Borgastjórn 27. nóvember 2018

Umræða um lokun Laugavegsins fyrir akandi fólk

Bókun Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur stórar efasemdir um þá almennu gleði sem sögð er ríkja með lokun gatna í miðbænum og þar með Laugavegsins. Staðreyndin er sú að þeir eru margir sem finnst illa komið fyrir Laugaveginum og miðborginni almennt séð þegar kemur að aðgengi. Í þessum hópi er verslunareigendur, leigjendur og hreyfihamlaðir.  Verslun, gamalgróin eins og Brynja getur varla þrifist lengur við þessar aðstæður. Hverjir eru svo þeir sem halda lífinu í Laugaveginum þ.e. aðrir en ferðamenn? Flokkur fólksins hefur lagt til að gerð verði könnun meðal íbúa úthverfa sem ekki starfa í miðbænum og þeir spurðir hversu oft þeir sæki miðbæinn og þá í hvaða tilgangi. Flokkur fólksins fer fram á lýðræði hér og að sérstaklega verði hugað að fólki sem ekur P merktum bílum. Tillaga var lögð fram í borgarstjórn af borgarfulltrúa Flokks fólksins um að P merktir bílar geti lagt í göngugötum og að hámarkshraði yrði 10 km/klst. Hagsmunaaðilar fatlaðra fögnuðu framlagningu þessarar tillögu. Það segir sennilega allt um hið svokallaða „samráð“ sem meirihlutinn fullyrðir að hafi verið haft við alla hagsmunaaðila við þá ákvörðun að loka Laugavegi og stórum hluta miðbæjar fyrir akandi fólki.

Lagt er til að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa og almennings.

Notendasamráð er skilgreint sem aðferð þar sem notandi kemur að mótun sinnar eigin þjónustu í samráði við þjónustuaðila og byggir á valdeflingu og þátttöku  notenda. Nú þegar er þetta í starfsáætlunum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og er mjög mikilvægt að haldið verði áfram að auka vægi hlutdeildar notenda á öllum sviðum borgarinnar. Notendasamráð á rætur sínar að rekja til aukinnar áherslu á félagslegt réttlæti og mannréttindi. Notendasamráð styrkir vald og þátttöku notenda.
„Notendasamráð“ hefur vakið áhuga háskólanema sem hafa rannsakað það m.a. í
lokaverkefnum og haldnir hafa verið opnir fundir um notendasamráð. Breytingar hafa verið gerðar á lögum um félagsþjónustu sem fela í sér auknar skyldur fyrir Reykjavíkurborg um samráð við notendur um framkvæmd þjónustu fyrir fatlað fólk.

Greinargerð:

Að hafa samráð við notendur um þá þjónustu sem þeim er ætlað eru bæði sjálfsögð og eðlileg mannréttindi. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að vera þátttakandi í eigin lífi og taka sjálfur þátt í ákvörðunum sem varða eigin hag, líðan og almennar aðstæður. Engu að síður er notendasamráð tiltölulega nýtt í umræðunni og ekki síst í framkvæmdinni. Ekki er vitað hversu víðtækt notendasamráð er haft við notendur hjá Reykjavíkurborg. Til þess að notendasamráð tvinnist inn í menningu og samfélag þarf hugmyndafræðin að vera greipt í námsefni fagaðila og verða hluti að fagþekkingu og reynslu. Öðruvísi mun ekki takast að innleiða hugmyndafræði notendasamráðs með markvissum hætti. Lagt er til hér að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg ákveði að hafa notendasamráð í öllum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa og almennings. Notendur einir geta upplýst um það hvort notendasamráð sé viðhaft og virkt alls staðar þar sem verið er að ákveða og þróa þjónustu og ólíkar aðstæður fyrir fólk. Þess vegna er mikilvægt að spyrja notendur reglulega með þar til gerðum spurningakönnunum. Grunnur notendasamráðs er að stjórnvöld hlusti á hvað notandinn er að segja þegar verið er að skipuleggja eða þróa þjónustu. Vinna á með fólki en ekki með fólk. Það er notandinn sem á að kenna fagaðilum og stjórnvöldum hvernig hægt er að mæta þörfum hans sem best. notandinn
er sérfræðingur í eigin lífi. Mikilvægt er að notandinn sé með frá byrjun ekki bara á seinni stigum.

Tillögunni vísað frá af meirihlutanum

Bókun Flokks fólksins er eftirfarandi:

Það er nú fokið í flest skjól þegar meirihlutinn getur ekki samþykkt tillögu Flokks fólksins að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa. Látið er að því liggja að notendasamráð sé í fullri virkni enda nefnt 9 sinnum í sáttmála meirihlutans. Meirihlutinn getur ekki samþykkt sína eigin stefnu? Borgarfulltrúi Flokks fólksins hélt í barnaskap sínum að þessi tillaga, ef einhver, myndi vera fagnað af meirihlutanum enda mikilvægt að skerpa á svo mikilvægum hlut sem notendasamráð er. Notendasamráð er sannarlega í orði en staðreyndin er að það er enn sem komið er, ekki nema að hluta til á borði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nefna nýlegar upplýsingar frá notendum þjónustu sem segja að áherslur notenda nái oft illa fram að ganga og að enn skorti á raunverulegt samráð þótt vissulega sé það stundum viðhaft á einhverju stigi máls. Hér hefði verið kjörið tækifæri fyrir meiri- og minnihlutann að sameinast um enn frekari skuldbindingu þess efnis að Reykjavíkurborg hefði notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hagsmuni og hag hópa og almennings.

Bókun Flokks fólksins er varðar tillögu að hverfa frá arðgreiðslum í eigendastefnu OR

Flokkur fólksins vill bæta hag eldri borgara, öryrkja og barnafjölskyldna. Tillögum sem lúta að aukinni þjónustu við börn og aðstoð við hina verst settu kalla á aukin útgjöld úr borgarsjóði ef ekki næst hagræðing og sparnaður. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur verið með ýmsar sparnaðartillögur, sumar sannarlega óvinsælar, til að skrapa saman fé svo hægt sé að rökstyðja tillögur sem lúta t.d. að bættum aðstæðum fátæks fólks. Þess vegna getur Flokkur fólksins ekki stutt tillögur sem minnka borgarsjóð svo sem að hverfa frá arðgreiðslum OR. Reykjavík byggði upp OR, ekki nágrannasveitarfélögin.  Eðlilegt er að þeir sem byggðu fyrirtækið fái af þeim arð. Ef arðurinn er lækkaður þá er í raun verið að deila arðinum til allar jafnt, líka til þeirra sem ekkert lögðu til við uppbygginguna sem og þeirra sem eru vel settir. Ef borgin útdeilir fjármagni til verkefna í þágu þeirra sem minnst mega sín þá kemur það öllum borgarbúum til góða. Orkuveitan er sambærileg Landsvirkjun sem greiðir eigendum sínum arð sem nýtist öllum landsmönnum. Arðgreiðslur frá OR nýtast öllum Reykvíkingum. Tekjur Orkuveitunnar eru ekki einungis frá borgarbúum heldur einnig frá stórfyrirtækjum og íbúum nágrannasveitarfélaga.  Að taka arðgreiðslur og deila þeim út til mikilvægra verkefna í þágu fátækra og þeirra lægst launuðu getur þannig verið kjarajöfnun.