Borgarstjórn 9. apríl 2024

Borgarstjórn Reykjavíkur
9. apríl 2024

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um óháða úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði varðandi hagræðingu og framtíðarskipulag sviðsins
Borgarstjórn samþykkir að gerð verði óháð úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði varðandi hagræðingu og framtíðarskipulag sviðsins.

Greinargerð

Flokkur fólksins leggur fram tillögu þess efnis að óháður aðili utan borgarkerfisins verði fenginn til að gera allsherjar úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði m.t.t. hagræðingar og útvistunar þeirra þátta innan sviðsins sem betur er fyrir komið í höndum sérfræðinga á einkamarkaði.
Það er öllum ljóst að framkvæmd stafrænnar umbreytingar Reykjavíkurborgar hefur hingað til ekki skilað því sem ætlað var í upphafi. Á annan tug milljarða sem ákveðið var að ráðstafa í stafræna vegferð Reykjavíkurborgar fyrstu þrjú árin, er núna uppurinn með öllu. Einnig hefur sviðið nú þegar fengið mikið fjármagn síðustu tvö árin utan þess sem búið var að ráðstafa í stafræna umbreytingu. Þrátt fyrir þetta er þjónustu- og nýsköpunarsvið enn að sækja um háar fjárhæðir í stafræn verkefni sem að öllu jöfnu ætti nú þegar að vera lokið.
Það er því löngu tímabært að borgarbúar fái úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort þeir miklu fjármunir sem þeir hafa verið að greiða í stafræna vegferð undanfarin ár hafi með flestum hætti skilað sér í formi tilbúinna lausna sem nú þegar ættu að hafa litið dagsins ljós.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins:

Tillaga Flokks fólksins um að fá óháða úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði um hagræðingu og framtíðarskipulag sviðsins hefur verið vísað í borgarráð. Stafræn vegferð er framtíðin, um það er ekki deilt. Flokkur fólksins í borgarstjórn er búinn að fá nóg að því að horfa uppá hvernig farið hefur verið með almannafé í stafræna vegferð sem hefur einkennst af lausung og ábyrgðarleysi.  Ávinningurinn er í litlu samræmi við fjárútlát. Innri endurskoðun hefur ekki treyst sér til að rannsaka málið ennþá. Hlutverk kjörins fulltrúa er að  gagnrýna ef grunur leikur á óábyrgri fjármála- og verkefnastjórn. Fjölmargir undrast að meirihlutinn samþykkir hverja krónu sem sviðið kallar eftir gagnrýnislaust.  Ítrekað hafa æðstu stjórnendur neitað að ræða þessa hluti. Þeir kenna jafnvel pólitískum fyrirspurnum sem öllu jafna koma frá Flokki fólksins um klúðrið.  Aðrir minnihluta flokkar hafa ekki treyst sér í þennan slag. Millistjórnendur Þjónustu og nýsköpunarsviðs hafa heyrst gagnrýna nýju kerfin sem eru ekki nógu góð. Áfram hefur þurft að viðhalda þeim gömlu samhliða sem þýðir að unnið er í tveimur kerfum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fundargerð forsætisnefndar frá 5. apríl

Liður 5.

Um er að ræða ályktunartillögu meirihlutans um að þagga niður í fulltrúum minnihlutans í vandræðalegum málum. Fulltrúi Flokks fólksins undrast þessa ályktunartillögu. Kvartað er yfir að Flokkur fólksins leggi fram margar fyrirspurnir. Það er þó ekkert skrýtið því flestum fyrirspurnum frá þjónustu- og nýsköpunarsviði er svarað bæði seint og illa. Þegar svör loks berast eru oft þau snubbaraleg og lykta jafnvel af hroka. Sum svör eru aðeins eitt orð. Það virðist sem útilokað sé að fá hreinskiptin og einlæg svör frá sviðinu og undir “svörin” skrifar iðulega sviðstjórinn sjálfur. Einkennilegt er að stundum er “sannleikurinn” í svörunum ekki alveg sannleikanum samkvæmur. Stafrænt ráð var stofnað við upphaf kjörtímabilsins. Þetta ráð hefur ákveðið hlutverk og skyldur.  Það er því miður svo að stafrænt ráð sinnir ekki þeirri eftirlitsskyldu sem ráðinu ber þegar um er að ræða ráðstöfun á svo háum fjárhæðum sem veitt er til þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Stafrænt ráð virðist kvitta upp á allar fjárbeiðnir gagnrýnislaust. Flokkur fólksins hefur orðið fyrir ómældu aðkasti vegna þess eins að leggja fram áleitnar fyrirspurnir og halda á lofti rökstuddri gagnrýni varðandi það að oft er ekkert samhengi á milli eyðslu annars vegar og afraksturs hins vegar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um ferðaþjónustu í höfuðborginni og áhrif hennar á mannlíf, umhverfi og fjárhag:

Ferðaþjónusta þarf að vera í jafnvægi og sátt við íbúa og náttúru höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt spálíkani er gert ráð fyrir að árið 2024 komi rúmlega 2,4 milljónir ferðamanna til landsins. Að sama skapi gerði spáin ráð fyrir að fjöldi ferðamanna í fyrra, þ.e. árið 2023, hefði verið tæplega 2,3 milljónir. Samkvæmt þessu eru ferðamenn u.þ.b. sexfaldur íbúafjöldi landsins. Það er augljóst að slíkur fjöldi skapar álag á innviði landsins. Rannsóknamiðstöð ferðamála gerði athyglisverða könnun haustið 2023 á viðhorfi til ferðamanna skemmtiferðaskipa hjá íbúum stærstu móttökuhafna skemmtiferðaskipa á Íslandi, þ.e. í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði. Í Reykjavík voru flestir svarendur könnunarinnar á því að borgin réði almennt vel við að þjónusta farþega af skemmtiferðaskipum og að hafnaryfirvöld réðu vel við að taka á móti skipunum. Reykvíkingar voru þó síður en íbúar á Akureyri og á Ísafirði á því að skipin væru efnahagslega mikilvæg fyrir borgina. Aðeins um einn af hverjum fjórum svarendum í Reykjavík taldi íbúa í borginni verða fyrir ónæði af komum skemmtiferðaskipa, sem var nokkuð minna en á hinum stöðunum. Fulltrúi Flokks fólksins telur svona könnun mikilvæga til að fylgja eftir viðhorfi heimamanna til ferðaþjónustunnar og að hún gangi ekki freklega á innviði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að Borgarstjórn samþykkir að leita samstarfs við að lágmarki fimm grunnskóla í Reykjavík um tilraunaverkefni með svokallaða fimm ára bekki.

Lagt er til að sett verði í gang tilraunaverkefni um að koma á fót fimm ára bekkjum í að minnsta kosti fimm grunnskólum borgarinnar. Flokkur fólksins er sammála þeirri nálgun. Mikilvægt er að tilraunaverkefnið verði unnið í nánu samráði við foreldra og skólasamfélög leik- og grunnskóla. Þetta gæti verið góð tenging milli þessara skólastiga – sem einhverskonar forskóli. Börn eru misjafnlega tilbúin til að hefja skólagöngu og mun þetta úrræði því ekki henta öllum börnum – ef til vill ekki þeim sem eru fædd seint á árinu. Fulltrúi Flokks fólksins telur að ekki eigi að vera markmið í sjálfu sér að stytta skólagöngu barna heldur væri þarna um viðbót að ræða og aukið val. Á þessum aldri læra börn mikið í gegnum leik og er því mikilvægt að halda í kennsluaðferðir leikskólastigsins þar sem leikur er í forgrunni í náminu. Einnig má benda á að með þessu myndi jafnvel losna um einhver leikskólapláss í leiðinni – sem ekki er vanþörf á miðað við þá slæmu stöðu leikskólamála sem hefur verið viðvarandi alltof lengi í Reykjavík.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands að Reykjavíkurborg taki sjálf yfir rekstur á skiptistöðinni Mjódd að Þönglabakka 4. Opnunartími skiptistöðvarinnar verði sá sami og aksturstími vagnanna, hún opni þegar akstur hefst að morgni, loki ekki fyrr en síðasti vagn hefur yfirgefið skiptistöðina og sé opin um helgar á meðan vagnar eru í umferð.

Lagt er til af hálfu Sósíalistaflokksins að Reykjavíkurborg taki yfir rekstur á skiptistöðinni Mjódd. Flokkur fólksins styður þessa tillögu vegna þess að lengi hefur verið ljóst að aðstaða strætisvagnafarþega í Mjódd er algjörlega óviðunandi. Flokkur fólksins studdi tillögu meirihlutans á sínum tíma um að finna ábyrgan rekstraraðila til að reka skiptistöðina. Það hefur ekki gengið og því þarf að leita annarra lausna. Ófremdarástand hefur ríkt í skiptistöðinni í Mjóddinni. Opnunartími hennar verður að vera sá sami og aksturstími vagnanna. Mikilvægt er að farþegar hafi ávallt skjól frá veðri og vindum á meðan beðið er eftir vagni. Huga þarf einnig mun betur að þrifum salerna og á staðnum verður að vera öryggisvörður á vakt. Einnig þarf að stórbæta alla upplýsingagjöf á staðnum og taka þarf sérstakt tillit til þeirra sem ekki tala íslensku. Það er í raun óskiljanlegt að Reykjavíkurborg hafi leyft þessu ófremdarástandi að viðgangast eins lengi og raun ber vitni. Tillögur til úrbóta hafa einfaldlega verið of máttlausar til þess að leysa vandann með viðunandi hætti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Fram fer umræða um tækifæri sem felast í innleiðingu gjaldfrjálsra skólamáltíða í grunnskólum Reykjavíkurborgar. MSS24040054

Frumkvæði um fríar skólamáltíðir fyrir börn þeirra verst settu kom frá Flokki fólksins fyrst árið 2018. Samhliða auknum ójöfnuði í Reykjavík og vaxandi fátækt hefur Flokkur fólksins þó meira horft til þess að gripið verði til sértækra aðgerða og að börn tekjulágra foreldra fái gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Þó skal ítreka að eina raunverulega leiðin til að fullvissa sig um að ekkert barn sé svangt í skólanum, er að hafa fríar skólamáltíðir fyrir alla. Efnahagur  fjölskyldna er misjafn. Fjöldi foreldra er vel stæður og vill gjarnan greiða fyrir mat fyrir börn sín. Annar hópur, því miður allt of stór, er hins vegar efnalítill og jafnvel sárfátækur. Það verður þó að taka fram að ekki eru allir eins efnalitlir og fátækir foreldrar sem njóta fjárhagsaðstoðar. Það er þessi hópur sem þarf að vera settur í forgang og þjónusta við börn þeirra að vera að fullu greidd af sveitarfélaginu.

 

Bókun Flokks fólksins undir 19. lið fundargerðarinnar frá 21. mars; reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg:

Fjárhagsaðstoð er fyrir þau sem hafa ekkert annað að leita í og eru upphæðirnar svo lágar að fólk lifir oft ekki af. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af málsgreininni „Sanna skal á sér deili innan tveggja virkra daga frá því að umsókn var lögð fram nema lögmæt forföll hamli því, s.s. veikindi eða fötlun.“ Gera á þá breytingu að ef einstaklingur mætir ekki í boðað viðtal eða námskeið og eða staðfestir ekki atvinnuleit, nú eða hafnar vinnu, verði grunnfjárhæð skert um 50% en heimilt sé að skerða eingöngu um 15% ef viðhlítandi skýringar eða veigamiklar ástæður eru fyrir hendi. Það er mat Flokks fólksins að of mikill ótti ríkir um að fólk sé að misnota kerfið. Kannski er aðeins of mikil harka í þessum reglum. Sumt er einnig of matskennt og getur reynst erfitt fyrir starfsfólk að komast að niðurstöðu. Finna þarf leið til að hafa reglurnar sveigjanlegar en þó ekki opnar fyrir geðþóttaákvörðunum yfirvalda. Reglurnar þurfa að vera sanngjarnar til að fólk sem sækir um aðstoðina upplifi öryggi og stuðning sveitarfélagsins í stað þess að finnast það vera tortryggt.