Bréf sent foreldrum í kjölfar þess að gengið er í bekki

Dæmi um bréf sem hægt er að senda foreldrum í kjölfar þess að gengið er í bekki og rætt við börnin um að taka höndum saman gegn eineltishegðun í skólanum.

Kæru foreldrar

Gengið hefur verið í alla bekki og rætt við krakkana um einelti, birtingarmyndir þess þar á meðal rafrænt einelti. Kallað var eftir samvinnu við krakkana um að hjálpa til við að fylgjast með nærumhverfi sínu og saman myndum við sjá til þess að helst engin mál af þessu tagi komi upp í skólanum í vetur.

Enginn vill vera í sporum þess sem lagður er í einelti og vilja börn gjarnan leggja sitt af mörkum til að tryggja fyrir sitt leyti að enginn þurfi að kvíða því að koma í skólann á morgnanna vegna stríðni eða eineltis.
Meðfylgjandi (eða á vef skólans) má sjá innleggið sem farið var með í bekkina.

Við biðjum ykkur, kæru foreldrar að kynna ykkur þessa punkta og vinsamlegast hjálpið okkur að minna börnin á að koma ávallt fram við alla krakka af virðingu og prúðmennsku. Ekkert réttlætir neikvæða framkomu og öll börn eiga rétt á að líða vel í skólanum sínum.

Foreldrar eru lykilaðilar þegar kemur að því að kenna börnunum góða samskiptahætti og minna þau á með reglubundnum hætti að eineltishegðun og stríðni er ekki liðin og að komi slík mál upp verði tekið á þeim af fullri alvöru.

Umsjónarkennarar munu ekki láta sitt eftir liggja til að sporna við að mál af þessum toga komi upp í vetur. Þeir munu halda umræðunni gangandi með því ræða reglulega um þessi mál við börnin.

Með því að ganga í bekki og ræða beint við börnin með þessum hætti teljum við að verið sé að vinna fyrirbyggjandi starf til að sporna við einelti. Forvarnir sem þessar skila hvað bestum árangri séu allir þeir sem að börnunum standa samtaka.

Að lokum er minnt á eyðublaðið “Tilkynning um einelti” (ef skólinn er þ.e.a.s. með slíkt) sem foreldrar geta fyllt út með barni sínu telji þeir að verið sé að beita það ofbeldi af einhverju tagi í skólanum eða í skólatengdum þáttum. Eyðublaðið er að finna á vef skólans.

Með góðri kveðju,

Námsráðgjafi/ skólasálfræðingur/aðrir