Eden-hugmyndafræðin, vagga hlýleika í nánd við lífríkið

Eden er hugmyndafræði sem tileinkar sér mannlegt umhverfi þar sem lífið snýst um nálægð og sambönd við börn, dýr og plöntur. Í borgarstjórn 20. apríl sl. lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að borgarstjórn samþykki að hjúkrunarheimili Reykjavíkurborgar starfi eftir Eden-hugmyndafræði og að samþykkt yrði einnig að hvetja hjúkrunarheimili sem eru sjálfseignarstofnanir að taka upp hugmyndafræðina hafi þau ekki gert það.
Tillögunni var vísað til meðferðar velferðarráðs þar sem borgarfulltrúi Flokks fólksins á jafnframt sæti.

Nokkur dvalar- og hjúkrunarheimili á landinu eru rekin sem Eden-heimili t.d. Ás í Hveragerði og dvalar- og hjúkrunarheimilið á Akureyri. Í Reykjavík er hjúkrunarheimilið Mörk vottað Eden-heimili og Grund er að undirbúa að verða Eden-heimili.

Eden-hugmyndafræðin snýst um að fólk sem flutt er á hjúkrunarheimili sé ekki aðeins í hlutverki þiggjandans heldur fái tækifæri til að vera virk og gefa af sér. Jafnframt að heimilisfólk haldi sjálfstæði sínu og reisn og taki ákvarðanir um daglegt líf sitt. Hjúkrunarheimili reyna að sjálfsögðu öll að skapa notalega tilveru fyrir heimilisfólkið en hugmyndafræði Eden gengur lengra. Í Eden-hugmyndafræðinni er áhersla á lifandi umhverfi, nálægð við líffræðilegan fjölbreytileika, ræktun plantna, matjurtagarða og samskipti við börn og dýr. Nærvera við dýrin veitir gleði og birtu í ýmsum myndum og formum. Fólk nýtur þess að vera í félagsskap við dýrin. Samneyti dýra og manna umbreytir hjúkrunarheimili í fjölbreytilegt og líflegt heimili. Einnig er áhersla á að hver íbúi hafi eigin húsgögn/eigur. Með þessari fjölbreyttu og persónulegu nálgun er markmiðið að auka virkni íbúanna og að þeir upplifi tilgang í lífinu.

Uppruni Edens og útbreiðsla

Hugmyndafræði Eden varð til í Bandaríkjunum fyrir meira en þrjátíu árum og er höfundur hennar læknirinn Bill Thomas. Hugmyndin spratt út frá því hversu algengt það var að fólk á hjúkrunarheimilum væri einmana og einangrað. Við einmanaleika, leiða og vanmáttarkennd eru engin lyf til nema þau lyf sem deyfa og sljóvga. Kjarni hugmyndafræðinnar er að fólkið taki fullan þátt í því sem lífið hefur upp á að bjóða. Umhverfi þeirra er gert persónulegt og er skreytt af þeim sjálfum. Mest um vert er að opnað er fyrir þann möguleika að fólk haldi gæludýr og komist í tengsl við plöntur/ræktun. Með gæludýrunum er hægt að gefa íbúunum hlutverk og auka virkni þeirra, t.d. má bjóða þeim sem óska að hafa gæludýr að hafa páfagauk inni í herbergi sínu eða fiska. Þar sem Eden-hugmyndafræðin er viðhöfð hefur það sýnt sig að íbúar njóta þess að hafa ábyrgðina.

Reykjavíkurborg á og rekur tvö hjúkrunarheimili, Droplaugarstaði og Seljahlíð. Sólarhringsþjónusta er á báðum stöðum. Önnur átta dvalar- og hjúkrunarheimili í Reykjavík eru sjálfseignarstofnanir sem starfa samkvæmt heilbrigðislögum til að vinna að málefnum aldraðra. Öldrunarheimili Akureyrar varð fyrst íslenskra hjúkrunarheimila til að hljóta alþjóðlega viðurkenningu sem fullgilt Eden-heimili. Eden-stefnan er alþjóðleg hugmyndafræði sem dvalarheimili víða um heim vinna eftir. Heimilin sem fylgja hugmyndafræðinni eru orðin mörg hundruð víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Ástralíu.

Í aðdraganda framlagningar tillögunnar var haft samband við hjúkrunarheimili sem styðjast við Eden-hugmyndafræðina. Samdóma álit var að í hugmyndafræðinni er að finna frábær verkfæri og að áherslan á samband og samskipti við börn, dýr og plöntur skapar tilgang. Aðaláherslan er að sjálfsögðu á tengslin, nándina, samkennd, virðingu og kærleika.

Verði tillagan samþykkt í velferðarráði er opnað fyrir þann möguleika að Eden hugmyndafræðin verði sú nálgun sem fylgt er á hjúkrunarheimilum Reykjavíkurborgar og samhliða er hvatt til þess að svo megi einnig verða á hjúkrunarheimilum sem eru sjálfseignarstofnanir.

Sjá má nánar um Eden-hugmyndafræðin m.a. í meistararitgerð Áslaugar Kristvinsdóttur „Hlýleiki í anda Eden hugmyndafræðinnar“ árið 2019.

Birt í Morgunblaðinu 30.4. 2021