafa áhyggjur af börnum sínum. Nú fer fátækt vaxandi. Ekki er minnst á biðlista sem er án efa einn stærsti lýðheilsuvandi í borginni þar sem okkar minnstu og viðkvæmustu borgarbúar bíða eftir að fá nauðsynlega þjónustu til þess að geta liðið betur andlega. Biðlistar barna eru í sögulegu hámarki og hafa þrefaldast á þessu kjörtímabili. Eldri borgarar fá ekki mikið vægi í stefnunni. Eldra fólki er gert að hætta að vinna þvert ofan í það sem einhver kynni að langa. Ánægja tengd vinnuvirkni er einnig lýðheilsutengd. Það getur varla fallið undir „þátttöku allra“ að vilja ekki skoða tillögu um sveigjanleg starfslok eftirlaunafólks. Ótalin er sú vá sem fylgir mengun og svifryki. Umferðartafir valda mengun þar sem ljósastýringar eru í ólestri. Borgin á margar góðar „stefnur“ en hvar eru framkvæmdirnar?

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er sammála tillögunni að stærstum hluta því hún er ákveðið framhald af þeirri gagnrýni og umræðu sem fulltrúi Flokks fólksins hefur viðhaft frá því í janúar. Hagkvæmasta leiðin í stafrænni vegferð hlýtur að vera sambland af inn- og útvistun: innvista beina þjónustu og grunnþjónustu og útvista hugbúnaðarsmíð og innbótum sem þarf til uppfærslu á þeim vefjum/kerfum sem nú eru til staðar hjá borginni. Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi að hrúga saman í skyndi nýráðnum hópi allskyns sérfræðinga og ímynda sér að hér verði til í skyndi einhver hugbúnaður sem eigi að vera meiri og betri en hægt er að finna hér allt um kring. Offorsið sem einkennir þessa vegferð er langt umfram þörf því það ríkir ekkert neyðarástand hér varðandi aðgengi fólks að vefjum Reykjavíkurborgar. Stafræna vegferð þarf að hefja, svo mikið er víst, en það er ekki samþykkjanlegt að ausa tíu milljörðum af almannafé í allskonar lausung sem enn sér ekki fyrir endann á. Segja ætti upp öllum erlendum ráðgjafasamningum. Fara á sambærilega leið og ríkið sem komið er lengra á leið. Leita á eftir mun meiri samvinnu ríkis og sveitarfélaga með því markmiði að koma eins miklu undir island.is og hægt er.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um að Borgarstjórn samþykki að hafna styrk frá Bloomberg Philanthropies, í eigu Michael R. Bloomberg, upp á tæplega 2,2 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 300 milljónum íslenskra króna.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur það enga sérstaka upphefð fyrir Reykjavíkurborg að vera komin í þetta samflot. Reykjavík er lítið sveitarfélag samanborið við stórborgir sem hér eru nefndar og getur varla sinnt sínum viðkvæmustu borgarbúum með fæði, klæði og húsnæði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að það síðasta sem Reykjavíkurborg þurfi á að halda núna, sé enn meiri erlend ráðgjöf ofan á alla aðra sem búið er að fjárfesta í en sem sést hvergi hvar er að gagnast stafrænni umbreytingu. Eina sem sést er flæði fjármagns úr borgarsjóði í hin og þessi verkefni sem fæst sýnast ætla að sjá dagsins ljós á þessu kjörtímabili. Það liggur fyrir að þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur lagt dag við nótt við umsóknargerð og önnur lofbréf um „sjálft“ sig til að fá tilboð um þátttöku Bloomberg samnings. Samningurinn kallar á að ráða þarf í 5 ný stöðugildi. Hvernig stendur á því að Reykjavík sé ekki bara í samfloti með Kaupmannahöfn, Stokkhólmi eða Osló sem Reykjavík öllu jafna ber sig saman við? Eru þær borgir kannski svona aftarlega á merinni í stafrænni umbreytingu að þær eru ekki nógu góðar fyrir Reykjavík, hvað þá Bloomberg? Reykjavík er hér að leita langt yfir skammt.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. og 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. september:

Liður 4: Sjö hæða turn mun loka á útsýni í báðar áttir. Reiturinn tengir Sæbraut og miðborgina með sjónrænum hætti. Áður var þessi reitur til skoðunar sem leikskólalóð. Þessa lóð hefði þurft að nota fyrir innviði. Þessi ákvörðun er auk þess ekki í sátt við íbúa á svæðinu. Liður 14, viðaukar við fjárfestingar: Stafræn umbreyting og rafvæðing ferla, 525.000 m.kr. til að hraða stafrænni umbreytingu og nota á milljónirnar til að ráða inn marga svokallaða stafræna leiðtoga. Hér er farið fram af offorsi. Þótt stafræn mál séu í ólestri er ekki hér um neyðarástand að ræða. Farin er vitlaus leið og hafa m.a. Samtök iðnaðarins bent á það. Útvista ætti hugbúnaðarþróun og halda inni tölvuþjónustu við notendur sem og annarri grunnþjónustu. Búið er að eyða hundruðum milljóna í erlenda og innlenda ráðgjöf og ráðnir hafa verið tugir sérfræðinga á ýmsum sviðum, stærra húsnæði tekið á leigu og stórum upphæðum eytt í uppfærslur á bæði búnaði og aðstöðu eins sviðs umfram önnur á Höfðatorgi. Sjálfsagt er að gera það sem mest er brýnt og þess vegna að ganga til liðs við Stafrænt Ísland sem hefur þessar lausnir, a.m.k. grunninn, sem Reykjavíkurborg getur ýmist byggt á eða nýtt að fullu.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum fundargerðir.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill þakka dr. Vilborgu Auði Ísleifsdóttur fyrir að vekja aftur athygli á slæmri staðsetningu nýs kvennaklefa í Sundhöll Reykjavíkur. Af hverju geta konur ekki fengið aftur gamla búningsklefann óski þær þess nú þegar endurgerð hans er að fullu lokið? Það nær ansi skammt að leyfa konum og stúlkum aðeins að ganga innandyra úr klefa í innilaug í vondum veðrum. Segir að nota eigi gamla búningsklefa kvenna í einhverri mynd. Hvers lags vanvirðing er þetta gagnvart konum sem sækja sund í Sundhöllina? Borgin státar sig af jafnréttisstefnu en fer síðan ekki eftir henni, alla vega ekki í þessu máli. Fulltrúi Flokks fólksins var með fyrirspurnir um málið í byrjun árs 2020 til skipulags- og samgönguráðs og mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs borgarinnar. Þá var óskað eftir skýringum á því hvers vegna konur hafi ekki fengið aðgang að eldri búningsklefum sínum þegar endurbótum var lokið eins og karlar. Hér eru jafnréttissjónarmið fótum troðin. Endurgerð Sundhallarinnar hvað þennan þátt varðar samræmist ekki stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum. Það liggja engar haldbærar skýringar fyrir á því hvað hindrar það að konur fái aftur gamla búningsklefann sinn og hlífa þeim við að ganga langar leiðir á blautum sundfötum frá klefa að laug.